Af „siðferði og góðum starfsháttum“

Spurningar um siðferði Mér finnst full ástæða til að vekja vel og rækilega athygli á þessu bloggi hér þar sem leshópur um Rannsóknarskýrsluna setur jafnt og þétt inn stutt blogg í tengslum við lesturinn. Flestir í hópnum eru nú að lesa 8. bindið þannig að flest það sem er verið að skrifa þar núna tengist því.

Eins og áður hefur komið fram þá var vinnuhópnum, sem stóð að 8. bindinu, gert að svara spurningunni „hvort efnahags- hrunið megi að einhverju leyti skýra með starfsháttum og siðferði.“ ( bls. 7 (leturbreytingar eru mínar)) Þess vegna er ekki óeðlilegt að gera nokkra grein fyrir þeim hugmyndum höfunda sem koma fram um hvoru tveggja.   

Höfundarnir benda á að því sé gjarnan haldið fram að það sé erfitt að festa hendur á siðferðinu. Samt þurfum við ekkert að hugsa okkur um þegar við kennum börnunum okkar að það er rangt að: meiða, stela og ljúga enda mynda þessi grundvallaratriði kjarna mannlegs siðferðis.

Í störfum fagstétta er siðferði svo samofið góðum starfsháttum að það verður ekki sundur skilið.
Þetta á til dæmis við um siðferði í viðskiptum og stjórnmálum. Vandaðir og viðurkenndir starfshættir á þessum sviðum mynda þá viðmið fyrir gagnrýna siðferðilega greiningu. Spurningarnar í slíkri greiningu ættu að vera um það hvort menn efni þau loforð sem hugmyndir um:

  • fagmennsku
  • vandaða starfshætti
  • lýðræðislega stjórnarhætti og
  • góða viðskiptahætti

fela í sér. Vandaðir og góðir stjórnsiðir einkennast til að mynda af því að „embættismenn og kjörnir fulltrúar gegna skyldum sínum af heilindum og samviskusemi. Þær skyldur taka öðru fremur mið af því að störfin fela í sér almannaþjónustu.“ (bls. 10)

Höfundar árétta svo enn frekar hvaða siðferðilegu viðmið embættismenn og kjörnir fulltrúar þurfa að temja sér svo vel fari með eftirfarandi orðum:

Á opinberum vettvangi þarf siðferðileg hugsun öðru fremur að lúta viðmiðum um almannahagsmuni enda ber almannaþjónum að efla þá og vernda gegn hvers konar sérhagsmunum. Það er einkenni siðferðilegrar hugsunar að hún metur gæði þeirra markmiða sem stefnt er að. Tæknileg hugsun aftur á móti snýst um að velja áhrifaríkustu leiðirnar að völdu markmiði óðháð því hvert það er.

Siðferðileg hugsun hefur átt erfitt uppdráttar meðal annars vegna þess að ákveðið viðmiðunarleysi hefur verið ríkjandi um ágæti markmiða og vantrú á rökræðu um þau. Slík afstaða býr í haginn fyrir að sérhagsmunir þrífist á kostnað almannahagsmuna en það er eitt megineinkenni á því hugarfari sem ríkti hérlendis í aðdraganda bankahrunsins. (bls. 10 (leturbreytingar eru mínar))


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góð færsla og gott mál með blogg um lestur á skýrslunni.  Það er notalegt að finna hér allt það góða fólk sem vill breyta og bæta samfélagið.  Að lokum munum við öll ná saman og mynda þann þrýsting sem þarf til að búa til samfélag sem við getum sætt okkur við að ala börnin okkar og barnabörnin upp í.  Það þarf samt festu og áræðni.  En sem betur fer eru margir sem hafa þá eiginleika.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.8.2010 kl. 11:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband