... skrefinu lengra.
11.2.2011 | 20:08
Ég birti eftirfarandi ljóða- eða örtextasafn sem glósu á Fésbókinni minni fyrir nokkrum kvöldum síðan (sjá hér). Viðbrögðin urðu þau að ég ákvað að ganga skrefinu lengra og birta þau líka hérna á blogginu mínu. Það sem gerði útslagið voru ábendingar um mennskuna í þessum textum. Ljóðin eru óbreytt frá því ég birti þau inni á Fésbókinni en ég stytti bæði inngang og lokaorð eitthvað.
**************************
Þau hafa ekki gefist mörg andrúmin að undanförnu til að staldra við og og líta til baka en nú er engu að síður runninn upp slíkur tími í lífi mínu að fortíðin bankar á vegginn og vill minna á sig. Spurningar um það hver ég var áður og hvert ég stefndi þá leita á hugann. Svörin sem liggja fyrir koma á óvart vegna þess hvað þau eru í rökréttu samhengi við það sem ég er nú. Lífið er ekki tilviljun og leiðin sem liggur að baki er beinni braut en ég hugði.
Þrenningin
Barnsins bros og blíða
var gleðin mín.
Föðursins fals og flægð
var sorgin mín.
Móðurinnar mildi og minning
var ævin mín.
Fanginn
Gekk yfir akra og tún
í liljuhvítum kjól
en hugur minn var fangi
sem átti ekkert skjól
Allt um kring
Ég hvíli í fangi stormsins
stari í auga myrkursins
finn frið í ölduróti hafsins
leita svara í hvísli þagnarinnar
hyl mig í voðfelldu líni næturinnar
en vaki í mistri drauma minna
Eina nótt
Sem upplýst stórskip
komstu að landi mínu
sem stjörnublikandi næturhiminn
leið nótt okkar funda
því þar varstu kominn víkingur draumsins
en nærsýni mín truflaði yfirsýnina.
Ég sá ekki brimöldur hafsins
sem stýrðu fleyi þínu til mín
né stjörnuhröp næturinnar.
Nú sit ég á brotinni strönd
græt brimsöltum tárum
í hyldjúpa, einmanna nóttina.
Þú víkingur
hins grimma náttúrueðlis
sem brýtur undir þig lönd
í skjóli myrkurs.
Að morgni ertu farinn
en skilur eftir þig
sviðin og brotin lönd.
Bráð
Tvílitur pardus
læðist að mér í nóttinni.
Gullin glóð skín honum
úr augum þar sem hann
virðir mig fyrir sér.
Hann býður mér
rauðar rósir ástarinnar
- og ég læt blekkjast.
Þá réttir hann mér
svartan bikar sorgarinnar
- og fer.
Heiftarþel
Vopnin eggslegin
í eldi sárra harma
í benjasmiðju
salti drifinni.
Hamarinn á
járninu ymur,
hitað í harmaeldi,
nærður af andvörpum,
kælt í táraelfi.
- Þau vopn munu
þig síðar bíta!
Hjartasorg
Hjartað gegnir tregafullum ómi,
hugurinn eyðandi stormi.
Hvarmar blika tárum,
augun tómi.
Varirnar lokaðar í hljóði.
Haust
Á spegilsléttum
roðagylltum
fleti vatnsins
speglaðist flug
svananna
eins og
draumsýn
um haust
Traust og trú
Ókannaðar lendur hugans
hvísla því að mér
að sorgin sé aðeins
óvelkominn gestur í húsi mínu
að í æðum mínum
ólgi blóðið
til að njóta hamingjunnar
að sársaukinn
sé systir gleðinnar,
að ég sé á réttri leið
- þrátt fyrir allt!
Utangarðs
Ég veit að alríki kvöldsins hefur snúið til sandsins.
Það gerðist fyrir framan hendurnar á mér.
Ég vil skilja við blindu mína og standa stöðug
en að mér sækir einhver undarleg þreyta
og mig svíður í brennimerkta fæturna.
Það er enginn sem býst við mér lengur
og gömlu, tómu strætin eru of daufgerð fyrir drauma mína.
Eitthvað
Eins og fjarlægt hvísl
sem ég get ekki greint
eins og óljóst hugboð
sem ég get ekki höndlað.
Samt er eins og ég viti eitthvað
sem ég get ekki komið orðum að.
Þrá
Löngun mín þráir
og hún vakir
Þó ég gangi til hvílu
vakir hún á meðan ég sef
og bíður mín
Þetta er lítil gjöf frá mér til lesenda þessa bloggs en textarnir minna mig á að ég hef alltaf þjáðst af djúpri samkennd og samlíðan vegna ástar minnar á lífinu og fólkinu sem ég hef kynnst. Það er þessi ást sem hefur haldið mér á lífi og knýr mig áfram nú til að berjast gegn því sem ógnar okkur öllum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Afar sterk ljóð og góð – þurfa að koma út á bók ...
Og myndirnar flottar. – Heilar þakkir.
PS. Þú ættir líka að setja þetta í vefmöppurnar: Ljóð. Menning. Bækur.
Jón Valur Jensson, 11.2.2011 kl. 21:32
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 12.2.2011 kl. 00:22
Takk fyrir innlit og innlegg bæði. Þykir sérstaklega vænt um að þú skulir minnat á myndirnar Jón Valur
Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.2.2011 kl. 03:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.