Vilji íslenskra ráðamanna til að greiða Icesave er mjög sérstakur
1.4.2011 | 23:40
Vilji íslenskra ráðamanna til að greiða Icesave er mjög sérstakur er blaðagrein eftir þær Helgu Þórðardóttur og Rakel Sigurgeirsdóttur sem þær birtu í Morgunblaðinu 1. apríl 2011. Í blaðagreininni vísa þær í bréf sem hópur Íslendinga sendi þann 18. mars sl. forseta Evrópusambandsins Herman Van Rompuy. Tveimur vikum síðar hefur Rompuy ekki svarað bréfinu. Hér að neðan er blaðagrein Helgu og Rakelar og íslensk þýðing af bréfinu til Rompuy.
Vilji íslenskra ráðamanna til að greiða Icesave er mjög sérstakur
eftir Helgu Þórðardóttur og Rakel Sigurgeirsdóttur
Við ásamt nokkrum öðrum Íslendingum sendum bréf til forseta Evrópusambandsins með nokkrum spurningum um Icesave. Spurningum sem við teljum að nauðsynlegt sé að fá svör við áður en þjóðin ákveður sig hvernig hún greiðir atkvæði þann 9. apríl n.k.
Aðalatriði þeirra mótmæla sem eiga sér stað í Evrópu í dag er hvort ríkisvæða eigi mistök einkabanka og um það stendur Icesave-deilan. Sú pólitík er kölluð pilsfaldakapítalismi. Hvorki sannir frjálshyggjumenn né vinstrimenn vilja tilheyra þeim hópi. Þess vegna er barátta íslenskra alþingismanna mjög sérkennileg.
Í stað þess að berjast með kjafti og klóm fyrir hagsmunum almennings á Íslandi, eins og þeir voru kosnir til, vilja margir þeirra leggja enn meiri skuldir á almenning sem gæti leitt til greiðsluþrots. Þar er illa farið með umboðið að okkar mati. Bankasamsteypan hagnast augljóslega mest þar sem kjörnir fulltrúar fólksins berjast fyrir hagsmunum hennar en ekki almennings. Því hefur orðið forsendubrestur milli þings og þjóðar.
Við höfum fengið nokkur viðbrögð frá erlendum aðilum við bréfinu sem við sendum forseta Evrópusambandsins. Nigel Farage, Evrópuþingmaður, svarar okkur á þann hátt að við höfum rétt fyrir okkur. Auk þess er ljóst að nei við Icesave mun gefa mönnum styrk til að andmæla pilsfaldakapítalismanum á vettvangi Evrópuþingsins.
Michael Hudson, heimsþekktur hagfræðingur og sagnfræðingur, hefur einnig svarað okkur. Í þeim bréfaskrifum kemur glöggt fram að Icesave-skuldin er ólögvarin skuld. Icesave-reikningarnir eru mistök óheiðarlegra bankamanna og á að meðhöndla sem slík. Þar sem hvorki er lagaleg né siðferðileg skylda til að greiða Icesave er vilji íslenskra ráðamanna til að greiða Icesave mjög sérstakur. Hann varpar fram þeirri spurningu hvort um sé að ræða yfirhylmingu hjá þeim alþingismönnum sem styðja Icesave. Yfirhylmingu á þeirra mistökum eða þátttöku í kúlulánafylliríi bólunnar fyrir hrun. Á almenningur að borga fyrir slíkt sukk?
Glöggt er gests augað og það er mjög sérkennilegt þegar þessir aðilar úti í heimi sjá enga aðra raunverulega skýringu á greiðsluvilja íslenskrar valdastéttar en spillingu. Reyndar er sú niðurstaða í takt við upplifun almennings á Íslandi því við finnum að ekkert hefur í raun breyst. Hið nýja Ísland er enn langt utan seilingar. Það er fullkomlega ljóst að stinga þarf á þeirri spillingu sem þrífst í skjóli leyndar og hleypa soranum út. Að samþykkja Icesave-skuldina eru enn einar umbúðirnar utan um spillinguna en nei við Icesave heggur skarð í völd sérhagsmunahópa. Nei við Icesave er varða á leiðinni að hinu nýja Íslandi sem við ætluðum að koma á eftir búsáhaldabyltinguna.
Sakar fjármálaráðuneytið um spuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þið eruð flottastar. Ég er svo ánægð með ykkur stelpur áftam!!
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.4.2011 kl. 10:25
Það er ekki hægt að lesa þetta nema vera áskrifandi að rán dýru greinasafni moggans og það geri ég aldrei !
Það væri gaman að lesa þessa grein samt sem áður en ekki er hún aðgengileg.
Ég bíð spenntur eftir því að geta séð þetta einhvers staðar ókeypis því nóg er moggaklíkan búinn að fá frá Íslensku þjóðinni í afskriftum og fleira og ekki er það hjálplegur miðill eða mannskapur þar í að bjarga Íslandi frá landráðahyskinu heldur vinna þau með þeim og þess vegna skil ég ekki að verið sé að tengja adnóf og baráttu við gildru moggans til að krækja í kaupendur á greinum sem eru allt of dýrar.
Gestur (IP-tala skráð) 2.4.2011 kl. 11:43
Takk, fyrir hvatningarkveðjuna Ásthildur
Gestur, þú ert með greinina hér en ég setti krækju inn á greinina líka á greinasafni Moggans. Hún var kannski óþörf nema fyrir það að geta heimildarinnar sem birti hana fyrst.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 2.4.2011 kl. 12:03
LOL,
og voru einhverjir sem þið skrifuðuð ósammála ykkur?
Voru einhverjir sem vitnuðu í jafnréttisrelgu EFTA og ESB?
Voru bara allir hjá ESB svona mikið sammála ykkur :D
Flott!!
Jonsi (IP-tala skráð) 2.4.2011 kl. 13:34
Hehe,
alltaf gaman af þessu væli í báðar áttir.
Að vera með eða móti Icesave, er orðið nákvæmlega eins og að halda með fótboltaliði í enska boltanum. Það þurfa ekki að liggja nein góð rök á bak við skoðanir fólks um hvort sé betra liðið, sanngjarnara eða réttlátara.
Ebbi (IP-tala skráð) 2.4.2011 kl. 13:39
Jónsi, satt best að segja hafa öll þau viðbrögð sem við höfum fengið við þessum bréfaskriftum eingöngu verið jákvæð. Það er sannarlega umhugsunarefni hver ástæða þess kann að vera!
Mig grunar að það sé vegna þess að í raun er engin heilbrigð skynsemi á bak við það að styðja það að almenningur beri tap einkafyrirtækja. Þar eru eingöngu sérhagsmunir fárra útvaldra á ferð. Það er bara ekki líklegt til fylgisaukningar við „málstaðinn“ að viðurkenna það opinberlega. Það kemur hins vegar alltaf betur og betur í ljóa að það eru sérhagsmunir fjármálaaðalsins sem ráða því að kostaðir stjórnmálamenn styðja Icesave-gjörninginn.
Þetta kemur t.d. mjög vel fram í auglýsingu Já-hópsins í Fréttablaðinu í dag. Þar er teflt fram skúrkavæddri íslenskri elítu sem lagði sitt á vogarskálarnar við að setja landið á hausinn eða svo vitnað sé í orð Jakobínu Ingunnar Ólafsdóttur:
Ég segi bara: Þarf frekari vitnanna við til að vekja hugsandi fólk til meðvitundar um að NEI-ið er eina rétta svarið!
Ebbi, ef þú upplifir umræður um Icesave-málið sem álíka væl og það sem viðgengst í kringum enska boltann þá leyfi ég mér að efast um að þú gerir þér grein fyrir þeim stóra mun sem er á framtíð heillar þjóðar og afþreyingunni sem heltekur stundum fólk. Við endurtökum ekki þennan leik á næstu leikvertíð enda enginn leikur hér á ferð heldur spurning um það hvort við verðum sjálfra okkar eða hverjum við tilheyrum til frambúðar!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 2.4.2011 kl. 15:26
Takk fyrir svarið en ég er engu nær um það hvar hlekkur sé við greinina.
