Offramboð á innihaldsleysi

Það er fátt sem lýsir betur viðskilnaði Jóhönnu Sigurðardóttur við hinn pólitíska vettvang en þessi skopteikning Gunnars Karlssonar. Jóhanna gengur frá þinghúsinu með járnfrúarsvip og lætur sér fátt um finnast þó alþingishúsið standi í ljósum logum.

Jóhanna yfirgefur vettvanginn í logum

Í stuttu máli má segja að helsti árangur Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherra sé að skilja eftir sig sviðna jörð. Eldarnir sem loga í pólitíkinni stafa fæstir af heitum hugsjónaeldum sem snúa að þjóðarhag en þar er vart þverfótað fyrir einstaklingum sem brenna fyrir sjálfum sér.

Þetta kemur e.t.v. skýrast fram í offjölguninni sem hefur orðið á þeim flokkum sem svipar til Samfylkingarinnar. Miðað við framgönguflokksins á síðasta kjörtímabili ætti að blasa við að það sem þjóðarhagsmunir þurfa síst á öllu að halda í augnablikinu er meira af Samfylkingunni. Það er hins vegar ljóst að flokkseigendurnir eru ekki sama sinnis.

Í stuttu máli virðist Samfylkingin vera grundvölluð á því markmiði að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum sama hvað það kostar en koma sjálfum sér og sínum að þeim forréttinum sem Sjálfstæðisflokkurinn sat einn að áður. Það skal ekkert um það fullyrt hvort ESB-draumurinn hefur átt víst sæti innan Samfylkingarinnar frá upphafi en það má heita ljóst að honum hefur tekist að hreiðra svo vel um sig þar að það er ekki ósennilegt að hann sé í raun límið sem heldur flokknum saman og aflgjafinn sem keyrir hann áfram ásamt því að vera frjómagnið sem stuðlar að offjölgun flokksins nú.

Ég hef áður vikið að þeim gífurlegu vonbrigðum sem margir hljóta að sitja uppi með sem leyfðu sér að finna til bjartsýni og gerðu sér háar hugmyndir um breytingar í upphafi kjörtímabilsins. Nú þegar óðum styttist í kosningar er það líka ljóst að það eru fleiri en ég sem furða sig á offramboðinu á því sama og Samfylkingin hefur staðið fyrir við síminnkandi vinsældir. 

Það má vera að þeir hinir sömu hafi velt því fyrir sér hvort offramboðið sem blasir við í pólitíkinni sé aðferð markaðsfræðinnar til að miðla kjósendum innihaldsleysinu líkt og ég ýjaði að undir lok síðasta bloggpistils sem hlaut heitið Átakanlegt. Ég hef reyndar ekki rekist á slíkt enn þó það sé greinilegt að um leið og það liggur fyrir að í komandi kosningum hafa kjósendur úr a.m.k. sex útgáfum af Samfylkingunni að velja þá hlýtur spurningin um það hverju þetta sætir að liggja beint við. 

Björt framtíð sem var stofnuð þann 5. febrúar í fyrra hefur frá upphafi gefið það út að þau standi fyrir „ekkert vesen“ (sjá hér). Píratar sem komu fyrst fram undir lok júní í fyrra, en voru ekki formlega stofnaðir fyrr en 24. nóvember, virðast standa fyrir allt og ekkert en fæst af því sem snýr að þeim umtalsverðu lífskjarabótum eða breytingum á efnahagskerfinu sem hefur verið kallað eftir frá upphafi þessa kjörtímabils.

Það er því ofur eðlilegt að spyrja sig hvaða erindi telja fulltrúar þessara flokka sig eiga við íslenska kjósendur? Miðað við það sem þeir setja fram vaknar jafnvel sú spurning hvort það geti verið að þau markaðsöfl sem hafa „tryggt Paris Hilton bæði sviðsljósið og lífsviðurværið nokkuð mörg undanfarin ár hafi náð til pólitíkunnar á sama hátt?“

Innihaldsleysið selur

Eftir því sem nær líður alþingiskosningum sem fara fram þ. 27. apríl n.k. verða þeir væntanlega alltaf fleiri og fleiri sem setja spurningarmerki við afritin sem hafa hrannast upp af Samfylkingunni frá því í byrjun febrúar á síðasta ári. Þeir eru reyndar einhverjir sem eru þegar byrjaðir.

