Hvar ætlum við að byrja?

Vonbrigðin sem helltust yfir mig við hrunið eru að hellast yfir mig á nýjan leik af endurnýjuðum krafti. Ástæðan er sú sama og þá sem er að það verður ljósara með hverjum deginum sem líður frá útkomu Rannsóknarskýrslunnarþað ætlar enginn að axla ábyrgð og það ætlar enginn að krefjast þess að neinn taki ábyrgð. A.m.k. enginn sem þeir sem brutu af sér taka mark á.

Þvert á móti þá keppast nú gerendur hrunsins og stuðningsmenn þeirra, sem leiddu þjóðina inn í fordyri helvítis í krafti gegnsýrðrar græðgi, um að víkja sér undan sök með ýmislegum hætti. Forsetinn skammast út í staðreyndavillur og villandi upplýsingar sem hann segir að höfundar Rannsóknarskýrslunnar hafi gert sig seka um (sjá t.d. hér) og Björgólfur Thor sendir þjóðinni afsökunarbréf! (sjá hér)

Ég gæti talið upp fleiri, sem í siðvilltu dómgreindarleysi sínu, neita að horfast í augu við sektina og vanhæfnina en læt dæmin hér á undan duga. Það er auðvitað grafalvarlegt mál að umsvifamestu fjármagnseigendur landsins og ráðamenn þjóðarinnar skuli koma þannig fram og komast upp með það! En ástæðan liggur væntanlega í augum upp.

Þögnin og aðgerðarleysið undirstrikar aðeins það að enginn er saklaus! Stjórnkerfið er allt gegnumsýrt af samofinni spillingu og sekt. Niðurstaðan er því sú að ef við, fólkið í landinu, gerum ekki neitt þá breytist ekki neitt!

En hvað getum við gert? Frá því að mótmælin og borgarafundirnir sem fóru af stað við hrunið haustið 2008 liðu undir lok, í kjölfar afsagnar ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, snemma á síðasta ári hefur verið lítil virkni í viðspyrnu almennings gegn því óréttlæti sem margan grunaði að þjóðin hefði verið beitt og nýútkomin Rannsóknarskýrsla staðfestir.

Mótmælafundirnir á laugardögum tóku sig þó upp aftur í Reykjavík (sjá hér) auk þess sem harður kjarni mótmælenda hefur komið saman og mótmælt við ýmis stærri tilefni eins og afgreiðslu stjórnvalda á Icesave. Borgarafundirnir á Akureyri héldu líka áfram og var síðasti fundur vetrarins haldinn nú fyrir skömmu (sjá hér). Þessar aðgerðir hafa auðvitað einhver áhrif en þær eru seinvirkar. Það þarf þess vegna eitthvað stærra að koma til ef þjóðin ætlar ekki að sætta sig við að verða eign erlendra gervimanna.

Margir eru enn eitthvað heimóttalegir gagnvart því að taka þátt í mótmælum. Hvað þá alvöru byltingu. Það verður hins vegar ljósara með hverjum deginum sem líður frá útkomu Rannsóknarskýrslunnar að alvöru bylting, þar sem almenningur yfirtekur stjórn landsins, er óumflýjanleg ef hér eiga að verða einhverjar raunverulegar breytingar.

Það hafa nokkrir mælt með allsherjarverkfalli. Ég reikna með að það komi af sjálfu sér þegar byltingin hefst. Ég tel að ef það á ekki að fara fram stórfelld hreingerning inni í stjórn-, embættismanna- og fjármálakerfinu með afsögnum og/eða uppsögnum þá sé bylting íslenskrar alþýðu óumflýjanleg! Það er nefnilega orðið lífsspursmál fyrir okkur, íslensku þjóðina, að rífa ofan af okkur þá möru sem þjónar græðginnar hafa lagt á okkur.  

Bylting er ekki eitthvað sem maður skipuleggur en ég ætla samt að varpa fram ofurlítilli hugmynd sem varðar liðskönnun. Við getum sett upp fíflafánann ef við erum tilbúinn að taka þátt og/eða styðjum byltingu.
Alvöru byltingarfániÞeim sem hafa ekki kynnst þessum fána bendi ég á að sögu hans er að finna hér.

Það er hægt að panta fánann í mismunandi stærðum á vef vefverslunar Fánasmiðjunnar á Þórshöfn. Ef einhver vill minni fána en þá sem eru í boði þar þá má annaðhvort hringja í Fánasmiðjuna (síminn er 577 20 20) eða senda póst með slíkum séróskum. Eins er hægt að fá bílafánann sem handflagg.

Ég hvet þá sem vilja breytingar til að drífa sig í því að panta fána og koma honum fyrir á áberandi stað þannig að boðin um byltingarviljann berist hratt og örugglega út í samfélagið. Það er mín skoðun að slík skilaboð muni hafa áhrif.

Auðvitað væri það óskandi að blaktandi fíflafáni í flaggstöngum og úti á snúrum vítt og breitt um allt land muni hafa áhrif á þá sem leiddu kreppuna yfir okkur en ég myndi ekki treysta á það. Hins vegar reikna ég fastlega með að hann myndi auka samstöðuvitund þjóðarinnar sem er það sem okkur vantar til að bregðast við núverandi óstandi.

Mig langar til að nota þetta tækifæri til að vekja athygli á því að Hörður Torfa las þennan pistil frá mér um fánann og í framhaldi af því samdi hann texta sem ég birti hér að neðan með góðfúslegu leyfi hans. Hann hefur líka samið lag við þennan texta sem hann flutti á tónleikunum sínum í Iðnó 8. apríl síðastliðinn.

Ég hef því miður ekki heyrt lagið en Hörður kemur öllum þeim hugmyndum og hugsjónum sem ég tengi við þennan fána á framfæri í textanum sínum á svo einfaldan og magnaðan hátt að það er vart hægt að ímynda sér að það verði gert betur.
Með 
vindinum fýk ég sem fræ...
Söngur fíflanna
eftir Hörður Torfa

með vindinum fýk ég sem fræ
mitt frelsi er að berast með honum
við heiminum sólgulur hlæ
með hjarta fullt af vonum

ég dafna allstaðar ögrandi
Sá sólgulisem útskúfuð jurt á engi
fíflið sem segir alltaf satt
er sjaldan velkomin lengi

menn reyna oft að malbika
mig oní jörð en ég hvika
hvergi og kem alltaf aftur
í mér býr lífsgleði vilji og kraftur
ég hef margt að segja og sanna
Andstöðutáknég er sigurtákn meðal manna
uni því sáttur og sæll
ég er sigurvegari en ekki þræll

ég er fíflið sem ást sína ól
á öllu sem skiptir máli
ég nýt þess að nærast á sól
neita öllu falsi og prjáli

ég tákna andstöðu alls
sem eyðir kúgar og svíkur
ég er fífill og líka fífl
falslaus og engu líkur


mbl.is Ólafur Ragnar svarar fyrir sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ljóðið hans Harðar Söngur fíflanna er alveg frábært.  Ég er algjörlega sammála þér í þessum pistli.  

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 15.4.2010 kl. 00:28

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir innlitið. Ég er líka hugfangin af textanum hans Harðar Torfa Verð hrifnari og hrifnari af honum eftir því sem ég les hann ofar. Sannast sagna þá langar mig alls ekki í neinn ófrið en það er ekki hægt að búa við það sem stjórnvöld ætla sér að bjóða okkur upp á og þess vegna sýnist mér að við eigum ekkert annað eftir. Það er hins vegar spurning hvernig við útfærum þessa byltingu. Sjálfri hugnast mér hugmynd Evu Hauksdóttur mjög vel sem í stuttu máli gengur út á það að svelta svínin! Sjá hér

Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.4.2010 kl. 01:56

3 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Sú tilfinning sem ég fæ þegar menn sem stóðu fremstir í því að taka peningana úr kerfinu segist vera saklausir er að svona hafa allir komist upp með á íslandi til þessa og um leið ætla allir að komast upp með að þurfa ekki að bera ábirgð. Forsetinn segist ekki vera sekur en hann er það klárlega einnig Björgólfur. Björgvin G Sigurðsson sem ætlar að víkja frá alþingi tímabundið það eitt segir okkur að hann ætlar að koma inn aftur eins og ekkert hafi í skorist svona hefur þetta verið og svona vona gerendur hrunsins að það muni vera. Það er okkar að koma í veg fyrir að þjófarnir gangi lausir og láta landráðamennina svara til saka! Útkoman má ekki verða hvítþvottur til þess er sápan allt of skítug.

Sigurður Haraldsson, 16.4.2010 kl. 10:49

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Málið er að þegar útvarpað var frá fundunum á Austurvelli komst á einhverskonar samvinna, fólk kom líka af því að það var gert eitthvað til að kynna ástandi, fólk hlustaði á ræðurnar og fylltist bjartsýni og baráttuhug, getur einhver sagt mér af hverju útvarp allra landsmanna hætti að útvarpa frá fundunum?  Eru núverandi stjórnvöld hrædd við það sem kemur þar framm? Þora þau ekki að mæta almenningi augliti til auglitis í sjónvarpinu og útvarpinu.

Ég legg til að við heimtum að sjónvarpað verði frá fundunum aftur og útvarpað líka.  Þetta er OKKAR fjölmiðill og við eigum heimtingu á að honum sé beitt í okkar þágu. Svo látum það berast með afgerandi hætti að VIÐ VILJUM ÚTVARPAÐ SÉ FRÁ AUSTURVALLAFUNDUM, BÆÐI Í SJONVARPI OG ÚTVARPI.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.4.2010 kl. 18:34

5 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Var var við þetta þegar ég mætti á fundi að fjölmiðlar birtu ekki fréttir af fundunum og líkað mér það illa, fékk þá tilfinningu að maður þyrfti að brjóta eitthvað eða kveikja bál til að eftir okkur yrði tekið.

Sigurður Haraldsson, 21.4.2010 kl. 18:29

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ásthildur: Þetta er rétt sem þú bendir á. Nú eru mótmælafundirnir á Austurvelli ekki lengur svipur hjá sjón frá því sem þeir voru og ábyggilega margir sem hafa ekki hugmynd um að þeir standa enn.

Ég get ekki betur séð en að það sé unnið skipulega að því að drepa niður þá litlu viðspyrnu sem er fyrir hendi. Það gengur sorglega vel. En þó er ákveðinn kjarni sem lætur sér ekki segjast og neitar að gefast upp. Sigurður er einn af þeim

Mig grunar að þessi kjarni geri sér betur grein fyrir heildarsamhenginu og því sem framundan er en gegnur og gerist meðal almennings.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 23.4.2010 kl. 03:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband