Rannsóknarskýrslan gerir vandaða grein fyrir glæpunum
3.9.2010 | 02:34
Rannsóknarskýrslan er óhemju nákvæmt yfirlit yfir allt það sem gekk á í íslensku samfélagi á árunum fyrir hrun bankanna. En hún er ekki aðeins heimild um það sem var að heldur það sem viðgengst enn. Þess vegna er nauðsynlegt að hún sé lesin og af henni dregnir lærdómar sem leiða til breytinga og skynsamlegrar uppbyggingar á samfélagi þar sem vinnuframlag og verðmætasköpun almennings er annað og meira en fjárfestingarkostur með öðrum auðlindum landsins fyrir fáa útvalda.
Ég hef áður vakið athygli á því að leshópur sem stofnaður var í kringum Rannsóknarskýrsluna hratt af stað bloggi í síðustu viku þar sem meðlimir hans birta færslur með tilvitnunum úr Skýrslunni, samantekt á innihaldi hennar og vangaveltum sínum um efnið. Með þessu vilja þeir freista þess að rjúfa þá þöggun sem hefur viðgengist um þetta merka og vandaða verk. Þú getur tekið þátt með því að vekja athygli á þessu bloggi á blogginu þínu, með því að deila því á Facebook og víðar og líka með því að taka þátt í umræðum um einstakar færslur.
Hér fylgir brot úr síðustu færslunni sem birtist þar og ber heitið:
Glæpamenn á beit í bönkunum!
Sú staðreynd að stærstu eigendur bankanna voru jafnframt í hópi stærstu lántakanda þeirra er hins vegar alvarlegasta atriðið í þessu öllu saman! [...] Þegar betur er að gáð eru líka áberandi vensl á milli stærstu lántakendanna í hverjum banka. Skilgreiningin á venslum í þessu samhengi eru þau að: Ef líkur eru á að greiðsluvandi hjá einum hafi áhrif á annan eru þeir tengdir saman í greiningu bankanna. (8. bd. bls. 39 (leturbreytingar eru mínar)
Áður en lengra er haldið er rétt að taka það fram að markmið reglna um tengda aðila er fyrst og fremst að gæta hagsmuna bankans, takmarka kerfislega áhættu og gæta þannig almannahagsmuna! (8. bd. bls. 39 (leturbreytingar eru mínar svo og upphrópunarmerkið)
Tengslin á milli Björgólfsfeðga eru augljósust þannig að ég ætla að byrja á þeim.
Heildaráhættuskuldbindingar þeirra feðga í gegnum íslensku bankana og aðrar lánastofnanir nema 2.909.100.000,- (sjá bls. 217, 227 og 233 í 2. bd). Áhættuskuldbindingar Eimskips og tengdra félaga er tekin með í þessa tölu enda Björgólfur Guðmundsson eigandi eins þeirra félaga sem var eigandi eins fjárfestingafélagins sem var hluthafi í Eimskip. Með öðrum orðum þá átti Björgólfur eldri Ólafsfell ehf sem átti Hansa ehf sem var eigandi Grettis ehf sem var hluthafi í Eimskip.
Það vekur athygli að í tilviki þessara feðga voru faðir og sonur ekki flokkaðir sem tengdir aðilar í Landsbankanum. Sigurjón Þ. Árnason segir að það hafi aldrei verið nokkur umræða um að tengja þá tvo saman. Hann segir líka að það hafi aldrei komið fram nein athugasemd frá Fjármálaeftirlitinu né öðrum yfirvöldum hvað tengsl þeirra tveggja varðar.
Enda er það þannig að annar er farinn á hausinn en hinn ekki, og það gat gengið í báðar áttir. Og bíddu, við skulum fara eftir því, við, þessi skilgreining er búin til vegna þess að menn upplifa þá algjörlega sem sitt hvora, það er þannig. Þú upplifir þá alveg sem algjörlega sitt hvað. (8. bd. bls 39 (bein tilvitnun í Sigurjón Þ. Árnason))
| |
Heildaráhættuskuldbindingar Roberts Tchenguizs og Exista, þar sem hann var stjórnarformaður frá mars 2007, í gegnum íslensku bankana og aðrar lánastofnanir nema 4.037.000.000,- (sjá bls. 209 og 214 í 2. bd). Þrátt fyrir að Robert Tchenguiz hafi verið stjórnarformaður Exista þá voru þeir ekki flokkaðir sem tengdir aðilar hjá Kaupþingi. (sbr. 8. bd. bls. 39)
| |
Miðað við Rannsóknarskýrsluna eru engin lán skráð á nöfn hjónanna, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Ingibjörgu Stefaníu Pálmadóttur, í gegnum íslensku bankana og aðrar lánastofnanir. Heildaráhættuskuldbindingar félaganna Gaums, Landic Propertys og Stoða (FL Group) eru hins vegar 3.038.100.000,- (sjá bls. 211, 220 og 231 í 2. bd).
Þessi eignarhaldsfélög skiptast þannig á milli hjónanna að Jón Ásgeir var stærsti eigandi Gaums og stjórnarformaður Stoða ehf fram til vors 2008 en þá tók eiginkona hans, Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir, við stjórnarformennskunni. Hún var annar stærsti hluthafinn í Landic Propertys á eftir Stoðum hf og sat í stjórn þess. Í Glitni voru félög sem hún tengdist ekki tengd við félög í eigu eiginmannsins. (sbr. 8. bd. bls. 39)
Ef tölurnar yfir lán ofangreindra eru lagðar saman þá er heildaráhættu- skuldbindingar (öðru nafni lánum af ýmsu tagi) þessara einstaklinga hjá Glitni, Kaupþingi, Landsbanka, Straumi, SPRON og Sparisjóðabankanum: 9.994.200.000,-!
Þessi dæmi sýna hvernig gildandi reglur um bankastarfsemi voru túlkaðar stærstu eigendum þeirra í hag með það að markmiði að auka möguleika [þeirra] á lánum fremur en að tryggja hagsmuni bankanna.(8. bd. bls. 39)
Eins og áður sagði þá ber ríkisstjórn þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar höfuðábyrgð á því hverjir fengu að hreiðra um sig í bönkunum með þeim afleiðingum sem við öll þekkjum en Fjármálaeftirlitið getur heldur ekki hvítþvegið hendur sínar af ábyrgðinni. Það er nefnilega einu sinni hlutverk eftirlitsins að fylgjast með því sem fram fer á íslenskum fjármálamarkaði.
Ef í ljós kemur að eftirlitsskyldur aðili fylgir ekki lögum og/eða reglum um stórar áhættur skal Fjármálaeftirlitið samkvæmt 1. mgr. 10 gr. laga nr. 87/1998 krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests. Jafnvel þótt ekki sé ljóst að um skýrt brot gegn reglunum sé að ræða þá skal Fjármálaeftirlitið samkvæmt 2. mgr. 10 gr. sömu laga gera athugasemdir ef það telur hag eða rekstur eftirlitsskylds aðila að öðru leyti óheilbrigðan og brjóta í bága við eðlilega viðskiptahætti. (2. bd. bls. 120 (leturbreytingar eru mínar)
Hér að ofan er vísað til laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi en það er kunnara en frá því þurfi að segja að Fjármálaeftirlitið virkaði alls ekki sem sá eftirlitsaðili sem þessi lög gera ráð fyrir. Afskiptaleysi þess var svo himinhrópandi að það er ekki hægt að láta sér detta annað í hug en afskiptaleysið hafi verið meðvitað nema við gerum ráð fyrir því að þar hafi farið fram skipulögð hálfvitavæðing hvað varðar starfsmannaval.
Í þessu samhengi þykir mér ástæða til að benda á ræðu sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Jónas Fr. Jónsson, hélt á fundi hjá Félagi um fjárfestatengsl sem haldinn var 15. janúar 2008. Þar ræddi Jónas um afkomu og helstu áhættuþætti í starfsemi fjármálafyrirtækja og sagði m.a. þetta:
Eiginfjárhlutföll bankanna eru sterk og þau geta staðið af sér veruleg áföll. Flestir þættir útlánaáhættu eru ágætlega dreifðir og markaðsáhættu er mætt með hærra eiginfjárhlutfalli og virkri stýringu. Veðköll og tryggingaþekja bankanna vegna hlutabréfalána sýna að verkferlar þeirra eru virkir og þeir hafa almennt gætt þess að taka tryggingar vegna slíkra lána. (Sjá hér)
Er nema eðlilegt að maður spyrji sig hvers vegna þessi maður var ráðinn í Fjármálaeftirlitið?! og á hvaða forsendum hann var gerður að forstjóra þess?? Mér þætti líka eðlilegt að sá sem ber ábyrgð á ráðningu hans og frama innan eftirlitsins svari fyrir hana og útskýri hverra hagmuna hann ætlaði Jónasi var að verja.
Til enn frekari áréttingar á þeirri ábyrgð sem Fjármálaeftirlitið ber á núverandi stöðu í íslensku efnahagslífi ætla ég að enda þetta á tilvitnun í Rannsóknarskýrsluna um valdheimildir þess.
Fjármálaeftirlitið getur gripið til víðtækra valdheimilda í tengslum [við] framkvæmd eftirlits með stórum áhættum. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 87/1998 er eftirlitsskyldum aðilum skylt að veita Fjármálaeftirlitinu aðgang að öllu bókhaldi sínu, fundargerðum, skjölum og öðrum gögnum í vörslu þeirrar er varða starfsemina sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegan. Samkvæmt sama ákvæði getur Fjármálaeftirlitið gert vettvangskannanir eða óskað upplýsinga á þann hátt og svo oft sem það telur þörf á.
[...]
Sérstaklega er tekið fram í síðastnefndu ákvæði að lagaákvæði um þagnarskyldu takmarki ekki skyldur til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum. Samkvæmt þessu er ljóst að Fjármálaeftirlitið getur kallað eftir þeim upplýsingum um nauðsynlegar eru til að meta hvort farið hafi verið eftir reglum um stórar áhættur. (2. bd. bls. 120 (leturbreytingar eru mínar)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Vona að ég geti gefið mér tíma til að rýna í þessa skýrslu, og það sem hún inniheldur, sérstaklega í gegnum leshópinn sem mér lýst svo vel á.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.9.2010 kl. 12:06
Hún er seinlesin blessunin. Ekki vegna þess að hún sé svo illa skrifuð, þvert á móti, en hún geymir sæg af athyglisverðum upplýsingum. Upplýsingum sem skipta okkur máli varðandi það hvað þarf að bæta og breyta. Þess vegna er afar sorglegt að horfa upp á þá þöggun sem er viðhöfð varðandi hana. Eitt af helstu markmiðum leshópsins er að freista þess að rjúfa þá þögn. Þú mátt endilega taka þátt
Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.9.2010 kl. 12:23
Þarna leynist mergurinn málsins. -> En hún er ekki aðeins heimild um það sem var að heldur það sem viðgengst enn.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 3.9.2010 kl. 14:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.