Ég sæki um skilnað á grundvelli pólitíks ofbeldis!

Það er undarlegt hlutverkið sem valdið hefur tekið sér í sambandi sínu við þjóðina. Í stað þess að það færi í endurhæfingu þegar upp komst um ofbeldið, sem það hafði beitt hana í aðdraganda hrunsins, þá er helst að sjá að það sé orðið að viðtekinni venju að stunda blekkingar og baktjaldamakk. Engar nýjungar hafa komið fram í upplýsingamiðlun heldur lokar valdið sig kirfilega af og svarar í gátum og undir rós varðandi alla sína gjörninga.

Öllum má vera orðið það ljóst að það eru ekki hagsmunir þjóðarinnar sem stjórnvöld hafa í fyrirrúmi þegar kemur að stjórnsýslulegum ákvörðunum heldur eru það hagsmunir peningavaldsins sem ráða ferðinni. Icesave-endaleysan er ekki eini vitnisburðurinn um það. Tildrög þessara svokölluðu „skulda þjóðarinnar“ hafa aldrei verið kynnt á heiðarlegan og opinskáan hátt heldur er almenningi boðið upp á slagorð þar sem höfðað er til meðvirkni hans og þrælslundar.
Kapítalisminn virkar ekki

Núverandi ríkisstjórn lætur ota sér fram sem ofbeldisverkfæri gagnvart þjóðinni sem skal borga Icesave sama hvað það kostar. Það sorglegasta er að stjórnin sem sat þegar Icesave varð til klifaði í sífellu á einhverju sem átti að heita „traust efnahagsstjórn“ en sú sem skal knésetja þjóðina til þeirra hlýðni að greiða afleiðingarnar kennir sig við „velferð“. Það er vandséð hvor braut alvarlegar af sér en það er ljóst að hvorug á erindi við hagsmuni íslensks samfélags.

Það er athyglisvert hve slagorðakennd umfjöllunin um þetta málefni er. Í hvert skipti sem hyllir í einhverja heilbrigða greiningu á sögu Icesave þá er henni óðara drekkt í pólitískum upphrópunum úreltrar nýfrjálshyggjuhugmyndafræði um innistæðueigendur, tryggingasjóði, skuldbindingar og skuldastöðu. Í framhaldinu er reynt að halda því fram að á meðan „Icesave-skuldbindingarnar“ eru ófrágengnar þá sé ekki hægt að snúa sér að neinu sem heitir atvinnuuppbygging eða öðru sem snýr að uppgjöri og endurmati á gildum og áherslum markaðshyggjusamfélagsins.

Valdið hefur ekki einu sinni fyrir því að staldra við og endurmeta einstefnulega hagsmuni fjármálaveldisins, sem það vinnur fyrir, þó marktækar ábendingar hafi komið fram um að Icesave-skuldbindingarnar eru þjóðinni sjálfri algerlega óviðkomandi enda Landsbankinn í einkaeigu þegar til þeirra var stofnað. Í stað þess að finna nýja leið og freista þess að vísa málinu annaðhvort til dómstóla eða fara opinberlega ofan í saumanna á því hverjir bera hina raunverulegu ábyrgð og hvernig var að öllum Icesave-gjörningnum staðið þá taka íslensk stjórnvöld það að sér að vera handrukkarar breskra og hollenskra stjórnvalda gagnvart íslenskum almenningi.

Það er ekki einu sinni staldrað við þá staðreynd sem kom fram í Kastljósi í desember sl. að Landsbankinn komst upp með að gefa upp falskar bókhaldstölur varðandi stöðu bankans í ársuppgjöri fyrir árið 2007 með aðstoð endurskoðunarskrifstofunnar PricewaterhouseCoopers. (sjá hér) Það er þess vegna eðlilegt að almenningur spyrni við fótum og spyrji: hvað gengur stjórnvöldum til þegar þeir sækja það svo fast að íslenskur almenningur borgi kröfuna sem breks og hollensk stjórnvöld gera vegna Icesave? 

Af hverju kjósa stjórnvöld að beita því pólitíska ofbeldi sem þau láta dynja á almenningi? Hvers vegna er svona mikið í húfi fyrir þau að verja fjármagnseigendurna fyrir því að mæta afleiðingum gjörða sinna? Hvers vegna fórnar Steingrímur hugsjónum sínum og mannorði með því að ganga svo freklega fram í því að verja hagsmuni auðvaldsmafíunnar? Hvers vegna er hann orðinn sá sami og hann barðist gegn áður?

Mafíuforingi auðvaldsins gegn almenningi

Ég hef aldrei verið sérstakur aðdáandi Steingríms en þó treysti ég honum einu sinni til þess að standa við orð sín og hugsjónir. Annað hefur nú komið í ljós og það sama má segja um Jóhönnu og vel flesta aðra sem sitja í ráðherrastólum núverandi ríkisstjórnar. Þessir einstaklingar eiga það allir sammerkt að ráða ekki við verkefnið sem þeir voru kosnir til að gegna.

Nú mætti e.t.v. skilja orð mín þannig að ég sé að mæla með því að núverandi ríkisstjórn yrði felld til að koma Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki að en það er öðru nær! Engum treysti ég verr en Sjálfstæðisflokknum til að koma að völdum enda sjáum við afleiðingarnar að stjórnarsetu þeirra síðustu tvo áratugina. Aðrir þingflokkar hafa hvorki nægilegan styrk eða trúverðugleika til að koma á nauðsynlegum friði og sátt í samfélaginu til að vinna að brýnustu málum þess.

Þessu ofbeldissambandi valdsins og almennings verður hins vegar að linna. Við sem byggjum þetta samfélag verðum að hafa hugrekki til að finna aðrar leiðir til að byggja það upp þannig að við sjálf og afkomendur okkar þurfi ekki að búa við þetta pólitíska ofbeldi sem þjónar hagsmunum fjármálaveldisins. En þá verðum við líka að KjarkurÞORA!

Við verðum að þora að horfa eftir öðrum leiðum til að komast út úr þeirri stöðnun sem núverandi stjórnmálakreppa viðheldur. Margir ætla að koma saman núna á mánudaginn sem er 17. janúar og mótmæla kyrrstöðunni. (sjá hér, hér og hér) Sumir hafa sett fram kröfu um gagngera uppstokkun og svo eru nokkrir sem hafa komist að þeirri niðurstöðu að utanþingsstjórn sé sú leið sem er skynsamlegast að fara við núverandi aðstæður.

Skoðaðu þetta: http://utanthingsstjorn.is/ og gerðu það upp við þig hvort þú þorir! Ávinningurinn af þessari leið yrði sá að það skapaðist næði til að leggjast í endurmat og uppgjör; bæði fyrir almenning og valdið. Auk þess hefðu nýir stjórnmálaflokkar og - öfl tækifæri til að undirbúa sig og bjóða fram við næstu kosningar sem verða þegar ný stjórnarskrá verður tilbúin.

Ef þú vilt kynna þér betur söguna á bak við þessa kröfu bendi ég þér á bloggfærsluna:  Við verðum að komast út úr þessari vitleysu! Svo tók ég saman spurningar og svör varðandi utanþingsstjórn.

Perhaps the way to meet tomorrow's challenges is not to use yesterday's solutions, but to dare to think the previously unthinkable, to speak the previously unspeakable, and to try that which was previously out of the question." (Neale Donald Walsch)


mbl.is Steingrímur gríðarlega bjartsýnn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr, heyr ég er algjörlega sammála þér Rakel

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 13.1.2011 kl. 00:02

2 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Sé ykkur vonandi ekki fyrir margmenni á mánudaginn.

Axel Þór Kolbeinsson, 13.1.2011 kl. 00:12

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Axel, hvað meinarðu?

Rakel Sigurgeirsdóttir, 13.1.2011 kl. 00:14

4 identicon

Heil og sæl Rakel; - og aðrir góðir gestir, þínir !

Þráfaldlega; ef ef ekki,....... fjórða sinni, á nýliðnu ári, hvatti ég þá, sem þyrðu, að hafa samband við mig, til skipulagningar róttækra aðgerða, gegn þeim Steingrími, Rakel mín, en heldur urðu undirtektir dræmar, svo sem.

Hvar; ég er einn, afkomenda, þeirra Kveldúlfs úr Hrafnistu - og Valgarðar hins Gráa, að Hofi á Rangárvöllum (föður Marðar),, léti ég mér í léttu rúmio liggja, þó þau Steingrímur - og orma gryfju hyski hans, fengju að snýta rauðu, svo losna mætti við þeirra Helvítis fargan, endanlega, úr samfélagi okkar.

Og það; með því að bjóða þessum gæksnum, upp á varanlega útlegð, héðan frá Íslandi, sem I. valkost, gott fólk.

Með kveðjum góðum; úr Árnesþingi, utanverðu /

Óskar Helgi 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 13.1.2011 kl. 00:22

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég tala ekki um skipulagningu aðgerða fyrirfram hér á þessum vettvangi Óskar minn

Rakel Sigurgeirsdóttir, 13.1.2011 kl. 00:49

6 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Það hefur blasað við síðan krassið varð að hefðbundnir íslenskir pólitíkusar mundu ekki ráða við málið - og væri heldur ekki treyst til þess af marggefnum tilefnum. Hér eru mínar vangaveltur um þetta síðan í nóvember 2008.

Haraldur Rafn Ingvason, 13.1.2011 kl. 00:57

7 identicon

Komið þið sæl; á ný !

Haraldur Rafn !

Um margt; hin áhugaverðasta grein (frá Nóv. 2008), hjá þér, en,..... allt of friðsöm viðhorf, gagnvart þessu illþýði, sem við þurfum að koma, af höndum okkar, ágæti drengur.

Útlegð; 6 - 8000 sníkjudýra (stjórnmála- og viðskipta svindlarar - embættismenn - hempuklæddu Þjóðkirkju viðrinin, t.d.), úr íslenzka kerfinu, væri hin bezta byrjun, gott fólk.

Og það; með harðneskju mikilli - að sjálfsögðu.

Með; ekki lakari kveðjum - en þeim fyrri /

Óskar Helgi 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 13.1.2011 kl. 01:12

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Mér sýnist að Haraldur hafi komið fram með tillögu strax haustið 2008 sem er þess virði að skoða ef við viljum skapa frið og sættir í íslensku samfélagi. Síðan eru liðin tvö ár og stjórnvöld sem lofuðu okkur gagnsæi, skjaldborg um heimilin og norrænni velferð hafa varið markaðshyggjuöflin af síst minni elju en þau sem keyrðu hér allt í kaf.

Reiðin magnast og sýður undir á meðan þessu heldur fram. Það eru líka að verða síðustu forvöð að finna leiðir til sátta. Annars brestur hér á landflótti þeirra sem hugnast ekki að standa í alvöru skæruhernaði sem kynnu að ógna lífi og limum.

Það má vera að öll viðleitni til sátta sé fyrirfram dauðadæmd en sennilega getum við ekkert fullyrt nema reyna. Ég skil þó vel þá sem segja slíkar leiðir fullreyndar. Skil þá mæta vel!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 13.1.2011 kl. 01:35

9 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Axel er að vona eins og ég að það verði svo margir sem mæta á mánudaginn að við tínumst í fjöldanum! Rakel það er rétt hjá þér skæruliðahernaður er að hefjast og það er stig 2 í byltingunni sem ég hef varað við að kæmi ef ekki væri hlustað á okkur.

Sigurður Haraldsson, 13.1.2011 kl. 03:42

10 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þú meinar ég vona samt að ég sjái Axel því það er alltof langt síðan ég sá hann!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 13.1.2011 kl. 04:00

11 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

   Úr slagara:"Hvar hefurðu verið öll þessi ár" ,þetta kom fram á varir mér,því skyldi ég ekki bara skrifa það.    Ég hef verið svo mikil strákaflenna,en allar góðar raddir,eiga aðdáun mína,hvers virði hún er ???? En ég kann enn að fagna gamla hróið. Spái soldið í tilkynningar þeirra kært kvöddu,athuga model,ártalið, jamm, kanski næ ég að upplifa,nýja þjóðræknisstjórn. Aldrei hef ég misst svefn,fyrr en nú af áhyggjum af þjóð minni. Lifið heil.

Helga Kristjánsdóttir, 13.1.2011 kl. 06:07

12 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Sigurður náði því.  Þetta var svolítið asnalega orðað hjá mér.

Ef það verður það fjölmennt á mánudaginn að engin leið verður fyrr okkur að rekast hvort á annað koma aðrir dagar.

Axel Þór Kolbeinsson, 13.1.2011 kl. 08:06

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð öll, heillafólk hér að ofan.

Réttilega bendir þú á Rakel, að fall þessar stjórnar, mun ekki þýða endurreisn gamalla stjórnarhátta, sjálftöku og spillingar.

Að fella þessa stjórn er liður í að byggja upp Nýtt Ísland, ekki gamalt Ísland.

Margir styðja þessa stjórn, því þeir eru alltaf í baksýnisspeglinum, treysta hvorki sjálfum sér eða öðrum til að hugsa hlutina upp á nýtt.

Eða berjast fyrir betri heimi.

Megi margmenni og fjöldi tunna burt svik og aumingjaskap, en samt óska ég þess að þið sjáið samt trén fyrir skóginum, og fáið öll tækifæri í prinsessuknús (var að lesa Gunnar Helga og Björgvin Frans í gær í kvöldlestrinum).

Jaxlar og skörungar munu mynda þann þunga sem að lokum fellir hinn marghöfða þursa auðránsins.,

Baráttukveðjur til ykkar allra.

Og takk fyrir góða pistil Rakel.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.1.2011 kl. 08:13

14 Smámynd: Haukur Nikulásson

Góður pistill Rakel.

