Mismunandi málefnaáherslur

Síðastliðinn fimmtudag, þ. 18. október, birti Ómar Geirsson pistilinn: Fár til að fífla fólk á blogginu sínu. Ég skildi eftir athugasemd við þessa færslu hans sem er grunnurinn að því sem mér þykir ástæða til að koma á framfæri hér. Ástæðan er sú að ég get ekki annað en tekið undir það sem hann segir þar um „andófið“. Mér þykir það miður og þykist þess líka fullviss að einhverjum kunni að renna það, sem Ómar segir þar, þannig til rifja að honum finnist hann óþarflega grimmur í garð þess.

Sjálf lifði ég og hræðist í reykvískri grasrót í rúmlega eitt og hálft ár áður en ég gekk til liðs við SAMSTÖÐU flokk lýðræðis og velferðar sem er þó vissulega líka sprottin af þeirri grasrót sem kom fram hér strax í kjölfar hrunsins. Af þessum ástæðum fannst mér það sanngjarnt að bregðast við bloggfærslu Ómars og staðfesta það fyrir honum að austanmaðurinn greindi þann viðsnúning sem hefur orðið í kringum meginstraum andófsins“ rétt.

Ég kann ekki skýringuna á því hvers vegna hlutirnir hafa farið eins og Ómar lýsir þeim þó ég hafi vissulega velt þessu lengi fyrir mér en það var strax í Tunnubyltingunni sem ég þóttist sjá merki þess í hvað stefndi. Tímamótin þar sem klofningur grasrótarinnar verður að veruleika er e.t.v. runninn upp en það skal þó tekið fram að hann hefur kannski verið þarna frá upphafi. Það er a.m.k. ljóst að þegar stór hluti þeirrar grasrótar, sem varð til haustið 2008 undir „leikstjórn“ Harðar Torfasonar, hefur gert stjórnarskrá sjálfskipaðrar samfylkingarelítu að aðalatriðinu þá er eitthvað mikið að!

Það er líka ljóst að þegar þessi sami hópur gerir allt til að gera þau sem setja leiðréttingu lífskjaranna í gegnum nauðsynlegar efnahagsaðgerðir á oddinn að óvinum sínum þá liggja leiðir ekki lengur saman. Því miður er líka útlit fyrir að þetta stjórnarskrárblinda „andóf“ hafi gert þá, sem mæla fyrir skynsamlegum lausnum bundnar sjálfstæðum þjóðargjaldmiðli, að sínum höfuðóvinum.

Samsteypumótið

Það er nákvæmlega í þessu sem ein meginskýringin liggur fyrir því að stjórnmálaöflin, sem sumum finnst að ættu að vera eitt, eru tvö. Þeir sem vilja sjá og skilja eru væntanlega búnir að átta sig á því að skýringin liggur ekki í persónulegum ágreiningi, eins og sumir hafa kosið að halda fram, heldur gerólíkum málefnaáherslum og hugmyndafræði.

Á meðan Dögun hefur gert stjórnarskrárdrög stjórnlagaráðsins að slíku meginatriði að einhverjir þar hafa reynt að halda því fram að ný stjórnarskrá hafi verið krafa búsáhaldabyltingarinnar þá liggur megináherslan hjá SAMSTÖÐU á lífskjörin og fjármálastefnuna.

Þeir sem sjá og skilja vita að Ómar er að benda á að þingmennirnir sem eru í Dögun svo og aðrir Dögunarfélagar hafa sett allan sinn kraft í það að verja stjórnarskrána sem Samfylkingin sagði strax í upphafi árs 2009 að þyrfti að aðlaga að því að Ísland kæmist inn í ESB. Skoðun SAMSTÖÐU er hins vegar sú að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB.

Landsfundur SAMSTÖÐU sem var haldinn dagana 6. til 7. október sendi frá sér ályktun hvað þetta varðar en frá honum fóru líka fimm ályktanir þar sem stefna SAMSTÖÐU í lífskjara- og efnahagsmálum er dregin fram á skýran og afdráttarlausan hátt. Hér er yfirlit yfir heiti þeirra með krækjum í greinarnar á heimasíðu SAMSTÖÐU þar sem þær standa:

Einhverjir kunna að sakna þess að engin ályktun var gefin út á vegum landsfundar SAMSTÖÐU varðandi stjórnarskrármálið. Ástæðu þess, að slíkt var ekki gert, má sennilega rekja til þess að þeim samstöðufélögum sem sóttu fundinn fannst önnur mál meira aðkallandi og þess vegna ekki viturlegt að kalla yfir sig fyrirsjáanlegar skærur þeirra sem hafa gert stjórnarskrármálið að oddamáli sínu. Hins vegar má benda á að Lilja Mósesdóttir, sem stofnaði og starfar með SAMSTÖÐU, flutti afar kjarnyrta og afdráttarlausa ræðu í umræðum um stjórnarskrána sem fram fóru á Alþingi sama dag og Ómar Geirsson birti pistilinn Fár til að fífla fólk. Niðurlag ræðu Lilju er hér:

Niðurstaða mín er sú að stjórnarskrártillögurnar verði að leyfa þjóðaratkvæðagreiðslu í öllum málum. Icesave-málinu er ólokið og fleiri sambærileg mál munu koma upp. Samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs mun forsetinn geta vísað öllum málum í þjóðaratkvæði. Afar ólíklegt er að forsetinn vísi máli í þjóðaratkvæðagreiðslu sem ný stjórnarskrá bannar að greidd verði þjóðaratkvæði um.

Ég mun því hafna stjórnarskrártillögum sem takmarka möguleika kjósenda til að krefjast þjóðaratkvæða-greiðslu. Við lifum á tímum harðnandi átaka um hvernig eigi að verja skattpeningum kjósenda. (sjá hér (leturbreytingar eru mínar))

Því má svo við þetta bæta að það var niðurstaða þeirra sem nú mynda stjórn SAMSTÖÐU að skærur um málefni eins og stjórnarskrármálið væru líklegri til að draga athyglina frá oddamálum SAMSTÖÐU sem eru eins og áður sagði lífskjör heimilanna í landinu sem er grundvöllur þess að skapa framtíðinni þá reisn að hún geti sett saman stjórnarskrá sem hefur hagsmuni almennings; þ.e. íslensku þjóðarinnar, að leiðarljósi.

Málið snýst sem sagt ekki um það að vera með eða á móti nýrri stjórnarskrá heldur forgangsröðunina. Þjóð sem býr við slíkt siðferði að lífsafkoman er sett í öndvegi er nefnilega mun líklegri til að skapa þá samstöðu meðal landsmanna að þeir komi sér saman um grundvallarsáttmála samfélagsins sem byggir á „siðferðilegum forsendum réttlætis, mannúðar og heiðarleika“ í þeim tilgangi að viðhalda grunngildum jafnaðar, samvinnu og varanleika íslensks samfélags.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband