Við verðum að komast út úr þessari vitleysu!
14.11.2010 | 07:20
Ef að af líkum lætur þarf þjóðin nokkra daga til viðbótar til að átta sig á útkomunni sem kom út úr sýndarviðbrögðum ríkisstjórnarinnar við stóru mótmælunum þann 4. október síðastliðinn. Ég ætla ekki að kafa frekar ofan í þau en bendi á það sem Hagsmunasamtök heimilanna og Marinó G. Njálsson hafa skrifað nú þegar um 40 blaðsíðna skýrslu sem var afrakstur þeirrar vinnu.
Ég ætla hins vegar að freista þess að benda á leið sem við getum farið í þeim tilgangi að bæta stöðu almennings og samfélagsins í leiðinni með því að rekja aðdragandann að því að undirskriftarsíðan með þessari áskorun til forsetans varð til. Þessi saga hefur að einhverju leyti verið sögð hér á þessu bloggi á undanförnum dögum. Hér verður þó helstu atburðir hennar rifjaðir upp og áréttaðir. Til að gera frásögnina aðgengilegri ætla ég að setja hana upp í eins konar dagbókarform:
1. október
Töluverður fjöldi fólks safnaðist saman niður á Austurvelli í tilefni þingsetningarinnar sem fram fór þennan dag. Einn þeirra hafði sent 36 þingmönnum uppsagnarbréf í tilefni að því hvernig þeir vörðu atkvæði sínu um landsdóm nokkrum dögum áður. Þar segir m.a. um þetta atriði:
Með því sýndir þú svart á hvítu að þér er ekki treystandi til að gegna því ábyrgðarmikla starfi að vera þingmaður sem vinnur að velferð lands og þjóðar. Þú lokaðir augunum fyrir því upplausnarástandi sem ríkir í samfélaginu og útilokaðir þær sterku raddir sem krefjast uppgjörs og nýrra starfshátta sem munu leiða til siðvæðingar bæði innan þings og utan. (Sjá hér)
Hugmyndin að tunnumótmælunum þann 4. október varð til strax eftir mótmæli þessa dags en hefði aldrei orðið að veruleika nema fyrir þann hóp sem var tilbúinn til að taka þátt. Viðburður var settur upp á Fésbókinni (Sjá hér) til að vekja athygli á fyrirhuguðum mótmælum undir setningaræðu Jóhönnu Sigurðardóttur. Yfirskrift mótmælanna var: Tunnumótmæli fyrir brotinn trúnað. Þar sagði m.a:
Gleymum því ekki að stofnunin sem steypti fjármálakerfinu í glötun fyrir tveimur árum, með vanhæfni sinni og spillingu, steypti lýðræðinu sömu leið í atkvæðagreiðslunni um landsdóm síðastliðinn þriðjudag. Því er komið að okkur almenningi að spyrna við fótum áður en þeir missa landið okkar niður um svelginn vegna áframhaldandi afglapa.
Næstu dagar fóru í að safna tunnum en söfnunin fór þannig fram að leitað var að tunnum í reiðuleysi og þær hirtar en auk þess höfðu ýmsir samband við aðstandendur mótmælanna og gáfu þeim tunnur. Sögusagnir um að N1 hafi verið þar á meðal eru algerlega úr lausu lofti gripnar!
Undarlegasta upphringingin sem aðstandendum þessara mótmæla barst var frá ungri konu sem er dóttir þokkalega áberandi frammámanns í samfélaginu. Sú sagðist hafa starfað í lögreglunni. Hún sagði líka að hún og kærastinn hennar væru algerlega búin að missa trúna á getu og vilja Alþingis til að vinna að brýnustu hagsmunamálum almennings. Það sem þau lögðu til mótmælanna þetta kvöld voru 2000 egg.
4. október
Þrátt fyrir að fyrirvarinn væri stuttur fengu um 20.000 manns boð á viðburðinn og tæplega 3.000 staðfestu komu sína. Af þessu, upphringingum og bréfasendingum dagana fyrir mótmælin grunaði aðstandendur mótmælanna að þau yrðu fjölmenn en engum þeirra grunaði þó að þau næðu þeirri stærð sem raunin varð.
Opinberar tölur segja að þeir hafi verið um 8.000 sem söfnuðust saman þetta kvöld undir stefnuræðu Jóhönnu Sigurðardóttur. Sumir hafa bent á að þeir hafi verið nær 16.000. Þar á meðal eru lögreglumenn sem voru við löggæslu þetta kvöld.
Fjölmiðlar tóku viðtöl við mótmælendur sem sögðu nánast allir það sama. Þeir treysta einfaldlega ekki núverandi þingmönnum til að mynda starfhæfa stjórn sem muni hafa almannahagsmuni að leiðarljósi. Sjá t.d. hér:
Enginn innan þingsins hefur áræði og/eða bolmagn til að halda þessu almennilega á lofti!
5. otóber
Þeir allra hörðustu meðal mótmælenda söfnuðust líka saman fyrir framan alþingishúsið þennan dag í mótmælum sem báru yfirskriftina: Tunnutaktur sem kallar á heiðarlegt uppgjör
Meðal þess sem var sett í texta þessa viðburðar inni á Fésbókinni var eftirfarandi
Þess vegna höldum við áfram að mótmæla á morgun en ekki síður vegna þess að nú veit þjóðin að hún getur ekki treyst núverandi þingmönnum sem er það fyrirmunað að koma fram af heiðarleika og réttlæti. Lausnin er því ekki þjóðstjórn eða nýjar alþingiskosningar.
Atkvæðagreiðslan um landsdóm síðastliðinn þriðjudag færði þjóðinni heim sanninn um það að stór hluti þingheims telur sig yfir alla ábyrgð hafinn. Þess vegna stöndum við frammi fyrir því að alþingiskosningar munu ekki skila okkur neinu nema sömu mafíunni aftur. Mafíu sem setur bankaelítuna og peningamennina alltaf í fyrsta sæti.
Lýðræðisleg lausn gæti verið þjóðkjör um þingrof því núverandi þing er því miður handónýtt. Jóhanna ætti svo að óska eftir hugmyndum almennings í landinu að samsetningu nýs þings frekar en reyna að hræra upp í gömlum graut. (Sjá hér)
Það vakti athygli aðstandenda mótmælanna að mbl.is hafði þennan texta orðréttan eftir. (Sjá hér) Það var líka athyglisvert að langflestir netfjölmiðlanna sögðu frá boðuðum tunnumótmælum og mættu yfirleitt til að taka myndir og segja frá þeim. Aðstandendur mótmælanna veittu því líka athygli að það heyrði til undantekninga að fjölmiðlar reyndu að tala tunnurnar niður í tölum og annarri umfjöllun um mótmælin sem þær stóðu fyrir allan októbermánuð.
6. október
Mætingin deginum áður orkaði ekki hvetjandi til að halda mótmælunum áfram en í tilefni þess að tveggja ára afmæli hrunsins var þennan dag var þó ákveðið að blása enn einu sinni til mótmæla fyrir framan alþingishúsið. Yfirskrift þessara mótmæla var: Tunnutónar í tilefni tveggja ára afmælis hrunsins.
Í texta viðburðarins inni á Fésbókinn segir m.a. um tilefni mótmælanna:
[Þingmennirnir] sem ráða ekki við verkefnið sem þeir hafa staðið frammi fyrir í tvö ár án þess að lyfta hendi fyrir almenning í landinu! Reynslutíminn er liðinn og þolinmæði okkar með. Þingmenn sem búa hvorki yfir heiðarleika né ábyrgðartilfinningu eru ekki færir um að ráða við stærð verkefnisins og þess vegna viljum við að þeir víki nú þegar fyrir hæfara fólki. (Sjá hér)
8. október
Aðfararnótt þessa föstudags skrifar einn aðstandandi tunnumótmælanna bréf til forseta Íslands þar sem hann óskar eftir fundi með honum til að ræða stöðuna sem uppi er í samfélaginu og möguleikana til að bæta úr henni.
Kl. 10:00 Fjórar konur úr hópi aðstandenda tunnumótmælanna mæta á fund forsega Alþingis sem hefur meiri áhyggjur af afdrifum alþingishússins en tilefni mótmælanna. Ein þeirra sem var boðuð á fundinn en komst ekki vegna vinnu sendir frá sér bréf.
Enginn sýnir þessu áhuga nema Svipan sem sagði ekki aðeins frá þessari heimsókn heldur birti líka bréfið (Sjá hér)
Viðbrögð Alþingis við mótmælunum
Fulltrúar ríkisstjórnarinnar kusu að skilja tilefni tunnumótmælanna þannig að þau miðuðu að því að knýja þau til aðgerða gagnvart skuldavanda heimilanna. Þau neituðu m.ö.o. að skilja það að aðgerðarleysi þeirra varðandi afdrif heimilanna frá því þau komust til valda hefur rúið þau öllu trausti. Núverandi stjórnarflokkar hafa sýnt það og sannað á þessu einu og hálfa ári að þeim er ekkert frekar treystandi en ríkisstjórnarflokkunum sem voru við völd á árunum á undan.
Vandtraustyfirlýsing mótmælanna var hundsuð og skipuð samráðsnefnd til að skoða skuldavanda heimilla. Fulltrúum Hagsmunasamtaka heimilanna var m.a.s. boðið að taka þátt í viðræðum nefndarinnar við hagsmunaaðila. Þessi saga er rakin hér. Hún hefst 8. október síðastliðinn.
11. október
Aðstandandi mótmælanna sem skrifaði forseta Íslands bréf fékk upphringingu frá skrifstofu forsetans þennan dag þar sem honum var boðið á fund Ólafs Ragnars Grímssonar á Bessastöðum. Bréfritarinn óskaði eftir því að taka fleiri með sér og var boðið að taka einn til tvo með sér.
12. október
Kl. 10:00 Tunnumótmæli fyrir framan stjórnarráðið í tilefni af ríkisstjórnarfundi. Yfirskrift mótmælanna var: Tunnum ríkisstjórnina. Um 15.000 fengu boð á mótmælin en þeir voru ekki nema tæplega 600 sem boðuðu komu sína. Raunveruleg mæting náði þó tæplega þeirri tölu. Í texta viðburðarins inni á Fésbókinni segir m.a:
Við viljum ekki aðeins skipta út spilltum stjórnmálamönnum fyrir nýtt fólk sem tekur kjör almennings fram yfir örlög steinhússins við Austurvöll heldur viljum við fólk sem sýnir það í verki.
Við höfum ekki efni á að taka við fleiri loforðum frá stjórnmálamönnum sem hafa látið Alþjóðagjaldeyrissjóðinn binda hendur sínar. (Sjá hér)
Kl. 14:00 Fundur þriggja aðstandenda tunnumótmælanna á Bessastöðum með forsetanum ásamt aðstoðarmanni hans. Eftirfarandi birtist á vef forsetaembættisins af þessu tilefni:
12.10.2010
Forseti á fund með Rakel Sigurgeirsdóttur, Ástu Hafberg og Þórarni Einarssyni um mótmælin undanfarið, áherslur og efnisþætti; stöðuna í atvinnumálum og skuldavanda heimilanna. (Sjá hér)
Næstu dagar á eftir
Tveir þeirra sem sátu fundinn með forsetanum styrktust í þeirri sannfæringu sinni að hvorki þjóðstjórn né kosningar dygðu til að koma af stað þeim róttæku áherslubreytingum sem samfélagið þarf á að halda. Það var og er enn mat þeirra að utanþingsstjórn sé heillavænlegasti kosturinn í stöðunni. Miðað við þær raddir sem heyrðust í mótmælunum 4. október og heyrast enn eru margir sammála þessari skoðun þeirra.
Til að draga þetta fram var því ákveðið að stofna undirskriftarsíðu með áskorun til forsetans um skipun utanþingsstjórnar (sjá hér) en þeir þurftu að hafa uppi á einstaklingum með kunnáttu í að setja upp rafræna undirskriftarsíðu. Að lokum tókst að hafa uppi á hópi sem var tilbúinn að leggja sitt af mörkum svo þetta gæti orðið að veruleika.
19. október
Eftir tunnumótmælin við Landsbankann (sjá hér) settust þeir aðstandendur tunnumótmælanna sem heimsóttu forsetann niður á kaffihúsi með aðilum sem voru tilbúnir til að aðstoða þá við að koma upp þessum undirskriftarlista. Það var ákveðið að þeir tveir semdu textann og var hann settur saman þá um kvöldið og sendur hinum til yfirlestrar.
25. október
Hópurinn kom saman til að vinna að uppsetningu undirskriftarsíðunnar. Það þarf að huga að ýmsu við frágang undirskriftarlista af þessu tagi og því miður kom það í ljós að kvöldið entist ekki til að ljúka þeirri vinnu.
26. október
Einn aðstandenda tunnumótmælanna lýkur við að semja texta á undirsíður með sögu utanþingsstjórna og hverjir standa að henni ásamt fréttatilkynningu á fjölmiðla.
29. október
Síðan með undirskriftarsöfnuninni fór í loftið í hádeginu þennan dag. Viðburður var stofnaður inni á Fésbókinni þar sem boðað var til viðburðar til að fylgja eftir kröfunni um utanþingsstjórn. Fréttatilkynning var send á alla fjölmiðla. Þar var sagt frá undirskriftarsíðunni og boðuðum mótmælum. Enginn nema Svipan (sjá hér) birti hana en af skrifum næstu daga er augljóst að bæði blaðamenn, álitsgjafar og einhverjir innan ríkisstjórnarinnar hafa kynnt sér innihald hennar.
Á ríkisstjórnarfundi þennan morgun var tillaga forsætisráðherra um samstarfsáætlun í atvinnu- og vinnumarkaðsáætlun samþykkt. (Sjá hér)
31. október
Ögmundur Jónasson birti harðorða færslu þar sem hann sakar þá sem gæla við hugmyndina um utanþingsstjórn um forræðishyggju. Það vekur sérstaka athygli að svo er að sjá að hann vitni til viðburðarins sem var settur inn á Fésbókina tveimur dögum áður (sjá hér) þar sem hann talar um stjórnmálastéttina.
1. nóvember
Bjarni Benediktsson lýsir því yfir að hann vilji þjóðstjórn sem starfi saman í einhverja mánuði áður en boðað verði til kosninga. Það vekur líka athygli að þennan dag kynnir flokkurinn sem hann leiðir um úrlausnir í atvinnumálum og skuldavanda heimilanna.
Ármann Jakobsson skrifar hreint ótrúlega meðvirka grein til stuðnings núverandi ríkisstjórn en gegn þeim sem hann kallar tunnuterrorista. Í þessari grein sakar hann líka hægri sinnaða fjölmiðla um að spana upp ákveðna tegund mótmælenda.
2. nóvember
Enn fleiri sjá tilefni til að draga fram pennann og ráðast beint gegn hugmyndinni um utanþingsstjórn. Þ. á m. er Þóra Kristín Ásgeirsdóttir sem heldur því fram að tunnumótmælunum sé stýrt úr Valhöll en af ýmsu sem hún skrifar er ljóst að hún veit um hvað mótmælin snúast en kýs að fara með útúrsnúninga og rangfærslur. Hún sakar mótmælendur um að stýrast af hreinum fasisma og hatursáróðri og heldur því fram að allri umræðu hafi verið snúið á hvolf af meðvirkum fjölmiðlum. Þar á hún sennilega við sömu fjölmiðla og Ármann Jakobsson kallar hægri sinnaða.
Björn Þór Sigþórsson byggir skrif sín greinilega á texta áskorunarinnar inni á undirskriftarsíðunni en í stað þess að hringja í ábyrgðarmenn undirskriftarsöfnunarinnar og spyrja þá þeirra spurninga sem eru greinilega að þvælast fyrir honum kýs hann að snúa út úr, vefengja og gera lítið úr hugmyndinni enda tekur hann það fram að hann treystir Jóhönnu Sigurðardóttur þrátt fyrir allt. Að hans áliti eru það Hreyfingin og lausbeislaðir tunnumótmælendur sem eru leiddir af varaformanni Frjálslynda flokksins sem bera ábyrgðina á hugmyndinni um utanþingsstjórn.
Hann hefur þó greinilega lesið sér nógu vel til, til að átta sig á að það er einhver áherslumunur á hugmyndunum. Að öðru leyti gerist hann uppvís af fáfræði sem gæti skýrst af flokkshollustu og ótta við að flokkurinn hans kunni að stafa hætta af hugmyndinni um utanþingsstjórn. Af skrifum hans að dæma er hann á þeirri skoðun að stjórnmál eigi að vera sérsvið stjórnmálamanna. Skiptir ekki máli hvort þeir eru til þess hæfir eða ekki. Eðlilega má spyrja sig að því hvort Björn geri ráð fyrir því að það að vera stjórnmálamaður samkvæmt hans skilgreiningu sé meðfæddur eiginleiki en ekki áunninn?
Jónas Kristjánsson skrifar einhvern hrærigraut þar sem hann hrærir öllu saman en virðist þó fylgjast nógu vel með til að vita um fund aðstandenda tunnumótmælanna með forsetanum. Af skrifum hans að dæma veit hann greinilega líka af boðuðum mótmælum þann 4. nóvember. Hann heldur því hins vegar fram að þau séu að undirlagi Hreyfingarinnar.
Þennan dag birtist líka athyglisvert viðtal við Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem hún segist hafa meiri áhyggjur af stuðningi við mótmælin en minnkandi fylgi við ríkisstjórn hennar! Að hennar mati er ríkisstjórnin að gera allt sem í hennar valdi stendur til að verja heimilin og velferðarkerfið. Þjóðin ætti því að sýna henni þolinmæði og stuðning með jákvæðu hugarfari í stað þess að vera svona neikvætt.
3. nóvember
Ríkisstjórnin fundar með forystumönnum stjórnarandstöðuflokkanna um mótun samstarfsvettvangs í atvinnu- og vinnumarkaðsmálum. Aðrir sem eru nefndir til samstarfsins (sjá hér) vekja ekki miklar vonir um jákvæðari útkomu út úr því en fram komu í svokölluðum stöðugleikasáttmála. (Sjá hér)
4. nóvember
Boðað til tunnumótmæla í tilefni af því að þing kemur saman aftur eftir einnar og hálfrar viku þinghlé. Yfirskrift mótmælanna að þessu sinni var: Tunnurnar kalla á utanþingsstjórn. Um 16.000 fengu boð á viðburðinn. Tæplega 1000 boðuðu komu sína. Í fyrsta skipti síðan tunnumótmælin hófust eru mótmælendur sem mættu taldir niður og sagðir hafa verið um 300 til 400. Sumir skrifa það sem þkjósa að telja til fylgishruns við mótmælin á það að utanþingsstjórn njóti ekki fylgis.
Hið rétta er að þegar flest var söfnuðust saman á milli 1000 og 1500 manns. Aðeins 300-400 tóku þátt í að berja tunnurnar. Þeir sem talað var við sögðust vilja sjá annað stjórnarfyrirkomulag. Viðtal er tekið við annan ábyrgðarmann áskorunarinnar til forsetans af starfsmönnum Kastljóss en þar sem hann er í framboði til stjórnlagaþings er hann klipptur út.
Ábyrgðarmenn áskorunarinnar sem tóku líka þátt í að boða til þessara mótmæla skrifuðu þingmönnum bréf þar sem þeir bentu þingmönnum m.a. á það að með þessari kröfu væri komið tækifæri fyrir þá til að brúa bilið á milli þeirra og þjóðarinnar. Nú hefðu þeir tækifæri til að búa skipun utanþingsstjórnar lýðræðislegra umhverfi. Bréfið var sent á alla fjölmiðla og enn og aftur var það eingöngu Svipan sem segir frá. (Sjá hér)
Fimm þingmenn svöruðu þessu bréfi og einn þeirra tók undir hugmyndina um utanþingsstjórn með þessum orðum:
það að krefjast utanþingsstjórnar er fullkomlega réttlætanlegt að mínu mati. Ég bendi líka á að fyrir ekki svo löngu síðan sátu í ríkisstjórninni tveir utanþingsráðherrar. Án vafa þeir tveir sem nutu hvað mest trausts hjá þjóðinni.
Þó að forseti myndi skipa utanþingsstjórn þá sæti Alþingi áfram. Hinir lýðræðislega kjörnu fulltrúar þjóðarinnar, alþingismenn, sætu áfram í sínum stólum. Þetta myndi líklega gera það að verkum að Alþingi myndi styrkjast gagnvart framkvæmdavaldinu en eins og staðan er í dag má halda því fram að Alþingi sé valdalaust gagnvart hinu svokallaða ráðherraræði eða flokksræði.
Ég er algerlega ósammála því sem haldið er fram hér að neðan [hér vísar viðkomandi þingmaður í svar frá Ólínu Þorvarðardóttur sem hún sendi líka á allar þingmenn] í það að verið sé að framselja umboð almennings í hendur eins manns. Bendi líka á að hann er lýðræðislega kjörinn af þjóðinni og hefur það stjórnarskrárbundna hlutverk að koma á starfshæfri ríkisstjórn. (leturbreytingar eru mínar)
Þrátt fyrir að þingmaðurinn sem skrifaði þetta bréf hafi sent það á alla þingmenn hefur engin alvöru umræða farið fram inni á þinginu um þetta atriði!
Síðastliðnir dagar
Lítið hefur farið fyrir umræðum um stjórnmálakreppuna sem þjóðin býr við inni á Alþingi og úti í samfélaginu á undanförnum dögum. Ég geri þó ráð fyrir að flestir séu búnir að átta sig á því að enginn núverandi þingflokka hafi burði eða getu til að ráða við það alvarlega ástand sem sú kreppa viðheldur á öllum sviðum samfélagsins.
Nýlega birti Market and Media Research niðurstöður skoðanakönnunar sem bendir þó til að hugmyndin um utanþingsstjórn njóti vaxandi fylgis. MMR kannaði afstöðu almennings til nokkurra kosta við samsetningu ríkisstjórnar sem hafa verið í umræðunni að undanförnu. Af þeim sem tóku afstöðu voru 33,7% sem sögðu ákjósanlegast að mynduð yrði utanþingsstjórn [...] (Sjá hér (leturbreytingar eru mínar)
Nánasta framtíð
Við núverandi ástand stefna sífellt fleiri heimili og fyrirtæki í þrot. Almennt upplausnar- og ófremdarástand stigmagnast með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Það er ljóst að sífellt fleiri bætast í þann hóp sem mun ekki hafa efni á að framfleyta sér og sínum. Raðirnar fyrir framan Fjölskylduhjálpina munu lengjast um allt land og spurning hve lengi hún og aðrar hjálparstofnanir geta sinnt neyð þeirra sem eiga ekki fyrir mat. Að öllu samanlögðu má því búast við að landsflótti og sjálfsmorðstíðni eigi eftir að aukast verulega á næstu vikum.
Viðbrögð
Ég hef bent á það áður að það eru fimm möguleikar í núverandi stöðu:
1. Þjóðstjórn
2. Kosningar
3. Utanþingsstjórn
4. Blóðug bylting
5. Landflótti
Af þessum möguleikum er utanþingsstjórn illskástur. Með þeirri leið yrðu settir til þess hæfir einstaklingar til að leysa þau verkefni að vinna að alvöru lausnum á skuldavanda heimilanna og í atvinnumálum þjóðarinnar. Þessi leið myndi líka búa stjórnlagaþinginu viðunandi starfsskilyrði til að vinna að alvöru lýðræðisumbótum fyrir íslenskt samfélag.
Þess vegna skora ég á þig að kynna þér vel áskorun undirskriftarlistans (sjá hér). Ef þú vilt leggja þessari undirskriftarsöfnun enn frekara lið hvet ég þig til að prenta listann út (sjá hér) og safna enn fleiri undirskriftum þar sem það er nokkuð ljóst að það eru ekki allir sem fylgjast með því sem fram fer í netheimum. Þú getur líka dreift slóðinni og hvatt fólk til að kíkja. Slóðin er: http://utanthingsstjorn.is/
Ef við náum að safna undirskriftum 25% kosningabærra manna fyrir áramót er aldrei að vita nema við getum endurtekið blysförina heim að Bessastöðum frá síðasta nýársdegi! Ef margir leggjast á eitt ætti það að takast!Bankar veita ekki skaðleysisyfirlýsingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:25 | Facebook
Athugasemdir
Góð samantekt hjá þér. Ég er að spá í að prenta út svona lista og fá fólk til að skrifa undir. Ég er að sjálfsögðu löngu búin að skrifa undir.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.11.2010 kl. 12:43
´Heyr, heyr
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 14.11.2010 kl. 12:45
Mikið þykir mér vænt um að heyra það Ásthildur! Hef einhvern veginn grun um að það séu ekki allir jafn duglegir að fylgjast með þarna fyrir vestan eins og þú Mig langar líka til að skoða það hvort það sé hægt að prenta út lítil nafnspjöld þar athygli er vakin á þessari undirskriftarlista.
Þakka þér og Jónu Kollu fyrir innlitið
Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.11.2010 kl. 14:14
Það er svolítið skrítið að fara í gegnum þetta og velta svo fyrir sér hvað þetta allt hefur skilað okkur á einum og hálfum mánuði. Engu! Excelmeistaragengi sem reiknaði sig út og suður, austur og vestur og kom með nokkrar snuðhugmyndir fyrir landsstjóra AGS Jóhönnu.
Þessir fimm möguleikar sem þú nefnir eru í raun ekki nema 2. 4flokkurinn eða flokkurinn með 4 andlit gætu farið í þjóðstjórn eða kosningar til að blekkja almenning. Það mun engu skila. Þeir samþykkja aldrei niðurlægingu utanþingsstjórnar þrátt fyrir viðvarandi getuleysi til að takast á við málin. Þá er bara eftir blóðug bylting eða landflótti sem tölur um eru falsaðar með því að útlendingar sem flykkjast til landsins eru mínusaðir frá landflótta Íslendingum.
Persónulega ætla ég að velja landflóttann fram yfir byltinguna en það kæmi mér ekki á óvart að einhver sem íhugar sjálfsmorð sneri sér fyrst að kvölurum sínum.
Ævar Rafn Kjartansson, 22.11.2010 kl. 11:36
Ævar, orð þín setja að mér kvíða varðandi það hvernig þér líður þessa daganaÉg bið þig að endurskoða dæmi númer þrjú og skoða það út frá þessu tvennu:
1) Ef fjórflokkurinn ætlar að leggja sjálfan sig niður leggst hann alfarið á móti honum ef af skipun hans verður. Afleiðingarnar yrðu 4) eða 5) þá kæmu kosningar þar sem umræddir flokkar myndu að öllum líkindum þurrkast út.
2) Sennilega dreymir fjórflokkinn um það að komast aftur til valda. Til þess að svo megi verða þurfa þeir uppreisn æru. M.ö.o. að ef af skipun utanþingsstjórnar verður eiga þeir ekki annnarra kosta völ en haga sér.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.11.2010 kl. 15:32
Fyrirgefðu Rakel, ég átti ekki við mig með sjálfsvígin heldur þá sem þannig hugsa. Vissulega hefur þetta haft mikil og varanleg áhrif á mann en ég er betur settur en þúsundir annarra. Og kannski hefur hrunið á einhvern hátt bætt mann þó ekki væri nema fyrir gagnrýnni hugsun.
Utanþingsstjórnin getur vissulega verið kostur en hverja fengjum við í stjórn? Formaður skilanefndar Landsbankans var endurskoðandi Finns Ingólfssonar og félagi. Vildum við hann í ríkisstjórn? Gætum við treyst forsetanum fyrir þessu máli? Ég segi nei. Ég treysti honum ekki frekar en öllu þessu samtryggða valdaklíkufyrirbæri sem kallar sig stjórnmála- og embættismenn.Það þarf að henda út þessum flokkum, öllum í stjórnunarstöðum hjá ríkinu og láta erlenda ráðningarstofu um endurráðningar þar. Þá fyrst væri einhver von um varanlegar breytingar.
Ævar Rafn Kjartansson, 23.11.2010 kl. 15:06
Við stöndum frammi fyrir stórri og alvarlegri krísu og það verður að finna einhverja lausn á því. Þín hugmynd er ekki verri en hver önnur en spurningin er hvernig er hægt að framkvæma hana. Utanþingsstjórn hefur það fram yfir að hún byggir á svokallaðri stjórnskipunarhefð sem Sveinn Björnsson skapaði.
Það gerir hana ekki betri fyrir það en hún er leið sem hægt er að fara án stórfelldrar byltingar sem hugmyndin þín hlýtur að byggjast á. Meiri hluti þjóðarinnar virðist ekki vera tilbúinn í slíkt en það er ljóst að neyð okkar á ekki eftir að gera annað en vaxa við óbreytt ástand. Þess vegna verður að bregðast við á einhvern hátt og það strax!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 24.11.2010 kl. 02:58
Bara að henda þessu inn sem hugmynd og veit ekkert hvort hún sé framkvæmanleg en alveg eins og íbúar Sviss kjósa um ólíkustu mál ættum við að geta það. Heimtum utanþingsstjórn og allir kjósendur mega velja 10 ráðherra. Þeir sem hljóta flest atkvæði verða ráðherrar. TIL EINS ÁRS. Þá verður endurkosið. Þetta er ein birtingarmynd en ég er opin fyrir fleirum. Aðalmálið er að 4 flokkurinn varð gjaldþrota með bönkunum sem fjármögnuðu þá.
Ævar Rafn Kjartansson, 25.11.2010 kl. 00:14
Nú erum við að tala saman
Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.11.2010 kl. 02:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.