Pólitískar sleggjur og hakkavélar

Björn Bjarnason og Björn Valur Gíslason eiga það sameiginlegt að tjá sig gjarnan eins og pólitískar sleggjur um hvað eina. Það væri í sjálfu sér ekkert tiltökumál nema fyrir stöðu þeirra sem fjölmiðlar nýta sér óspart til miðlunar þeim sleggjudómum sem eigendur þeirra styðja. Það skal reyndar tekið fram að Björn Bjarnason hefur a.m.k. fyrir því að rökstyðja skoðanir sínar með oft og tíðum prýðilegum dæmum og tilvitnunum. Slíka hirðusemi er sjaldnast að finna í dómum Björns Vals Gíslasonar sem einkennast miklu frekar af hvatvíslegum upphrópunarstíl.

Skoðun Björns ValsÍ tengdri frétt og úrklippunni hér til hliðar tjá umræddir stjórnmálamenn sig um efnahagsmál. Mbl.is vitnar í sinn mann og Fréttablaðið í sinn. Ekki verður almennilega séð fyrir hvað þar sem hvorugur byggir á menntun eða hefur orðið uppvís af mikilli efnahagsþekkingu af verkum sínum á stjórnmálasviðinu. Ekki er heldur að sjá af því sem þeir segja í pistlunum, sem frétt mbl.is og skoðunarskot Fréttablaðsins byggja á,  að vísað sé í staðgóða menntun, reynslu eða þekkingu þeirra sjálfra á efnahags-málum. 

Ábyrgð fjölmiðlanna

Það eru þess vegna ekki aðeins þessir tveir sem gera sig seka um sleggjudóma heldur fjölmiðlarnir sem gera orð þeirra að verkfærum gegn  „óvinaliðinu“ sem tvennurnar tvær hafa skapað sér. Björn Bjarnason er fastur í sinni gamalkunnu pólitík sem afmarkast af hægri og vinstri. Aftur skal bent á að í skrifum Björns Bjarnason er undantekning. Í þessu tilviki snýr hún að Þorsteini Pálssyni.

Björn Valur stillti sér upp til vinstri kosningavorið 2009 en hefur fylgt forystu Vinstri grænna dyggilega eftir í þeirri nýfrjálshyggjuvelferðarstefnu sem formaður flokksins hefur soðið saman með fylgispökum á yfirstandandi kjörtímabili. Þess vegna hafa þessir gert efnahagsstefnu Lilju Mósesdóttur að óvini sínum og eru þar af leiðandi samstíga Fréttablaðinu sem gegnir, að því er best verður séð, enn eignarhaldi aðila sem stóðu hvað dyggilegast að kostun Samfylkingarinnar samkvæmt Rannsóknarskýrslunni. (sjá hér)

Á meðan málflutningur af því tagi sem umræddir miðla, og því miður miklu fleiri í áþekkum stöðum, stöndum við frammi fyrir því að stjórnmálaumræðan minnir helst á fótboltapólitík. Umræðan skiptist í tvö horn eftir því hvort þeir sem halda henni uppi halda með Manchester United eða Liverpool, bláum eða rauðum, hægri eða vinstri.

Á meðan mbl.is vitnar í Björn Bjarnason, sem útskrifaðist sem lögfræðingur haustið 1971 (sjá hér) og ber ábyrgð á núverandi efnahagsástandi, um gjaldeyrishöftin og á meðan Fréttablaðið vitnar í Björn Val Gíslason, sem er með skipstjórnarpróf frá árinu 1984 og kennsluréttindi frá 2006, (sjá hér) varðandi lausnir Lilju Mósesdóttur í efnahagsmálum er ekki von á lausnarmiðaðri umræðu. Á meðan lesendur leyfa miðlum að komast upp með að slá ryki í augu neytenda sinna með „fótboltapólitík“ af þessu tagi, eða fjölmiðlaneytendur flýja hana af sömu ástæðu og aðra misáttaumræðu, þá má gera ráð fyrir að þessari „kreppuhvetjandi“ stjórnmálaumræðu verði viðhaldið.

Það er nefnilega ekki annað að sjá en að tilgangur umræðuhefðar sleggjudómaranna sé einmitt sá að fæla allan almenning frá efninu sem eru í hakkavélunum hverju sinni. Það skal tekið fram að það var haft samband við mbl.is og Fréttablaðið, og fleiri stærri fjölmiðla, til að vekja athygli á framhaldsfundaröð um fjármálastefnuna og framtíðina sem haldin var sl. vor en þar fluttu Frosti Sigurjónsson, rekstrarhagfræðingur,  Jón Helgi Egilsson, hagfræðingur, Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur, og dr. Sigurður Hannesson, stærðfræðingur erindi um peninga-, banka-, gjaldeyrishafta- og gengisstefnu í þeim tilgangi að kynna skynsamlegar leiðir í þessum efnum.

Efnahagslausnir

Það skal líka tekið fram að athygli umræddra fjölmiðla var vakin á fundunum bæði á undan og eftir að þeir voru haldnir. Þeim voru sendar stuttar samantektir og krækjur á myndbönd með erindum ofantalinna af lokafundi framhaldfundaraðarinnar, þar sem öll fjögur töluðu, og svo ýtarlegar samantektir sem voru birtar úr erindum þeirra. Bæði fjölmiðlum og núverandi alþingismönnum var boðið á þennan fund. Engin þessara treysti sér til að mæta og kynna sér innihald hans af ótilgreindum ástæðum.

Gagnaðgerðir lesenda

Enginn fjölmiðill hefur heldur sinnt skyldu sinni gagnvart lesendum sínum og kynnt þeim þá lausnarmiðuðu umræðu sem kemur fram í því efni sem fram kom á lokafundinum og þeim hefur ítrekað verið bent á. Nú hvet ég lesendur þessara lína til að taka málin í sínar hendur og kynna sér umrætt efni í gegnum aðra miðla. Ég bendi á að ef Björn Bjarnason getur verið sérfræðingur í því hvernig skuli staðið að lausn gjaldeyrishaftanna og Björn Valur Gíslason verðið sérfræðingur í innihaldi efnahagshugmynda Lilju Mósesdóttur og afleiðingum þeirra þá getur hver sem „nennir“ að bera sig eftir því að kynna sér efnið, sem liggur fyrir af fundunum um fjármálastefnuna og framtíðina, orðið sérfróður um efnahagsmálaumræðuna og lagt til hennar. Ég trúi því að það að fleiri kynni sér þetta efni verði til þess að sleggjudómunum linni.

Ég tek það fram að ég geri ekki ráð fyrir að allir verði sammála öllu sem kemur fram í efninu sem ég vísa í hér að neðan. Hins vegar bendi ég á að hér er a.m.k. farið í efnahagsmál af þekkingu og reynslu auk þess sem framsetningin er bæði auðskiljanleg og aðgengileg. Það sem ég vísa í er eftirtalið:

1. Myndband með fyrirlestri Lilju Mósesdóttur þar sem hún skýrir ýmis hagfræðileg hugtök og fer í helstu leiðir sem hafa verið nefndar til lausnar núverandi efnahagsvanda. Þ.m.t. skiptgengisleiðina.

2. Glærur sem hún studdist við í fyrirlestrinum. Krækja í þær er hérna neðst.

3. Samantektir sem innihalda líka myndbönd allra sem tóku þátt í umræddri fundaröð.

4. Myndbandaröð með erindum og fyrirlestri fjármálasérfræðinganna fjögurra sem taldir voru upp hér að ofan.

Á það skal minnt að Lilja Mósesdóttir var aðalframsögumaðurinn á síðasta fundi framhaldsfundaraðarinnar um fjármálastefnuna og framtíðina.  Framsögur allra á síðasta fundinum voru teknir upp en Frosti Sigurjónsson, Jón Helgi Egilsson og Sigurður Hannesson fluttu þar útdrætti úr lengri erindum sínum frá fundunum sem sem haldnir höfðu verið á undan.

1. Fyrst er það myndbandið með fyrirlestri Lilju Mósesdóttur. Fyrirlesturinn er hálftíma langur en ég leyfi mér að fullyrða að hann gefur mjög skýra mynd af efnahagsástandinum og þeim leiðum sem eru til úrbóta:



2. Á það skal minnt að glærurnar er að finna í krækju hérna neðst en hér er myndræn framsetning, sem tekin er innan úr glærupakkanum, á þeirri leið sem Lilja Mósesdóttir hefur mælt með að verði farin til lausnar þeim vanda sem samfélagið stendur frammi fyrir í efnahagsmálum. Leiðina hefur hún gefið heitið Skiptigengisleiðin:

Skiptigengisleidin3. Þá eru það krækjur í samantektir á erindum allra fjögurra. Þ.e: Frosta Sigurjónssonar, Jóns Helga Egilssonar, Sigurðar Hannessonar og Lilju Mósesdóttur. Vakin er athygli á því að myndböndin koma líka fram undir neðangreindum krækjum.

Erindi Frosta Sigurjónssonar, rekstrarhagfræðings: Skynsamlegast að halda sig við núverandi gjaldmiðil

Erindi Jóns Helga Egilssonar, hagfræðings: Það má draga lærdóm af peningastjórnun undangenginna ára

Erindi dr. Sigurðar Hannessonar, stærðfræðings: Fleiri en ein leið út úr gjaldeyrishöftunum

Erindi Lilju Mósesdóttur, hagfræðings og þingmanns: Skuldavandinn er samfélagsógn

4. Að lokum er það krækja sem inniheldur myndbandaröð með öllum fyrirlestrunum sem þýðir það að erindin eru í þeirri röð sem þau voru flutt: Fyrst Frosta, þá Jóns Helga og Sigurðar og síðast Lilju. Á það skal bent að hvert erindið tekur við af öðru undir þessari krækju. Heildarspilunartími myndbandaraðarinnar er rétt rúmur klukkutími.

Það má vera að einhverjum þyki það einhvers virði að Gunnar Tómasson, hagfræðingur, telur tvo ofantalinna meðal þeirra sem hann treystir best til lausnar þeim efnahagsvanda sem Ísland stendur frammi fyrir núna. Það má líka taka það fram að þeir voru þrír sem hann nefndi í þeirri upptalningu. Sá þriðji var hvorki Björn Bjarnason né Björn Valur Gíslason.


mbl.is „Málið snýst um pólitískt hugrekki“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Flott grein og vel stutt rökum Rakel mín eins og þín er von og vísa.  Tek undir þetta með þér og vona svo sannarlega að fólk fari að skoða önnur framboð en fjórflokkinn gjörspillta.  Það þarf hugrekki til að þora að hætta að kjósa gamla flokkinn sinn og gefa nýju fólki tækifæri.  Það er hið EINA SANNA PÓLITÍSKA HUGREKKI.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.8.2012 kl. 09:57

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Gæti ekki verið meira sammála niðurlaginu þínu um hugrekkið

Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.8.2012 kl. 14:29

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.8.2012 kl. 15:23

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 16.8.2012 kl. 02:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband