Gefum þeim frí!
29.5.2011 | 21:56
Við vorum einhverjir tugir sem mættum niður á Austurvöll í dag og tókum þannig þátt í að standa með þeirri samfélagslegu meðvitundarvakningu sem á sér stað í Evrópu og víðar í heiminum um þessar mundir.
Þrír ræðumenn tóku til máls niður á Austurvelli en það voru: sú sem þetta skrifar, Þórður Björn Sigurðsson og Sólveig Jónsdóttir. Guðjón Heiðar Valgarðsson söng byltingarsöngva og Ásta Hafberg og Eyrún D. Ingadóttir söfnuðu skilaboðum mótmælenda til þingheims í svokallaðan kreppukassa.
Ræðan sem ég flutti fer hér á eftir:
Réttlætissinnaða samkoma!
Mér er það sannur heiður að vera á meðal ykkar hér í dag.
Mörg ykkar hafið staðið föstum fótum á þeirri bjargföstu trú að annar veruleiki en sá sem við horfum upp á í stjórnmálum og efnahagsmálum í dag sé mögulegur!
Ég er ein þeirra sannfærðu! og nú hefur stór hluti Evrpópu staðið upp líka og kallar eftir því sama og dró mig og marga þeirra sem risu upp þegar haustið 2008 út í viðspyrnuna.
Ég er stolt af því að tilheyra þeim fámenna en samfélagslega meðvitaða og staðfasta hópi sem hefur mótmælt arðráni, yfirhylmingu og siðspillingunni innan stjórnsýslunnar og fjármálakerfisins hér á Íslandi, nær óslitið í bráðum þrjú ár!
Við höfum náð þeim árangri að sýna fram á að viðspyrnan hefur áhrif þó enn virðist langt í land með að upphaflegar kröfur okkar um uppgjör og breytingar á bæði stjórn- og fjármálakerfinu nái fram að ganga.
Á þeim tíma sem er liðinn frá haustinu 2008 hafa mörg okkar stappað stálinu í hvert annað með því að benda á að dropinn holi steininn.
Svo sannarlega má líkja mótmælendum þessarar fámennu þjóðar við dropa og bákninu sem við höfum reynt að hafa áhrif á við steininn.
Dropinn sem við höfum myndað hefur að öllum líkindum kallað fram einhverjar ósýnilegar sprungur í steingert báknið og miðað við það sem er að gerast úti í Evrópu núna reikna ég með að þær komi fram og verði til þess að virkisveggurinn sem valdið hefur reist utan um sig muni að lokum hrynja.
Dagurinn í dag markar vonandi tímamót hvað þetta varðar þar sem samfélagslega meðvitaðir íbúar a.m.k. 26 evrópulanda kemur saman á torgum borga og bæja víðs vegar um álfuna til að mótmæla því að þeir skuli vera látnir bera uppi sérhagsmunamiðaða valda- og eignastétt þessara landa.
Mig langar til að vekja athygli á því hvaða lönd þetta eru og tel þau því upp. Löndin eru auk Íslands: Austurríki, Belgía, Búlgaría, Danmörk, England, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Króatía, Kýpur, Noregur, Portúgal, Rúmenía, Rússland, Serbía, Slóvakía, Spánn, Sviss, Svíþjóð, Tékkland, Ungverjaland og Þýskaland.
Krafa þeirra, rétt eins og okkar, er raunverulegt lýðræði! en íslenskir mótmælendur leggja líka áherslu á að sá forsendubrestur sem varð á almennum lánum, vegna glæpsamlegs athæfis eigenda og stjórnenda vel flestra fjármálastofnana í landinu, verði leiðréttur!
Persónulega mæli ég með að þeir sem hafa setið hér við stjórnvölinn á undanförnum árum verði sendir í frí og hér taki við stjórn óspilltra sérfræðinga og samfélagslega meðvitaðra einstaklinga.
Persónulega vil ég að sá hópur sem leysti núverandi stjórnvöld af gerði það að forgangsverkefni að breyta núverandi fjármálakerfi, sem er í reynd hið raunverulega vald sem stendur lýðræðinu og kjörum okkar fyrir þrifum.
Ég vil meina að núverandi stjórnmálamönnum veiti ekki af fríi frá hanaslagnum og sjálfsblekkingunni um eigið mikilvægi sem þeir hafa boðið þjóðinni upp á hingað til. Mér finnst þó miklu frekar að þjóðin verðskuldi frí frá pólitík sem snýst minnst um það sem snertir beina hagsmuni okkar.
Raunverulegir hagsmunir okkar almennings hafa nefnilega ekkert með flokkspólitík að gera.
Hins vegar kæmi almenn skynsemi, heiðarleiki og réttlætiskennd sér fjarskalega vel við þá vinnu sem framundan er við að breyta þeirri forgangsröðun sem Evrópa mótmælir nú öll og við að koma á raunverulegu lýðræði!
Í lokin settist ég niður og skrifaði litla orðsendingu í kreppukassann þar sem ég skoraði á ríkisstjórnina að kalla eitthvað af því samfélagslega meðvitaða fólki sem hefði komið fram með hugmyndir og lausnir á undanförnum mánuðum á sinn fund. Ég benti þeim á nöfn nokkurra einstaklinga sem komu upp í hugann þar sem ég sat undir styttunni af Jóni Sigurðssyni. Ég merkti miðann hugmynd að lausn á samfélagskreppunni.
Það má benda þeim á sem vilja koma skilaboðum áleiðis til þingmanna í gegnum kreppukassann að þeir geta sent tölvupóst til Eyrúnar. Þetta mega vera reynslusögur, vísur, lausnir á breyttri stöðu eða hvað sem ykkur dettur í hug að eigi erindi við þingheim.
Eyrún sér um að prenta skilaboðin út og setja í kreppukassann áður en honum verður skilað. Tölvupóstangið hennar er: eyrundogg@msn.com
Kassanum verður komið niður á Alþingi síðar í þessari viku.Mögulega 18 mánuðir í samning | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:44 | Facebook
Athugasemdir
forgangsverkefni að breyta núverandi fjármálakerfi, sem er í reynd hið raunverulega vald sem stendur lýðræðinu og kjörum okkar fyrir þrifum
Ánægður með þetta.
Guðmundur Ásgeirsson, 29.5.2011 kl. 23:50
Heyr, heyr
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 30.5.2011 kl. 00:23
Tek undir þetta allt hér að ofan.
Annars er alveg sérlega athyglisvert, að ENGINN "hefðbundinn" fjölmiðill greinir frá þessum mótmælum um víða veröld. Það verður ekki séð annað en þar sé skipulögð þöggun í gangi !
elkris (IP-tala skráð) 30.5.2011 kl. 01:14
Það er svo sannarlega ekki hægt að túlka það öðru vísi
Rakel Sigurgeirsdóttir, 30.5.2011 kl. 03:38
Heyr Heyr!!
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.5.2011 kl. 09:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.