Fræðslumyndbönd frá laugardagsfundum í Grasrótarmiðstöðinni!
21.3.2012 | 21:22
Þeir sem fylgjast með þessu bloggi eru væntanlega vel meðvitaðir um að ýmsir hópar og einstaklingar úr grasrótinni stóðu saman að stofnun sérstaks rekstrarfélags sl. haust í þeim tilgangi að taka á leigu húsnæði sem var gefið heitið Grasrótarmiðstöðin. Tilefnið var að koma upp samstarfsvettvangi fyrir þá sem vilja vinna saman að því að koma á þeim breytingum á samfélaginu sem viðspyrnan hefur unnið að á undanförnum árum.
Þetta hefur tekist að einhverju leyti þó það sé langt frá því að árangurinn sé fullkominn. Áður en lengra er haldið er kannski rétt að taka það fram að öll starfsemin í Grasrótarmiðstöðinni hefur hingað til verið háð sjálfboðaliðum og því miður hafa þeir sem hafa virkilega látið til sín taka á vettvangi hennar verið mjög uppteknir í öðrum verkefnum líka. Þó hefur ýmislegt gerst á vettvangi Grasrótarmiðstöðvarinnar. Þar má nefna: bíósýningar, laugardagsfundir og stofnun framboðs til næstu kosninga.
Strax í upphafi var stofnuð sérstök síða fyrir Grasrótarmiðstöðina inni á Facebook en undir lok janúar leit upphafið af heimasíðu hennar dagsins ljós. Þar hafa birst tilkynningar varðandi helstu viðburði í Grasrótarmiðstöðinni eins og um laugardagsfundina sem fóru af stað í nóvember á síðasta ári og tóku sig svo upp aftur undir lok janúar eftir gott jólafrí. Hér er hægt að nálgast yfirlit yfir það hvaða efni hefur verið tekið til umfjöllunar á þessum fundum.
Það fer væntanlega ekki fram hjá neinum sem rennir yfir þetta yfirlit að það eru efnahagsmálin og lýðræðið sem hafa verið í forgrunni á laugardagsfundunum. Eftir áramótin hafa vel flestir fundanna verið teknir upp en uppbygging þeirra hefur verið með því móti að fyrst er fyrirlestur og svo fyrirspurnir og/eða umræður í kjölfarið.
Það er búið að klippa mikinn meiri hluta fyrirlestranna og birta þá inni á You Tube. Markmiðið með þessu öllu saman er að sjálfsögðu það að dreifa fræðslu. Þ.e. að þeir sem hafa ekki haft kost á því að kynna sér umræðuna um þau málefni sem fyrirlestrarnir fjalla um geti sett sig inn í hana.
Meiningin hefur verið að koma aðgengilegu yfirliti yfir þessi myndbönd fyrir inni á heimasíðu Grasrótarmiðstöðvarinnar en þar sem ekki hefur orðið af því hafa verið farnar ýmsar aðrar leiðir til að vekja athygli á þeim. Hér er t.d. hægt að nálgast yfirlit yfir öll myndböndin sem eru komin inn á You Tube.
Sú sem þetta skrifar hvetur lesendur endilega til að kynna sér efni þessara myndbanda rækilega og stuðla að dreifingu þeirra þar sem þau fjalla um málefni sem varða okkur öll. Mig langar svo til að nota tækifærið hér og vekja athygli á fjórum fyrirlestrum sérstaklega:
Alda - Félag um sjálfbærni og lýðræði: Lýðræðið er lykillinn sem var fluttur 21. janúar sl. Kristinn Már Ársælsson og Guðmundur D. Haraldsson fjalla um og útskýra hugmyndir Öldu að lýðræðislegum stjórnmálaflokki.
Hagsmunasamtök heimilanna: Verðtryggður lánavandi sem var fluttur 28. janúar sl. Andrea Ólafsdóttir rekur söguna frá því að undirskriftarsöfnun HH var hrint af stað fram til loka janúar. (Ath. hér og í næstu myndböndum á eftir að klippa umræðuhlutann)
Ólafur Ísleifsson: Lífeyrissjóðir í ólgusjó sem var fluttur 11. febrúar sl. og fjallaði um margvíslegar brotalamir á lífeyrissjóðakerfinu m.a. út frá þá nýútkominni skýrslu nefndar sem var skipuð af Landssamtökum lífeyrissjóða. Sjálfri finnst mér V. hlutinn athyglisverðastur en eins og sést á efnisyfirliti (neðst í þessari færslu) yfir fyrirlestur Ólafs Ísleifssonar er mjög erfitt að gera upp á milli þeirra hvað þetta varðar.
Marinó G. Njálsson: Gengisdómar Hæstaréttar sem var fluttur 25. febrúar sl. Þetta er feiknalega flottur fyrirlestur. Marinó G. Njálsson hefur sett alla bútana inn á bloggið hjá sér ásamt inngangi að hverjum fyrir sig með textaskýringu. Sjá hér
Það á eftir að klippa fyrirlestrana um Búsáhaldabyltinguna og ESB en því miður var fyrirlesturinn um samspil peningakerfis og verðtryggingar ekki tekinn upp.
Að lokum langar mig til að benda á það að ef horft er á þessi myndbönd inni á You Tube þá eru yfirlit eins og þetta undir hverju myndbandi. Þetta er dæmi um efnisyfirlit undir einu myndbandanna frá fyrirlestri Ólafs Ísleifssonar.
I. Saga lífeyrissjóðanna: http://youtu.be/MoihU0xBxDM
II. Eignir lífeyrissjóðanna: http://youtu.be/KJZ_PosarRM
III.Skerðingar á lífeyrisréttindum fyrir hrun: http://youtu.be/mqmzfN0UR7w
IV. Áhrif hrunsins á lífeyrissjóðina: http://youtu.be/tUjUuYVPKsc
V. Staða opinberu lífeyrissjóðanna: http://youtu.be/hFdFrUE9xsU
VI. Staða sjóðanna nú og í nánustu framtíð: http://youtu.be/V73pEp-9h9M
VII. Áhrif hækkandi lífaldurs á stöðu sjóðanna http://youtu.be/_6p5jWvWkg8
VIII. Skýrsla úttektarnefndarinnar og nauðsynlegar úrbætur http://youtu.be/AN2tKe0LJPU
Þess skal loks getið að ljósmyndir frá fundum Grasrótarmiðstöðvarinnar eru frá Andres Zoran Ivanovic.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:24 | Facebook
Athugasemdir
Heil og sæl Rakel; æfinlega !
Heldur; þverr virðing manna, fyrir miðstöð þessarri, hýsi hún mannskap, sem Hreyfingar slektið, sem kjamsar á eigin slefi, af aðdáun mikilli, á Jóhönnu og Steingríms illþýðinu, Rakel mín.
Þór - Birgitta og Margrét; eru öll sönn að sök, í að viðhalda því ófremdar ástandi, sem hér nú ríkir, með flaðri sínu, í garð Stjórnarráðs sitjenda.
Dögunar- óskapnaðurinn; er gleggsta mynd undirlægjuháttarins, við óbreyttu þingræðis offorsi - sem stjórnarfari, öllu.
Því ber okkur, að fordæma stáss það; allt, fornvinkona góð.
Með kveðjum; öngvu að síður, úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 21.3.2012 kl. 23:55
Það má vera að það sé alltaf hægt að finna eitthvað sem dregur annað niður en ekkert þeirra sem hér er bent á kom og flutti fyrirlestur sinn undir merkjum eins eða neins nema sjálfs sín. Þess vegna finnst mér þessi tenging þín heldur langsótt. Ég ætla þó ekkert að mæla gegn skoðun þinni á þeim eða því sem þú telur hér upp.
Mér þykir þó verra hvernig þú setur laugardagsfundina niður með því að tengja þá við eitthvað sem kom hvergi nærri því að þeir voru haldnir, teknir upp, klipptir og settir á Netið.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.3.2012 kl. 00:36
Sæl á ný; Rakel mín !
Í öngvu; hugðist ég taka afstöðu, til Laugardagsfundanna, sem slíkra - svo einskis misskilnings gæti.
Mér; sem harðlínumanni, yst úti á Hægri brúninni (af; Falangískum meiði Francós Ríkismarskálks á Spáni - sem þeirra Gemayel feðga, austur í Líbanon) þykir óviðunandi, að Krákur ESB fylgisspektar - sem annarrs Vestræns óþverra, skuli fá inni, í ykkar ágætu húsakynnum, Rakel mín.
Svo; fram komi mín meining - klár og kvitt, öldungis.
Fjarri því; síðri kveðjur - hinum fyrri, vitaskuld /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 22.3.2012 kl. 00:47
Eins og ég sagði þá ætla ég ekki að reyna að hafa áhrif á þínar grundvallarskoðanir en vil líka leiðrétta að í reynd á ég ekkert í þessu húsnæði. Tilheyri engum þeirra hópa sem þar eiga inni. Það hamlar þó ekki því að ég er tilbúin til að leggja öllu góðu grasrótarstarfi mitt lið. Grasrótarmiðstöðin er og verður vonandi áfram prýðilegur vettvangur fyrir t.d. fræðslufundi af því tagi sem laugardagsfundirnir hafa verið hingað til a.m.k.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.3.2012 kl. 00:59
Sæl enn; fornvinkona kær !
Þakka þér fyrir; beinskeytt - sem afdráttarlaus svör þín, sem vænta mátti.
Með beztu kveðjum; sem áður - og fyrri /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 22.3.2012 kl. 01:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.