Þegar Bjarni Harðarson var spurður að því á beinni línu á DV í gær hvort það væri pláss fyrir nýstofnaðan flokk hans, Regnbogann, fyrir það að hann þótti óþarflega líkur VG svaraði hann um hæl:

Eftir að VG hefur gengist undir jarðarmen ESB stefnunnar hljótum við frekar að spyrja hvort pláss sé fyrir þann flokk [VG] við hliðina á Samfylkingu, Bjartri framtíð, Lýðræðisvaktinni og Dögun. Ég tel að það sé full þörf á og eftirspurn eftir félagshyggjuafli sem stendur með þjóðfrelsi og áherslum landsbyggðar. (sjá hér)

Eftir þáttinn Forystusætið sem var á dagskrá Sjónvarpsins í gærkvöldi vakti Fullveldisvaktin athygli á því að fulltrúi Pírata sem var þar í einkaviðtali hefði opinberað það að hér væri kominn fram enn einn „smáflokkurinn sem vill halda áfram s.k. aðildarviðræðum við Evrópusambandið.“ Þar er síðan haldið áfram og bætt við:

Að Pírataflokkurinn leggist þannig á sömu sveif og kapítalíseruðu tækni- og evrókratarnir í Samfylkingu og útfrymum hennar, "Bjartri framtíð" og "Lýðræðisvaktinni", þ.e.a.s. að stefna landinu áleiðis inn í stórkapítals-efnahagsheild Evrópusambandsins, er líklega frétt fyrir suma ofursósíalistana og anarkistana sem héldu að Pírataflokkur væri eitthvað fyrir þá. (sjá hér)

Annar bloggari tekur undir þessa ályktun í athugasemdarkerfinu við þessa bloggfærslu og bætir við:

Þetta [Píratar] er enn eitt ESB framboðið sem reynir fyrir sér í felulitunum.

Sami óæti ESB-grauturinn sem ausið er úr Samfylkingarpottinum og nú borinn fram á að minnsta kosti fjórum öðrum skrautlegum grautardiskum!

En þetta er allt sami grauturinn og fólk þarf að sjá í gegn um plottið!

Við skulum varast þessa úlfa eins og Þorvald Gylfason og fleiri sem klæða sig í þessar Brusselsku sauðagærur! (sjá athugasemdakerfið hér)

Sá sem á þetta innlegg inni á Fullveldisvaktinni hafði sjálfur komist að þessari niðurstöðu á sinni eigin bloggsíðu nokkru áður: 

Framboð Lýðræðisvaktarinnar, BF og að ýmsu leyti Dögunar líka snúast að meiru og minna leyti um að viðhalda ESB-draumnum í hinum ýmsu felulitum.

Þetta var gert vegna þess að raunveruleg eftirspurn eftir blautum ESB-draumum Samfylkingarinnar reyndist svo átakanlega lítið að með þessum lymskulega hætti að setja fleiri framboð á fót í felulitum átti að reyna að fallera fólk og fjölga samtals í þessum fámenna hópi. (sjá hér)

Af þessari samantekt má vera ljóst að þeir sem vilja rýna í þær furður sem hafa verið að eiga sér stað í pólitíkinni hafa rekist á það sama og ég leiddi m.a. fram í síðasta bloggi. Ég sé heldur ekki betur en þessi fésbókarstadus sem ég birti um miðja síðustu viku dragi innihald þessara tilvitnana úr þremur áttum ágætlega saman:

Eitt af furðum íslenskrar pólitíkur er Þorvaldur Gylfason og Lýðræðisvakt hans sem er þriðji þríburinn við Dögun og Pírata. Foreldrarnir hafa hvorugir alveg gengist við afkvæmunum en líkur benda til að þeir séu Samfylkingin og ESB. Ástæðurnar kunna að vera gullbarnið sem gengur undir heitinu Björt framtíð og þverrandi lífslíkur fósturbarnsins VG. Þó má vera að mestu valdi unglingaveiki þríburanna sem kemur ekki síst fram í því að þeir láta stjórnast af tilfinningum og tala því gjarnan í ástríðuorðastíl en taka svo litla sem enga ábyrgð á því sem þeir láta frá sér fara.  


Bloggfærslur 10. apríl 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband