Sekir þurfa að víkja. Saklausir að taka sig saman og knýja á um það.
13.4.2010 | 22:02
Ég sendi þingmönnum meðfylgjandi bréf nú fyrir stundu. Ég birti það hér vegna þess að þeir sem vilja mega nota það orðrétt eða breytt í þeim tilgangi að reyna að vekja þingmenn og ráðherra þjóðarinnar til ábyrgðar.
Akureyri 13. apríl 2010
Góðan daginn!
Ég veit að ykkur berast mörg bréf á dag og þess vegna ætla ég að leggja mig fram við að hafa þetta ekki of langt en erindi mitt er brýnt!
Erindi mitt er að hvetja þau ykkar sem eruð sek og getið í nýútkominni rannsóknarskýrslu að segja af sér þingmennsku nú þegar. Ég hvet líka þau ykkar sem eru sannanlega saklaus til að taka sig saman og knýja á um þessa réttlætiskröfu.
Hafið það hugfast í því sambandi að vinur er sá sem til vamms segir en ykkur ber þó fyrst og fremst að vinna að því að byggja upp traust almennings til íslenskrar stjórnsýslu. Það verður ekki gert á sama tíma og grunaðir sitja á Alþingi Íslendinga!
Á meðan þeir sem eru grunaðir sitja áfram á þingi nýtur það ekki trausts og er þess vegna ónýtt. Það vita það líka allir, sem vilja horfast í augu við þá staðreynd, að traustið sem þingmenn njóta um þessar mundir er hverfandi.
Það er brýnt að bregðast við þessu með því að þeir sem hafa gerst brotlegir eða eru grunaðir um slíkt víki þingsæti eins og tíðkast hjá þeim þjóðum sem vilja kenna sig við siðmenningu en hún byggir m.a. á því að þjóðkjörnir fulltrúar taki siðferðislega ábyrgð.
Ég skora á bæði þingmenn og ráðherra að taka mark á orðum mínum vegna þess að, að öðrum kosti stefnir í algera upplausn í samfélaginu. Fólk er ekki aðeins slegið yfir þeim upplýsingum sem Rannsóknarskýrslan staðfestir heldur er það líka reitt. Fæstir búa yfir þeim eiginleika að kunna að hófstilla reiði sína og þess vegna er það mjög alvarlegt að ala á reiðinni með hálfkæringi og/eða sofandahætti og bjóða þannig hættunni heim.
Það er ekki nóg að þingmenn og ráðherrar tali um endurmat og endurreisn. Þið verðið að sýna viljann í verki og byrja á ykkur sjálfum. Ég þykist vita að þið viljið öll vel en þið ykkar sem hafið orðið ber af því að misnota aðstöðu ykkar, fyrir ykkur sjálf og ykkar nánustu, ykkur ber að horfast í augu við gjörðir ykkar og þá ábyrgð sem þið berið gagnvart íslensku samfélagi og segja af ykkur.
Þetta er nauðsynlegt til að sefa reiðina sem ríkir í samfélaginu en þó ekki síst til að byggja upp traustið sem verður að ríkja til stjórnkerfisins. Á meðan þeir sem hafa orðið berir af misnotkun á stöðu sinni og/eða eru grunaðir um slíkt sitja áfram á Alþingi þá mun íslensk stjórnsýsla ekki aðeins vera í kreppu heldur samfélagið allt!
Þeir sem neita að víkja þingsæti þrátt fyrir sekt eða grun um hana ásamt þeim sem láta það viðgangast grafa ekki aðeins undan trausti almennings til Alþingis. Þeir standa í vegi fyrir því að hið bráðnauðsynlega uppbyggingarstarf, sem þjóðin öll stendur frammi fyrir, geti hafist.
Almenningur hefur sýnt ykkur ótrúlegt umburðalyndi og þolinmæði í meira en eitt og hálft ár en mælirinn er að fyllast. Bíðið ekki eftir því að upp úr sjóði með ófyrirsjáanlegum hörmungum heldur takið nauðsynlega ábyrgð.
Sýnið sjálf að þið berið virðingu fyrir því starfi sem kjósendur treystu ykkur fyrir. Látið ekki flokks- og/eða vináttutengsl trufla ykkur heldur knýið á um að þeir sem hafa brugðist segi af sér þingmennsku tafarlaust. Þannig en ekki öðruvísi er hægt að byrja á að draga úr því vantrausti sem Alþingi býr við núna.
Þá og ekki fyrr getum við byrjað að byggja upp!
Með vinsemd og virðingu, Rakel Sigurgeirsdóttir, kjósandi í Norðurlandskjördæmi eystra.
Viðbót: Ég ætla að bæta við þessa færslu tengli í ræðu Þórs Saari sem hann flutti í þinginu í dag þar sem hann dró fram nöfn þeirra þingmanna sem sitja enn á þingi en þáðu styrki og/eða óeðlilega fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá íslensku bönkunum samkvæmt nýútkominni Rannsóknarskýrslu. Vek líka athygli á því að Þór hefur líka sett ræðuna inn á bloggið sitt. (Sjá hér)
Þar taldi hann fyrst upp nöfn þeirra Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, Bjarna Benediktssonar og Ólafar Nordals sem höfðu tekið lán upp á einhverja milljarða. Upphæðirnar eru fyrir ofan minn talnaskilning þannig að ég bendi á ræðu Þórs í því sambandi.
Hér er hins vegar tafla yfir núverandi þingmenn og þá styrksupphæð sem þeir þáðu frá Landsbankanaum og Kaupþingi samkvæmt upplýsingum sem koma fram í töflu skýrslunnar númer 8.11.2.
Nafn | Upphæð styrkjar |
Steinunn Valdís Óskarsdóttir | 3,5 milljónir |
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir | 3 milljónir |
Guðlaugur Þór Þórðarson | 2,5 milljónir |
Kristján L. Möller | 2,5 milljónir |
Össur Skarphéðinsson | 1,5 milljónir |
Björgvin G. Sigurðsson | 1,1 milljón |
Guðbjartur Hannesson | 1 milljón |
Helgi Hjörvar | 800 þúsund |
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir | 550 þúsund |
Ragnheiður Elín Árnadóttir | 550 þúsund |
Árni Páll Árnason | 300 þúsund |
Jóhanna Sigurðardóttir | 200 þúsund |
Katrín Júlíusdóttir | 200 þúsund |
Valgerður Bjarnadóttir | 200 þúsund |
Ákvæði um ráðherraábyrgð duga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.4.2010 kl. 00:50 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er algjörlega frábært bréf og ég tek undir hvert orð. Gott hjá þér Rakel að skrifa þeim bréf. Þetta er frábært.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.4.2010 kl. 22:48
Ee þér hjartanlega sammála, góð grein.
Jón Sveinsson, 13.4.2010 kl. 23:01
Ég þér hjartanlega sammála, góð grein.
Smá ritvilla hjá mér
Jón Sveinsson, 13.4.2010 kl. 23:03
Þakka ykkur fyrir báðum tveimur
Rakel Sigurgeirsdóttir, 13.4.2010 kl. 23:11
Einnig þeir sem eru vanhæfir sökum tengsla við brotlega menn.
Pétur Guðmundsson (IP-tala skráð) 14.4.2010 kl. 00:29
Flott bréf hjá þér, því miður sér þetta fólk ekkert athugavert við gjörðir sínar.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 14.4.2010 kl. 00:40
Því miður er útlit fyrir að það sé rétt hjá þér en við eigum ekki að láta bjóða okkur upp á það að stjórnmálamennirnir fái að sitja áfram bara vegna þess að þeir eru svo firrtir öllu siðferði og allri sjálfsgagnrýni!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.4.2010 kl. 02:13
Gott bréf og lýsir því hvernig flestum okkar er innanbrjósts.
Er því miður sammála Jónu um afstöðu þessa fólks og einhvernvegin hef ég það á tilfinningunni að það sé ætlunin að humma sig í gegnum þessa skýrslu, setja á svið einhverja sýndar kerfishreynsun en halda síðan áfram á sömu braut og treysta á afspyrnu lélegt minni Íslenskra kjósenda.
En gott framtak hjá þér því ef við gerum ekkert þá gerist ekkert.
Hólmsteinn Brekkan (IP-tala skráð) 14.4.2010 kl. 08:31
Er sammála hverju orði og raunar steinhissa á að ekki hafi soðið upp úr enn.
Fúnir innviðir Íslands og heilsuspillandi rakasveppir.
Ævar Rafn Kjartansson, 14.4.2010 kl. 10:46
Því miður er það svo siðleysingjum er móralskt sama um ranglæti sem þeir fremja. Það er eðli sjúkdómsins. Þannig að ég er hrædd um að til að geta losað okkur við slíkt fólk úr ábyrgðarstöðum þá þurfi aðrir að sjá um að sparka því.
Þar reynir á valdamikla aðila sem hafa einhvern vott af samvisku að taka til sinna ráða.
Sigríður Halldórsdóttir (IP-tala skráð) 14.4.2010 kl. 15:33
Stóð við alþingi í gær 4 tíma með skilti sem á stóð, LÝÐRÆÐI!. Sýndi ráðherrum og þingmönnum skiltið til að minna á að lýðræðið hefur gleymst inni í alþingi og hefur það vikið fyrir flokksræðinu og einkavinavæðingunni. Nokkrir ráðherrar og þingmenn veifuðu mér til að minna á að þau voru að fylgjast með en ég saknaði þess að Þór Saari veifaði ekki og gekk niðurlútur eins og hann vildi ekki sjá mig það fór ekki vel í mig vegna þess að ég bind miklar vonir við hann.
Það sem vakti mesta undrun mína var að enginn virtist ætla að láta sjá sig þennan dag sem skýrsla rannsóknarnefndarinnar væri rædd í fyrsta sinn á alþingi ég stóð einn til fjögur um daginn en þá komu nokkrir mótmælendur.
Sigurður Haraldsson, 14.4.2010 kl. 21:48
Þú ert alger byltingarhetja! Taktu því ekki persónulega þó þeir sem þú bindur vonir þínar við heilsi þér ekki. Það er líklegt að þeir séu síst undir minna álagi en þú. Stattu keikur því að þú mátt svo sannarlega vera stoltur af sjálfum þér fyrir það hve dyggilega þú stendur með hugsjónum þínum varðandi lýðræðisumbætur.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.4.2010 kl. 22:31
Takk sömu leiðis
Sigurður Haraldsson, 16.4.2010 kl. 00:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.