Stjórnvöld fá falleinkunn fyrir að þjóna ekki almannaheill
8.9.2010 | 05:23
Samtök atvinnulífsins er tvímælalaust eitt þeirra skrifstofubákna sem reyna allt hvað það getur til að halda við þeim pólitísku ítökum sem það hefur komist upp með að tileinka sér. Fjölmiðlarnir styðja þá og fleiri í því að viðhalda þeim með því að lepja eftir þeim fréttatilkynningar af þessu tagi án nokkurrar gagnrýni eða tilraunar til að varpa ljósi á að tvær hliðar kunna að vera á málunum sem þær fjalla um. Það er m.a. af þessum ástæðum sem mér þykir vel við hæfi að vekja athygli á þessari bloggsíðu og birta síðustu færslu sem var sett þar inn með þessari frétt.
Af Rannsóknarskýrslunni má lesa að ríkisstjórnir undanfarandi áratuga fá allar falleinkunn fyrir andvaraleysið sem þær sýndu gagnvart hagsmunum almennings. Þessu verður gerð miklu betri skil hér á næstu dögum en að þessu sinni er ætlunin að grípa niður í 8. bindinu þar sem dregnar eru saman ályktanir og lærdómar undir lok kaflans um Stjórnsýslu og siðferði (þessi kafli spannar bls. 132-152 í 8. bindinu).
Áður er þó rétt að hafa örfá orð um samráðsnefndina sem vikið er að þar. Rætur hennar má rekja til fundar sem haldinn var 15. janúar 2004 en þar voru stjórnvöldum kynntar viðlagaáætlanir sem gerðar höfðu verið hjá Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu og tóku mið af sambærilegum áætlunum erlendis. (8. bd. bls. 133 (Sjá líka 6. bd. bls. 69-78)). Rúmum mánuði síðar var settur saman samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbrögð við hugsanlegum áföllum á fjármálamarkaðinum.
Meðlimir þessa hóps voru eftirtaldir:
· Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri, forsætisráðuneytisins
· Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins
· Jónína Lárusdóttir, ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytisins
· Jónas Fr. Jónasson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins
· Ingimundur Friðriksson, aðstoðarbankastjóri Seðlabankans
· Tryggi Pálsson, framkvæmdarstjóri fjármálasviðs Seðlabankans
(sbr. 8. bd. bls. 133)
Þremur árum síðar, eða dagana 20.-25. september 2007, tóku meðlimir hópsins þátt í norrænni viðlagaæfingu. Á æfingunni var gert ráð fyrir því að einn banki í hverju þátttökulandanna lenti í lausafjárvanda og áttu menn að bregðast við þeirri stöðu. Framan af fór æfingin fram eins og ráð var fyrir gert. Hins vegar gerðust óvæntir hlutir hjá íslensku þátttakendunum þegar kom að þeim þætti æfingarinnar að taka ákvörðun um það hvort stjórnvöld ættu að bjarga bankanum þeirra sem var kominn undir mörk með eigið fé. (sbr. 8. bd. bls. 135 og 6. bd. bls. 87-89)
Allar þátttökuþjóðirnar, utan Ísland, luku æfingunni. Þeir Baldur Guðlaugsson og Ingimundur Friðriksson ákváðu það í símtali sín á milli að það væri bara skynsamlegt að hafa ekkert á endanum sagt af eða á um það hvort ríkið mundi ætla að koma þarna þessum banka til aðstoðar við þessar aðstæður eða ekki. (8. bd. bls. 136) Þetta er haft eftir Baldri Guðlaussyni enda leit hann svo á að þessi æfing hefði enga hernaðarlega þýðingu fyrir raunverulega greiningu manna þar sem ekkert nýtt hefði komið fram. (6. bd. bls 8)
Það er rétt að taka það fram að Tryggvi Pálsson og Jónas Fr. Jónasson taka það báðir sérstaklega fram að þeir vildu að æfingin hefði verið tekin til loka enda hefði slíkt komið sér vel við raunverulegar aðstæður haustið 2008. (sbr. 6. bd. bls. 88) En þá að markmiðinu með þessum skrifum sem er að draga fram ályktanir höfunda 8. bindisins varðandi siðferði og skyldur stjórnsýslunnar gagnvart umbjóðendum sínum.
Dæmið um samráðsnefndina sýnir skynsamlega viðleitni af hálfu stjórnvalda til þess að vera viðbúin hugsanlegum áföllum á fjármálamarkaði. Margvíslegir brestir í stjórnsýslunni urðu til þess að sú vinna skilaði sáralitlum árangri. Ástæður þessa eru sumpart þær að ráherrar voru illa upplýstir um gang mála og þeir bera sig ekki heldur eftir upplýsingum. Fyrir vikið sinntu ráðherrar ekki heldur upplýsingaskyldu sinni gagnvart þinginu.
Áberandi er að að ráðherrar reyni að skjóta sér undan ábyrgð með því að segja að þeir hafi ekki verið upplýstir eða að málin hafi ekki verið á þeirra könnu. En það er skylda ráðherra að afla upplýsinga hjá embættismönnum og þeir geta ekki skýlt sér bak við vanþekkingu. (Sjá hér bls. 163) Þeir bera höfuðábyrgð í krafti stöðu sinnar eða hlutverks á að gæta öðru fremur almannahagsmuna sem leiðtogar landsstjórnarinnar.
Vantraust er ríkjandi meðal aðila í stjórnkerfinu sem hindrar líka að upplýsingaflæði innan þess sé nægilegt. Mikið skortir á eðlileg samskipti milli ráðherra. Verulega skortir á að að gengið sé úr skugga um stöðu mála og að mikilvægar ákvarðanir séu vel undirbúnar og rökstuddar. Illa er haldið utan um fundargögn og skráningu atburða.
Stjórnmálamenn og embættismenn standa sem lamaðir frammi fyrir bankakerfi sem leyft var að vaxa langt umfram getu stjórnvalda til að ráða við það. Kjarkleysi og skortur á frumkvæði einkenna viðbrögð þeirra. Þótt skýringa megi leita í slæmri embættisfærslu og vanþroskuðum stjórnsiðum sem eiga meðal annars rætur í pólitískum ráðningum, hljóta oddvitar stjórnarflokkanna, helstu fagráðherrar og ráðuneytisstjórar þeirra að bera mesta ábyrgð á því hvernig haldið var á málum í stjórnkerfinu. (8. bd. bls. 151-152)
Það fer varla framhjá neinum að höfundar 8. bindisins líta embættisglöp þeirra sem um ræðir alvarlegum augum enda kveða þeir óvenju þungt að orði í ályktuninni hér að ofan. Maður skyldi þess vegna ætla að þingmannanefndin, sem var skipuð til að fjalla um Skýrsluna, muni skila úrbótum sem taka á ofantöldum þáttum. Henni er nefnilega ætlað að fjalla um eftirfarandi atriði með hliðsjón af niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar sem vann að Rannsóknarskýrslunni.
a. Almennt pólitískt uppgjör á efnahagshruninu
Þingmannanefndin mun taka afstöðu til ályktana í skýrslu rannsóknarnefndarinnar um ástæður efnahagsáfallanna og hvaða lærdóm megi draga af þeim.
b. Breytingar á lögum og reglum
Þingmannanefndin mun fylgja eftir ábendingum rannsóknarnefndarinnar um æskilegar breytingar á lögum og reglum er miða að því að hindra að efnahagsleg áföll endurtaki sig. Nefndin getur lagt fram lagafrumvörp og þingsályktunartillögur eða vísað einstökum ábendingum til fastanefnda þingsins.
c. Mat á ábyrgð
Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar verður lagt mat á ábyrgð á hugsanlegum mistökum og vanrækslu stjórnvalda sem áttu þátt í hruninu. Gefi niðurstöður rannsóknarnefndarinnar tilefni til mun þingmannanefndin taka afstöðu til framgöngu ráðherra í aðdraganda hrunsins.
Þingmannanefndin mun einnig fjalla um eftirlit með fjármálastarfsemi, starfsemi fjölmiðla, starfsemi fjármálafyrirtækja og aðra starfsemi í viðskiptalífinu, starfshætti og siðferði. (Sjá hér)
Varðandi þessa þætti hlýtur þingmannanefndin að taka mið af þeim atriðum sem höfundar 8. bindisins setja niður sem lærdóm sem þarf að draga varðandi það sem á undan er gengið. Í framhaldi af ályktuninni hér að ofan fylgja eftirfarandi lærdómspunktar sem mætti ætla að nefndin taki mið af við uppgjörið, breytingartillögur sínar og mat á ábyrgð:
- Efla þarf fagmennsku og stórbæta vinnubrögð innan stjórnsýslunnar, svo sem með vandaðri gagnafærslu og skýrari boðleiðum milli embættismanna og stjórnmálamanna.
- Stjórnmálamenn og embættismenn þurfa að setja sér siðareglur sem draga fram og skerpa þá ábyrgð og skyldur sem felast í störfum þeirra. Efla þarf þá hugsun meðal stjórnmálamanna að starf þeirra er öðru fremur þjónusta við almannaheill.
- Takmarka þarf pólitískar ráðningar innan stjórnsýslunnar við aðstoðarmenn ráðherra, eins og kveðið er á um í lögum.
- Skerpa þarf ákvæði um ráðherraábyrgð, svo sem með því að skýra upplýsingaskyldu ráðherra gagnvart Alþingi og ríkisstjórn. (8. bd. bls. 152)
Stórauka þarf fjárfestingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Frábær samantekt hjá þér Rakel. Það þarf að hamra á þessu eins og hægt er. Takk fyrir þetta.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.9.2010 kl. 09:32
Ég hlýt að taka undir það með þér ekki síst í ljósi þess að þingmannanefndin skilar niðurstöðum sínum varðandi uppgjör, mat á ábyrgð og breytingar í lok þessarar viku. Ég viðurkenni að ég sveiflast fullkomlega á milli vonar og ótta hvað hana varðar. Er skíthrædd um að þeir ætli að fjórflokkurinn muni ekki aðhafast neitt annað en eitthvert hálfkák og einhverja brellusmelli
Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.9.2010 kl. 12:00
Það er greinilegt við lestur rannsóknarskýrslubloggsins að stjórnvöld eru ekki að vinna að almannahag, sérhagsmunir hafa alltaf forgang. Eina sem almenningur hefur fengið frá stjórnvöldum undanfarna áratugi er reikningurinn fyrir allri vitleysunni.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 8.9.2010 kl. 20:46
Nákvæmlega Jóna Kolla!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.9.2010 kl. 03:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.