Vítaverðir starfshættir Ráðherranefndar um einkavæðingu

Mikið er nú rætt um rannsókn á einkavæðingu bankanna og sýnist þeirri sem þetta ritar ekki vanþörf á. Eins og fram kemur í 1. bindi Rannsóknarskýrslunnar er margt enn á huldu hvað hana varðar en flest það sem hefur komið á daginn er afar tortryggilegt svo ekki sé meira sagt! Áður hefur verið fjallað um það hvernig að einkavæðingunni var staðið hér á þessum vettvangi (sjá hér og hér) en hér verður kastljósinu einkum beint að athugasemdum Steingríms Ara Arasonar. 

Steingrímur Ari ArasonSteingrímur Ari Arason var fulltrúi fjármálaráðherra í framkvæmdanefnd um einkavæðingu frá árinu 1991 þar til hann sagði sig úr henni haustið 2002. Úrsögina úr nefndinni setti hann fram í bréfi sem hann skrifaði þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddssyni.

Bréfið er dagsett þ. 10. september 2002 sem er daginn eftir að Ráðherranefndin, sem vann að einkavæðingu Landsbanka og Búnaðarbanka, hafði ákveðið að ganga til samninga við Samsonar-hópinn um Landsbankann. Ástæðurnar, sem Steingrímur Ari tilgreinir þar, eru þau vinnubrögð sem voru viðhöfð í aðdraganda þessarar ákvörðunar.

Hann segir líka að Samsonar-hópurinn hafi verið tekinn fram yfir aðra áhugasama kaupendur sem buðu upp á „hagstæðari tilboð fyrir ríkissjóð á alla hefðbundna mælikvarða.“ (1. bd. Skýrslunnar bls. 266) Steingrímur Ari leggur áherslu á það í þessu bréfi að hann hafi aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum!

Áður en lengra er haldið er e.t.v. rétt að árétta það að Framkvæmdanefnd um einkavæðingu starfaði undir ráðherranefnd um sama málefni. Ráðherranefndin starfaði undir forystu þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddssyni en auk hans áttu sæti í nefndinni: utanríkis-, viðskipta- og fjármálaráðherra (sjá. 1. bd. bls. 264).
radherranefnd um einkavæðingu

Steingrímur Ari lýsir því að lengst framan af hafi verklagið verið þannig að Framkvæmdanefndin vann upp valkosti til Ráðherranefndarinnar varðandi umsækjendur. Eftir að Samsonar-hópurinn kom til sögunnar snerist dæmið hins vegar þannig við að Ráðherranefndin fór að gefa Framkvæmda-nefndinni „fyrirmæli um efnislegar niðurstöður í vali milli viðsemjenda.“ Hann segir jafnframt að á þessum tíma hafi Ráðherranefndin verið hætt að halda formlega fundi og ákveðið hlutina í staðinn á „einhverjum hlaupum.“ (sjá 1. bd. bls. 267 (leturbreytingar eru höfundar))

Þetta stemmir við það sem Valgerður Sverrisdóttir og Davíð Oddson segja um starfshætti þessarar nefndar. Valgerður talar um að þessi hópur hafi átt einhver „smáviðtöl“ á eftir ríkisstjórnarfundum. „Þannig að þetta var ákaflega óformlegt og ekki skrifuð fundargerð.“ Og Davíð viðurkennir að hann minnist þess ekki sérstaklega að nein stefnumörkun hafi farið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar varðandi skilyrði og kröfur til kaupenda á hlutum ríkisins í bönkunum. (sjá. 1. bd. bls. 265)

Hvað stefnumörkunina varðandi skilyrði og kröfur til kaupenda er rétt að minna á 42. grein laga um fjármálafyrirtæki þar sem kveðið er á um mat á umsækjendum. Þar segir að Fjármálaeftirlitið leggi „mat á það hvort umsækjandi sé hæfur til að eiga eignarhlutinn með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs fjármálafyrirtækis.“ (Sjá hér (leturbreytingar eru höfundar)) Matið skal byggja á eftirtöldum þáttum:

1. Fjárhagsstöðu umsækjanda og aðila sem hann er í nánum tengslum við.

2. Þekkingu og reynslu umsækjanda.

3. Hvort eignarhald umsækjanda skapar hættu á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði.

4. Stærð þess hlutar eða atkvæðisréttar sem umsækjandi hyggst fjárfesta í.

5. Hvort ætla megi að eignarhald umsækjanda muni torvelda eftirlit með hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki. Við mat á því skal m.a. horft til fyrri samskipta umsækjanda við Fjármálaeftirlitið eða önnur stjórnvöld, til þess hvort náin tengsl umsækjanda við einstaklinga eða lögaðila geta að mati Fjármálaeftirlitsins hindrað það í eðlilegum eftirlitsaðgerðum og hvort lög og reglur, sem gilda um umsækjanda, hindra eðlilegt eftirlit.

6. Hvort umsækjandi hefur gefið Fjármálaeftirlitinu umbeðnar upplýsingar ásamt fylgigögnum og þær upplýsingar hafa reynst réttar.

7. Refsingum sem umsækjandi hefur verið dæmdur til að sæta og hvort hann sæti …1) rannsókn.

1)L. 88/2008, 234. gr.


Eins og áður hefur komið fram þá sýna frásagnir þeirra sem komu að einkavæðingu bankanna hvernig ítrekað var farið á svig við bæði lög og markmið hennar. Nægir að benda á töflu sem er að finna í þessari færslu þar sem kaupendur Landsbankans og Búnaðarbanka eru bornir saman við þau skilyrði sem sett eru fram í lagagreininni hér að ofan.

Í Rannsóknarskýrslunni tekur Steingrímur Ari fram að þegar leið á sumarið 2002 hafi samskipti Framkvæmda- og Ráðherranefndarinnar verið þannig háttað að ákvarðanir hafi ekki komið frá Ráðherranefndinni sem slíkri heldur eingöngu frá Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni. Þeir hafi tekið „pólitískar ákvarðanir“ um val á viðsemjendum og þá með þeim hætti að FnE hefði fengið þau skilaboð frá þeim að semja ætti við Samson-hópinn um Landsbankann en S-hópinn um Búnaðarbankann.“ (1. bd. bls. 267)

Steingrímur segir að hann hafi rætt afstöðu sína til pólitískra afskipta af ákvarðanatöku varðandi viðsemjenda um bankana við þáverandi fjármálaráðherra, Geir H. Haarde en fengið það mjög sterkt á tilfinninguna að hann vildi halda sig á hliðarlínunni. Hann tekur það fram að bæði hann og Valgerður Sverrisdóttir hafi verið „ótrúlega [...] passíf og mikið á hliðarlínunni“ í þessum aðdraganda (sjá 1. bd. bls. 267)

Ríkisendurskoðun tók saman skýrslu í tilefni af úrsögn Steingríms Ara úr Framkvæmdanefndinni sem kom út í október 2002. Þar segir að gagnrýni hans á vinnubrögð Framkvæmdanefndarinnar snúi fyrst og fremst að eftirtöldum tveimur atriðum:

  • Reglur við mat á tilboðum voru óljósar og í veigamiklum atriðum ákveðnar eftir að tilboð lágu fyrir. Í stað mats með hlutlægum og gegnsæjum hætti leiddu vinnubrögð framkvæmdanefndarinnar til huglægrar niðurstöðu.
  • Mikilvæg atriði voru ófrágengin þegar samþykkt var að ganga til einkaviðræðna við Samson ehf. en traust undirstaða getur augljóslega ráðið úrslitum um þróun mála þegar til lengri tíma er litið. (Sjá hér bls. 16 og 1. bd. bls. 266 (leturbreytingar eru höfundar)

Landsbankinn seldur í hendurnar á glæpamönnum

Að lokum er ástæða til að minna á þetta:

  • Ríkisstjórnin semur við Samson eignarhaldsfélag ehf. 18. október 2002 um kaup á Landsbankanum en undirritun kaupsamningsins fór fram við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu á gamlársdag það sama ár. Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um Samson hópinn er hins vegar ekki dagsett fyrr en 3. febrúar 2003. (sbr. 8. bd. bls. 22)
  • Samkomulagið við S-hópinn um kaup á Búnaðarbankanum var undirritað 16. janúar 2003 en mat Fjármálaeftirlitsins á hópnum lá ekki fyrir fyrr en 17. mars 2003. (sbr. 8. bd. bls. 26)
Tveimur dögum eftir að ríkisstjórnin samdi við Samson ehf. hefur Morgunblaðið það eftir Davíð Oddsyni að hann sé ánægður með hvernig til hafi tekist með söluna:

„Stærsti áfanginn í einkavæðingarferlinu hafi nú orðið að veruleika og samkvæmt samkomulaginu við Samson ehf. hafi flest þau markmið náðst sem ríkið hafi sett sér. Verðið sé vel viðunandi. Nú sé stefnt að því að ljúka sölu Búnaðarbankans fyrir áramót og þá muni efnahagslífið gjörbreytast þegar ríkið verði horfið af fjármálamarkaðnum, líkt og stefnt hafi verið að í næstum áratug.“


Í sömu frétt er haft eftir Valgerði Sverrisdóttur að salan sé „í samræmi við þær áætlanir sem lagt hafi verið upp með í byrjun.“ (8. bd. bls. 22)


mbl.is Mistök gerð við einkavæðinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Já nokkuð vítavert, glæpsamlegt, hrokafullt, lágkúrulegt, vísvitandi, sviksamlegt, ...

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 14.9.2010 kl. 00:53

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr, heyr.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 14.9.2010 kl. 01:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband