Eins og hefur komið fram hér á blogginu mínu þá er ég í leshóp sem var stofnaður í þeim tilgangi að lesa Rannsóknarskýrsluna og freista þess að opna meiri umræðu um innihald hennar. Við ákváðum að byrja á 8. bindi hennar og eins og er þá er ég að lesa um þá fyrirtækjamenningu sem mótaðist hér á landi um og upp úr síðustu aldamótum.
Eitt af því sem vekur athygli í því sambandi er að eigendur banka og fyrirtækja svo og stjórnendur eftirlitsstofnana og síðast en ekki síst stjórnmálamennirnir hlustuðu ekki á neinar viðvaranir og útilokuðu reynslu fortíðarinnar. Eftirfarandi gátlista yfir lærdóma sögunnar er að finna í 8. bindi Rannsóknarskýrslunnar bls. 14. Ég reikna með að lesendur sjái strax að rekstur bankanna hér var (og er kannski enn?) uppskrift af gjaldþrot
Lærdómar af fyrri bankakreppum: 1. Fylgjast þarf staðfastlega með hæfni þeirra sem ráða fyrir bönkum sem eigendur og stjórnendur. Því að menn með vafasama fortíð eða kunnáttu sækjast þar til áhrifa. 2. Aldrei má slaka á settum reglum um mat á tryggingum og útlánaáhættu, engir forgangs-viðskiptavinir eiga að vera til. 3. Vakandi auga þarf að hafa með þeim sem eru fundvísir á leiðir framhjá reglum, skráðum og óskráðum, í leit að hagnaði. 4. Innherjaviðskipti eru sérstaklega hættuleg afkomu banka. 5. Þar sem innherjar eru að verki fylgja oftast önnur brot á starfsreglum í kjölfarið. 6. Eftirlitsaðilar þurfa að vera vel upplýstir um allar ákvarðanir og eftirlit, bæði með kröfum umskýrslugjöf og virku eftirliti á staðnum. 7. Þekkingarskortur og sofandaháttur, ekki síst af hálfu bankaráðsmanna, eru meðal helstu orsaka áfalla í rekstri banka. 8. Séu lög og reglur varðandi rekstur og endurskoðun banka ófullnægjandi verða eftirlistaðilar að hlaupa í skarðið og vera á verði gagnvart óheilbrigðri starfssemi. 9. Mat á því hvort eigið fé sé nægilegt er ekki nóg. Athuga verður hvaða veikleikar í rekstrinum valda veikri stöðu eigin fjár. 10. Skipulag banka með mikil og margbrotin viðskipti þarf að vera skýrt með ljósum starfsreglum um ábyrgð og starfssvið hvers og eins. 11. Ekkert er mikilvægara en að eftirlitsaðilar séu óháðir og að heimildir þeirra og geta til að knýja aðila til að fylgja settum reglum séu ótvíræðar.
|
Ég vil einnig vekja athygli á því að vinnuhópurinn sem vann að 8. bindinu lítur svo á að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis verði grundvöllur fyrir upplýsta og málefnalega umræðu um starfshætti og siðferði í íslensku þjóðfélagi. Hvort það nái fram að ganga ræðst hins vegar af móttökunum sem hún fær. Ég reikna með að þeir séu fleiri en við sem skipum áðurnefndan leshóp sem blöskrar tómlætið og þögnin sem er ríkjandi varðandi Rannsóknarskýrsluna.
Það er ljóst að nefnd skipuð þingmönnum samræmist ekki þeirri hugmyndafræði sem sett eru fram í
Skýrslunni varðandi það hvernig heillavænlegast sé að nýta hana til þeirra þjóðfélagsbreytinga sem nauðsynlegar eru (8. bindi bls. 14). Ef þú vilt taka þátt í að skapa opnari umræðu um innihald Rannsóknarskýrslunnar hvet ég þig að kíkja á
þessa bloggsíðu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.