Þegar blekkingin verður markmið
24.5.2015 | 06:23
Fyrir rúmri viku síðan birti ég skrif hér á þessum vettvangi sem ég gaf heitið Pólitískt krabbamein. Þar fjallaði ég um óheiðarleika þeirra sem halda því fram að þjóðin hafi möguleika á að kjósa um inngöngu Íslands í Evrópusambandið að inngönguferlinu loknu. Meðal þeirra sem skrifuðu athugasemdir við þetta blogg eru Snorri Hansson.
Það sem hann skrifar er svo athyglisvert að ég ákvað að gera um það sérstaka færslu. Hér er upphafið:
Forvitni mín var vakin. Ég byrjaði á því að fylgja slóðinni sem Snorri bendir á hér að ofan og fann bæklinginn. Bæklingurinn, sem kom út í júní árið 2011, er bæði stuttur og læsilegur.
Það er þess vegna eðilegt að spyrja sig af hverju þessi bæklingur var ekki þýddur á íslensku sama ár og hann kom út. Þeir sem eru læsir á ensku geta lesið hann núna á slóðinni sem Snorri vísar á en hún er hér. Það sem hann segir um tilefni þess að bæklingurinn var saminn og gefinn út kemur fram á nokkrum stöðum í bæklingnum:
En Snorri heldur áfram og vísar í orð hans til rökstuðnings því að stækkunarstjóri ESB hafði tilefni til að víta Össur Skarphéðinsson fyrir afglöp í starfi við inngönguferli íslands að sambandinu (sjá hér).
Í þessu svari setur Snorri hluta textans fram á ensku þannig að það er auðvelt að finna hann í bæklingnum og er ekki annað að sjá að hér sé um ræða góða þýðingu og hárrétta túlkun á því sem segir á bls. 9:
(Það er hægt að klikka á þessa mynd til að stækka hana)
Það er er margt fleira í þessum bæklingi sem væri alveg þess virði að fara nánar út en það er full ástæða til að taka undir orð Snorra Hanssonar þar sem hann segir: Ég bið fólk um að lesa þetta skjal vandlega ef það hefur minnsta áhuga á hver sannleikurinn er. (sjá hér) Ég las bæklinginn alveg aftur á öftustu blaðsíðu og þar rakst ég á slóð sem var mælt með fyrir þá sem vildu vita meira. Hún er hér.
Eitt af því sem hlýtur að vekja athygli í texta bæklingsins sem kemur fram á myndinni hér að ofan er málsgreinin: The term negotiation can be misleading (sjá hér). Það hvað liggur á bak við það sem aðildarsinnar hafa viljað þýða sem samningaviðræður í stað aðildarviðræðna er útskýrt hér:
(Þennan texta er að finna hér)
Það er fróðlegt að fylgja slóðinni sem er á öftustu síðu bæklingsins og lesa nánar um það sem sumir hafa viljað kalla samningaviðræður í stað aðildarviðræðna. Af því sem hefur verið birt hér væri kannski miklu nær að kalla þetta ferli innlimunarviðræður. Það er líka forvitnilegt að lesa framhaldið en þar eru fyrst reglurnar og svo Steps towards joining. Þar er hvergi minnst á þjóðaratkvæðagreiðslu í lok innlimunarferlisins.
Aftur á móti segir í upphafi þessara leiðbeininga að skilyrði aðildar séu m.a. þau að hafa jáyrði borgaranna sem kemur fram í samþykki þjóðþingsins eða þjóðaratkvæðagreiðslu.
(Þennan texta er að finna hér)
Mér sýnist enginn vafi leika á því að síðasta ríkisstjórn hafi komist að þeirri niðurstöðu að hafa af þjóðinni þjóðaratkvæðagreiðsluna. Líklegasta skýringin er sú að hún hafi óttast það að þjóðin myndi hafna því að vilja ganga inn í Evrópusambandið. Samkvæmt því sem Vigdís Hauksdóttir heldur fram í nýjustu bloggfærslu sinni voru þau atriði Rammaáætlunarinnar, sem nú er rifist um á Alþingi, notuð sem gjaldmiðill í samskiptum fyrrverandi ríkisstjórnarflokka til að ESB-málið yrði ekki stöðvað (sjá hér).
Miðað við það sem þar kemur fram hefur þetta átt sér stað eftir að aðildarviðræðurnar strönduðu á landbúnaðar- og sjávarútvegsköflunum. Vigdís vitnar beint í dagbókarfærslur Össurar Skarphéðinssonar sem hann gaf út í bókinni, Ár drekans. Í færslu frá 24. mars 2012 segir hann: Það er á flestra vitorði að ég lít á rammann sem tryggingu fyrir því að VG stöðvi ekki ESB-málið. Össur Skarphéðinsson ber væntanlega öðrum fremur meginábyrgð á því pólitíska meini sem, það sem hann kallar, ESB-málið er orðið.
Hins vegar er það alveg ljóst að hvorki Steingrímur J. Sigfússon né Jóhanna Sigurðardóttir eru saklaus. Þau Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson skrifuðu undir það sem mér sýnist megi kalla umsóknarnefnu sumarið 2009 (sjá umsóknina hér). Áður höfðu þau náð fram meiri hluta samþykki á Alþingi með þvingunum sem formenn beggja stjórnarflokka áttu aðild að:
Sagði Ásmundur Einar, að daginn sem atkvæðagreiðslan var í þinginu um mitt síðasta ár hefði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, setið í þinghúsinu og kallað hvern þingmann Vinstri grænna á fætur öðrum inn á teppið til sín og sagt þeim, að ef þeir samþykktu tillögu um svonefnda tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu og slík tillaga yrði samþykkt, þá væri fyrsta vinstristjórnin sprungin. (sjá hér)
Þeir sem kusu Samfylkinguna vorið 2009 gerðu það væntanlega allir vegna draumsins um Evrópusambandið þó það sé óvíst að allir kjósendur flokksins hafi séð það fyrir að aðildarumsókn yrði send af stað án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu.
(Myndin er samsett út tveimur verkum Jónasar Viðars (1962-2013))
Hins vegar er það nokkuð víst að þeir sem kusu Vinstri græna sáu kosningasvik Steingríms J. Sigfússonar alls ekki fyrir enda neitaði hann því í þrígang í kosningasjónvarpi Sjónvarpsins kvöldið fyrir kosningar (sjá hér) að það kæmi til greina að hefja undirbúning að því að sækja um.
Nokkrum dögum síðar mynduðu Samfylkingin og VG ríkisstjórn og ákváðu strax að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þingsályktunartillaga um það var lögð fram strax í maí. Stjórnarflokkanir höfnuðu tillögu um að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla. Í framhaldi af samþykkt þingsályktunartillögunnar var aðildarumsókn send til Brussel. Síðan hófust aðlögunarviðræðurnar. (sjá hér)
Það eru ekki aðeins kjósendur Vinstri grænna sem sneru baki við flokknum, eins og kosningatölurnar sýndu vorið 2013, heldur klofnaði flokkurinn með þeim afleiðingum að fimm þingmenn yfirgáfu hann. Andstaðan við inngöngu í Evrópusambandið var ekki eina ástæðan en hins vegar er útlit fyrir að það sé draumurinn um aðild sem heldur stjórnarandstöðunni svo þétt saman að þó hún telji: Samfylkingu, Vinstri græna, Bjarta framtíð og Pírata þá kemur hún fram sem einn flokkur.