Leiðrétting á sannleikshallanum
21.1.2013 | 22:30
Ég hef orðið vör við að einhverjir eru haldnir þeim misskilningi að SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar hafi verið lagður niður. Einhverjir halda því líka fram að Lilja Mósesdóttir sé hætt í SAMSTÖÐU. Ég kann ekki skýringarnar á því hvernig þessi misskilningur er til kominn en þykir sennilegast að hann stafi af orðum einstaklinga sem kunna ekki alveg að fara með sannleikann.
Það er rétt að það var haldinn félagsfundur fyrir tæpri viku síðan eða þriðjudagskvöldið 15. janúar. Þann dag varð SAMSTAÐA ársgömul en boðað var til fundarins að frumkvæði tveggja SAMSTÖÐUfélaga sem vildu ræða stöðu og framtíð flokksins.
Niðurstaða fundarins varð sú að meiri hluti félagsmanna samþykkti áskorun, sem lögð var fram á fundinum, um það að leggja það fyrir komandi landsfund hvort lítill og fjárvana stjórnmálaflokkur ætti að bjóða fram í öllum kjördæmum eða breyta SAMSTÖÐU í þjóðmálafélag að sinni a.m.k. (sjá hér og hér)
Daginn eftir birtist fréttatilkynning í fjölmiðlum frá sjö af níu fulltrúum í stjórn flokksins þar sem fram kom að þau undu ekki þessari lýðræðislegu niðurstöðu félagsfundarins. Í fréttatilkynningunni sögðu þessi sjö sig frá trúnaðarstörfum sem landsfundarfélagar á landsfundinum í október höfðu falið þeim. Jafnframt sögðu sjömenningarnir sig úr flokknum og báru við eindregnum vilja Lilju um að SAMSTAÐA bjóði ekki fram í næstu alþingiskosningum auk samstarfsörðugleika.
Það er e.t.v. rétt að taka það fram að yfirlýsingin kom forystu framkvæmdaráðsins svo og öðrum félagsmönnum SAMSTÖÐU jafn mikið á óvart og öðrum sem lásu í fjölmiðlum að þessi sjö hefðu sagt af sér stjórnarstörfum þremur vikum fyrir boðaðan landsfund. M.ö.o. þá var hún hvorki rædd á félagsfundinum sl. þriðjudagskvöld né borin undir framkvæmdaráðið.
Sá sem tók við formennsku SAMSTÖÐU af Lilju Mósesdóttur sl. haust var einn þeirra sem stóð að yfirlýsingunni. Í útvarpsviðtali á RUV viðurkenndi hann að ekkert væri hæft í fullyrðingum sem hann og aðrir fráfarandi stjórnarfulltrúar höfðu haft um Lilju Mósesdóttur í yfirlýsingunni frá deginum áður (sjá hér). Eftir stendur að líklegasta skýringin á því að sjö af níu stjórnarmönnum yfirgáfu SAMSTÖÐU með framangreindum hætti er sú að þessi sjö geti ekki sætt sig við meirihlutaákvörðun félagsfundarins um að endanleg ákvörðun um framboð í næstu alþingiskosningum verði tekin á landsfundi SAMSTÖÐU 9. febrúar n.k.
Það er svo kannski rétt að árétta það að engin breyting hefur orðið á stöðu Lilju Mósesdóttur innan flokksins. Hún var kjörin formaður framkvæmdaráðs SAMSTÖÐU á fyrsta framkvæmdaráðsfundinum eftir landsfundinn í október. Meðal verkefna formanns framkvæmdaráðs er að leiða þann undirbúning sem nú er kominn á verulegt skrið fyrir landsfundinn sem verður haldinn laugardaginn 9. febrúar. Allir félagsmenn SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar eru að sjálfsögðu boðnir velkomnir á fundinn.
Þeir sem vinna að undirbúningnum með henni eru félagar sem sitja í stjórnum og framkvæmdaráði SAMSTÖÐU (sjá hér) auk nokkurra félagsmanna til viðbótar sem hafa boðið fram krafta sína við undirbúninginn. Nánar verður sagt frá tilhögun landsfundarins í félagsbréfi, sem hefur verið sent út á SAMSTÖÐUfélaga nokkuð reglulega frá því í lok apríl í fyrra, og á heimasíðu flokksins síðar í þessari viku.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.1.2013 kl. 01:43 | Facebook
Athugasemdir
Óska ykkur alls hins bezta.
En væri kanski kominn tími til að setja á dagskrá á þessum landsfundi í febrúar að breyta nafninu í ÓSAMSTAÐA.
Þegar að fréttist eitthvað frá þessum flokki þá er það yfirleitt útaf ósamstöðu og einhver er að segja sig úr einhverju.
Kveðja frá Saudi Arabíu
Jóhann Kristinsson, 22.1.2013 kl. 13:47
Jóhann, þakka þér fyrir árnaðaróskir! Tillaga þín er væntanlega sett fram í gríni þar sem það hlýtur að liggja í augum uppi að jafnvel þó sjö manns segi sig úr stjórnmálasamtökum sem heita SAMSTAÐA þá er það ósamstaðan sem víkur fyrir samstöðunni.
Ég tek svo undir það að fjölmiðlar eru ótrúlega duglegir að segja frá því þegar einhver yfirgefur flokkinn. Þeir virðast af einhverjum ástæðum m.a.s. vera mjög uppteknir af þeim einstaklingum sem yfirgefa SAMSTÖÐU en láta sem hópurinn sem hefur staðið saman frá upphafi sé ekki til.
Þeir sinna heldur illa eða alls ekki fréttatilkynningum frá flokknum um flokksstarfið. Ég er jafn hissa á því og þú hversu ófærir íslenskir fjölmiðlar virðast vera í því að fjalla um pólitísk málefni og hvað þeir leggja mikla áherslu í að fjalla um persónurnar sem eru í pólitík.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.1.2013 kl. 14:37
Ég óska öllum þeim flokkum velgengni sem hugsa um velferð lansins og sérstaklega þeim sem eru á móti því að Ísland verði eitt af smáríkjum ESB.
Ekki veit ég hvort fjölmilar fari rangt með um fréttir af Samstöðu en þegar ég hef lesið um einhverjar fréttir þá er það yfirleitt um ósamstöðu innan flokksins.
En því miður þá er það sem við lesum í fjölmiðlum ekki alltaf rétt, og þá er það undir ykkur Samsöðu fólki komið að leiðrétta rangan fréttaflutning.
En svona þér að segja þá mann ég ekki til þess að hafa heyrt/lesið neitt nema um ósamstöðu, og ef ég hef ekki fengið nema ósamstöðu fréttir þá er möguleiki að svo sé um aðra.
Flokkurinn verður að fara að sína sig í góðu ferli annars gufar fylgið upp.
Kveðja frá Saudi Arabíu
Jóhann Kristinsson, 22.1.2013 kl. 15:20
Jóhann, félagar í SAMSTÖÐU hafa gert nokkrar atrennur í því að fá umfjöllun um málefni og stefnu flokksins. Eins hefur verið reynt að koma leiðréttingum og athugasemdum á framfæri en því hefur ekki verið sinnt. SAMSTAÐA er með heimasíðu sem ég reikna með að gefi þér töluvert aðra mynd en þeir fjölmiðlar sem þú fylgist með af því sem fram hefur farið í flokksstarfinu á undanförnu ári. Þú getur kíkt á heimasíðuna hér ef þú hefur áhuga.
Fylgið gufaði upp sl. sumar. Inn í það spila vissulega margir þættir en það gefur auga leið að nýr flokkur sem fær ekki inni í fjölmiðlum nema þegar fjölmiðlarnir sjá tilefni til að blása upp úrsagnir einstakra einstaklinga er ekki í góðri stöðu til að skapa sér traustverðuga ásýnd.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.1.2013 kl. 15:31
Já kanast svolítið við fjölmiðlaáróður hefur gerst í BNA.
Það er ekkert gott sem kemur frá einum flokki en allt gott sem kemur frá hinum. Svona er nú fjölmiðla elítan.
Ég kíki á vefsíðuna ykkar var að skoða Dögun áðan.
Kveðja frá Saudi Arabíu
Jóhann Kristinsson, 22.1.2013 kl. 15:40
Kveðja úr Hlíðunum í Reykjavík.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.1.2013 kl. 15:42
Mikið er ég ánægður að sjá að Samstaða vill afnema verðtrygginguna.
Ef það er eitthvað sem þið gætuð komið til leiðar og væri gott fyrir heimilin þá er það að losna við verðtrygginguna.
Að hegna fólki sem gengur vel með sköttum er ekki það sem ég aðhyllst og ég vona að Samstaða falli frá þeirri stefnu.
Þakka spjallið.
Kveðja frá Saudi Arabíu
Jóhann Kristinsson, 22.1.2013 kl. 15:58
Nú skil ég þig ekki alveg. Eru skattar hegningartæki í þínum augum? Ég hélt að þeir ættu að vera framlag í hlutfalli eigna og tekna til reksturs t.d. skóla og sjúkrahúsa auk viðhalds vega o.fl. o.fl. sem snýr að samneyslu og viðhaldi velferðarkerfisins.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.1.2013 kl. 16:36
Æ ég ættlaði nú ekki að svara þessu.
"Löggjöf samfélagsins og skattkerfið verði notað til að ná fram jöfnuði, samstöðu og sameiginlegum velferðargrunni." Stendur í Grunvallarstefnuskrá Samstöðu.
Nú er ég viss um að þessi setning í Samstöðu grundvallarstefnuskrá þýðir ekki að verkamaður verði með sömu skatta prósentu og hvað skal nota t.d. læknir?
Einhverra hluta vegna held ég að Samstaða yrði ekki ánægð nema að læknirinn greiddi það mikið í skatta að hann fær sömu upphæð launa og verkamaður eftir skatta?
Ef þetta er rangt hjá mér, þá kanski getur þú útskyrt það, hvernig Samstaða hefur hugsað sér þennann jöfnuð?
Kveðja frá Saudi Arabíu
Jóhann Kristinsson, 22.1.2013 kl. 17:46
Ég átta mig ekki alveg á því hvernig þú sérð það fyrir þér að fyrstu skref til jöfnunar verði þau að nota skattakerfið til að tryggja það að allir séu með það nákvæmlega sama í útborguð laun. En það er ljóst að við núverandi kerfi fer ójöfnuðurinn vaxandi.
Það eru þeir sem eru með lægstu launin og millitekjuhóparnir sem halda velferðarkerfinu eiginlega uppi. Þetta á líka við um fyrirtækin. Minni og meðalstór fyrirtæki eru að kikna undan byrðunum rétt eins og efnaminni fjölskyldurnar. Til að bæta úr þessum ójöfnuð ætti að vera hægt að nýta skattakerfið.
Við verðum m.ö.o. að spyrja okkur í hvernig samfélagi við viljum búa. Ef við komumst að því að við viljum geta leitað okkur menntunar og læknisþjónustu þegar við þurfum á því að halda þurfum við að leggja eitthvað af mörkum til samfélagsins til þess að það gangi upp. Það er í reynd eðlilegt að þeir sem hafi meira á milli handa, að ég tali ekki um þeir sem eru með ofurlaun, borgi hlutfallslega meira en sá sem þú kallar verkamann.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.1.2013 kl. 22:22
Þarna er það sem við sjáum hlutina ekki eins.
Ef að læknir eða hver sem er hefur 20 miljónir í árslaun fyrir skatta og ssetjum bara tölu á skattaprósentuna notum t.d. 25% þá greiðir þessi launþegi 5 miljónir í skatta.
Ef að vekamaður eða hver sem er hefur 2 miljónir í laun fyrir skatta, og sama skattaprósenta er notuð 25%, þá greiðir þessi launþegi 500 þúsund í skatta.
Hvor þeirra greiðir meira og kemur til með halda uppi velferðarþjóðfélagi Samstöðu?
Og þá kemur spurningin hversu langt vill Samstaða ganga í að jafna laun fólks eftir skatta?
Það er þetta sem ég kalla að hegna þeim sem að hafa haft fyrir því að menta sig og gengur vel í atvinnulífinu, ef að ættlast er til að læknirinn eða hærri launamaðurinn greiði hærri skattaprósentu en verkamaðurinn.
Og svo kemur spurningin; hvað finnst Samstöðu og þér að sé sanngjörn hærri skattaprósenta fyrir læknirinn í okkar dæmi?
Kveðja frá Saudi Arabíu
Jóhann Kristinsson, 23.1.2013 kl. 04:57
Svo það sé alveg á hreinu þá hef ég enga sérfræðiþekkingu á efnahagsmálum og hef ekki tekið þátt í stefnumótavinnu um efnahagsmál hvorki fyrir SAMSTÖÐU eða aðra.
Hins vegar finnst mér viðhorf þitt sérkennilegt. Ekki síst í ljósi öfganna mér sýnist að það endurspegli. Ég sé a.m.k. ekki neinar hugmyndir um jöfnuð. Ég leyfi mér að efast um að þeir séu margir læknarnir hér á landi sem eru með þetta 20 milljónir í árslaun en ef svo er þá hlýtur hann að hafa verið í afar löngu læknisnámi og hefur tæplega greitt mikið til samfélagsins á þeim tíma.
Hugmynd um að veita launþegum mismunandi aðgang að velferðarkerfinu eftir útborguðum launum eða því hvað þeir borga í skatt er hugmynd en verður þá ekki að skoða það í víðara samhengi.
Svo það sé alveg á hreinu þá er það minn skilningur á samfélagi að það sé rekið á samhjálp. Ég sé því ekki betur en löggjöf samfélagsins og skattkerfið sé hentug tæki til að „ná fram jöfnuði, samstöðu og sameiginlegum velferðargrunni.“ en auðvitað skiptir það máli hvernig þetta verður útfært. Það er hins vegar verkefni sem verður tæplega lokið í eitt skipti fyrir öll.
Sjálfri finnst mér það liggja í hlutarins eðli að ef einhver er með 20 milljónir í árslaun þá ætti hann að vera tilbúinn til að borga hærri skattprósentu en sá sem er með 2 milljónir. Hann ætti í rauninni að vera stoltur af því að hafa rífleg efni á að hjálpa sjálfum sér og öðrum við að byggja upp og viðhalda grunnstoðum þess samfélags sem hann vill búa í sjálfur og eftirláta börnunum sínum.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 23.1.2013 kl. 12:30
Rakel mín.
Þessi dæmi voru sett upp til að sýna að sá sem hefur háar tekjur kemur alltaf til með að greiða meira í skatt en sá sem hefur lágar tekjur.
Þetta er sem mér grunaði að Samstaða og þér finnst allt í lagi að taka af launum fólks og útbýta þeim til annarra. Spurningin er hversu langt eru þið tilbúin að fara?
Til dæmis; þá eru Frakkar að reyna að setja á 75% skatta á hátekju laun, væri það tala sem þið í Samstöðu væru ánægð með eða ætti skattaprósentan að vera hærri?
Eða kanski finnst Samstöðu 75% of hátt?
Jöfnuðurinn hjá mér er að báðir launþegar greiða sömu skatta prósentutölu til Ríkisins. En hálaunþeginn kemur alltaf til með að greiða hærri upphæð til Ríkisins hedur en láglaunaþeginn.
Í dæminu sem var íkt til að sýna fram á muninn, ég hef ekki hugmynd um hvað læknar hafa í laun.
En notum tölurnar til að útskýra hvernig há laun koma til að greiða meira en lág laun í okkar t.d. tölum 20 miljón og 2 miljón tekjur skattgreiðsla 5 miljónir og 500 þúsund ef bæði launin er skattlögð á 25% skatta prósentu.
Það hefur aldrei hvarlað að mér að mismuna fólki aðgang að velferðarkerfinu eftir því hversu mikið það greiðir í það.
En það gefur augaleið að hátekjumaður kemur alltaf til með að greiða hærri upphæð inn í velferðarkerfið heldur en láglaunamaður og ég held að enginn hálauna maður hafi út á það að setja ef bæði háu launin og lágu launin eru skattlögð með sömu prósentutölu. Sem sagt allir eru jafnir.
Svo er tilfelli eins og mitt eigið: Frá 2005 til 2009 þurfti ég að greiða yfir 3 miljónir í skatta á Íslandi á ári, þó svo að ég ætti ekki heima á Ísland og hef ekki átt hima á Íslandi síðan janúar 1971.
Nú ekki hafði ég mikið út á þessa skattagreiðslu að setja af því að ég var svo vitlaus að halda að ég fengi fyrirgreiðslu í velferðarkerfinu á Íslandi (sjúkratryggingar) fyrir mínar rúmmar 3 miljónir á ári en sú varð nú raunin ekki.
Fór til Félagsmálaráðherra sem var Jóhanna Sig. á þeim tíma og bar upp mína óánægju að fá ekki að njóta velferðarkieins fyrir mínar 3 miljónir á ári. Svarið var: "Tough luck," auðvitað sagði Jóhanna þetta ekki svona af því að hún kann ekki ensku, það var það sem hún meinti með sínu svari.
Jæja, segðu mér nú havð þér finnst persónulega að hálauna maður á að greiða háa skatta í prósentutölu af sínum launum?
Kveðja frá Saudi Arabíu
Jóhann Kristinsson, 23.1.2013 kl. 13:56
Rakel
Leiðinlegt að þú leyfðir ekki síðustu athugasemd minni að komast inn.
Augsýnilega villt þú ekki að ég skrifi athugasemdir á þína blogg síðu.
Gangi þér og Samstöðu allt í haginn, en ekki gæti ég kosið Samstöðu.
Kveðja frá Saudi Arabíu
Jóhann Kristinsson, 24.1.2013 kl. 09:39
Jóhann, það er margt í málflutningi þínum sem vekur athygli. Fyrst er það það sem kemur fram í síðustu athugasemd þinni. Þú hefur orðið var við það að ég sá mér þann kost vænstan að stilla bloggið mitt þannig að ég þarf að samþykkja athugasemdirnar til að þær birtist.
Ég ætla ekki að leggjast í langar útskýringar á því af hverju mér fannst ég tilneydd til að gera það en bendi þér á að við læsum flest húsunum okkar þannig að við getum valið það hverjum við hleypum inn. Ef einhver bankar á meðan ég er að heiman, sofandi í sturtu þýðir það ekki að ég vilji ekki hleypa viðkomandi inn, eða hvað?
Ég hef klórað mér svolítið í höfðinu yfir því hvað þú vilt nákvæmlega með spurningum þínum. Því í reynd eru þær alltaf sama spurningin bara svolítið öðru vísi orðuð. Kannski kemur það fram í síðasta innlegginu þínu þar sem þú segir að þú gætir ekki kosið SAMSTÖÐU.
Þú ferð hins vegar svolítið langa og dularfulla leið að því. Mér sýnist á öllu að þú hafir hugsað þér að láta það vera að kommenta frekar við mín skrif sem ég get ekki séð að ég þurfi að harma neitt en mig langar þó til að benda þér á að skilningur minn á jöfnuði er ekki svo takmarkaður að ég sjái ekki ójöfnuðinn í því að sá sem tekur þátt í því að halda velferðarkerfinu uppi fái ekki notið þess eins og hefur gerst í þínu tilviki.
Samkvæmt mínum skilningi á tilvitnuninni úr stefnuskrá SAMSTÖÐU er það m.a. sá ójöfnuður sem þú þurftir að þola sem markmiðið er að leiðrétta.
Góðar stundir
Rakel Sigurgeirsdóttir, 24.1.2013 kl. 12:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.