Tunnurnar skrifa alþingismönnum bréf
17.1.2011 | 10:49
Í Icesave-málinu í janúar í fyrra sýndi Ólafur það að hann getur tekið skynsamlegar ákvarðanir fyrir hönd þjóðarinnar ef nógu margir fara fram á það. Það er ástæðan fyrir því að þessi áskorun til hans er komin fram. Eins og málin horfa við þeim sem standa að baki þessari áskorun hefur Alþingi ekki unnið að hagsmunum þjóðarinnar um nokkurt skeið eða frá því allnokkru fyrir hrun. Afleiðingarnar eru þær að það er rúið nær öllu trausti!
Þessar aðstæður eru grundvöllur þeirrar stjórnmálakreppu sem kemur ekki síst fram í því úrræðaleysi sem almennt ríkir meðal stjórnmálastéttarinnar gagnvart efnahagskreppunni. Af skoðanakönnunum að undanförnu er líka ljóst að u.þ.b. helmingur þjóðarinnar veit ekki hvað hún ætti að kjósa ef þing væri rofið og boðað til kosninga. Ég lái henni það ekki miðað við þá blindgötu sem fjórflokkurinn hefur stefnt pólitíkinni í.
Það er greinilegt að stjórnmálastéttin þekkir vel til undirskriftarsöfnunarinnar, sem ég vísaði til hér á undan, en þar er áskorun á forsetans um að skipa utanþingsstjórn áður en það ófremdarástand sem nú er uppi kallar yfir þjóðina enn alvarlegri afleiðingar. Þetta kom ekki síst fram í skrifum þingmanna og ýmissa stuðningsmanna þeirra á vefmiðlum um mánaðamótin október/nóvember á síðasta ári eða í kjölfar þess að undirskriftarlistinn fór í loftið. (ég tók saman yfirlit um þessi skrif um miðbik þessarar færslu)
Tunnurnar skrifuðu líka alþingismönnum bréf 4. nóvember þar sem þær settu fram hugmyndir um það hvernig þingið getur skapað skipun slíkrar stjórnar lýðræðislegri umgjörð. Þær sendu þeim enn eitt bréfið í morgun en það er svohljóðandi:
Góðan daginn!
Það er komið að leiðarlokum og því fyrr sem þið horfist í augu við það því betra. Alþingi nýtur ekki traust til að vinna að hagsmunum þjóðarinnar enda sýnir Rannsóknarskýrslan að stór hluti þeirra sem sitja á núverandi þingi bera ábyrgð á því að efnahagur landsins sigldi í þrot. Það eruð þið sem berið ábyrgð á núverandi stjórnmálakreppu en hún viðheldur og dýpkar þá efnahags- og samfélagskreppu sem er svo áríðandi að bregðast við.
Þrír af fimm núverandi þingflokkum hafa haft til þess ærin tækifæri að grípa til afgerandi aðgerða til að verja hagsmuni heimilanna í landinu en allir hafa sýnt það og sannað að það er fjármálkerfið sem hefur forgang fram yfir hag íslensks almennings. Lítil sem engin uppstokkun hefur farið fram frá bankahruni innan fjármálkerfisins og sama er að segja um stjórnsýslu- og embættismannakerfið.
Þær ríkisstjórnir sem fengu tækifæri til að verja hag almennra kjósenda hafa þjappað sér saman utan um gerendur hrunsins og tekið sig saman um að fylla þjóðina lygi og vafasömum fullyrðingum um eigið hlutverk, valdsvið og tilgang. Þið hafið öll týnt ykkur inni á leiksviði samkeppninnar um völd og athygli fjölmiðla sem flestir hafa tekið sig saman um að styrkja ykkur í þeirri veruleikafirringu að pólitík snúist hreinlega um ykkur sjálf og hvert ykkar situr að völdum.
Á meðan hangir þjóðin á heljarþröm örvæntingar og ótta yfir atvinnu- og eignamissi, íhugar landflótta og sumir taka eigið líf. Við höfum þolað lífskjaraskerðingu; frystingu launa, hækkun vöruverðs, hækkandi vexti, skattahækkanir og skerta heilbrigðisþjónustu, niðurskurð í menntakerfinu og er hótað með enn frekari skerðingu í gegnum ýmis konar gjöld og afborganir af lánum sem urðu til fyrir vanhæfni sumra ykkar og þeirra embættismanna sem þið sjálf eða fyrrum flokkssystkini ykkar komuð til embætta.
Við megum ekki við meiru en bjóðum ykkur að vinna með okkur að þeirri kröfu að hér verði skipuð utanþingsstjórn. Miðað við núverandi aðstæður er sú leið líklegust til að gefa þjóðinni og ykkur sjálfum næði til að leggjast í endurmat og uppgjör. Auk þess hefðu nýir stjórnmálaflokkar og - öfl tækifæri til að undirbúa sig og bjóða fram við næstu kosningar sem verða þegar ný stjórnarskrá verður tilbúin.
Þið eruð enn í bestri aðstöðu til að skapa skipun utanþingsstjórnar lýðræðislegri umgjörð en þá sem Sveinn Björnsson fór eftir við skipun utanþingsstjórnarinnar 1942. Sú sem þetta skrifar vísar í það sem hún sagði í svarbréfi til Ólínu Þorvarðardóttur um miðjan nóvember á síðasta ári:
Þú sem þingmaður hefur tækifæri til að semja frumvarp til bráðabirgðalaga til að skapa skipan utanþingsstjórnar lýðræðislega umgjörð. Þar má t.d. leggja til skipun ráðgefandi samráðshóps valdhafa og almennings um skipun utanþingsstjórnar, hver/-jir sæju um að skipa í þennan hóp og hvernig, hvaða kröfur þeir sem yrðu skipaðir í utanþingsstjórnina verða að uppfylla og síðast en ekki síst að mæla með þjóðatkvæðagreiðslu þar sem þjóðin hefur tækifæri til að kjósa úr einhverjum hópi hæfilegan fjölda fulltrúa í utanþingsstjórnina.
Í þessu samhengi er rétt að taka það fram að við höfum þegar talað við ýmsa málsmetandi einstaklinga varðandi útfærslur á þessu stjórnarfyrirkomulagi en eigum eftir að tala við fleiri. Hugmyndin og útfærslur hennar er því ekki eingöngu orðin til í kollinum á einhverjum sem hægt er að afgreiða sem fasíska tunnuterrorista.
Brown ætti að biðjast afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Algjörlega sammála þessari færslu og þú ert frábær eins og venjulega. Ég vona að dropinn holi steininn og þjóðin fari að hlusta á tunnurnar.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.1.2011 kl. 19:00
Sammála
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 19.1.2011 kl. 02:09
Takk fyrir innlit og innlegg stelpur! Ég fékk ekki eins mörg svör við þessu bréfi eins og þeim sem ég sendi 1. okt. og 4. nóv. sl. en eitt þeirra sem ég fékk núna toppar þó flest önnur svör sem ég hef fengið hingað til. Það er svohljóðandi:
Sæl Rakel.
Það er alltaf sami rostinn í þér.
Kk, XXX
Af skammstöfun kveðjunar sem væntanlega stendur fyrir: kær kveðja, ræð ég að mér sé ætlað að taka innihaldi bréfsins sem hóli
Rakel Sigurgeirsdóttir, 20.1.2011 kl. 02:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.