Átakanlegt

Það er næstum því átakanlegt að líta yfir kjörtímabilið sem nú er senn á enda. Kjörtímabil sem rekur tildrög sín í þá óvenjulegu staðreynd að mótmæli almennings knúðu fram nýjar alþingiskosningar. Þetta var í fyrsta skipti sem slíkt hefur gerst hér á landi og kannski var það þess vegna sem margir gerðu sér stórar vonir og höfðu miklar væntingar um að nú væri runnið upp tímabil þar sem stjórnmálin myndu snúast um uppbyggingu og grósku mannlífsins í stað þeirrar dýrkunar fjármagnsins sem leiddi til hrunsins.

Í bjartsýni sinni kusu flestir að horfa fram hjá því að annar þeirra flokka sem komu að ríkisstjórnarmynduninni hafði verið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum á þeim tíma sem bankahrunið átti sér stað og hafði því tekið virkan þátt í því að hylma yfir þær staðreyndir sem ullu því. Í stað þess að fara fram á skilyrðislaust uppgjör við gerendur hrunsins tóku velflestir kjósendur þátt í því leikriti sem var sett á svið vorið 2009 og samþykktu að ganga til nýrra kosninga án þess að hafa verið upplýstir til fulls um orsakir þess eða afleiðingar.

Haustfeigðin felldi björtustu vonirnar

Gróskan sem varð til í kringum mótmælin í kjölfar hrunsins 2008 leiddi m.a. til nokkurrar endurnýjunar á listum þeirra flokka sem áttu menn inni á þingi á tíma hrunstjórnarinnar svokölluðu. Á undraskömmum tíma varð líka til nýtt stjórnmálaafl sem margir þeirra sem kröfðust breytinga bundu vonir sínar við. Ástæðan var ekki síst sú að fulltrúar þess fullyrtu að það væri sprottið úr jarðvegi mótmælanna og þá einkum Búsáhaldabyltingarinnar svokölluðu. 

Vorið 2009 lýsti einn hinna nýkjörnu fulltrúa Borgarahreyfingarinnar því yfir að það að stjórnmálahreyfingin fékk fjóra þingmenn kjörna væri „náttúrulega bara sigur fólksins“ (Fréttablaðið 27. apríl 2009: 4) Margir leyfðu sér að trúa því líka og ekki síst í ljósi kosningaloforða hennar um aukið lýðræði, uppgjöri við hrunvalda og leiðréttingu á þeim forsendubresti sem hrunið hafði valdið lánagreiðendum auk slagorðanna um að með Borgarahreyfingunni væri komin brú þjóðarinnar inn á þing og virkt samband við þá grasrót sem hafði sprottið upp í kringum mótmælin víðs vegar um landið. 

Afgerandi meirihluti kjósenda (51,5%) bundu ómældar vonir sínar við Jóhönnu Sigurðardóttur, formann Samfylkingarinnar, og Steingrím J. Sigfússon, formann Vinstri grænna. Þessi gengu til stjórnarsamstarfs undir söluvænlegum og bjartsýnislegum frösum eins og: stöðugleikasáttmáli, skjalborg heimilanna, uppgjöri við hrunið og endurreisn. Hér voru líka reyndir stjórnmálamenn á ferð: Jóhanna búin að sitja á þingi frá árinu 1978 og Steingrímur síðan 1983.

Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir

Eitt það átakanlegasta við þetta kjörtímabil er það hvernig vonirnar sem voru bundnar nýrri ríkisstjórn hafa brugðist. Sú kreppa sem sigldi í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 er síst á undanhaldi þó ýmsir reyni að halda uppi einhverjum sýndarveruleika talnafræðinnar þar um.

Raunveruleikinn er allt annar eins og svo margar staðreyndir eru til vitnis um. Það er í raun sama hvert litið er. Hér verður látið nægja að minna á stöðuna í heilbrigðis- og menntamálum, stöðu lánagreiðenda og bótaþega, fjölda atvinnulausra, fjölda brottfluttra og fjölda þeirra sem hafa misst fasteignir sínar.

Brostnar vonir

Það er sannarlega átakanlegt að horfa til vanefnda ríkisstjórnarinnar og skipsbrotin sem þær hafa valdið. Hins vegar er full ástæða til að minna á að það var tæplega við öðru að búast þegar mið er tekið af því að stærri flokkurinn sat í brúnni með Sjálfstæðisflokknum og var ekki minni þátttakandi í að sigla efnahag þjóðarinnar fram af hengifluginu haustið 2008. 

Brotlending djarffleygra vona

Það sem er átakanlegast þegar horft er yfir kjörtímabilið sem nú er senn á enda eru skipsbrotin  sem framganga og vanefndir Vinstri grænna og þingmanna mótmælaframboðsins hafa valdið. Kjósendur bæði Vinstri grænna og Borgarahreyfingarinnar byggðu val sitt á loforðum um aðrar áherslur en þær sem keyrðu efnahagslíf þjóðarinnar fram af hengifluginu.

Loforðin töldu þeir standa traustari fótum en annarra flokka fyrir það að annar rakti uppruna sinn til mótmælanna frá haustinu 2008 fram til janúarloka 2009 en hinn hafði veitt öfluga stjórnarandstöðu í stóriðjumálum og staðið dyggan vörð um umhverfismálin á þeim útþenslutíma sem leiddi til hrunsins. Þegar litið er yfir kjörtímabilið sem senn er á enda blasir það við að hvorki þingmenn mótmælaframboðsins né forysta Vinstri grænna hafa staðið undir þeim væntingum sem til þeirra voru gerðar.

Lára Hanna Einarsdóttir hefur nýverið tekið saman það sem Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins hafði um stóriðjuframkvæmdir og náttúrvernd að segja áður en hann komst til valda og svo nú undir lok kjörtímabilsins:



Það er auðvitað átakanlegt að horfa til þeirra umskipta sem formaður Vinstri grænna hefur orðið ber af eftir að hann komst til valda. Afleiðingarnar sem umskiptin hafa valdið eru þó öllu átakanlegri. Ef við ættum stjórnmálafræðinga sem þyrðu að fjalla um það ástand sem blasir við í pólitíkinni nú myndu þeir væntanlega benda á þá augljósu staðreynd að aldrei hafi formanni neins íslensks stjórnmálaflokks tekist á jafnskömmum tíma að gera út af við flokk og fylgi eins og Steingrími J. Sigfússyni.

Sama gildir um Borgarahreyfinguna. Í reynd má segja að hún hafi komið, sigrað og dáið á aðeins sex mánuðum.  Hálfu ári eftir að Borgarahreyfingin var stofnuð höfðu allir þingmennirnir sem komust inn á þing í nafni hreyfingarinnar klofið sig frá henni. Þráinn Bertelsen hafði gengið til liðs við Vinstri græna en þingmennirnir: Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari stofnuðu nýjan þingflokk utan um stefnuna sem þau voru kosin út á í september 2009.

Þingmenn Hreyfingarinnar

Nú í lok kjörtímabilsins ætti það þó að blasa við að vonir þeirra 7,2% kjósenda sem kusu Borgarahreyfinguna, vegna þess að þeir töldu að þetta nýja stjórnmálaafl væri svarið við því samfélagsástandi sem efahagshrunið opinberaði, eru að engu orðnar. Það sem stendur upp úr eftir þingveru þingmannanna fjögurra er að þingmenn sem eiga uppruna sinn í jafnhvikum mótmælajarðvegi og skapaðist hér í kjölfar bankahrunsins hafa hvorki staðfestu né þekkingu sem skilar samfélaginu neinu nema átakanlegum vonbrigðum.

Byltingarvonin varð markaðsöflunum að bráð

Í þessu ljósi er rétt að minna á að það tók ekki nema rétt um tvö ár fyrir „stjórnmálaskóla þingsins“ (orð Birgittu Jónsdóttur í Fréttablaðinu 27. apríl 2009: 4) að hrífa þingmennina, sem ætluðu sér að vera sterkasta rödd þjóðarinnar á þingi, til þeirra vinnubragða sem hafa öðru fremur rúið Alþingi traustinu.

Árni Páll Árnason um þingmenn Hreyfingarinnar 18. mars 2013

Hún er bæði átakanleg og bitur reynslan sem kjósendur sitja uppi með yfir brostnum vonum um að nú væri loks runnið upp tímabil þar sem stjórnmálin myndu snúast um uppbyggingu og grósku mannlífsins í stað þeirrar dýrkunar fjármagnsins sem leiddi til hrunsins. Ljósi punkturinn er þó sá að af slíkri reynslu má læra.

Skoðanakannanir sýna að kjósendur munu að öllum líkindum refsa bæði Samfylkingunni og Vinstri grænum þau svik við almannahagsmuni sem varð helsti árangurinn af stjórnarsamstarfi þessara tveggja flokka. Þingmenn Hreyfingarinnar, sem vörðu ríkisstjórnarsamstarfið falli frá vorinu 2011, virðast hins vegar ætla að koma misvel frá átakanlegum þingferli sínum á kjörtímabilinu.

Þegar þrjár vikur eru fram til kosninga er útlit fyrir að sá þingmaður sem hefur markað þau óvenjulegu spor í íslenska stjórnmálasögu að nýta þingferil sinn til hins ýtrasta við að koma sjálfum sér á framfæri við heiminn verði eini þingmaður Borgarahreyfingar/Hreyfingar sem muni eiga sæti á komandi þingi.

