Árangursrík samstaða gegn Icesave
30.1.2013 | 17:33
Það er reglulega yndislegt að fá tilefni til að gleðjast eins og síðastliðinn mánudag! Í gleðinni leitar hugurinn að sjálfsögðu til sundraðra byltingarfélaga og ástæðu þess að svo er komið. Það þýðir þó lítt að sýta enda ástæða til að binda vonina við að þeir sem hafa týnt sér í sundrunginni átti sig nú ásamt öðrum sem hafa aldrei dirfst til að koma sér af stað til sjálfsvarnarinnar
Það er nefnilega hægt að gera svo margt annað til varnar en það að allir hópist saman á Austurvelli og framleiði hávaða. Við getum greinilega unnið í mismunandi hópum að sameiginlegu markmiði og náð vitsmuna- legum árangri. Niðurstaðan í hinu langdregna Icesave-máli er góður vitnisburður um það.
Hér er rétt að hafa það í huga að niðurstaðan í málinu var nefnilega miklu frekar í takt þeirra raka sem komu frá öllum öðrum en þeim sem fylgdu ríkisstjórninni að málum. Þeir sem komið hefur í ljós að höfu sannleikann að leiðarljósi í málinu og lögðust á eitt við að spyrna kröftuglega við fótum gegn Icesave-ánauðinni voru m.a: villikettirnir í Vinstri grænum sumarið 2009, Indefence-hópurinn í kringum áramót 2009-2010 og kjósum.is sem safnaði undirskriftunum í byrjun árs 2011 og starfaði svo í tveimur hópum í framhaldinu; Advice-hópnum og Samstöðu þjóðar gegn Icesave.
Það er líka tilefni til að votta forsetanum dýpstu virðingu fyrir hans einstaka stuðning við þjóðarhagsmuni. Hann hefur staðið eins og klettur með þjóðinni og hefur reyndar sífellt verið að standa sig betur og betur í því óvænta hlutverki. Hann tók við hvatningu villikattanna árið 2009 og fleirum um að standa með þjóðinni og hefur ekki látið af því þrátt fyrir þær öflugu skærur og skrílslæti sem sá stuðningur hefur vakið meðal hollustuvinafélaga ríkisstjórnarinnar.
Það e ekki annað að sjá en forsetinn sé a.m.k. vel meðvitaður um þátt grasrótarhópanna sem um ræðir. Í gær bárust þær fréttir af Bessastöðum að Ólafur Ragnar Grímsson ætti þar fund með tveimur þeirra sem komu að málflutningnum fyrir Íslands hönd í lokaþætti Icesave-mörunnar. Þar ræddi hann um mikilvægi hinnar lýðræðislegu samstöðu, hreyfingarnar [svo] sem kröfðust þjóðaratkvæðagreiðslu. (sjá hér)
Hluti Indefence-hópsins fyrir framan Bessastaði í byrjun janúar 2010. Myndin er tekin eftir að hópurinn afhenti forsetanum undirskriftirnar sem söfnuðust vegna Icesave II. Þjóðaratkvæðagreiðslan fór svo fram 6. mars 2010. Úrslit kosninganna urðu þau að 98,1% sögðu nei og 1,9 já. (sjá hér)
Stór hluti þess hóps sem safnaði undirskriftum til að tryggja það að þriðja tilraun til Icesave-skuldbindingarinnar á hendur þjóðarinnar yrðu lögð undir hennar atkvæði. Myndin er tekin í viðhafnarsalnum á Bessastöðum eftir athendingu undirskriftalistanna þ. 19. febrúar 2011.
Eftir afhendinguna skipti þessi hópur sér í tvo: Advice og SAMSTÖÐU þjóðar gegn ICESAVE. Hóparnir unnu þó sameiginlega að því markmiði að koma rökum fyrir NEI-inu á framfæri við þjóðina. Það var mjög á brattann að sækja en þrátt fyrir dökkar horfur í byrjun fór kosningin þannig að 59,8% sögðu nei en 40,2 já. (sjá hér)
Allt þetta ómetanlega baráttufólk hlýtur að hafa fyllst einlægum fögnuði þegar því bárust fréttirnar af niðurstöðum EFTA-dómsins í Icesave-málinu rétt undir hádegið síðastliðinn mánudag. Sjálf var ég alveg í skýjunum af einlægum fögnuði og yfirþyrmandi þakklæti sem ég fann mig knúna til að fá útrás fyrir þannig að ég setti þetta inn á Facebook:
HÚRRA fyrir okkur! Húrra fyrir dómurunum! Húrra fyrir heiðarlegri baráttu fyrir réttlæti! Húrra fyrir öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum til að koma í veg fyrir að Icesave-klúðri Landsbankans yrði velt yfir á íslenskan almenning
Baráttan var löng. Hún byrjaði inni á þingi upp úr miðju sumri 2009 en út úr því dæmi urðu villikettirnir til. Þá var það Indefence-hópurinn svo kjósum.is, sem stóð að undirskriftarsöfnuninni í upphafi árs 2011, og loks Advice-hópurinn og Samstaða þjóðar gegn Icesave.
Já, baráttan var löng og ströng en samstaða þjóðar hafði betur gegn fjármálavaldinu. Niðurstaðan varð sú að þrátt fyrir allt þá eru til lög sem vernda þjóðríki gegn ætlan slíkra afla!
HÚRRA!!! og til hamingju öll!!! Koss og kram yndislega, dásamlega fólk!! Knús í botn til ógleymanlegra baráttufélaga!! Ég vona að þið séuð að rifna úr stolti en plís ekki svífa upp af jörðinniEs: Baráttan er nefnilega ekki búin en þetta er vonandi bensínið sem vantaði til að halda henni áfram
Fyrst að ég er byrjuð að vekja athygli á einstaklingum og hópum sem lögðu ómælt að mörkum til að þjóðin fengi að upplifa viðlíka gleðidag og nýliðinn mánudag þá má ég til að vekja athygli á þeim dásamlegu einstaklingum sem mættu niður á Austurvöll til að útskýra það frammi fyrir hljóðnema og upptökuvél af hverju það ætlaði að segja NEI við Icesave III.
Alls voru það 33 einstaklingar sem mættu og eru viðtölin öll varðveitt á You Tube. Upptökumennirnir voru Siggi Sveins hjá Lifandi mynd og Viðar Freyr Guðmundsson, upptökjustjóri og hljóðmaður hjá ÍNN. Axel Þór Kolbeinsson hannaði lógóið en hann sá líka um vefinn þar sem undirskriftunum var safnað 2011.
Allir viðmælendurnir eru algjörlega dásamlegir enda trúi ég að orðin þeirra eigi eftir að skína eins og gimsteinar langt fram í framtíðina og fylla þá sem á þau hlýða stolti yfir þeirri réttlætisfylltu og framsýnu samstöðu sem þessir bera vitni. Hér eru öll viðtölin í einni lúpu en þau spegla saman: þekkingu, innsæi, framsýni, réttlætistilfinningu, sanngirni, lýðræðisvitund, heiðarleika, samkennd, festu og síðast en ekki síst sterkum samstöðuvilja frammi fyrir kúgunarvaldi.
Einstaklingarnir sem tóku þátt vaxa við hverja hlustun og fylla mann óendanlegu stolti. Hér er þriðji hlutinn en alls eru þeir fimm og svo er einn stakur. Þessa er alla að finna í einni lúpu undir slóðinni í efnisgreininni hér að ofan.
Að síðustu er ástæða til að undirstrika það að viðspyrnuþátturinn í sögu Icesave er staðfesting á því hverju það getur skilað að fulltrúar valdsins, fulltrúar fræðimannasamfélagsins og fulltrúar allra hinna borgara samfélagsins leggi saman færni sína og krafta til grundvallarmálefna sem eru til hagsbóta fyrir framtíð samfélagsheildarinnar. Vonandi munum við öll læra af þeim árangri sem þessi samstaða skilaði og ná að vinna þannig saman aftur gegn þeim ógnum sem steðja að tilveru íslensks samfélags og framtíð.
Tilviljun hvernig Icesave-málið þróaðist | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:06 | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér innilega fyrir þinn þátt í þessari baráttu, Rakel.
Guðmundur K Zophoníasson, 30.1.2013 kl. 19:04
Kærar þakkir og sömuleiðis!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 30.1.2013 kl. 21:07
Heil og sæl æfinlega; Rakel - og aðrir gestir, þínir !
Hlutdeild þín; sem margra annarra, í þessarri niðurstöðu er ekki síðri, Rakel mín.
Með beztu kveðjum; sem jafnan /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 31.1.2013 kl. 00:45
Þetta var engin tilviljun heldur samstillt átak margra sem skilaði árangri.
Guðmundur Ásgeirsson, 31.1.2013 kl. 02:22
Nákvæmlega Guðmundur! en eftirtektarvert hvernig ýmisr grasrótarhópar tóku við keflinu eftir fyrsta viðspyrnuþáttinn sem villkettirnir leiddu. Eftir það tók almenningur við í sjálfboðavinnu að koma í kring atkvæðagreislu, skrifa greinar, halda fræðslufyrirlestra og dreifa slíku efni. Þetta er algerlega súrelatískt ef maður hugsar út í það.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 31.1.2013 kl. 02:33
Taktu eftir, að ástæðan sem ég nefndi í viðtalinu "Afhverju NEI?" þ.e.a.s. að ég vildi að skapað yrði fordæmi fyrir aðrar þjóðir sem hafa mátt þola að sæta neikvæðum afleiðingum af óábyrgum einkarekstri.
VAR FORSÍÐUEFNI HELSTU VIÐSKIPTABLAÐA HEIMSINS Í GÆR !
Eigum við að ræða nokkuð hversu súrrealískt það er?
Guðmundur Ásgeirsson, 31.1.2013 kl. 03:02
Segðu svo að við getum aldrei verið sammála um aðferðirnar Óskar.
En takk Rakel.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 31.1.2013 kl. 15:25
Við vorum blessunarlega nógu mörg til að finna það djúpt í hjarta okkar að þetta stríddi ekki einungis gegn allri réttlætiskennd, heldur var þetta einnig siðlaus aðför auðhringadrottna, fjárglæpamanna og óteljandi leppa þeirra innan ríkisvaldsins, stjórnsýslu þess og stofnana að almannahagsmunum, að sjálfri rót lífs okkar sem þjóðar.
Blessunarlega vorum við nógu mörg sem börðumst gegn siðleysinu og sögðum dúndrandi Nei í þeim þjóðaratkvæðagreiðslum sem við knúðum fram um Icesave II og Icesave III.
Minni samt á að enn er í gangi siðlaus aðför auðhringadrottna, fjárglæpamanna og óteljandi leppa þeirra innan ríkisvaldsins, stjórnsýslu þess og stofnana að almannahagsmunum ... og sú aðför birtist okkur alstærst sem rúmlega 1000 milljarða snjóhengja og birtist í formi hrægamma, vogunarsjóða og aflandskróna.
Einnig er vert að minna á rúmlega 300 milljarða "skuld" vegna "eignar" okkar í Nýja Landsbankanum.
Fögnum því ekki of lengi, því nú þarf að girða sig í brók sem aldrei fyrr og aldrei er meiri þörf á Samstöðu þjóðar en einmitt þegar almenningur fyllist værð eftir sigur einnar orustu.
Baráttan er rétt að byrja gott fólk. Baráttan fyrir almannahagsmunum og sjálfstæði og fullveldi okkar sem þjóðar. Þar er sjálft land okkar og landhelgi undir. Glennum upp augu okkar, girðum okkur í brók og virkjum Samstöðu þjóðar okkar.
Það var til lítils barist, ef fólk hopar nú og sundrast í allar áttir. Svo mikil er ógnin, sem enn steðjar að okkur, að mér finnst það hörmulegt ef Samstaða þjóðar rofnar nú. Til hvers var þá barist fyrir lýðræði okkar og velferð, ef samstaðan sundrast nú?
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 31.1.2013 kl. 15:34
Þakka þér ekki síður Ómar!! Þær eru virkilega hvetjandi og uppbyggilegar baráttufólki björgunarlínurnar þínar að austan.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 31.1.2013 kl. 15:52
Pétur Örn, tími samstöðunnar mun renna upp aftur. Það gerist fyrr eða síðar. Sennilega virkar ekkert betur en þolinmæðin í sundurlausri biðinni eftir því að tími hennar renni upp að nýju.
Vissulega tekur það á taugar þeirra sem horfa framan í blákaldan sannleikann rétt fyrir framan nefið á sér. Vissulega er það sálarslítandi að hafa hann þannig upp í nefinu og geta ekki hvikað frá honum einu skrefi.
Einhverra hluta vegna er það samt svo að þó egghvöss ógnin hagni yfir viðkvæmasta bletti lífstilverunnar þá eru þeir sumir þannig gerðir að þeir finna frekar upp á einhverju rjátli til að forðast meðvitundina um lífsháskann. Þeir sem sjá og getað ekki annað skilja auðvitað ekki í þvílíku kæruleysi gagnvart tilveru sjálfra sín og annarra.
Þetta reynir á. Meðalið sem ég nota er ræktun þolinmæðinnar með lífsspeki sem ég held að sé komin frá Voltaire en hún er þessi: „Þetta fer allt einhvern veginn.“ Þessi afstaða kann að líta út fyrir að vera hættuleg og vissulega verður hún það ef sá sem hefur hana að leiðarljósi ætlar sér að leggjast út af undir henni. Hins vegar er hún gagnleg ef maður setur hana í samhengi við t.d. æðruleysisbænina sem svo margir þekkja.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 31.1.2013 kl. 16:30
Ég hefði komið á Slippbarinn hefði ég ekki verið að vinna, þessi dómur var alveg frábær fyrir okkur sem börðumst gegn IceSlave...
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.2.2013 kl. 01:19
Það var algjörlega frábært framtak hjá Frosta Sigurjónssyni að blása til þessarar veislu. Tíminn leið eins og örskot enda hitti maður marga sem maður hefur tæplega séð frá því í Icesave-baráttunni.
Það hefði verið frábært að sjá þig líka Reyndar áttaði ég mig á því á myndum að það voru þó nokkrir hinum megin við barinn sem ég komst aldrei til að heilsa upp á þar sem þeir voru farnir þegar ég gaf mér loks tíma til að taka rúnt í kringum hann.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.2.2013 kl. 02:28
Takk, Rakel, fyrir góðan pistil.
Hörður Þórðarson, 1.2.2013 kl. 08:19
Ekkert að þakka Hörður
Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.2.2013 kl. 23:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.