Ég biðst forláts en kannski sést mér yfir eitthvað en það væri ágætt að hafa hlekkinn í svarinu nóg fer af tíma mínum alla daga í að leita að einhveru og grfa upp eitthvað.
Með fyrirfram þökk.
Þessi hlekkur hér er á greinasafnið sem krefst borgunar frá landráða miðlinum og yfir spunasérfræðingum einkavinaæðingar þjófanna og landráðabólu hagkerfisins:
Sem sagt þessi vrikar ekki til að sjá greinina:
http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1373272
Gestur (IP-tala skráð) 2.4.2011 kl. 23:14
Ég held að ég sé búinn að finna greinina en hún er líklega þessi "blogg" færsla sjálf sem ég er að skrifa athugasemd þessa við.
Ég var að lesa eitthvað á svipan.is og áttaði mig þá á því að greinin er þessi stutta færsla sem er ágæt viðbót í að hvetja til réttlátrar hugsunar og framgang réttlætis en það styð ég eins og allir vita sem hafa lesið mínar færslur eða athugasemdir í gegnum síðustu misseri.
Takk fyrir ekki neitt með að vísa mér ekki á greinina með beinum orðum sem hefði sparað mér talsverðan tíma !
Gestur (IP-tala skráð) 3.4.2011 kl. 02:49
Gestur, textinn minn hér að ofan er texti greinarinnar. Þú þarft þess vegna ekki að fara inn á neinn hlekk til að lesa hana heldur getur lesið þessa færslu til að vita hvað í greininni stendur.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.4.2011 kl. 03:00
Gestur, ég var að reyna að benda þér á að þetta væri greinin en hlekkurinn væri eingöngu til þess að benda á það hvar hún hefði birst upphaflega. Eins og þú bendir réttilega á birtist hún svo líka á svipan.is
Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.4.2011 kl. 03:03
Hvað segið þið um 300 miljarðana sem Davíð Oddsson þáverandi seðlabankastjóri jós úr almannasjóðum í botnlausa hít útrásarvíinganna í sept.2008? Er sú ákvörðun hafin yfir allar efasemdir? Engin veð, engar tryggingar.
Æseif stendur núna rétt inna við 40 miljarða og spurning um hvort unnt sé að koma „hjólum atvinnulífsins“ áfram af stað?
Eg hef verið atvinnulaus meira en 3 vetur og vil fá að sjá endi á þessari dæmalausu vitleysu.
Hver ber ábyrgð á ástandinu? Mér finnst mjög hæpið að kenna núverandi ríkisstjón um allt og firra fyrvernadi valdhöfum ábyrgð. Sökin er fyrst og fremst að mínu mati Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins og að einhverju leyti Samfylkingunni hvernig fór með einkavæðingu bankanna.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 3.4.2011 kl. 23:14
Ég vil byrja áþví að segja þér hvað mér þykir leitt að heyra að þú skulir vera búinn að vera atvinnulaus lengi. Hins vegar skil ég ekki hvernig þú getur sett það í samhengi að því ástandi ljúki með því að samþykkja Icesave. Með því að borga Icesave lamar þú efnahagskerfið endanlega þar sem það þarf að skera enn frekar niður en nú er tilað borga.
Svo skil ég ekki alveg þau rök að af því einhver annar hafi stolið og/eða sóað meiru en Bjöggarnir þá bæti það Icesave. Hins vegar tek ég undir það að það er langt frá því að það sé eingöngu núverandi ríkisstjórn sem ber ábyrgðina á Icesave. Það er ljóst að öll gamla flokksmafían og fjármálaelítan vill greiða Icesave. Bara það ætti að klingja öllum viðvörunarbjöllum þeirra sem íhuga hvort heillavænlegra er að segja NEI eða JÁ í þjóðaratkvæðagreiðslunni næst komandi laugardag.
Ég velti þessari athugasemd þinni svolítið fyrir mér og satt best að segja
Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.4.2011 kl. 01:18
Takk fyrir svörin Rakel, mjög upplífgandi að sjá svona mikinn stuðning í Evrópu.
og frábært að það telst ekki til mismunar að vernda einn hóp innustæðueigenda og viðurkenna ekki hina. Fyrst þetta er augljóslega ekki mismunun, þá fer ég út og segi nei við Icesave, og hananú.
Jonsi (IP-tala skráð) 4.4.2011 kl. 09:46
Ég er hættur að vera íslendingur, sjáiði virkilega ekki hvað þetta er fáranlegt. Hvað er í kollinum á ykkur Íslendingum í stað rökhyggju og réttlætishyggju?? Við erum bara að tala um að hafa hreint fyrir brjósti og að viðurkenna almennan rétt fólks á virðingu og réttlæti.
hversvegna þurfum við að bera fyrir okkur, jú við gerum vont við aðra því Bretar og Bandaríkjamenn gerðu vont við okkur og hefðu gert alveg jafn vont við okkur hefðu þeir verið í sömu stöðu. Gengur að svara svona fyrir sér sem innbrotaþjófur fyrir rétti á íslandi???? Hann hefði líka stolið af mér hefði hann verið eiturlyfjaneitandi.
Ebbi (IP-tala skráð) 4.4.2011 kl. 09:54
Æseif málið hefur komið því í kring að nánast allt atvinnulíf er meira og minna lamað. Lánskjör okkar erlendis eru mjög óhagstæð og það ættu allir að gera sér grein fyrir sem fylgst hafa með umræðunni.
M
Guðjón Sigþór Jensson, 4.4.2011 kl. 11:00
Jónsi, þú kannski útskýrir fyrir mér í hverju mismununin felst. Út frá mínum bæjardyrum séð er mismununin þessi: Bresk og hollensk yfirvöld knésetja Íslendinga í skjóli AGS og ESB fyrir tap sem yfirvöld í þessum löndum bera ábyrgð á sjálf. Ég er ekki að firra íslensk stjórnvöld ábyrgð en ábyrðgin er þó fyrst og síðast þeirra sem áttu og ráku Landsbankann á þessum tíma. Það á að krefja þessa einstaklinga um skaðabæturnar en ekki íslenskan almenning.
Ebbi, mér sýnist þú snúa málinu á haus. Ef þú hefur persónulega gerst brotlegur við breskan almenning þá er sjálfsagt að þú verðir sóttur til saka fyrir það. Íslenskur almenningur hefur hins vegar ekkert gert á þeirra hlut. Ef málið snýst um innbrotsþjófa þá skulum við snúa okkur að landsbankagenginu sem eru hinir raunverulegu glæpamenn í þessu máli. Björgólfur Thor er núna 23. ríkasti maður Bretlands og líklegt að faðir hans og þriðji eigandi Landsbankans eigi langleiðina upp í það sem til stendur að velta yfir á almenning með Icesave-samningnum.
Guðjón, það er mjög sérkennilegt að kenna óuppgerðri kröfu Breta og Hollendinga um stöðuna í atvinnumálum þjóðarinnar. Ef þú hefur fylgst með þá hefur Landsvirkjun m.a. verðið að fá lán en það eru ekki aukin erlend lán sem munu leysa efnahagsvanda þjóðarinnar. Þvert á móti mun það ásamt Icesave-skuldbindingunum keyra landið í endanlegt þrot líkt og skuldugt heimili sem freistar þess að leiðrétta stöðu sína með því að taka enn stærra lán.
Í meginatriðum snýst þjóðaratkvæðagreiðslan um það að við segjum NEI og mótmælum þannig að gróði einkafyrirtækja sé einkavæddur en tapið þjóðnýtt. Með því að segja JÁ þá viðurkennum við það að skuldir einkafyrirtækja séu skuldir almennings.
Landsbankinn var einkafyrirtæki og almenningur bar enga ábyrgð á rekstri hans. Samsonar-gengið sem komst yfir hann á afar hæpnum forsendum og rak hann eins og glæpafyrirtæki eru þeir sem ætti að kalla til saka samkvæmt allri heilbrigðri „rök- og réttlætishyggju“.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.4.2011 kl. 12:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.