Miðað við þingferil Birgittu Jónsdóttur á kjörtímabilinu, framgöngu hennar og efndir gagnvart kosningaloforðunum er það næstum því átakanlega grátbroslegt að horfa upp á það hvernig áhangendur stjórnarskrárfrumvarpsins hafa gert hana að hetju stjórnarskrárfarsans sem átti sér stað síðustu vikurnar fyrir þinglok.

Bjartasta vonin

Í stað þess að rekja þátt hennar í stjórnarskrármálinu á lokadögum þingsins vísa ég á myndband sem inniheldur stóran hluta hennar framlags til málþófins um stjórnarskrármálið á Alþingi þ. 18. mars sl. Það hefur líka verið fjallað um þátt hennar og annarra þingmanna Hreyfingarinnar í stjórnarskrárdramanum á þessu bloggi. Síðasta umfjöllun er þessi hér.

Vonir byggðar á innihaldi eru líklegri til að lifa

Það er í senn átakanleg og sérkennileg staðreynd að sá þingmaður sem hefur verið hvað óstöðugastur í afstöðu sinni til málefna, hvikulastur í röksemdafærslum sínum en um leið duglegastur við að nýta sér sviðsljós bæði erlendra og innlendra fjölmiðla til að miðla sinni eigin persónu skuli eiga öruggt þingsæti þrátt fyrir að hafa varið ríkisstjórnina falli í nú bráðum tvö ár. Í þessu ljósi er ekki óeðlilegt að maður spyrji sig hvort sú markaðsvæðing sem hefur tryggt Paris Hilton bæði sviðsljósið og lífsviðurværið nokkuð mörg undanfarin ár hafi náð til pólitíkunnar á sama hátt? 

Innihaldsleysið selur
Það er kannski átakanlegasta niðurstaða þessa kjörtímabils að á meðan hæfileikarnir og hugsjónirnar sem snúa að efnahagsumbótum samfélagins hrekjast út af þingi þá hefur innihaldsleysið tekið völdin sem vænlegasta tryggingin fyrir öruggu þingsæti. Markaðsöflin hljóta að kætast yfir slíkri niðurstöðu því rétt eins og þau hafa nýtt ástríðu Parisar Hilton gagnvart sviðsljósinu og lífsviðurværinu til að selja neytendum alls konar varning þá munu markaðsöflin væntanlega nýta sér þingmenn sem eru knúnir áfram af sömu ástríðu til að markaðssetja „réttar“ hugsjónir.

Það má reyndar ekki gleymast að það eru kjósendur sem eiga síðasta orðið. Það er því þeirra að ákveða hvort þeir velja innihaldsleysið sem markaðsöflin vilja halda að þeim (sjá t.d. hér) eða hvort þeir velja eitthvað annað sem þeim þykir líklegra að standi í lappirnar í baráttunni fyrir bættum lífskjörum og stöðugra efnahagsumhverfi hér á landi. Niðurstaða komandi alþingiskosninga mun að einhverju leyti draga það fram hvaða lærdóm kjósendur hafa dregið af þeirri átakanlegu reynslu sem vonbrigði þessa kjörtímabils skilja eftir.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Rakel.  Það kemur fram á síðunni þinni að þú hafir verið á lista Bhr fyrir síðustu kosningar og svo verið ein af þeim sem gengu þaðan út og stofnuðu Hreyfinguna.  Hvað gerði það að verkum að þú ert varðst svo mótfallin þingmönnum Hreyfingarinnar að þú gekkst þaðan út?  Var það bara stjórnarskrármálið sem olli öllum þessum titringi? 

Át byltingin börnin sín í þessu tilfelli?

Skúli (IP-tala skráð) 8.4.2013 kl. 17:17

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Stundum segja fæst orð mest.

Takk Rakel.

Enn og aftur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.4.2013 kl. 17:42

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Blessaður Skúli!

Ég gerði upp við sögu mína með Borgarahreyfingunni/Hreyfingunni í tveimur pistlum skömmu fyrir jól. Annar var skrifaður í fyrstu persónu og hlaut heitið: Þetta var aldrei einleikið. Hinn var frekar uppgjör við svikin sem kjósendur Borgarahreyfingarinnar og sú grasrót, sem Hreyfingin byggði Dögun síðar upp á, hafa orðið fyrir að mínu mati. Sá pistill hlaut heitið: Vegvillt viðspyrna.

Ég myndi aldrei orða afstöðu mína þannig að ég sé mótfallin þingmönnum Hreyfingarinnar en í stuttu máli þá var ástæðan fyrir því að ég sagði mig úr stjórn Hreyfingarinnar haustið 2011 sú að ég fékk ekki séð að sú barátta sem ég hef viljað einbeita mér að ætti lengur samleið með áherslum og starfsaðferðum Hreyfingarinnar. Steininn tók þó fyrst úr í árslok 2011 þegar daður þeirra við ríkisstjórnina varð opinbert.

Ég hafði reyndar gagnrýnt þau áður eða á meðan ég var fyrst varamaður í stjórn Hreyfingarinnar og síðar stjórnarmeðlimur en þá einkum fyrir þann skort sem mér fannst á sambandinu sem þau hétu að halda við bæði grasrót og kjósendur. Sú gagnrýni varð þó aldrei opinber þar sem hún fór frekast fram á stjórnarfundum eða svokölluðum kjarnafundum.

Ef þetta svar mitt svarar ekki spurningum þínum ekki nógu ýtarlega vísa ég þér á pistlana sem ég setti krækjur á efst í þessu svari.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.4.2013 kl. 18:13

4 identicon

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 8.4.2013 kl. 20:46

5 identicon

Sæl aftur og takk fyrir svörin og að benda mér á pistlana sem ég mun kíkja á .  Það er ljóst að ýmislegt misjafnt hefur gengið á þarna...

Skúli (IP-tala skráð) 8.4.2013 kl. 22:20

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ef þú átt við að hreyfingarþingmennirnir hafi ekkert síður brugðist kjósendum sínum en aðrir þingmenn þá get ég tekið undir með þér en ég veit ekki til þess að neinn þeirra hafi komist í kast við lögin á kjörtímabilinu að Birgittu undanskilinni en var hún ekki hreinsuð af þeim sakargiftum?

Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.4.2013 kl. 22:31

7 Smámynd: Hörður Þórðarson

Takk, Rakel, sérstaklega fyrir myndbandið af Steingrími. Hann hefur misst andlitið ansi illa.

Hvað varðar þetta, og þá hugsun sem liggur að baki:

"Það er því þeirra að ákveða hvort þeir velja innihaldsleysið sem markaðsöflin vilja halda að þeim (sjá t.d. hér) eða hvort þeir velja eitthvað annað sem þeim þykir líklegra að standi í lappirnar í baráttunni fyrir bættum lífskjörum og stöðugra efnahagsumhverfi hér á landi. Niðurstaða komandi alþingiskosninga mun að einhverju leyti draga það fram hvaða lærdóm kjósendur hafa dregið af þeirri átakanlegu reynslu sem vonbrigði þessa kjörtímabils skilja eftir."

Því fyrr sem fólk lærir að lífskjör þess eru miklu fremur undir þeim sjálfum komin en einhverjum köllum og kellingum sem setja á alþingi, á ofurkjörum, þeim mun betra. Það er undarlegt að ennþá skuli vera til fólk sem gengur með þá grillu í höfðinu að bara með því að kjósa einhvern á þing muni kjör þess batna. Þetta er auglóslega blekking. Hvaðan koma þeir peningar sem þessir þingmenn vilja nota til að bæta kjörin? Þeir eru jú teknir úr vasa almennings.

Þetta kerfi er því miður úr sér gengið og illa rotið og kominn er tími til að reyna eitthvað nýtt. Hvernig væri að leggja alþingi niður og ráða 5 hæfar manneskjur til að stjórna þessu litla landi?  Það myndi strax bæta kjör fólks vegna þess að allt það fé sem fer í laun, eftirlaun og atkvæðakaup (til dæmis ónýta höfn við suðurströnd landsins) myndi sparast.

Hörður Þórðarson, 8.4.2013 kl. 22:53

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Höður, takk fyrir innleggið frá þér sem ég fagna ekki síst fyrir þetta hér: „Þetta kerfi er því miður úr sér gengið og illa rotið og kominn er tími til að reyna eitthvað nýtt.“

Þetta er a.m.k. hluti þess sem ég hef velt upp nokkrum sinnum frá haustinu 2008 og sækir enn sterkar á mig nú þegar ég horfi upp á þann skrípaleik sem ég hef orðið vitni af í aðdraganda næstu alþingiskosninga. Það sem gengur á akkúrat núna finnst mér svo sterkasti vitnisburðurinn um það hversu úrsérgengið þetta kerfi er. Þessi hápunktur dregur fátt betur fram en það hversu úrsérgengið þetta flokkakerfi er.

Við sitjum sem sagt ekki bara uppi með efnahagskreppu heldur stjórnmálakreppu líka. Í grundvallaratriðum virðist mér hún draga það fram að það er í raun fáránlegt að til að ráða fólk í vinnu við rekstur samfélagsins fari í gang einhver riðlakeppni í ætt við íþróttakappleik eða X-factor keppni.

Ef til stendur að ráða hæfasta fólkið til að halda uppi skemmtidagsskrá í beinni á alþingisrásinni er þetta kannski fín aðferð en ef það stendur til að reka hér samfélag sem heldur utan um velferðarkerfi með öflugri heilbrigðisþjónustu og menntastofnunum endar þetta ekki öðru vísi en með ósköpum.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.4.2013 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband