Tunnur skrifa bréf

Eins og einhverjir vita höfðu aðstandendur tunnumótmælanna boðað til mótmæla nú í kvöld. Mótmælin áttu að hefast kl. 18:00 fyrir framan Stjórnarráðið. Tilefnið var að til stóð að samráðsnefnd ráðherra og forystumanna stjórnarandstöðunnar um skuldavanda og atvinnumál funduðu á þessum tíma. Síðar í kvöld, eða kl. 20:00, ætlaði nefndin svo að ganga til fundar við hagsmunaaðila í Þjóðmenningarhúsinu.

ÞjóðmenningarhúsiðÞessum fundum hefur nú verið frestað og mótmælunum með. Fundurinn sem átti að hefjast kl. 18:00 í Stjórnarráðinu í kvöld hefur verið færður til kl. 16:00 á morgun en fund- urinn í Þjómenningarhúsinu hefur verið færðu til kl. 14:00 n.k.  fimmtudag. Aðstandendur tunnumótmælanna hafa fært mótmælin fram til þess tíma þannig að þau verða við Þjóðmenningarhúsið kl. 14:00 þ. 11. nóvember.

Heimildum ber ekki saman um það hvort þessi tilfærsla sé eingöngu tilkomin vegna fyrirhugaðra mótmæla en athygli vekur að fundirnir eru nú báðir settir niður á hefðbundinn dagvinnutíma. Það styður það vissulega að boðuð mótmæli hafi haft þar töluvert að segja.

Það er hart að það skuli þurfa að mótmæla til að ráðherrar og þingmenn gegni því hlutverki að vinna að hagsmunum almennings. Síðasta áminning almennings, þ.e. 4. okt., um tilveru sína og réttindi hreyfði ríkisstjórnina og stjórnarandstöðuna til meðvitundar um að eitthvað yrði að gera. Þá setti ríkisstjórnin, í samstarfi við stjórnarandstöðu, af stað yfirstandandi leikrit sem loks er farið að sjá fyrir endann á.Strengjabrúður

Þessi viðbrögð stjórnvalda vakti mörgum bjartsýni þó einkum fyrir það að Hagsmuna- samtökum heimilanna var boðið að taka þátt í samráði um það hvernig skyldi staðið að því að koma heimilunum í landinu til bjargar. Það var þó ljóst strax um miðjan síðasta mánuð að tilefnin til bjartsýni voru lítil enda létu fulltrúar Hagsmuna- samtakanna hafa þetta eftir sér: „Þá er það orðið opinbert. Stjórn HH var dregin á asnaeyrunum í tvær vikur af getulausu stjórnkerfi.“ (Sjá hér)

Eftir því sem það dregst að niðurstöður sam- ráðsins komi fram þá hefur líka fjarað enn frekar undan bjartsýni manna enda hafa fregnir borist af því að eingöngu standi til að leiðrétta eitthvað kjör þeirra sem þegar eru komnir í þrot í þeim tilgangi að gera þeim það auðveldara að halda áfram að borga!

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru allar eftir sömu uppskriftinni sem miðar að því að treysta skjaldborgina utan um lánastofnanir en ekki húsnæðislánagreiðendur. Þær miða að því að tryggja það að fjármálastofnanirnar fái það sem þeir kalla „sitt“ til baka. Almenningur borgar þessa sérhagsmunagæslu valda- og eignastéttarinnar dýru verði og er þar alls ekki aðeins átt við tekju- og húsnæðismissi."  

Okkur sem stöndum að tunnumótmælunum er svo nóg boðið að við ákváðum að skrifa bréf til ráðherranna í samráðsnefndinni og þing- og forystumanna stjórnarandstöðuflokkunum sem eiga þar sæti. Auk þeirra fengu hagsmunaðilum, varðandi skuldavanda heimilanna og atvinnumál sem hafa átt í viðræðum við ríkið, þetta bréf. Í stað þess að telja þessa upp hér leyfi ég mér að vísa á slíka hér hér).

Við sendum þetta bréf líka á fjölmiðla en þar sem enginn þeirra hefur birt það (Svipan hefur nú birt það) ætla ég að vekja athygli á því hér:

                                               ************************

Reykjavík 9. nóvember 2010

Góðan daginn!

Við undirritaðar erum meðal þeirra sem boðuðum til tunnumótmælanna við alþingishúsið 4. október sl. sem urðu ein stærstu mómæli Íslandssögunnar. Megintilgangur þeirra var að koma á framfæri vantrausti á störf Alþingis. Þrátt fyrir að öllum þeim fjölda sem tók þátt í mótmælunum væri sá megintilgangur fyllilega ljós tókst meginþorra þingheims einhvern veginn að leiða hann hjá sér.

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar þutu m.a.s. upp til handa og fóta  og skipuðu samráðsnefnd nokkurra ráðherra og forystumanna stjórnarandstöðuflokkanna um skuldavanda og atvinnumál. Hefði þessi nefnd verið skipuð fyrir rúmu ári síðan hefði skipan hennar verið fagnaðarefni en tilurð hennar og fréttir af vinnubrögðunum hafa því miður ekki gefið neina von um ásættanlega niðurstöðu. Aðkoma svokallaðra hagsmunaaðila gáfu heldur enga von nema ef undan eru skilin Hagsmunasamtök heimilanna.

Tilburðirnir geta því miður ekki kallast neitt annað en blekkingarleikur viðhafður í því skyni að lengja líftíma ríkisstjórnarinnar. Ástæða þess að við tökum svo sterkt til orða er einfaldlega sú að við blasir að á meðan samningur ríkisins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er enn í gildi munu hagsmunir fjármálastofnana ávallt vera hafðir í fyrirrúmi sama hvað það kostar almenning.

Við undirritaðar viljum minna á að þau forréttindi eigna og valda sem bankarnir, lífeyrissjóðirnir, verkalýðsfélögin og samtök atvinnurekenda ásamt stjórnvöldum láta bitna á almenningi kostar almenning: atvinnumissi, gjaldþrot, eignamissi og veldur landflótta og sjálfsmorðum. (eingöngu feitletrað í þessari birtingu)

Þess vegna er það krafa undirritaðra að ríkisstjórnin geri það sem hún var kosin til og gegni umboði meirihluta kjósenda sinna en ekki eingöngu þeirra sem reikna sér bankaviðskipti okkar og lífeyrissparnað sem sínar einkaeignir.

  • Við krefjumst þess að ríkisstjórnin stöðvi nú þegar afskriftir auðmanna og einkavina fjármálafyrirtækja sem margir hverjir eiga drjúgan þátt í að skapa þá efnahagskreppu sem svonefndum hagsmunaaðilum, að Hagsmunasamtökum heimilanna undanskildum, þykir ofureðlilegt að lendi eingöngu á almenningi.
  • Við krefjumst þess að ríkisstjórnin snúi af þeirri braut að viðhalda því upplausnar- og ófriðarástandi sem ríkir í samfélaginu með sýndarmennsku og blekkingarleikjum í stað raunverulegra aðgerða fyrir heimilin í landinu.
  • Við krefjumst þess að raunverulegar lausnir fyrir öll heimili verði unnar í samvinnu við Hagsmunasamtök heimilanna án aðkomu þeirra sem bera meira og minna ábyrgð á efnahagskreppunni í landinu.
  • Við krefjumst þess að á meðan á þeirri vinnu stendur verði útburður fjölskyldna af lögheimilum þeirra stöðvaður.
  • Við krefjumst þess að okkur verði ekki boðið upp á stórframkvæmdir í formi virkjunarframkvæmda og byggingu álvera. Það liggur nefnilega í augum uppi að slíkar stórframkvæmdir þarf að auglýsa á evrópska efnahagssvæðinu þannig að það er algerlega óvíst að þær muni breyta miklu varðandi atvinnuleysi þjóðarinnar þó þær keyrðu hagtölur ríkissjóðs hátt upp á við um skamma hríð.

Að lokum viljum við vekja athygli á því að við höfum hvatt fólk til að mæta fyrir utan boðaða fundi samráðsnefndarinnar og síðar hennar og hagsmunaaðila í kvöld. Ástæðan er sú að við viljum styrkja samningsstöðu almennings þar sem það hefur sýnt sig að hann er iðulega fyrir borð borinn. Því miður er stöðugt aðhald af mótmælum það eina sem virðist duga til að minna á réttindi okkar.

Í einlægri von um að þið sjáið sóma ykkar í því að svíkja ekki þjóðina um þá almennu skuldaleiðréttingu sem þið lofuðuð.

                                               ************************

Við getum vissulega spurt okkur hvað stjórninni gangi til með þeirri stefnu sem hún framfylgir. Sú spurning er afar eðlileg þó við henni finnist engin heilbrigð svör. Ég ætla að varpa fram tveimur hér þó þau séu í afar glannaleg. Hins vegar er ástandið það líka og þess vegna þykir mér ástæða til að leita svara við því hvers vegna ráðamenn þjóðarinnar haga sér hreinlega eins og viti firrtir einstaklingar með enga jarðtengingu!

Þess vegna varpa ég þessum fram hér þó mér sé fullkomlega ljóst að þau hljóma eins og hverjar aðrar gróusögur. Það er líka sjálfsagt að taka þeim þannig þar sem ég hef ekkert fyrir mér í þessu nema orð sem mér finnst ekki óvitlausari en hver önnur í öllum grængolandi vitleysisganginum sem maður horfir upp á. Þessar sagnir herma að Vinstri grænir engist í vandræðum sínum yfir því hvernig þeir eigi að meðhöndla Steingrím sem þjáist af sömu persónuleikaröskun og Davíð. Persónuleikaröskun þeirra einkennist af því sem nefnist á grísku hybris.

Almennir félagsmenn í Samfylkingunni eru líka í nokkrum vandræðum þar sem þeir sitja uppi með óþægilegan grun um að ráðherrar og aðrir forystumenn hennar stefni að því að svelta þjóðina inn í Evrópusambandið! 


mbl.is Efnahagsleg skilyrði uppfyllt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Rakel,

mjög góð færsla og ég tek undir með þér. Ekki er óalgengt að engin klár sjúkdómsgreining komi fram við rannsóknir, aftur á móti verður maður bara að meðhöndla sjúkdómseinkennin.

Gunnar Skúli Ármannsson, 9.11.2010 kl. 20:57

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

TAkk fyrir mig...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 9.11.2010 kl. 23:55

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka ykkur báðum Ég vildi þó fá tækifæri til að bregðast líka við sjúkdómseinkennunum...

Rakel Sigurgeirsdóttir, 9.11.2010 kl. 23:58

4 Smámynd: Andrés.si

En kl. 18 voru einhverjir mennir í Stjórnaráðinu. Range Rover með bílstjóra stóð að útan.  Ég fekk mér á tilfiningu að þeim langar að ruglast fólki varðandi við tíma fundarins.

Andrés.si, 10.11.2010 kl. 00:01

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er ekki bara fyrir AGS að þessar pyntingar stana á fólki. Það er ekki síður vegna þess að verið er að uppfylla efnahagsleg skilyrði Evrópubandalagsins, sem tengd frétt vísar í. Hér er verið að kokka bókhald á kostnað fólks og velferðar. Menn geta verið vissir um að Evrópubanalagið tekur ekki lífsgæði og velferð inn í sína jöfnu við mat á aðildarhæfni.

Þessum gaffli verðum við að losna úr áður en einhver bót verður á. 

Jón Steinar Ragnarsson, 10.11.2010 kl. 03:01

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Lítur þetta ekki svona út: AGS -> Icesave -> ESB?

Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.11.2010 kl. 03:47

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jú svo sannarlega, ég er sammála hverju orði hér.  Burt með þetta lið, ástandið er orðið óþolandi.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.11.2010 kl. 14:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband