Skiptum bara um andlit
14.4.2013 | 07:09
Þetta eru átta þingmenn Samfylkingarinnar, fjórir þingmenn VG, einn þingmaður Sjálfstæðisflokks og einn þingmaður Borgarahreyfingar/Hreyfingar. Í síðustu kosningum fékk Samfylkingin 20 þingmenn kjörna, Vinstri grænir 14, Sjálfstæðisflokkur 16 og Borgarahreyfing 4.
Gangi Gallup-könnunin eftir mun Samfylkingin tapa 11 þingsætum en Vinstri grænir 9. Samkvæmt þessu myndu ríkisstjórnarflokkarnir því tapa 20 þingsætum samtals. Sjálfstæðisflokkur héldi hins vegar sínum en Borgarahreyfingin býður ekki fram í þessum kosningum.
Dögun hefur reyndar tekið upp kennitölu Borgarahreyfingarinnar og nýtir því fjármagnið sem Borgarahreyfingin hefur fengið úthlutað undanfarin fjögur ár til að kosta sína kosningabaráttu. Það má því segja að Borgarahreyfingin hafi fengið einhvers konar framhaldslíf í Dögun og ef til vill tveimur klofningsframboðum hennar.
Ef marka má síðustu Gallup-könnun kemur Dögun engum manni að í þessum alþingiskosningum. Annað klofningsframboðanna út úr Dögun kæmi hins vegar sama þingmannafjölda inn á komandi þing samkvæmt Gallup-könnuninni sem er sami fjöldi og Borgarahreyfingin kom að vorið 2009. Hér er um að ræða Píratapartýið sem er sérframboð Birgittu Jónsdóttur sem er ein þeirra fjögurra sem settust inn á þing fyrir Borgarahreyfinguna fyrir fjórum árum.
Þau fjögur sem kæmust inn á þing fyrir Píratapartýið, samkvæmt síðustu Gallup-könnun, eru: Jón Þór Ólafsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Birgitta Jónsdóttir og Aðalheiður Ámundadóttir.
Birgitta Jónsdóttir yrði þannig eini þingmaður Borgarahreyfingar/Hreyfingar sem héldi sæti inni á komandi þingi en myndi auk þess taka þrjá nýja með sér. Miðað við síðustu Gallup-könnun verða alls 30 nýir þingmenn sem taka sæti á Alþingi í kjölfar næstu alþingiskosninga. Það er hátt í helmingur þingmanna.
| RS | RN | SV | NV | NA | S | Samtals |
Björt framtíð | 2 | 2 | 2 | 1 |
|
| 7 |
Framsóknarflokkur | 2 | 2 | 4 | 4 | 5 | 5 | 22 |
Píratapartýið | 1 | 1 | 1 |
| 1 |
| 4 |
Samfylkingin | 2 | 3 | 1 | 1 | 1 | 1 | 9 |
Sjálfstæðisflokkur | 3 | 2 | 4 | 2 | 2 | 3 | 16 |
Vinstri grænir | 1 | 1 | 1 |
| 1 | 1 | 5 |
Samtals | 11 | 11 | 13 | 8 | 10 | 10 | 63 |
Detta út af þingi | 2 | 3 | 4 | 2 | 2 | 1 | 14 |
Koma nýir inn | 4 | 6 | 5 | 4 | 5 | 6 | 30 |
Taflan hér að ofan er byggð á því sem kemur fram í frétt á ruv.is og tekur mið af síðustu Gallup-könnun. Ef þingmanafjöldi núverandi ríkisstjórnarflokka er tekinn saman er ljóst að þeir tapa alls 20 þingsætum á milli kosninga; fengu alls 34 þingsæti út úr kosningunum 2009 en fengju 14 nú ef niðurstöður þessarar könnunar ganga eftir. Ef þingsætafjölda Bjartrar framtíðar er bætt við verða þau 21.
