Epli og appelsínur

appelsínur í stað eplaLesendur þessa bloggs hafa væntanlega tekið eftir þeim breytingum sem ég gerði á útliti þess fyrir rúmum mánuði síðan. Í stað epla er kominn litur appelsínanna í merki SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar.

Einhverjir eru ábyggilega það vel upplýstir að þeir vita ástæðuna. Þ.e. að ég gekk til liðs við SAMSTÖÐU um miðjan febrúar sl. og bauð mig fram til formanns í fyrsta aðildarfélagi framboðsins sem var stofnað hér í Reykjavík. Nú er búið að stofna annað í Kraganum en formaður þess er ungur og efnilegur maður búsettur í Hafnarfirði. Sá heitir Birgir Örn Guðjónsson og er ekki hægt að segja annað en hann hafi markað sér stað með eftirtektarverðum hætti í þeirri samfélagsumræðu sem mestu máli skiptir með greininni: „Ofþolinmæði skuldara“. Greinin birtist á visir.is núna á sumardaginn fyrsta.

Kynning á formanni SAMSTÖÐU-Reykjavík

Sjálf hef ég tekið virkan þátt í samfélagsumræðunni frá haustinu 2008 á þessu bloggi. Frá því sama hausti hef ég líka lagt ýmislegt af mörkum í þeirri viðspyrnu sem hefur verið í gangi frá því þá. Fyrst með þátttöku í reglulegum mótmælagöngum sem fóru fram á Akureyri frá því í október 2008 fram til febrúar 2009. Í upphafi ársins 2009 gekk ég svo til liðs við hóp fjögurra kvenna sem héldu utan um reglulega borgarafundi þar fram til vorsins 2010.

Eftir að ég flutti til Reykjavíkur hef ég tekið þátt í enn fljölbreyttari viðspyrnuverkefnum. Þau sem ég tel upp hér eru þau sem ég hef lagt mestu kraftana í annaðhvort í skipulagningu og/eða þátttöku. Fyrst voru það tunnumótmælin sem hófust þann 4. október 2010 og má heita að lifi áfram í nýstofnuðu bloggi sem nefnist Tunnutal

Þá var það Samstaða þjóðar gegn Icesave vorið 2011 en stærsta framlag mitt til hennar var myndbandasyrpan: „Af hverju NEI við Iceave“. Haustið 2011 lagði ég uppbyggingu Grasrótarmiðstöðvarinnar lið og hélt undan um reglulega laugardagsfundi þar frá desember og fram í byrjun mars á þessu ári. Þessir fundir voru teknir upp og eru fyrirlestrarnir allir aðgengilegir inni á You Tube.

Ég tók líka þátt í undirbúningi tveggja borgarafunda sem haldnir voru í Háskólabíói á þessum vetri sem er að líða. Þeir fjölluðu báðir um málefni lántakenda. Báðir voru teknir upp. Upptökuna af þeim fyrri má nálgast hér en af þeim seinni hér.
appelsínur
Eftir seinni borgarafundinn, sem var haldinn þann 23. janúar, hittumst við Lilja Mósesdóttir, nú formaður SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar, á nokkrum óformlegum fundum. Að kvöldi 12. febrúar tók ég svo ákvörðun um að ganga til liðs við framboðið og leggja því krafta mína. Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun og finnst hún reyndar vera í mjög rökréttu samhengi við það sem ég hef helgað meginþorra frítíma míns frá haustinu 2008.

Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem ég hef komið nálægt pólitík. Vorið 2009 var ég í fimmta sæti á framboðslista Borgarahreyfingarinnar í Norðausturkjördæmi. Ég fylgdi þremenningunum sem voru kjörnir inn á þing undir merkjum Borgarahreyfingarinnar þegar þeir klufu sig frá henni og stofnuðu Hreyfinguna haustið 2009 og var varamaður í stjórn hennar fram til vors 2011. Í júní 2011 var ég kjörinn aðalmaður í stjórn Hreyfingarinnar en sagði mig frá því trúnaðarstarfi í byrjun október í fyrra. Leiðir skildu þó ekki fyrr en ég gekk til liðs við SAMSTÖÐU. 

Fram að næstu kosningum

Í mínum augum hefur það verið ljóst frá hruni að þeir þingflokkar sem voru inni á þingi þá brugðust kjósendum sínum. Á þeim tíma hefði ég viljað sjá annaðhvort þjóðstjórn eða einhvers konar neyðarstjórn skipaða sérfræðingum í efnahagsáföllum og afleiðingum þeirra. Niðurstaðan urðu kosningar þar sem eitt nýtt framboð, sprottið úr mótmælendajarðvegi Austurvallar, bauð fram ásamt þeim flokkum sem fyrir voru inni á þingi. Útkoman varð sú að þetta nýja framboð fékk aðeins fjóra menn kjörna inn á þing  en Samfylkingin fékk leiðandi hlutverk í ríkisstjórnarmynduninni. Það hefur reyndar komið æ betur í ljós síðan að kosningabaráttan vorið 2009 var að langmestu leyti grundvölluð á óheiðarleika.

Þau mál sem hefðu átt að vera í forgrunni voru sett undir hugtök eins og „skjaldborg heimilanna“ og „norræn velferðarstjórn“ en hafa að langmestu leyti snúist um afstöðuna til inngöngu í Evrópusambandið. Kjósendur þekkja allir þessa sögu. Nýjir þingmenn, sem lofuðu margir góðu í upphafi, hafa tapað flugi og eru langflestir eins og horfnir inn í seigfljótandi vinnubrögð þingsins sem einkennast af flestu öðru en því gagnsæi sem kjósendum var lofað. Sú fagmennska sem kjósendur ættu að geta ætlast til af einstaklingum sem fara með þjóðarhagsmuni er vandfundinn.

VonarliljurÞó er einn og einn sem fara með umboð sitt af alúð og árvekni. Að mínum dómi er Lilja Mósesdóttir þó sú sem ber höfuð og herðar yfir alla aðra þingmenn hvað þetta varðar. Alveg frá upphafi hefur hún sett þann alvarlega forsendubrest sem snertir hvert einasta heimili í landinu á oddinn. Það er ekki síst þess vegna sem ég ákvað að leggja SAMSTÖÐU lið í því að byggja upp raunverulegan valkost við fjórflokkinn fyrir næstu alþingiskosningar.

Að mínu viti þurfa allir kjósendur að gera það upp við sig hvort þeir vilja óbreytt ástand eða breytingar. Þeir sem vilja breytingar hvet ég til að kynna sér ný framboð, sérstaklega Dögun og SAMSTÖÐU, og gera upp hug sinn hvort og hvernig þeir ætla að vinna að því að leggja því lið að kynna þessa valkosti fyrir öðrum kjósendum fyrir næstu kosningar. Það þurfa nefnilega allir sem vilja breytingar að vinna saman að styrkingu og framgöngu þeirra framboða sem hafa þá innanborðs sem hafa sýnt sig í að vinna að sameiginlegum hagsmunum heildarinnar en ekki sérhagsmunum fárra útvaldra.

Grundvallarspurningin er: Hvort viltu skemmt epli eða ferskar appelsínur? 

Skemmt epli
ferskar appelsínur

Bloggfærslur 22. apríl 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband