Samfélagsleg meðvitund

ViðspyrnuvakningSú samfélagslega meðvitundarvakning sem hefur orðið á Íslandi og víðar í heiminum í kjölfar hruns efnahagskerfisins hefur ekki farið fram hjá neinum. Á Íslandi kom hún fyrst fram í reglulegum laugardags- og borgarafundum. Á Akureyri tók fólk þátt í mótmælum undir merkjum Byltingar fíflanna en í Reykjavík voru það Raddir fólksins sem stóðu fyrir reglulegum laugardagsfundum á Austurvelli.

Opnir borgarafundir voru haldnir í Reykjavík í Iðnó eða Háskólabíói. Á Akureyri fóru langflestir borgarafundirnir fram í Deiglunni eða Ketilhúsinu. Laugardagsmótmæli og borgarafundir fóru líka fram víðar á landinu þó það hafi verið með óreglulegri hætti. Í kringum kosningarnar 2009 fór mesti krafturinn úr viðspyrnunni. Hún reis þó upp aftur á Austurvelli þegar forgangsröðun nýrrar ríkisstjórnar kom í ljós sumarið 2009.

Þessi fyrsti þáttur Icesave-viðspyrnunnar náði svo hámarki í desember það sama ár og í upphafi ársins 2010. Við þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave, sem fram fór 6. mars 2010, kyrrðust öldurnar eitthvað en Alþingi götunnar hélt þó úti reglulegum laugardagsfundum á Austurvelli fram á vorið.

Mótmælin tóku sig svo upp aftur sumrið 2010 og var mótmælt á ýmsum stöðum af nokkrum tilefnum. Stærstu mótmælin þessa sumars var fyrir framan Seðlabankann. Tilefnið var það að bankinn hafði gefið út  í tilmæli um að vextir gengislána miðuðust við vexti Seðlabankans en ekki samningsvexti.
Kveikjan að tunnunum
Svo rann upp 1. október þetta ár en þá söfnuðust nokkur þúsund saman á Austurvelli við þingsetninguna sem fram fór þann dag. Tilefnið var ekki síst sár vonbrigði blönduð djúpri vanþóknun gagnvart þinginu sem hafði nokkrum dögum fyrr opinberað fullkomna vanhæfni sína gagnvart því verkefni að gera upp við hrunið.

Þennan dag kviknaði hugmyndin að því að boða til tunnumótmæla. Settur var upp viðburður á Facebook með þessum texta:

Næstkomandi mánudagskvöld er stefnuræða Jóhönnu Sigurðardóttur á dagskrá þingsins. Við skulum skapa henni réttan undirleik og umgjörð. Ómsterkir eða stórir hljómgjafar afar vel séðir. Mætum í öllum okkar fjölbreytileik og stöndum saman í því að koma vantrausti okkar á því sem fram fer innan þingsins á framfæri.

Gleymum því ekki að stofnunin sem steypti fjármálakerfinu í glötun fyrir tveimur árum, með vanhæfni sinni og spillingu, steypti lýðræðinu sömu leið í atkvæðagreiðslunni um landsdóm síðastliðinn þriðjudag. Því er komið að okkur almenningi að spyrna við fótum áður en þeir missa landið okkar niður um svelginn vegna áframhaldandi afglapa.
(sjá hér)

Á bak við viðburðinn voru 10 einstaklingar; 5 konur og 5 karlar. Þessi lögðust á eitt við að safna tunnum, útvega ásláttarverkfæri, bjóða á viðburðinn, deila honum á síðunum sínum og dreifa honum á veggi hjá öðrum. Á rúmum þremur dögum var yfir 30.000 gestum boðið.  Framhaldið þekkja eflaust flestir en myndbandið hér á eftir sýnir hvernig gestir byrjuðu að tínast niður á völlinn u.þ.b. einum og hálfum klukkutíma fyrir auglýstan upphafstíma.

Tunnunum fjölgaði og fleira fólk dreif að. Völlurinn fylltist svo fljótlega upp úr átta og var stappaður af fólki á öllum aldri í yfir tvo klukkutíma. Þó margir láti eins og Tunnubyltingin hafi aldrei átt sér stað þá gleymir enginn sem var viðstaddur fyrstu tunnumótmælin þeirri upplifun að standa í nálægð þess kraftmikla tunnutakts sem hljómaði linnulaust í rúma fimm klukkutíma að kvöldi 4. október 2010:

Það muna vonandi allir eftir því að í kjölfar stóru tunnumótmælanna 4. október 2011 kallaði forsætisráðherra saman samráðshóp um skuldavanda heimila og fyrirtækja. Þann 3. desember 2010 lá ákvörðun fyrir í nokkrum liðum. Einn þeirra var „sérstök vaxtaniðurgreiðsla“ sem lögð var inn á reikning þeirra sem hlutu 1. maí 2011 (sjá hér). Þrjár slíkar greiðslur hafa komið til viðbótar.

Reyndar er gert ráð fyrir því nú að framlengja upphaflegri áætlun um að þessi vaxtaniðurgreiðsla næði eingöngu til áranna 2011 og 2012 og bæta við einni helmingi lægri niðurgreiðslu sem verður greidd út örðu hvoru megin við alþingiskosningarnar á næsta ári. Því er ekki að leyna að sumir hafa spurt sig hvort það voru „sérstöku vaxtaniðurgreiðslurnar“, sem fulltrúar úr öllum þingflokkum náðu við fulltrúa lánastofnana og lífeyrissjóði, sem dugðu til að kæfa niður kraftinn í viðspyrnunni? Kannski framlengingin hangi eitthvað saman við það hversu vel hinar hafa dugað til að halda almenningi afskiptalitlum á því rúma ári síðan þessar niðurgreiðslur hófust.
Jóhanna Sigurðardóttir
Næsta miðvikudagskvöld flytur núverandi forsætisráðherra væntanlega sína síðustu stefnuræðu í því embætti. Þar má búast við að Jóhanna Sigurðardóttir lýsi afrekum þeirrar ríkisstjórnar sem hún hefur leitt á þessu kjörtímabili. Það er líklegt að hún láti þess getið hversu vel hefur verið gert við heimilin á hennar vakt. Tunnunum, sem náðu einhverjum árangri fyrir hönd heimilanna haustið 2010, finnst það fráleitt að hún fái að halda slíku fram óáreitt

Það er ekki síst þess vegna sem þær hafa freistað þess að boða til enn einnar mótmælastöðunnar við þinghúsið með hávaðatólum af öllum stærðum og gerðum. Stefnuræðan fer fram n.k. miðvikudagskvöld sem er 12. september. Hávaðinn hefst kl. 19:30. Tuttugu mínútum síðar stígur Jóhanna Sigurðardóttir í ræðustól Alþingis þar sem hún mun halda fram „staðreyndum“ eins og þessum: 

Það hefur verið sérstakt markmið ríkisstjórnarinnar að draga úr ójöfnuði með því að beita skattkerfinu og bótakerfinu og draga úr byrðum þeirra sem síst geta borið þær. Það hefur borið ríkulegan árangur. Árið 2010 vorum við loks í hópi þeirra 10 þjóða sem búa við minnstan ójöfnuð í heiminum en á árunum fyrir hrun stefndi Ísland hraðbyri í að verða eitt af mestu ójafnaðarlöndum okkar heimshluta. Fátt sýnir með áþreifanlegri hætti muninn á stjórnarstefnu velferðarríkisstjórnar Samfylkingar og VG og þeirra hægristjórna hér sem hafa starfað undir leiðsögn Sjálfstæðisflokksins.  (sjá hér)

Þeir eru væntanlega sífellt fleiri og fleiri sem sjá engan mun þeirrar „velferðarstjórnar“ sem situr nú eða hægristjórnanna sem mótuðu landslag þeirrar nýfrjálshyggju sem stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur endurreist. Það væri óskandi að allir sem hafa vaknað til þessarar meðvitundar mæti niður á Austurvöll n.k. miðvikudagskvöld og láti í sér heyra!


mbl.is Steingrímur sigraðist á Kerlingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband