Þegar tíminn stendur í stað:-(

Af glópaskýjum sem verða að dimmviðrisskýjum...

Eins og ég hef vikið að hér áður líður mér vægast sagt mjög undarlega. Ég reyni að ná áttum með því að horfa til baka og rifja upp aðdragandann og nýliðna atburði. Einkanlega atburðarrás síðastliðins vetrar. Ég reyni að raða minningarbrotunum saman og fá út úr þeim heildræna en ekki síður vitræna mynd. Þrátt fyrir allt gengur mér það misjafnlega.

Orustugyðja orðsins Ég sé út úr myndinni svikna þjóð. Fórnarlömb sem urðu fyrir barðinu á græðgi og spillingu en þau tóku sig saman og létu í sér heyra. Ég sé óreynda hermenn réttlætisins rísa upp og brýna vopn orðræðunnar. Ég sé fólk sem hrinti af stað nýrri aðferð í íslenskri þjóðmálaumræðu. Þetta eru einstaklingar sem unna friði og réttlæti en var svo nóg boðið að það gat ekki látið sem ekkert væri lengur.

Allt þetta fólk reyndi að ná til skynsemi stjórnarelítunnar og vekja athygli þeirra á skyldum þeirra gagnvart landi og þjóð. Það kostaði tíma, hugvit og orku. Lengi vel voru viðbrögðin engin. Þetta fólk var algjörlega hundsað en einhverjir voru úthrópaðir fyrir að vera eitthvað annað en það sem þeir sögðust vera. Ég gaf mér ekki mikinn tíma til að hugsa um þessa hlið málanna í hita leiksins en þetta vakti mér gjarnan bæði furðu og reiði.

Mér fannst undarlegt að bera það saman hvernig útrásarvíkingar höfðu lagt undir sig fjölmiðlana áður en þegar tími frelsishetjanna rann upp voru þær hundsaðar. Fólk sem hélt ræður uppfullar af lausnum og góðum ráðum var þagað í hel. Það var meðvitað látið sem það hefði ekkert til málanna að leggja en rokið upp til handa og fóta í hvert skipti sem einhver vildi vefengja og ófrægja tilgang þeirra sem vildu bregðast við af skynsemi við því ástandi sem upp var komið í samfélaginu.

Í stað þess að sökudólgar og klíkubræður þeirra stæðu upp og sættu ábyrgð var ákveðið að efna til nýrra kosninga í því ruglingslega ástandi sem búið var að skapa með þögninni fyrst og fremst. Strax í aðdraganda kosninganna var augljóst að það var hyldýpi á milli þess hvernig ástandið blasti við þjóðinni. Margir fögnuðu því þó að fá tækifæri til að kjósa en aðrir sáu enga lausn fólgna í þeirri ákvörðun.

Í mjög einfaldaðri mynd má segja að ástandið hafi verið og sé enn þetta: Einhverjir vilja halda í það sem var og fá aftur tækifæri til að hámarka gróða sinn við erlend spilaborð en hinir vilja umbylta hugsunarhættinum. Ég tilheyri þeim hópi sem vill bylta hugsunarhættinum og verðmætamatinu. Það má kalla mig afturhaldssegg fyrir það að segja að rót vandans sem við stöndum frammi fyrir er gróðahyggjan. Lausn vandans er því fólgin í því að setja mennskuna í öndvegi.  Kannski þurfum við að henda peningunum til að slík forgangsröðun verði að veruleika.

Ég vil að við snúum okkur að því að koma okkur saman um það hvernig við getum lifað í sátt og samlyndi á eyjunni okkar Íslandi. Horfum okkur nær og hættum að góna og gapa eftir háreistum peningaveldisturnum handan við hafið. Einbeitum okkur að framleiðslu á matvælum og verðmætum sem gera okkur kleift að lifa af. Hættum að byggja skýjaborgir úr peningum því peningar eru og verða aldrei sönn verðmæti!


Peningar eru valtir og gildi þeirra getur hrunið án nokkurs fyrirvara. Peningar verða heldur aldrei étnir frekar en málmurinn eða pappírinn sem þeir eru gerðir af. Þessi einföldu sannindi ætti öllum að vera ljós. Þess vegna er það undarlegt að horfa upp á þá sem hafa viljað kenna sig við jöfnuð og sósíalisma berjast fyrir því að allir haldi kjafti, hlýði og verði góðir gagnvart þeirri forgangsröðun sem varð ofan á eftir kosningar. Þeirri forgangsröðun sem miðar að því að þjóna peningaöflunum á kostnað okkar, íslensku vinnuafli.

Ég hafði af því gífurlegar áhyggjur að síðustu kosningar myndu fyrst og fremst snúast um það sem hefur svo komið fram svo stuttu síðar. Þetta er þetta ofurkapp að koma þjóðinni að evrópska spilavítisborðinu. Ofurkappið er svo mikið að það er rétt eins og allur vandinn fyrir kosningar hafi gufað upp! Það fór ekki hátt en miðað við úrslitin varð mörgum ljóst í hvað stefndi. Ég leyfði mér enn að vera bjartsýn en sú bjartsýni er orðin að engu...

Það er ljóst að við verðum að spyrja okkur nokkurra spurninga í sambandi við þær staðreyndir sem bankahrunið slengdi framan í okkur. Staðreyndir sem ekkert hefur verið tekist á við og er ekki útlit fyrir að eigi að takast á við. Stóra spurningin er auðvitað fyrst og fremst hvað verður næst! Henni fylgja nokkrar minni spurningar sem er vert að íhuga rækilega áður en næstu skref verða tekin:

Erum við tilbúin til að gleyma, beygja okkur undir okið og sætta okkur við það að sumir eru jafnari en aðrir? Erum við tilbúin til að sætta okkur við meðferðina á okkur sjálfum, afkomendum okkar og meðbræðrum? Erum við tilbúin til að búa við lélegri menntun, heilbrigðisþjónustu og réttargæslu um langa framtíð vegna þess að eigendur bankanna tæmdu ríkiskassann í gegnum bankanna? Erum við tilbúin að láta þetta yfir okkur ganga á meðan það fjármagn sem er til er látið ganga í hina botnlausu hagsmunahít fjármagnseigenda?

Auk þess þurfum við að velta eftirfarandi fyrir okkur líka: Erum við tilbúin til að selja erlendum stórfyrirtækjum vatnsbólin okkar, ræktarlönd, virkjunarmöguleika og fiskinn í sjónum ásamt öðrum auðlindum? Erum við tilbúin til að greiða erlendum samsteypum afnotagjöld af hita, rafmangi og vatni? Erum við tilbúin til að kaupa íslenskar landbúnaðar- og fiskiafurðir af erlendum risafyrirtækjum?

Viðreisn framtíðarinnar Erum við tilbúin til að selja frá okkur eignaraðild að innlendri framleiðslu? Erum við tilbúin til að vera ódýrt vinnuafl erlendra risasamsteypufyrirtækja sem reisa verksmiðjur sínar þar sem þeir geta bolað þeim niður? Erum við tilbúin til að búa í landi sem verður okkur meira og minna lokað eftir að hér hafa risið landfrekar risaverksmiðjur og virkjanir sem knýja þær áfram? Erum við tilbúin til að vera útilokuð frá þeim landssvæðum sem þær þekja ásamt helstu náttúruperlum landsins sem erlendir auðjöfrar hafa sölsað undir sig og sína sem sumarbústaðalönd?

Er þetta marklaust svartsýnishjal? Ég viðurkenni að þetta er svört framtíðarsýn en ég minni á að hún er eingöngu sprottin upp úr þeim raunveruleika sem er orðinn nú en var kallaður svartsýnishjal síðastliðið haust og langt fram á vetur! Hún er sprottin upp úr órökréttri forgangsröðun sem tekur ekki tillit til mannúðar, skynsemi eða réttlætis. Framtíðarsýn mín byggir á þeirri staðreynd að við búum við ótrúlega blint og heimskt stjórnarfar sem neitar að fara að skynsemisráðum en hleypur alltaf eftir gróðahyggjuráðum!

Ég bið guð að hjálpa landi og þjóð þannig að við eigum mannvænlegri framtíð en þá sem liggur í spilunum mínum núna!


mbl.is „Farið hefur fé betra“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Flott hjá þér en því miður hlusta þessar vættir ekki á þig/okkur

Sigurður Haraldsson, 6.8.2010 kl. 01:51

2 Smámynd: Ingvi Rúnar Einarsson

Rakel. Þessi pistill þinn er góður,og vekur hugann til þess tíma,sem hann var skrifaður.Því miður voru svona pislar ekki lesnir.Þeir sem höfðu áhrif sáu ekkert nema sínar hugannir og gera enn.Það virðist að heilaþvottur hafa viðgengis.Allir stjórnarmenn hafa þurrkað út allt það,sem heilar þeirra höfðu að geyma,og tekið stefnu,sem hafði verið innbyggt í höfuð þeirra,og ekki vikið af henni,hvort eða hversu vitlaus óg sársaukaleg hún er.Þakka birtingu á pislinum.

Ingvi Rúnar Einarsson, 6.8.2010 kl. 19:12

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Pistill þinn er enn betri i dag, en hann var fyrir ári síðan Rakel..

Og hann er svo óendanlega sannur.

Hvernig er hægt að byggja upp betra land, betri heim????

Veit ekki svarið, en opinberlega er þjóðin föst í gamla farinu og gömlu frösunum.  Skil til dæmis ekki af hverju það er verið að mennta fólk.  Það eina sem skapar atvinnu er fabrika, það vantar fabriku segja menn.

Það er allt að fara til helvítis því það er engin fabrika.

Á hvað öld erum við????

Eins þetta með álitsgjafana sem svæfðu alla gagnrýni á forsendum spilaborgarinnar.  Og kæfðu strax niður alla umræðu um réttlátara og betra þjóðfélag.  Hverjir eru siðlausari, fjölmiðlamaðurinn sem fær í spjall, eða sá sem mætir og tekur alltaf afstöðu gegn framtíðinni????

Ég viðurkenni fúslega að ég taldi þörf á umræðu um eitthvað nýtt, eitthvað sem yrði betra, eitthvað sem tæki tillit til mistaka fortíðar, og þeirrar staðreyndar að engum líkaði gamla græðgiþjóðfélagið, og fáum hugnast það þjóðfélag sem ríkisstjórnin er að endurreisa fyrir auðmenn undir yfirumsjón AGS.

En ég er löngu hættur að nenna slíku, mæti bara í heimsókn hjá góðu fólki og les hugsanir þess.  Það er þeirra sem ennþá nenna þessu.

En það verður ekkert endurreist í framtíðinni, ef við missum völdin endanlega í hendur á AGS, og sitjum uppi með ICEsave.  Aðeins andstaða þjóðarinnar hefur hindrað þau áform.

Og sú andstaða sem slík er sterkari í dag, en var fyrir ári síðan.  Þá voru rosamargir sem lögðu lag sitt við lið sem kallaði spilling og ú á íhaldið, og Davíð ljótur.  En þess eini tilgangur var að ná völdum, völdum sem er notuð á svívirðilegri hátt en íhaldið náði þó nokkurn tímann til að gera, þökk sé þáverandi andstöðu.

Í dag sjá flestir í gegnum þetta lið, skilja muninn á andstöðu, og þjónkun við markmið AGS og ICEsave kúgunar breta.

Og það er leitun að manneskju sem trúir lengur VG og Samfó fólki.  Menn sjá kannski ekki neitt skárra, eða þeir hafa hagsmuni að gæta.  En að þetta fólk sé að skapa eitthvað nýtt og betra, því trúir ekki nokkur maður.

Og það er árangur sem ekki má vanmeta.

Svo kemur byltingin.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.8.2010 kl. 22:51

4 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Já bylting er óumflýjanleg!

Sigurður Haraldsson, 10.8.2010 kl. 21:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband