Af klofningum og samrunum

Það var einhverjum sem fannst hún alltaf svolítið skrýtin þessi Borgarahreyfing sem var sögð sjálfsprottin upp úr leikstýrðum mótmælavettvangi Radda fólksins og leikstjórn Opinna borgarafunda ásamt óheftum ósköpum Búsáhaldabyltingarinnar. Það voru samt 7,2% kjósenda sem ákváðu að binda traust sitt frekast við þetta nýja, óþekkta og óreynda fólk sem kom fram með Borgarahreyfingunni til að leysa skelfilegasta efnahags- og samfélagsvanda sem íslenskt samfélag hefur staðið frammi fyrir eftir að það endurheimti sjálfstæði sitt.

Borgarahreyfingin

Kosningin tryggði þessu óvænta mótmælaframboði fjóra þingmenn en á innan við hálfu ári höfðu allir fjórir klofið sig frá nafni flokksins sem tryggði þeim þingsætið. Þráinn Bertelsson komst að þeirri niðurstöðu þegar hann var kominn inn á þing að honum líkaði betur félagsskapur Vinstri grænna en nánustu baráttusystkina sinna sem áttu drýgstan þátt í því að tryggja honum þingsætið. Hinum þremur líkaði ekki yfirgangur ýmissa flokkssystkina þegar þeim mislíkaði hvernig nýbakaðir þingmenn fóru með umboð sitt í atkvæðagreiðslunni um ESB-aðildarumsóknina.

Klofningur

Þau klufu sig þess vegna frá þeim og stofnuðu sérstakan þingflokk sem þau gáfu heiti sem var stytting á nafninu á flokknum sem a.m.k. Birgitta og Þór áttu stóran þátt í að leggja grunninn að. Næstu mánuðir liðu í heljargreipum tveggja Icesave-framhaldsþátta sem báðum lauk með þjóðaratkvæðagreiðslu. Aðrir þingviðburðir sem voru sagðir tefja fyrir því að alvarleg staða almennra húsnæðislánagreiðenda kæmust á dagskrá þingsins var útkoma Rannsóknarskýrslu Alþingis og landsdómsmálið.

Vorið 2011 lauk þriðja þætti Icesave-málsins með því að víðtæk kynning tveggja sjálfboðaliðshópa almennings, sem kynntu rökin fyrir því að segja NEI við enn einum Icesave-samningum, skilaði því að þjóðin hafnaði þriðju og síðustu tilraun ríkisstjórnarinnar til að gefa kröfuhöfum Landsbankans veiðileyfi í lífskjörum íslensks almennings. Í kjölfarið hófust sögulegar hrókeringar valdahlutfalla sem fóru þannig að ríkisstjórnin naut ekki aðeins liðstyrks Þráins Bertelssonar heldur höfðu þeir skjól af hinum veika þingflokki Hreyfingarinnar.

Auk þeirra gekk Guðmundur Steingrímssonar æ oftar fram fyrir skjöldu til varnar hinni ógæfusömu ríkisstjórn sem hefur ekki átt sístan þátt í því að rýja Alþingi svo traustinu að það stendur í sögulegu lágmarki. Færa má að því líkur að alls hafi skjól Hreyfingarþingmannanna og Guðmundar Steingrímssonar varið ríkisstjórnina þremur vantrauststillögum. Þ.e. vorið 2011 og 2012 og í upphafi þessa árs. Kannski var það hugmyndin með tveggja þátta vantraustsyfirlýsingu Þórs Saari að þetta mætti týnast í moldviðrinu sem varð í kringum báð vantraustsþættina hans.

Samruni 

Sennilega var það einhver snemmsumarsfiðringur sem gerði það að verkum að Borgarahreyfing og Hreyfingin tóku að fara á fjörurnar við hvor aðra í júní 2010. Það var þó ekki fyrr en haustið 2011 sem Borgarahreyfingin treysti sér til að gefa út þá yfirlýsingu að stjórn hennar og félagsmenn vildu ekkert frekar en ná stjórnmálalegri samvinnu við Hreyfinguna aftur. 

Þingmenn Hreyfingarinnar

Fljótlega hófust samrunaviðræður þar sem tóku þátt þingflokkur Hreyfingarinnar, flokkurinn sem hann hafði klofnað frá, Frjálslyndi flokkur sem Borgarahreyfingin hafði þegið „fimmta flokka fylgið“ frá ásamt nokkrum þeirra sem voru ákafastir meðal fyrrum stjórnarráðsfulltrúa í þeirri sannfæringu að þeir væru ómissandi inni á næsta þingi. Frá því þessi hópur kom fram fyrir rúmu ári síðan hefur þessi hópur skipt mun tíðar um nafn heiti, lógó, kennitölu og félaga en þekkist í íslenskri stjórnmálasögu.

Í þessum hópi eru líka skrautlegustu byltingarfjaðrirnar þó ólíkar séu. Þessi tvö eru kannski einmitt þau tvö sem samfélagið þarf á að halda til að tækla þá stærstu ógn sem hefur steðjað að íslenskri þjóð síðan sjálfstæði landsins var endurheimt eftir nær 700 ára ánauð.

Hún er ljóðskáld og aktívisti með fjögurra ára þingreynslu sem hefur skilað henni svo mikilli heimsfrægð að sumir halda m.a.s. að hún sé hagfræðingurinn á þinginu sem hefur verið að setja fram allar þessar frábæru lausnir á lífskjara- og efnahagsvandanum hér á landi. Auk þess sem hún hefur aflað sér afar mikillar reynslu í stofnun flokka og klofningsframboða en alls hefur hún verið í fjórum flokkum á fjórum árum þar af tveimur klofningsflokkum eftir að hafa klofið sig frá tveimur stærri flokkum sem hún tók virkan þátt í að koma á fót.

Byltingastjörnur

Hann hefur á undanförnum árum verið tíður ráðgjafi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hinna ýmsu stofnana Evrópusambandsins auk þess sem hann hefur verið sendifulltrúi þessara stofnana í öllum hlutum Afríku, Asíu og Mið-Austurlöndum.

In recent years, he has been a frequent consultant to the International Monetary Fund and also the World Bank, the European Commission, and the European Free Trade Association (EFTA). This work has included extensive lecturing at the Joint Vienna Institute in Vienna, in all parts of Africa, as well as in Asia and the Middle East. (sjá hér)

Þessi reynsla ætti ekki að vera síðri kostur gagnvart þjónustu við almannahagsmuni inni á þingi heldur en í stjórnlagaráði þar sem hann lá ábyggilega ekki á liði sínu við skerðinguna á réttinum til þjóðaratkvæðagreiðslu í  67. greininni og möguleika 111. greinarinnar til fullveldisafsals „til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að“ (sjá hér). Afstaða hans í Icesave-málinu gáfu svo skýrt tilefni til að finna út úr því hvar lýðræðislegt réttlætishjata hans slær þegar hann varaði Íslendinga við því að Bretum kynni að finnast að Íslendingum bæri „siðferðileg skylda til að axla ábyrgð á Landsbankanum hvað sem lögunum líður.“ (sjá hér)

Samhljómur

Það er e.t.v. útlit fyrir að ólíkari einstaklinga sé tæpast hægt að hugsa sér en þau Birgittu Jónsdóttur og Þorvald Gylfason. Þau eiga þó nokkra mikilsverða lykilþætti sameiginlega og varðar þjóðina auðvitað mestu um óstýriláta ástríðu þeirra gagnvart stjórnarskránni. Birgitta Jónsdóttir gaf ástríðum sínum gagnvart fullveldisafsalsplagginu með þjóðaratkvæðisskerðingunum svo lausan tauminn síðasta þingdaginn, sem lýtur stjórn núverandi þings, að sumir myndu eflaust vilja kenna við tilfinningaklám en aðrir máttu vart vatni halda af hrifning og kröfðust fjölföldunar á þingmanninum:

Hún virðist átta sig á hlutverki sínu sem samfélagsþjónn [...]

Við þurfum klárlega fleiri hennar líka inn á Alþingi. (sjá hér)

Þorvaldur Gylfason hélt líka ræðu um „nýja stjórnarskrá“ þó það væri ekki innan veggja Alþingis en hún er svo tilfinningaþrunginn að jafnvel blaðamanni Eyjunnar virðist vera nóg um: „Ljóst er af myndbandinu að Þorvaldi er mikið niðri fyrir.“ enda ljóst af myndbandinu að tilfinningarnar liggja ekki aðeins í rödd og andliti hans heldur leita þær fram í allri líkamstjáningunni líka.

Þó einhverjar skoðanakannanir sýni að niðurstaða næst komandi kosninga kunni að skila Lýðræðisvaktinni einhverjum mönnum inn á þing þá er ljóst af athugasemdunum við þessa frétt að aðdáendur vaktstjóra flokksins hafa af einhverjum ástæðum ekki séð sér tækifæri til að kaffæra gagnrýnisraddirnar í lofi um þennan ljósbera lýðræðishugsjónarinnar.

Aftur á móti vekja ábendingar um hæpnar fullyrðingar Þorvaldar í myndbandinu sem snúa að meðferð hans á tölum vissulega nokkurn áhuga. Þær vekja ekki síst athygli fyrir þá staðreynd að Þorvaldur Gylfason er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands en sú menntun hefur væntanlega líka aflað honum ráðgjafaverkefnunum hjá AGS og ýmsum stofnunum innan ESB. 

Sá sem bendir Þorvaldi á frjálslega meðferð hans á tölum gerir það í tveimur innleggjum þar sem hann segir m.a.

Úrslit kosningan [svo] 20. okt. eru að 64,16% KJÓSENDA söguðu JÁ við fyrstu spurningunni, sem er ekki 2/3 hlutar þjóðarinnar.
Meira en helmingur þjóðarinnar sat áhugalaus heima á kjördag!
[...]

Þorvaldur ég vil eindregið hvetja þig til að sýna útreikningana þína sem styðja 67,5% stuðning þjóðarinnar við frumvarp þitt!
[...] fullyrðingar þínar um 2/3 hluta stuðninginn er móðgun við alla þá sem hafa lokið grunnskólaprófi í stærðfræði. (sjá hér)

Ný stjórnmálatvenna

Samrýmanlegt

Annað sem þetta sértaka par á sameiginlegt og gæti aukið þeim líkur til samstarfs og samheldni er að þau hafa bæði ferðast víða um heiminn og miðlað hæfileikum og þekkingu sem þau hafa af einhverjum ástæðum farið sparlegar með á innlendum vettvangi en þeim erlenda. Þannig vakti það athygli í umræðum frambjóðenda um efnahagsmál sem fram fór í sjónvarpssal síðasta miðvikudagskvöld að þar var mættur presturinn Örn Bárður Jónsson fyrir hönd Lýðræðisvaktarinnar en ekki vaktstjórinn sjálfur, hagfræðiprófessorinn og ráðgjafi áhrifamestu fjármálastofnana heimsins.

Hitt er þó líklegt að Þorvaldur, vaktstjóri Lýðræðisvaktarinnar, hafi lagt honum eitthvað línurnar fyrir þáttinn og e.t.v. Gunnar Tómasson sérlegur efnahagsráðgjafi Lýðræðisvaktarinnar líka. Það er þó ekki útilokað að drottinshollusta prestsins móti eitthvvað afstöðu hans til AGS þar sem hann sagði í þættinum að það hafi sýnt sig að hjálp sjóðsins hafi verið nauðsynleg til að setja „taum og beisli“ á innlend efnahagsmál til að halda uppi aga. (sjá hér)

Birgitta Jónsdóttir hefur ekki síður sýnt fádæma hógværð hvað varðar þekkingu á hagfræðilegum efnum.  Líkt og Þorvaldur Gylfason er þó hæpið að hún liggi á þessari óvæntu þekkingu gagnvart umheiminum. Maður skyldi a.m.k. ætla að það sé á grundvelli slíkrar þekkingar sem hún verður einn af aðalræðumönnunum á ráðstefnu Public Banking Institute, sem fram fer í húsakynnum Domincan háskólanum, vestur í Kaliforníu 2. til 3. júní n.k.

Umfjöllunarefnið er mjög áhugavert eða fjármögnun nýs hagkerfis (sjá hér) Það er reyndar rétt að geta þess að hún fer ekki ein heldur líka Jón Þór Ólafsson sem tekur Reykjavík á móti Birgittu fyrir hönd Pírata og er að mestu sjálfmenntaður í fræðunum eins og hún sjálf.

Eitt til viðbótar virðast þau líka eiga sameiginlegt en það er stórtæk nýting Netsins við að koma sjálfum sér og sínum verkum á framfæri. Birgitta virðist að vísu nokkuð stórtækari í þessum efnum sem kemur ágætlega fram ef maður slær nöfnum þeirra inn á Google og líka inni á You Tube.

Þegar maður slær nafni Þorvaldar þar inn lítur út fyrir að hann hafi komið fyrir hátt í 300 myndböndum af sjálfum sér þangað inn en Birgitta 2.240. Til samanburðar má benda á að  þegar nafn Ólafs Ragnars Grímssonar, sem þykir hafa setið býsna lengi á forsetastóli, er slegið inn á leitarsvæði You Tube er allt sem bendir til að hann komi fyrir á 1.770 myndböndum.

Sjálfblinda

Það er auðvitað hreint með ólíkindum hvað Birgitta og Þorvaldur leggja mikla rækt við það að koma myndböndum af sjálfum sér út á Netið og hlýtur að teljast aðdáunarvert að þau skuli gefa sér þann tíma sem það hlýtur að taka að leggja slíka rækt og alúð við þetta verkefni. Miðað við þau annasömu verkefni sem þau hafa tekið að sér bæði fyrir hagsmuni lands og þjóðar þá er með ólíkindum að þau skuli vera tilbúin til að fórna öllum þeim tíma sem þessi ræktarsemi hlýtur að kosta.

Eins og ætti að hafa komið rækilega fram hér á undan og alþjóð er er væntanlega meðvituð um þá er Birgitta Jónsdóttir þingmaður á Alþingi Íslendinga og Þorvaldur Gylfason prófessor við Háskóla Íslands 

Haltu mér, slepptu mér

Á miðvikudaginn í þessari viku birtist frétt á DV þess efnis að Píratar og Lýðræðisvaktin hyggðu á einhvers konar samstarf. Þó lá ekki ljóst fyrir um hvers konar samstarf yrði að ræða en margir ráku eflaust upp stór augu í því ljósi að þrátt fyrir að Þorvaldur Gylfason hafi löngum verið ein helsta fyrirmynd Hreyfingarþingmannanna allra þá hafði Birgitta gefið samstarf við Dögun upp á bátinn undir lok júní á síðasta ári og stofnað Pírata einum fjórum mánuðum síðar. 

Þegar hún fór var Þorvaldur Gylfason enn innanbúðarmaður hjá Dögun enda tók hann þátt í því að koma þeirri Breiðfylkingu sem varð að Dögun saman og smíða henni grunn. Hann ferðaðist líka með Dögun um þvert og endilangt landið til að kenna landsmönnum að kjósa rétt í ráðgefandi atkvæðagreiðslu um stjórnarskrá ásamt þeim Lýði Árnasyni og Gísla Tryggvasyni og öðrum þáverandi og núverandi frambjóðendum Dögunar.

Nokkuð áreiðanlegar heimildir herma að þetta hafi allt verið fyrir peninga Borgarahreyfingarinnar sem urðu Dögunar með einhverju kennitölufifferíi sem aðeins eignahaldsfélög á skuldaflótta hafa komist upp með hingað til. Hægt er að finna myndbönd frá þessum rútuferðalögum um landið inni á You Tube en þetta er það sem merkt er: Dagur eitt og er tekið upp á Sauðárkróki.

Þó Þorvaldur hafi lagt slíka alúð í uppbyggingu Dögunar að fjölmiðlar hröpuðu til þeirrar ályktunar margítrekað að nú væri óhætt að boða framboð hans fyrir hönd þessa framboðs Hreyfingarþingmannanna, starfsmanns Hreyfingarinnar og tveggja fyrrum formanna Hagsmunasamtaka heimilanna svo og talsmanns neytenda, þá ákvað hann að taka Lýð Árnason með sér um miðjan febrúar og stofna síðan sitt eigið framboð skipað að stærstum hluta af fyrrum kollegum stjórnlagaráðs og nokkrum hundóánægðum fyrrum samfylkingarfélögum.

Margendurklofningur eða sundursamlyndi

Það þarf sannarlega að finna upp nýtt orð ef til stendur að finna tengsl þeirra þriggja flokka, sem samrunatilraun Breiðfylkingarinnar svokölluðu gat af sér, við þá Borgarahreyfingu sem spratt upp að því er virtist af sjálfu sér í jarðvegi mótmælanna í kringum Búsáhaldabyltinguna fyrri hluta árs 2009. Margendurklofningur eða sundursamlyndi virðist þó lýsa því samhengi sem liggur í gegnum hin undarlega hröðu nafnaskipti og hrókeringar sem þar hafa átt sér stað.

Þeir sem gleggst þekkja til sjá nefnilega að í öllum flokkunum þremur eru mörg þeirra andlita sem komu á sínum tíma að framboði Borgarahreyfingarinnar með einum eða öðrum hætti og síðar tilveru Hreyfingarinnar.

Þriburaframboð

Þannig hafa Daði Ingólfsson, Jón Þór Ólafsson og Friðrik Þór Guðmundsson allir lagt Hreyfingarþingmönnunum mikilvægan stuðning allt kjörtímabilið og verið þeim ómetanlegir bakhjarlar en nú hafa þeir skipt sér á milli flokkanna þriggja sem er freistandi að kalla þríburaframboðið miðað við það hvernig uppruni þeirra liggur í rauninni til Borgarahreyfingarinnar í gegnum Breiðfylkinguna og síðar Dögun. (Myndin er tekin að láni úr albúmi Daða Ingólfssonar: Sigurhátíð á Hótel Borg 20. október 2012)

Ég öfunda ekki kjósendur að gera upp á milli þessara flokka sem eru (talið upp eftir röð fulltrúa þeirra á myndinni hér að ofan): Lýðræðisvaktin, Píratar og Dögun og ekki verður valið auðveldara þeim sem sjá ekki allan muninn á þessum þremur og Bjartri framtíð, Samfylkingu og leifunum af Vinstri grænum. Það verður líka afar sérkennileg tilhögun hjá reyndum þingmönnum sem er að finna í öllum þessum flokkum að bjóða þannig fram sexfallt ferkar en í einum eða tveimur stærri flokkum með einhverjum mismunandi áherslum á málefnum.

Nú er ekki útilokað að víurnar sem þingmaðurinn og hagfræðiprófessorinn urðu uppvís af að vera að bera í hvert annað á síðum DV muni eitthvað raska því tryggðarsambandi sem hefur verið á milli þríburaframboðsins; Dögunar, Pírata og Lýðræðisvaktar en þó það séu tveir sólarhringar síðan fréttin birtist hefur engra væringa orðið vart enn þá og þess vegna líklegt að það verði jafnkyrrt og friðsælt og þegar Birgitta yfirgaf Dögun; og síðar Þorvaldur og Lýður.

Hvort af viðhaldssambandi flokks ljóðskáldsins, aktívistans og þingmannsins og flokks hagfræðiprófessorsins, ráðgjafa AGS og ESB og fyrrum stjórnarráðsfulltrúa verður er heldur ekki ljóst enn þá. Má vera að það trufli eitthvað að Þorvaldur Gylfason slysaðist til að láta það út úr sér að hann vildi að þjóðin borgaði Icesave af siðferðilegum forsendum svo má vera að einlæg aðdáun hagfræðiprófessorsins á AGS og ESB þvælist eitthvað fyrir líka. Birgitta Jónsdóttir hefur a.m.k. hingað til látið eins og AGS sé óvinur og að Icesave hafi verið skuldagildra sem þjóðinni væri hollast að hafna.

 Þegar hér er komið er rétt að taka af allan vafa um það að ég lái ekki kjósendum sem spyrja sig í forundran um innihald og stefnu þeirra flokka sem kastljósið hefur beinst að hér að ofan. Ég lái þeim heldur ekki þó þeir komist að niðurstöðu sem hefur nákvæmlega ekkert með þjóðarhagsmuni að gera.

Það er því vel við hæfi að enda þetta með einni athugasemdinni sem stendur við fréttina sem var vísað til hér að ofan á Eyjunni en þar er vakin athygli á myndupptökunni af ræðu Þorvaldar Gylfasonar fyrir framan alþingishúsið um lýðræðislegan rétt þjóðarinnar til að fá yfir sig stjórnarskrá sem skerðir réttinn til þjóðaratkvæðagreiðslna en bætir við heimildinni til fullveldisafsals „til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að“ (sjá hér). Athugasemdin er hér óbreytt að undanskyldu einu innskoti frá blogghöfundi:

Í fljótu bragði man ég eftir fáeinum aðilum sem eiga það alveg skilið að fá Þorvald Gylfason [og Birgittu Jónsdóttur] "yfir sig" á þingi, en svo man ég eftir að slíkt myndi einnig ganga yfir sjálfan mig; og ég fullyrði að ég hef ekkert svo illt gert af mér að ég eigi slíkt skilið! (sjá hér)

Ég læt mig dreyma um að aðrir kjósendur komist líka að þeirri niðurstöðu að við erum að kjósa fólk til að finna heillavænlegar lausnir á ömurlegri efnahagsstöðu Íslands og standa gegn harðsvírðuðum vogunarsjóðum sem eru tilbúnir til að nýta sér hvikult og sjálfsupptekið fólk til að komast yfir þau verðmæti sem gefur ríkulegast í aðra hönd.

Ég treysti því að kjósendur átti sig á að alþingiskosningarnar framundan eru ekki X-factor keppni þar sem kjósendum er ætlað að kjósa þá sem eru líklegastir til að verða hlátursvekjandi skemmtikraftar á alþingisrásinni allt næsta kjörtímabil heldur fólk sem við treystum til að byggja framtíð okkar og afkomendanna lífvænleg skilyrði til betra og innihaldsríkara lífs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill Rakel. Plús í kladdan frá mér :)

Inga Ragna Skúladóttir (IP-tala skráð) 12.4.2013 kl. 18:40

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það eru meðmæli þar sem þú þekkir að einhverju leyti betur til

Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.4.2013 kl. 19:44

3 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Kaus þau og nú er ég ráðþrota þar sem klofningur þeirra í fjóra parta er mér um megn, því mun ég ekki skila öðru en auðu í næstu kostningum vegna stjórnleisis og flokkræðis okkar. Vona að það verði hægt að laga þetta hjá okkur í framtíðinni.

Sigurður Haraldsson, 13.4.2013 kl. 00:36

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þú segir að þau hafi klofnað í fernt. Hvert er fjórða brotið?

Rakel Sigurgeirsdóttir, 13.4.2013 kl. 00:38

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Rakel mín það er eitthvað verulega mikið að í sálarlífinu þínu elskuleg, segi og skrifa.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.4.2013 kl. 09:45

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þetta er svolítið merkileg niðurstaða hjá þer Ásthidlur, ekki síst í ljósi þess að ég hef aldrei umgengist þig eða kynnst utan það sem þú hefur séð til mín hér á blogginu og orðaskiptin sem við höfum átt í tilefni blogga hvorrar annarrar. Niðurstaða þín er kannski sínu merkilegri í ljósi þess að eina vísbendingin um að hún eigi við rök að styðjast er sú að ég hef heyrt og orðið vör við það áður að sálarlíf mitt sé afar vinsælt umræðuefni í þeim hópi sem þú ert að umgangast.

Þó man ég ekki eftir hvorki sálfræðingi né geðlækni þar á meðal. Ég hef heldur ekki verið að umgangast sama hóp og þú í núna í heilt ár þannig að mér leikur forvitni á að vita á hverju þú og félagar þínir byggið þessa skoðun og/eða „áhyggjur“ umfram það að ég er gagnrýnin hér á blogginu mínu eins og ég hef verið frá upphafi bloggferils míns.

Þess vegna spyr ég: Getur verið að þú sést að taka þátt í svokölluðum „sálfræðihernaði“ án þess að gera þér grein fyrir því? Ef ekki þá hlýtur þú að bæta hér við læknisfræðilegum rökum sem styðja staðhæfingu þína.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 13.4.2013 kl. 14:03

7 Smámynd: Friðrik Már

Ég verð að taka undir að þetta eru snilldar skrif hjá Rakel, vel að orði komist, sannleikurinn sagður, og langt í frá að sálarlífinu sé ábótavant og mér er nokk sama hvaða málefni hún tekur fyrir það er unun af að lesa hennar skrif því hún hefur þessar gáfur sem þóttu eftirsóttar til forna sem sögumenn höfðu sem gengu milli bæja og sögðu sögur í staðin fyrir mat og annan velgjörning.

Friðrik Már , 13.4.2013 kl. 15:19

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Rakel.

Svona þegar ég las Ásthildi þá datt mér í hug að rökin sem hún hafi verið fóðruð á hafi verið einhver grein í tímariti amerískra sálfræðinga þar sem því var haldið fram að snilld tengdist oft sálrænum erfiðleikum.  Og þá vísað í Goya og einhverja fleiri að mig minnir (alveg satt, ég las einu sinni tilvísun í þessa grein).  Greinin var reyndar skrifuð til höfuðs Einstein eftir að hann fordæmdi notkun kjarnorkunnar í vopnasmíði.  

Hirðmenn Friedmans eins og Hannes greyið hafa útfært þessa sálrænu erfiðleika að þeir tengist kommúnisma, og fundu út í kjölfarið að Einstein væri blóðrauður bolsi fyrst hann vildi ekki útrýma mannkyninu.  

En það sem ég er að reyna að segja með þessu, er að eina svar Dögunar við rökum er rógur, og þar er róið á þekkt mið gegn því sem Jakobína kallaði, þegar hún lenti í svipuðum drullugangi frá hörðum hægri mönnum, skýrum og gáfuðum konum.  Það er leiðinlegt að Ásthildur skuli láta hafa sig út í þetta, en okkur verður öllum á, og sá sem býr til sundrungu og blindu, í þágu sinna hagsmuna eða valda, hann sérhæfir sig í að afvegleiða gott fólk.  

Þetta er eitthvað genetískt í manninum að láta spila svona með sig, skýrir síðan völd örfárra siðblindingja og illmenna yfir mannkyninu í gegnum aldirnar.  

Völd sem þeir verja þó það kosti Harmageddon.  

Það sem ég velti fyrir mér þegar ég les pistla þína undanfarið er hvort þú þekkir engin takmörk, í fagmennsku og rökuppbyggingu pistla þinna.  

Þetta eru tær vinnubrögð lífsins gegn óreiðu blekkinga og frasa sem valdið nýtur sem stjórntæki til að stjórna hinni opinberu umræðu, til að stjórna hugsunum fólks og kæfa andspyrnu þeirra gegn sjálftöku og arðráni hinna ofurríku.  

Enn og aftur takk Rakel mín.

En það er ekki kosið um þetta sem þú segir hér;

Ég læt mig dreyma um að aðrir kjósendur komist líka að þeirri niðurstöðu að við erum að kjósa fólk til að finna heillavænlegar lausnir á ömurlegri efnahagsstöðu Íslands og standa gegn harðsvíruðum vogunarsjóðum sem eru tilbúnir til að nýta sér hvikult og sjálfsupptekið fólk til að komast yfir þau verðmæti sem gefur ríkulegast í aðra hönd

Fólk hvorki sér eða skynjar þessa ógn og leifir sér því að gera ágreining úr hinu smá, þegar hið stóra er í húfi.

Það bjóða margir fram sem vilja vel, en ekki nógu vel til að brjóta odd af oflæti sínu til að vinna með öðrum að því sem þarf að gera.  

Að mynda brjóstvörn gegn þeim öflum sem eru langt komin með að rýja þjóðina inn  að skinni, og bíða aðeins eftir niðurstöðu kosninganna til að klára það verk.

Mæður þessa lands skilja ekki að það þarf að verja framtíð barna þeirra.  Að sjálft líf þeirra og tilvera er í húfi.  

Þær láta örfáa karlpunga, valdagráðuga og heimska, með testósterón  í heila en ekki þar sem það á að vera, stjórna sér og sundra. 

Þær verja ekki lífið og þess vegna er ekki kosið um neitt nema sundrungu.

Og sundrung er ekki vopn varnarinnar, heldur þeirra sem sækja að.

Spurningin er hvað gerist eftir kosningar, ef þá eitthvað gerist.

Allt bendir til þess að svo verði ekki.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.4.2013 kl. 09:05

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég veit ekki alveg hvað skal segja en ég get tekið undir það að flestir vilja vel. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að hugsa þannig um þann hóp sem þyrpist nú fram á framboðsvöllinn að þar séu gerendur, nytsamir sakleysingjar og handhæg verkfæri. Um tíma var ég nytsamur sakleysingi á þessum vettvangi sem nú er ekki lengur uppbyggileg grasrót heldur kaðrak offramboða.

Sennilega eru gerendurnir flestir baksviðs og væntanlega voru það þeir sem stóðu alltaf í vegi fyrir því að grasrótin yrði markmiðsmiðaðri. Eins og þú segir þá er sundrungin vopn varnarinnar. Hún hefur aldrei orðið jafnáberandi eins og í þeim offramboðum sem nú koma fram.

Á meðan sú skoðun er almenn að skýring efnahagshrunins og afleiðinga þess sé stjórnmálaleg en ekki efnahagsleg heldur peningavaldið trompum sínum. Miðað við ásýnd margra framboðanna er nokkuð ljóst að það er einmitt þetta vald sem stendur á bak við allan þennan fjölda. Það kostar nefnilega að setja upp vandaðar heimasíður, búa til úthugsuð lógó og plaköt, taka vandaðar ljósmyndir og myndbönd. Það þarf þess vegna einhver að borga.

Þegar maður horfir til margra þessara offramboða þá spyr maður einmitt hver borgar þetta allt? og veit að það er einhver sem á peninga. Þegar maður hefur starfað með sveltum stjórnmálaflokki þá veit maður að það er eitthvað saman við þetta.

Ég vona Ásthildar vegna að meintar áhyggjur hennar um sálarástand mitt séu henni horfnar nú og hún láti ekki fífla sig til þess aftur að láta annað eins fara frá sér um nokkra manneskju fyrr en að vel athuguðu máli a.m.k. Hins vegar er það þekkt aðferð í alls konar pólitík að efast um geðheilsu þeirra einstaklinga sem ógna með því einu að vera óhræddir við að setja fram skoðanir sínar. 

Það hefur reyndar verið venja að setja slíkt fram gegn þeim sem ógna einhverju stærra en Dögun. Af viðbrögðunum þaðan er þess vegna eðlilegt að gera ráð fyrir að í raun sé Dögun bara einn angi miklu stærri meganisma en virðist. Viðbrögð stuðningsliða Dögunar gera því ekkert annað en styðja við það sem ég hef verið að halda fram.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.4.2013 kl. 19:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband