Án réttlætisins verður útkoman alltaf kolröng!
26.2.2010 | 22:15
Mér þykir það sannast sagna undarlegt hve mörgum bleklítrum er eytt í það sem mér þykja tilgangslausar fréttir um Icesave. Kjarni málsins í mínum augum er sá hvort Íslendingum ber að taka á sig Icesave-skuldina eða ekki. Á meðan úr þeim vafa hefur ekki fengist skorið er tómt mál að velta fyrir sér hvort ný tilboð eru í einhverjum atriðum hagstæðari þeim eldri. Á meðan það ríkir enn réttarfarslegt óvissa um greiðsluskyldu þjóðarinnar þá er augljóst að öll tilboð um greiðslu eru út í hött.
Það er auðvitað enn undarlegra að á meðan þjóðaratkvæðagreiðslan hefur enn ekki farið fram þá skuli enn ein samningalotan standa yfir. (Ég fjallaði um þá hlið málanna hér). Öll framvinda þessa máls þykir mér undirstrika það að það hangir eitthvað meira á spýtunni en látið er líta út fyrir. Ég er sannfærð um að það eru sameiginlegt markmið ríkisstjórna landanna þriggja um að vernda fjármálakerfið eins og það er. Kerfi sem hefur miðað að því að þeir sem hafa komið sér best fyrir í fjármála- og valdaheiminum haldi þeirri stöðu sem þeir búa að nú.
Í þessari frétt sem birtist á Eyjunni fyrr í þessari viku er haft eftir hagfræðingunum John Kay:
Ef þjóðaratkvæðagreiðslan 6. mars fer fram fær almenningur í fyrsta skipti tækifæri til að hafna því að hann skuli ætíð bera fjárhagslega ábyrgð á mistökum banka og bankamanna. Þá hefur leikreglunum [í fjármálaheiminum] verið breytt og þess vegna vilja Bretar og Hollendingar semja.
Allur sá ruglingslegi fréttaflutningur sem hefur viðgengis hér á landi hefur ruglað dómgreind alltof margra meðal þjóðarinnar. Umfjöllunin hér á landi hefur líka verið afar einsleit og að mestu merkt þeim meðvirka hugsunarhætti að Íslendingum beri að borga. Rökin eru flest siðferðislegs eðlis og í versta falli afar lituð af sjúklegri refsiáráttu þess sem trúir því að hann eigi ekkert réttlæti skilið.
Þeir sem halda því fram að það beri að ljúka þessu máli með því að samþykkja samningsskilyrði Breta og Hollendinga hið fyrsta vísa helst til þess að íslenska ríkisstjórnin hafi lofað stjórnvöldum þessara þjóða því að borga skuldina. Allur dráttur á því að skrifa undir samningstilboð þeirra kalli bara yfir okkur enn meiri kostnað ofan á Icesave-skuldina. Þeir útiloka með öðrum orðum álit allra þeirra innlendu og erlendu sérfræðinga sem hafa bent á að það sé bara alls ekki víst að Íslendingum beri að borga samkvæmt lögum.
Á meðan það ríkir einhver minnsti vafi á því hvort okkur beri að borga eða ekki þá ætti það að vera forgangsatriði að láta á það reyna fyrir dómstólum. Það er í hæsta máta undarlegt að íslensk stjórnvöld láti það ekki vera forgangsverkefni sitt að láta skera úr um þessa réttarfarslegu óvissu í stað þess að eyða heilu ári í að lappa upp á svívirðilegan nauðungarsamning. Nauðungarsamning sem lítur svo sannarlega út fyrir það að vera ætlað að knésetja smáríki sem býr yfir verðmætum náttúruauðlindum sem það kann ekki að fara með.
Það er sennilega minnimáttarkennd íslenskra stjórnvalda og nokkurra fjármálahverúlanta sem hafa sett okkur í þá stöðu sem við erum í nú. Í stað þess að setja kraftinn í það að hlúa að og vinna með það sem skapar okkur sérstöðu tóku þessir sig saman í að ryðjast í glórulausa bankaútrás sem endaði í mislukkuðustu fjármálaáhættu síðari tíma ef ekki allra tíma!
Það var minnimáttarkenndin sem knúði þá fram í samkeppninni við fjármálarisa með áratuga reynslu á fjármálmörkuðum heimsins. Í reynd var þetta jafnvonlaust útspil eins og það að ætla sér að tefla knattspyrnuliðinu Völsungi á Húsavík á móti Manchester United...
Í fréttinni á Eyjunni, sem ég vísaði í hér að framan, er þetta líka haft eftir John Kay:
Fjölmiðlar um allan heim beina vaxandi athygli að þjóðaratkvæðagreiðslunni hér um Icesave-málið 6. mars. Er víða lítið svo á að með því að hafna samkomulaginu við Breta og Hollendinga séu Íslendingar að senda táknræn skilaboð um heimsbyggðina alla, að ekki verði við það unað að almenningur sé látinn taka á sig byrðar af óreiðuskuldum fjármálakerfisins.
John Kay er einn af fremstu hagfræðingum Breta. Það ætti að liggja í augum uppi að hann væri ekki að stefna ferli sínum í hættu með því að styðja þjóðaratkvæðagreiðslu og um leið málstað Íslendinga í Icesave-deilunni með svo afgerandi hætti nema vegna þess að honum er fúlasta alvara! Ég minni líka á það að John Kay er langt frá því að vera sá eini sem hefur fagnað þjóðaratkvæðagreiðslunni og það á sömu forsendum.
Bæði leikir og lærðir um allan heim líta á þær sem þáttaskil í misbeitingu fjármálakerfisins gagnvart kjörum almennings. Þess vegna þykir mér það í hæsta máta undarlegt að heyra í venjulegum íslenskum borgunum sem eiga ekkert undir sér sem segjast annaðhvort vilja láta blása þjóðaratkvæðagreiðsluna af eða ætla að segja já við því að Íslendingar gangi að þeim samningi sem samþykktur var á Alþingi undir lok síðasta árs.
Þeir eru enn nokkrir sem hafa ekki áttað sig á því að það skiptir ekki máli hver fjórflokkanna situr í stjórn. Þeir eru allir í hagsmunagæslu fyrir sama fjármálakerfið. Það skiptir engu máli hvort það er Sjálfstæðisflokkur eða Samfylking sem leiðir stjórnarsamstarfið og hvorir, Framsókn eða Vinstri grænir, sitji með þeim í því samstarfi. Þeir vilja allir viðhalda því kerfi sem byggir á því að almenningur borgi þær skuldir sem til verða inni í núverandi fjármálakerfi.
M.ö.o. er það markmið þeirra að viðhalda því kerfi sem hefur viðgengist í aldaraðir og byggir á þægum þegnum eða undirgefnum almenningi. Íslenskur almenningur hefur ekki verið skikkaður til þess af stjórnvöldum að taka þátt í hefðbundnum styrjöldum. A.m.k. ekki enn en þau gera ekkert til að verja hann fyrir afleiðingum þess efnahagsstríðs sem Joseph Stiglitz, sem er m.a. Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, lýsir hér. Afleiðingar þess eru m.a. þær að gróði fjármálaheimsins er einkavæddur en tapið er ríkisvætt.
Ég trúi því ekki að nokkur meðal almennings sé í alvöru tilbúinn til að láta hafa sig að slíkum ginningarfíflum áfram! Því miður virðist þó vera útlit fyrir það að sumir séu ekki enn búnir að átta sig á því að það er einmitt það sem stendur til. Ég hvet því fólk til að byrja á því að líta til baka og átta sig á því að við hrunið 2008 þá var það ekki aðeins efnahagur Íslands sem hrundi. Það var svo miklu, miklu fleira!
Fjármálakerfið hrundi vissulega en það stendur til að reisa það á sama grunni með sama efniviði og áður. Það erum við almenningur sem eigum að mynda grunnstoðirnar en efst munu þeir tróna áfram sem settu kerfið á hliðina. Þeir hafa ekkert lært enda hentar fyrirkomulagið þeim prýðilega. En hvað með okkur sem þurfum að halda því uppi með enn tilfinningalegri hætti en áður? Erum við þess umkomin að læra eitthvað?
En það var fleira en fjármálakerfið sem hrundi. Það er ljóst að traust íslensks almennings á helstu stofnunum samfélagsins hrundi líka. (Sjá hér) Margir hafa þegar áttað sig á því að það er hvorki hægt að tala um mismunandi litróf eða stefnur í íslenskri pólitík lengur. Við verðum að taka upp nýja mælikvarða þar. Við verðum að átta okkur á því að gömlu flokkarnir standa allir vörð um það ranglæti sem við horfum upp á í dag. Ranglæti sem endurspeglast best í því að helstu stefnumál fyrri ríkisstjórna og þeirrar sem situr núna eru nákvæmlega þau sömu.
M.ö.o. þau standa öll vörð um fjármálaheiminn og sína eigin hagsmuni. Til að tryggja sameiginlega hagsmuni sína og fjármálaheimsins, sem eru þau að völdin færist ekki yfir á annarra hendur eða yfirráðin í fjármálaheiminum renni ekki fyrrverandi fjármagnseigendum úr greipum, þá vinna þau saman að því að þrautpína almenning og rugla hann í ríminu með öllum tiltækum meðulum.
M.a. með því að höfða til samkenndar, ábyrgðarkenndar, samvisku o.s.frv. o.s.frv. Þau setja fram klisjur sem innihalda boðskap eins og þann að: Almenningur verði að standa saman. Leggja harðar að sér. Færa fórnir. Honum er talinn trú um að það sé hans hlutverk að vinna að þessu öllu saman svo allt komist í fyrra horf. Á meðan njóta þau góðs af enda leikurinn til þess gerður.
Tilfinnanlegasta hrunið haustið 2008 var því hvorki efnahagslegt eða pólitískt það var siðferðislegt. Alvarlegasta hrunið var það siðrof sem íslenskir stjórnmálamenn og umsvifamestu einstaklingarnir innan íslensks fjármálalífs urðu berir af. Það hefur tekið íslensku þjóðina mislangan tíma að átta sig á þessu en því miður finnast þeir enn sem neita að horfast í augu við þessa staðreynd. Þess vegna eru enn þó nokkrir sem telja að vandamálið felist fyrst og fremst í því hvort við höfnum Icesave-samningum og hvort hér fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla.
Þeir sjá ekki hið stórkostlega lýðræðisskref sem felst í þjóðaratkvæðagreiðslunni þar sem við erum fyrsta þjóðin í heiminum sem fær tækifæri til að taka ákvörðun um svo mikilsvert mál sem Icesave í rauninni er. Við fáum tækifæri til að segja nei við því ósvífna óréttlæti sem það er að við, íslenska þjóðin, greiðum óreiðuskuldir óábyrgra stjórnenda einkafyrirtækis. Við fáum tækifæri til að endurheimta mannorð okkar. Mannorðið sem þessir sömu óreiðumenn sviptu okkur haustið 2008. Mannorðið sem íslensk stjórnvöld hafa síðan, hægt en örugglega, grafið sex fet niður í jörðina síðan!
Þeir sem eru búnir að átta sig á þessu segja að sjálfsögðu NEI í þjóðaratkvæðagreiðslunni og ég hvet hina sem eru ekki enn búnir að átta sig á þessu að minnast þess að allir lýðræðisþenkjandi íbúar heimsins treysta á að við, Íslendingar, mörkum þýðingarmikið spor í sögu lýðræðis og réttlætis í heiminum. Þeir treysta m.ö.o. á að þú standir með sjálfum þér svo og bræðrum þínum og systrum um allan heim sem eru að kikna undan ógnarbyrðum fjármálaheimsins.
Þjóðaratkvæðagreiðslan framundan gæti orðið jafn söguleg og þýðingarmikil og franska byltingin á sínum tíma. Þjóðaratkvæðagreiðslan gæti markað spor í sögu mannréttinda og lýðræðis. Ekki aðeins hér á landi heldur um heim allan. Hugsaðu út í það og nýttu atkvæðisrétt þinn í samræmi við það! Kjóstu! og ef þú heldur að þjóðaratkvæðagreiðslan verði tekin af okkur láttu það þá verða þér að hvatningu til að kjósa utankjörstaða.
Ég ætla að enda þetta með enn einni tilvitnuninni í breska hagfræðinginn, John Kay, sem er tekin úr grein hans The cause of our crises has not gone away. Greinina er að birtist í Financial Times þ. 5. janúar sl. Þar segir John Kay m.a:
The citizens of that most placid of countries, Iceland, now backed by their president, have found a characteristically polite and restrained way of disputing an obligation to stump up large sums of cash to pay for the arrogance and greed of other people. They are right. We should listen to them before the same message is conveyed in much more violent form, in another place and at another time. But it seems unlikely that we will.
Frekari fundir ekki ákveðnir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:17 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þessa færslu, ég var að enda við að lesa færslu hjá Jóni Baldri Lorange. Þar birtir hann rúmlega 50 ára gamla áramótaræðu Ólafs B. Thors sem á vel við í dag, og ætti að heyrast oftar.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 27.2.2010 kl. 00:27
Takk fyrir innlitið Jóna Kolla. Ég kíkti á bloggið hjá Jóni Baldri. Það er rétt að orð Ólafs Thors hljóma vel en ég er hrædd um að hann hafi ekki fylgt þeim í öllu sjálfur, því miður. Var það ekki líka í hans skjóli sem hvítliðar börðu niður mótmælin fyrir utan Alþingishúsið árið 1949 þar sem almenningur mótmælti inngöngulandsins í NATÓ?
Rakel Sigurgeirsdóttir, 27.2.2010 kl. 00:48
Góð lesning,þakka fyrir.
Helga Kristjánsdóttir, 1.3.2010 kl. 23:26
Takk fyrir pistilinn.
Icesave snýst ekki lengur um peninga heldur um valdhafa landanna þriggja og leit þeirra að aðferð til þess að halda andlitinu (til heimabrúks). Þetta er staðfest úr innsta hring.
Fjölmennum á kjörstað og kjósum rétt!
NN (IP-tala skráð) 2.3.2010 kl. 00:19
Takk fyrir innlitið bæði tvö. Tek undir með hvatningu NN! Er sjálf búin að kjósa þar sem ég óttaðist að þjóðaratkvæðagreiðslunni yrði aflýst.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 2.3.2010 kl. 00:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.