Pólitískt krabbamein
15.5.2015 | 21:36
Það er alveg ljóst að umræðan um inngöngu í Evrópusambandið er miklu eldri en svo að hún hafi orðið til við efnahagshrunið 2008. Þar af leiðandi er það enn furðulegra að a.m.k. tvær síðustu alþingiskosningar og ein forsetakosning hafa í reynd snúist um Evrópusambandið þó afstaðan til inngöngu hafi ekki verið sett á oddinn af öllum aðilum með heiðarlegum hætti.
Væntanlega er það fyrir það að sá háværi minnihluti, sem gerir sér væntingar um að sínum sérhagsmunum verði best borgið með inngöngu í Evrópusambandið, er sér fullmeðvitaður um að mikill meirihluti almennings er á því að ávinningurinn komist ekki í hálfkvisti við það sem mun glatast. Þeir sem skilja hvað felst í hugtakinu fullveldi átta sig nefnilega á því að með innlimum myndi sjálfstæði landsins færast aftur fyrir árið 1944.
Það er ljóst að þeir, sem hafa ánetjast hugmyndinni um valdaafsalið til Evrópusambandsins, hafa lagt í það bæði tíma og peningum að vinna þeirri ætlun sinni að komast þangað inn fylgi. Sumir tala um að með eftirfylgni, ýtni og endalausum áróðri hafi evrópusambandssinnum tekist að leggja undir sig stóran hluta verkalýðshreyfingarinnar og fleiri stofnanir sem láta sig lífskjör og almannahag varða.
Í þessu sambandi hlýtur það að vekja athygli að meðal umsagnaraðila, sem vitnað er til í fréttinni sem þessi færsla er skrifuð við, eru bæði Kennarasamband Íslands og Neytendasamtökin. Væntanlega kemur það hins vegar engum á óvart að Samtök iðnaðarins eiga þessa umsögn um þingsályktunartillögu stjórnarandstöðuflokkanna:
Frjáls og óhindruð viðskipti og aðgangur að erlendum mörkuðum er lífæð íslenskra fyrirtækja. EES-samningurinn skiptir þar sköpum en óvíst er hvort hann einn þjóni hagsmunum okkar til lengri tíma litið. Nauðsynlegt er að tryggja að framhald aðildarviðræðna við ESB verði lagt í dóm þjóðarinnar. [...] Samtök iðnaðarins [telja] rétt og eðlilegt að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið. (sjá fréttina)
Það er auðvitað gott og blessað að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um Evrópusambandið en hún getur hvorki snúist um það sem Samtök iðnaðarins leggja til né það sem segir í þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar (sjá hér). Á þetta er bent í umsögn Bændasamtaka Íslands:
Þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að ESB er [...] innihaldslaus við núverandi aðstæður, þ.e. meirihluti þjóðarinnar er mótfallinn aðild að ESB og engin áform eru af þess hálfu um að ljúka viðræðum og taka inn ný ríki á næstu árum. Eina þjóðaratkvæðagreiðslan um ESB sem myndi hafa þýðingu undir þessum kringumstæðum fælist í því að spyrja þjóðina hvort hún vildi ganga í sambandið eða ekki, en framangreind þingsályktunartillaga leggur það ekki til. (sjá aftur fréttina)
Sú áhersla sem kemur fram í þingsályktunartillögu formanna stjórnarandstöðuflokkanna svo og umsögnum evrópusinna getur því ekki falið annað í sér en þeir kjósi að ganga fram hjá fyrirvörunum sem voru settir með umsókn þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Össurar Skarphéðinssonar frá vorinu 2009. Þegar það er haft í huga að aðildarviðræðurnar strönduðu á þessum fyrirvörum fer óheiðarleikinn í orðalagi þingsályktunartillögu þeirra: Árna Páls Árnasonar, Katrínar Jakobsdóttur,Guðmundar Steingrímssonar og Birgittu Jónsdóttur, vart fram hjá nokkrum manni:
Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?
_ Já.
_ Nei.
Meginóheiðarleikinn liggur þó í því að halda því fram að þjóðin geti kosið um inngöngu eftir að inngönguferlinu er lokið með upptöku Lissabonsáttmálans. Þessi óheiðarleiki aðildarsinna er vissulega það sem nærir þá stjórnmálakreppu sem hér ríkir og má því kallast pólitískt krabbamein. Krabbamein sem er hætt við að eigi eftir að grassera sem aldrei fyrr í næstu forseta- og alþingiskosningum með ekki minni aukaverkunum en kjósendur urðu að þola í síðustu sveitarstjórnar-, alþingis- og forsetakosningum.
Að lokum langar mig til að hvetja lesendur til að kynna sér rök þeirra sem eru á móti mögulegri inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Það má gera það á einfaldan og þægilegan hátt með því að hlusta á viðmælendurna í myndbandasyrpunni Þess vegna NEI við ESB
![]() |
Fleiri umsagnir með þjóðaratkvæði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.5.2015 kl. 02:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)