Af pólitískri tiltekt
19.5.2013 | 23:56
Undanfarna daga og vikur hef ég staðið í tiltekt í fleiri en einum skilningi. Sú fyrirferðarmesta hefur verið á pólitíska sviðinu. Umfang hennar hefur teygt sig töluvert langt út fyrir pappírsflóðið sem hefur safnast upp í nánasta umhverfi heimilistölvunnar.
Tilefni þess að ég sest við skriftir að þessu sinni er þó útprent sem ég rakst á í slíkum bunka. Um er að ræða innlegg sem ég setti saman í tilefni af því að ég var beðin um að ávarpa gesti á málþingi sem Rauður vettvangur boðaði til 9. október 2010. Þegar til kom var þó tæplega hægt að tala um málþing heldur frekar hringborðsumræður eða semínar.
Ég hafði verið boðuð sem fulltrúi almennings sem hafði spyrnt við fótum frá bankahruni og látið það skýlaust í ljós að heillavænlegasta leiðin til árangurs væri sú að auka á samvinnu. Ég hef hvorki fyrr né síðar orðið þess vör að það sem ég sagði á þessum vettvangi hafi skipt neinu máli en ég ætla samt að birta upphaf þess sem ég setti saman fyrir þetta tilefni áður en það fer í ruslið með mörgum af þeim pappírum sem hafa safnast saman á undanförnum þremur árum.
**********************************************
Upphaf erindis fyrir Rauðan vettvang þ. 9. október 2010
Það segir einhvers staðar að Vitræn auðmýkt kannast við að maður ætti ekki að þykjast vita meira en maður veit. Mér þykir rétt að minna á þetta hér til að undirstrika það að ég er ekki sérfræðingur í því hvernig ólíkir hópar geta unnið saman og hvernig er best að ná árangri. Hins vegar er ég búin að vinna að svo mörgum og ólíkum viðspyrnuverkefnum síðastliðin tvö ár að ég get vissulega lagt eitthvað gagnlegt fram í slíka umræðu. Margt af því liggur e.t.v. í augum uppi en stundum þarf að draga slík atriði fram til að gera þau gildandi.
Það vita t.d. allir að samvinnan er mikilvæg og að því fleiri sem vinna saman að því meiri verður árangurinn. Þetta er þó mjög háð markmiðum hópsins; þ.e. hvert verkefni hans er og í hverju hann ætlar að ná árangri. Í þessu sambandi langar mig til að nefna að ég hef bæði tekið þátt í undirbúningi á borgarafundum á Akureyri og mótmælaaðgerðum hér í Reykjavík. Ég kem svolítið nánar að þessu síðar.
[...]Á Akureyri tók ég þátt í laugardagsmótmælum og samstöðu við janúarbyltinguna sem skapaði núverandi stjórnvöldum [þ.e. ríkisstjórn Samfylkingar og VG] tækifærið til að komast til valda. Þó fjöldinn sem tók þátt í þessum aðgerðum fyrir norðan hafi aldrei orðið neitt viðlíka því sem gerðist hér í Reykjavík þá finnst mér þeir hafa verið mikilvægir ekki síst fyrir mig sjálfa svo og aðra sem tóku þátt. Mikilvægið liggur ekki síst í samstöðunni og þeirri samkennd sem hún vakti okkur þátttakendum.
Við stöndum nefnilega öll í sömu sporum gagnvart stjórnvöldum sem styðja bankana í því að bæta sér upp eignatjónið sem þeir halda fram að þeir hafi orðið fyrir við hrun bankanna. Það þarf ekki mikið fjármálavit til að átta sig á því að peningar gufa ekki upp. Okkur grunar líka hvað hefur orðið um þá en hversu undarlega sem það hljómar þá standa stjórnvöld í vegi fyrir því að eðlilegt uppgjör, sem er í samræmi við fyrrgreinda staðreynd, fari fram.
Vegna þess að við stöndum í sömu sporum er auðvitað mikilvægt að við stöndum saman. En hvað stendur í veginum fyrir því að af því verði? Mitt svar byggir á ályktunum sem ég hef dregið af því fjölbreytta grasrótarstarfi, sem ég hef tekið þátt í á undanförnum tveimur árum, bæði hér og fyrir norðan. Síðastliðin tvö ár hef ég rekist á hreint ótrúlega marga einstaklinga sem búa yfir frábærum hugmyndum um það hvernig megi bregðast við núverandi ástandi á mun árangursríkari hátt en mun nást með viðbrögðum núverandi stjórnvalda [ath. að þetta er úr erindi sem var flutt haustið 2010].
Því miður hafa nokkrir þeirra viljað taka alltof mikið að sér en líka viljað stjórna allri atburðarrásinni eftir að hún var farin af stað. Í þessu sambandi verður mér hugsað til tveggja einstaklinga sem stóðu að stofnun grasrótarsamtaka fyrir norðan sem fengu það skemmtilega heiti Bylting fíflanna. Ég vil ekki lýsa yfir andláti þessa grasrótarafls, það lifir a.m.k. í fánanum sem grasrótarsamtökin kenna sig við, en sama og engin starfsemi fer lengur fram innan samtakanna sjálfra.
Þetta hef ég líka horft upp á hér í Reykjavík. Ég hef líka horft upp á það að sumir eiga í erfiðleikum með að starfa með öðrum. Meginástæðan er eflaust sú að okkur skortir reynsluna af því að vinna saman undir sambærilegum kringumstæðum og þeim sem við stöndum frammi fyrir núna. Það verður þó ekki sagt að við höfum ekki reynt. Það hafa verið haldnir fjölmennir fundir þar sem markmiðið hefur verið það að hrinda af stað einhverju áhrifaríku verkefni sem því miður hefur sjaldnast tekist.
Mér sýnist að það væri hægt að leysa þetta með því að við byrjuðum á því að átta okkur á því öll að við búum yfir hæfileikum og eigum þess vegna erindi en við megum ekki gleyma því að við búum yfir mismunandi hæfileikum og það er ekki síst þess vegna sem það er mikilvægt að við vinnum saman.
Ég man eftir konu úr mótmælunum hér í Reykjavík sem er mjög mikilvirk í mómælum og þar sem það er við hæfi að rífa kjaft en hún á í erfiðleikum með að vinna að friðsamlegri verkefnum. Ég hef líka haft kynni af manni sem er mjög duglegur að koma sér á framfæri við fjölmiðla og áhrifamenn í samfélaginu, hafa áhrif á fólk og vekja það til athafna en hann rekst illa í hópi sem hann stjórnar ekki sjálfur.
Ég tel mikilvægt að við áttum okkur á hverjir hæfileikar okkar eru og hvar þeir nýtast best. Ég tel ekki síður mikilvægt að við áttum okkur á því að það búa ekki allir yfir sömu hæfileikunum en til að vinna að jafnstóru verkefni eins og það er að breyta ósanngjörnu kerfi, sem er varið af áhrifaríkri og þaulsetinni valdastétt, þurfum við einmitt margt fólk með fjölbreytta hæfileika.
[...]
**********************************************
Það er e.t.v. ekki úr vegi að taka það fram að erindið sem brotið hér að ofan er tekið úr var sett saman undir áhrifum þess að nokkrum dögum fyrr hafði ég séð hvernig hugmynd eins manns, sem mætti með olíutunnu fyrir framan alþingishúsið við þingsetninguna 1. október 2010, margfaldaðist nokkrum dögum síðar. Tunnumótmælin voru nefnilega samstarfsverkefni margra einstaklinga og þátta.
Í mínum huga verður 4. október 2010 alltaf mynd samstöðu sem því miður tókst að sundra og hefur ekki náðst að skapa síðan. Ég er á því að það sem ég benti á í orðum mínum hér að ofan sé stór þáttur. Tveimur árum eftir að ég flutti þessa tölu hafði ég reyndar gert mér enn gleggri grein fyrir því hvaða mannlegu brestir riðluðu samstöðunni hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég dró þessi atriði saman í tveimur bloggpistlum sem ég birti fyrir síðustu jól.
Annar fékk heitið: Þetta var aldrei einleikið en hinn Vegvillt viðspyrna. Það sorglegasta er að það sem gróf undan samstöðu grasrótarinnar voru innanmein hennar sjálfrar. Þau alvarlegustu voru þau að meðal grasrótarinnar voru frá upphafi einstaklingar sem voru of uppteknir af sjálfum sér til að ráða við það mikilvæga verkefni að vinna saman. Eftir á að hyggja er líka útlit fyrir að grunnaflið í grasrót höfuðborgarvettvangsins hafi miklu frekar verið áhrifagjörn og hávaðasöm hvatvísin en íhugul og grandvör skynsemin.
En vissulega naut gróskan í grasrótinni, sem lofaði svo góðu í lok árs 2010 og upphafi ársins 2011, dyggar aðstoðar utanaðkomandi sinnuelda til að brennast upp og tortíma sjálfri sér. Hvort upp af eldhafinu, sem náði hámarki nú undir síðustu kosningar, vaxi upp ný, öflugri og skynsamari grasrót er ómögulegt að segja. Tíminn verður að leiða það í ljós.
Vaxtarskilyrðin eru tæplega nokkuð skárri en reynsla síðustu missera ætti vissulega að vera víti til varnaðar þeim sam sækjast frekar eftir því að vinna að samfélagsumbótum en koma sjálfum sér á framfæri við kastljós athyglinnar og pólitísk metorð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.