Þeir sem eiga tryggt þingsæti fyrir Bjarta framtíð, miðað við síðustu Gallup-könnun, eru: Róbert Marshall, Óttarr Proppé, Björt Ólafsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Guðmundur Steingrímsson, Freyja Haraldsdóttir og Árni Múli Jónasson. Af þessum eru tveir sem voru á þingi á kjörtímabilinu sem er að ljúka. Það eru þeir Róbert Marshall og Guðmundur Steingrímsson.
Miðað við taugastríðið í Sjálfstæðisflokkum að undanförnu vekur athygli að flest bendir til þess að flokkurinn muni halda sama þingsætafjölda og við síðustu kosningar. Framsóknarflokkurinn myndi hins vegar bæta við sig 13 þingsætum. Það sem vekur þó mestu athyglina hér er hin mikla endurnýjun sem að öllum líkindum mun eiga sér stað á þingmönnum.
Miðað við niðurstöður síðustu Gallup-könnunar detta alls 14 núverandi þingmenn út af þingi en þá eru auðvitað ótaldir 16 þingmenn sem verða heldur ekki á meðal þeirra sem eru líklegir til að taka sæti á næsta þingi. Skýringarnar eru nokkrar. Einhverjir gefa ekki kost á sér aftur af ýmsum ástæðum en aðrir hafa annaðhvort skipast þannig í sæti að litlar líkur eru á að þeir nái endurkjöri. Nokkrir hafa svo gengið til liðs við ný framboð sem koma engum manni inn á þing miðað við niðurstöðu síðustu Gallup-könnunar.
Á meðal kjósenda eru þó nokkrir á því að Alþingi hafi verið óvenju illa skipað á kjörtímabilinu sem nú er að líða undir lok. Sú endurnýjun sem er líkleg að eigi sér stað í næstum alþingiskosningum ætti því að vera fagnaðarefni. Einhverjir hafa reyndar bent á að alltof marga þingmenn skorti bæði þekkingu og faglegan metnað til að valda því ábyrgðarhlutverki sem þingmennska er og hafa áhyggjur af því að þetta muni síst fara batnandi í kjölfar næstu alþingiskosninga.
Af nafnalistanum sem er birtur yfir þá sem eru líklegir til að detta út af þingi má draga þá ályktun að það verði ágæt hreinsun en það skiptir auðvitað máli hverjir koma inn í staðinn. Þeir sem horfa í þetta atriði hljóta að spyrja sig hvort það verði hæfari einstaklingar?
Það má nefnilega benda á það að þó ýmislegt bendi til þess að margir óhæfir þingmenn detti út af þingi þá er ekkert sem tryggir það að þeir sem koma nýir inn verði hæfari.
Í þessu sambandi má rifja það upp að í kjölfar alþingiskosninganna vorið 2009 var líka þó nokkur endurnýjun á Alþingi. Miðað við stöðu þeirra atriða sem helst var kallað eftir að áhersla yrði lögð á á þessu þingi þá hafði sú endurnýjun ekki þær breytingar í för með sér sem væntingar stóðu til.
Það má því velta því upp hvort lærdómur þessa kjörtímabils sé ekki sá að skýringar þess vanda sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir séu ekki frekar efnahagslegar en stjórnmálalegar? Miðað við það offramboð af nýjum andlitum sem telja sig hæfari til að taka við er reyndar útlit fyrir það að áhugasamir nýliðar sem bjóða sig fram til þings hafi lítið sem ekkert velt spurningunni fyrir sér eða komist að þeirri niðurstöðu að vandamálið sé það að endurnýjunin við síðustu alþingiskosningar hafi ekki verið nógu mikil.
*************************************************************************
Heimildir:
ruv.is. 2013 Katrín kann að missa þingsæti sitt, 12. apríl
Fréttablaðið. 2007. Stjórnarflokkarnir fengu skýrt umboð, 27. aprílÖBÍ bauð upp á ör-pylsu og kók-lögg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.