Ég held að fólk sé ekki að gera sér grein fyrir því hversu nálægt stjórnleysi við erum. Það er veruleg hætta á að við séum að missa tökin á því að reka samfélagið og það er vegna þess óréttlætis sem stærri hluti þjóðarinnar býr við.

Ábyrgðin á þessu er hjá "norrænu velferðarstjórninni" sem gerir ekkert af viti þrátt fyrir að hafa fengið gott umboð til þess á sínum tíma. Hún varð bara spillingunni að bráð á nó tæm.

Haukur Nikulásson, 13.1.2011 kl. 10:11

15 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Nákvæmlega Haukur enda flestir sem standa í brúnni í stjórninni gamlir og spilltir stjórnmálamenn og ekki nokkur leið að búast við öðru frá þeim!

Sigurður Haraldsson, 13.1.2011 kl. 10:33

16 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Ég er líka að sækja um skilnað við gamla Ísland eftir nær 50 ára efnahagslegs og pólitísks ofbeldissambands.

Ævar Rafn Kjartansson, 13.1.2011 kl. 11:06

17 Smámynd: Mofi

Virkilega góður pistill, þetta er alveg sama upplifunin og ég hef af þessu ástandi. Verst að ég veit ekki alveg hverju ég ætti að mótmæla, eða þ.e.a.s. hvað ég vill að verði gert. Má segja að ég vildi aðalega sjá Steingrím gera það sem hann hefur gefið sig út fyrir að vilja undanfarin ár...

Mofi, 13.1.2011 kl. 11:07

18 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég þakka fyrir innlit og innlegg. Ég sé að þið eruð sammála því að núverandi ástand gengur ekki upp enda hæpið að nokkur geti haldið öðru fram kinnroðalaust. Mér heyrist á öllu að þetta sé mjög almenn skoðun. Það reynist mörgum hins vegar erfiðara að gera það upp við sig hvað þeir vilja í staðinn.

Tvo nýliðna áratugi bjuggum við undir meirihluta stjórn Sjálfstæðisflokksins þannig að við þurfum ekki að horfa langt aftur til að gera það upp við okkur hvort það er þangað sem við viljum hverfa aftur. Ég leyfi mér að efast um að þeir séu margir og ég efast um að að sé nokkur sem gæti haldið því fram að sú niðurstaða myndi vera líklegust til að koma á almennum friði og skapa sátt í samfélaginu.

Við verðum að átta okkur á því hvort það gamla er úrsérgengið eða hvort það þurfi bara að taka það ærlega í gegn. Við verðum að fá tíma til að skoða hvort við getum notast við það gamla eða hvort við þurfum að byggja upp eitthvað nýtt. Við verðum líka að fá næði til þess.

Við höfum leið til að skapa þetta næði en við verðum að ÞORA að nýta okkur hana.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 13.1.2011 kl. 13:07

19 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sammála hverju orði hér Rakel mín.  Og ég verð með ykkur í huganum 17. janúar, með kveðju frá Austurríki.

Baráttukveðjur!!!

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.1.2011 kl. 14:13

20 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er sko ekki ónýtt að hafa þig með þó þú sést úti í Austurríki

Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.1.2011 kl. 03:29

21 identicon

Tel að Samfylkingin sé dauðasæmd að fara í kosningar með ESB málið sem öllum má vera ljóst að á ekki að vera forgangsmál núna. Tel að hægt sé a snúa sér að kvóta og auðlindamálum sem eru á stefnuskrá beggja flokka og í stj.sáttmála.

Tel líka að bylting innan frá sé mjög vel möguleg þar sem Stgr. og Jóh. víkja - hvort sú stjórn er utanþings er tækniatriði - ég er spenntari fyrir hugtakinu "sérfræðingastjórn" Tvö hugtök rugla umræðuna.

Tel að öfl innan VG sjái að hægt er að víkja þessu fólki frá, taks ESB af dagskrá og snúa sér að tiltekt. 

Vandinn virðist helst sá að Samf. hefur ekki sjáanleg leiðtogaefni.  En það gæti verið styrkur ef menn kjósa að horfa framhjá hefð um "sterka leiðtoga"

Ásgeir Sigurvaldason (IP-tala skráð) 14.1.2011 kl. 11:55

22 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég sé að vandinn horfir ekki ólíkt við þér eins og mér. Ástæðan fyrir því að hugtakið utanþingsstjórn varð fyrir valinu er sú að það er þekkt varðandi stjórnarmyndun af því tagi sem lítur út fyrir að vera skynsamlegasta leiðin til að binda endi á þá margvíslegu kreppu sem við búum við. Sérfræðingastjórn, neyðarstjórn, bráðabirgðastjórn eru síst verri hugtök til að lýsa þeirri leið sem um ræðir.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.1.2011 kl. 19:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband