Capacent setur niður
23.11.2012 | 02:50
Mér þykir ástæða til að vekja athygli á þessari frétt af heimasíðu SAMSTÖÐU:
Capacent er án efa eitt þekktasta fyrirtækið á sviði samfélagsrannsókna hér á landi. Á heimasíðu þeirra segir: Capacent er leiðandi þekkingarfyrirtæki á sviði ráðgjafar, rannsókna og ráðninga. (sjá hér) Það er líka ljóst að ýmsir miða sig við niðurstöður kannana þeirra. Þetta á líka við um kannanir sem eru gerðar varðandi fylgi stjórnmálaflokka.
Miðað við það hvernig er vísað til niðurstaðna kannana sem gerðar hafa verið á vegum Capacent má ganga út frá því að almennt sé gert ráð fyrir því að forráðamenn fyrirtækisins leggi metnað sinn í vönduð vinnubrögð þegar kemur að frágangi skoðanakannana. Það sætir því furðu að fá af því rökstuddar fréttir að í viðhorfskönnun fyrirtækisins skuli einum stjórnmálaflokki vera sleppt. Óstaðfestar fréttir bárust reyndar af því strax á vormánuðum að SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar væri ekki með á listanum yfir stjórnmálaflokka í könnunum á vegum umrædds fyrirtækis. Á þeim tíma mældist SAMSTÐA þó með á milli 9-11% fylgi.
Þegar á eftir þessu var gengið vildu forsvarsmenn Capacent ekki kannast við að þetta ætti við rök að styðjast. Eins og meðfylgjandi skjámynd úr könnun fyrirtækisins á viðhorfum fólks til stjórnmála sýnir er SAMSTAÐA óvéfengjanlega ekki með á listanum í yfirstandandi könnun og því eðlileg krafa að forsvarsmenn fyrirtækisins útskýri hvers vegna henni er sleppt þegar önnur framboð, sem hvorki eiga félagsmenn sem sitja á yfirstandandi þingi né hafa haldið landsfund, eru höfð á honum.
Í bréfi Capacent til þátttakenda segir um þá könnun sem ofangreind spurning er tekin úr: Könnunin er hluti af stórri rannsókn á viðhorfum fólks til stjórn- og þjóðmála sem er framkvæmd er [svo] reglulega. Í þessu ljósi er það grafalvarlegt mál að einum stjórnmálaflokki er sleppt úr í valmöguleikunum. Það er heldur ekki hægt að taka mark á niðurstöðunni sem fæst út úr spurningu sem er þannig úr garði gerð að ekki er boðið upp á velja alla möguleika sem eru fyrir hendi.
Í svarbréfi framkvæmdastjóra Capacent, Einars Einarssonar, til formanns SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar, Birgis Arnar Guðjónssonar, sem barst í dag við fyrirspurn formannsins, gefur framkvæmdastjórinn þessa skýringu:
Þessi könnun er hvorki gerð með það að markmiði að mæla fylgi flokkanna né til birtingar. Þessari spurningu er ætlað að sía út þá sem eiga fá [svo] áframhaldandi spurningar um ákveðna stjórnmálaflokka.
Í öllum könnunum sem Capacent framkvæmir með það að markmiði að mæla fylgi flokka eru öll framboð talin upp og þar með talin Samstaða.
Hann svarar því hins vegar ekki af hverju SAMSTÖÐU er sleppt á meðan önnur ný framboð, sem hvorki hafa haldið landsfund né eiga þingmann inni á þingi, eru höfð með. Hann skýrir það ekki heldur hvernig þessi spurning á að sía út þá sem eiga að fá áframhaldandi spurningar um ákveðna stjórnmálaflokka. Þeirri spurningu er t.d. ósvarað hvernig þessari viðhorfskönnun er ætlað að sía út þá sem styðja SAMSTÖÐU þegar SAMSTAÐA er ekki með á listanum.
Eftir situr að það er ekki hægt að ætlast til þess að mark sé tekið á niðurstöðum þessarar könnunar Capacent til viðhorfa fólks til stjórnmála. Vissulega vekur þetta líka upp spurningar um það hvort mark sé takandi á þeim niðurstöðum sem hafa verið kynntar að undanförnu um þetta efni á vegum Capacent. Þeir eru reyndar einhverjir sem vilja halda því fram að lítið mark sé takandi á skoðanakönnunum almennt en þó er ekki hægt að líta fram hjá því að þær eru skoðanamótandi.
Ef Capacent vill viðhalda þeirri stöðu að vera leiðandi á sviði viðhorfskannana skyldi maður ætla að forsvarsmenn fyrirtækisins líti þau mistök sem þeir hafa nú orðið uppvísir að mjög alvarlegum augum. Maður skyldi því ætla að forráðamenn þess komi með viðunandi skýringar á því hvernig stendur á því að þeir bjóða þátttakendum í könnunum Capacent upp á það að gefa upp afstöðu sína til stjórnmálaflokka án þess að þeir séu allir hafðir með. Svör þeirra hingað til hafa því miður ekki verið til þess fallin að byggja upp traust til þess. Á meðan þau hafa ekki borist er ekki hægt að líta þetta öðrum augum en Capacent hafi sett verulega niður.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:41 | Facebook
Athugasemdir
Gott hjá þér Rakel. En svona er þetta, eitt sinn meðan Frjálslyndi flokkurinn var og hér fréttum við af því í svona skoðanakönnun að hann var ekki nefndur á nafn sem möguleiki. Ég hringdi því í forsvarsmann og spurði hvað þessu sætti. Hann virtist koma af fjöllum, hafði greinilega gleymt flokknum og bauð mér að þeir myndu setja Frjálslyndaflokkinn með inn í svona eftir á.
Svo er alltaf þessi klassiska spurning; ef þú ætlar ekki að kjósa neinn annan flokk, munt þú kjósa Sjálfstæðisflokkinn? Hvað þessi lokaspurning á að þýða er mér hulin ráðgáta.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.11.2012 kl. 13:50
Nákvæmlega Ásthildur! Er þetta kannski vísbending um það að Sjálfstæðisflokkurinn borgi þessar skoðanakannanir eða einhverjir sem vill ekki sjá neitt annað í forystu en Sjálfstæðisflokkinn?
Rakel Sigurgeirsdóttir, 24.11.2012 kl. 06:35
Það lítur sannarlega út fyrir það.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.11.2012 kl. 11:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.