Siðmenntun fylgir sú ábyrgð að taka afstöðu
11.4.2012 | 17:01

Myndin um siðprýði þarf því að taka mið af aðstæðum. Sá sem vill telja sig til siðmenntaðra einstaklinga þarf með öðrum orðum að bregðast við því sem er að eiga sér stað í kringum hann.
Við lifum á furðulegum tímum þar sem samfélagið, sem meiri hluti okkar hélt að væri heilt, hefur verið rjúkandi rústir í a.m.k. þrjú undanfarin ár. Ég veit að marga langar til að taka til hendinni við að byggja upp nýtt af því það vita það allir að við þurfum á slíku að halda.
Fámenn þjóð sem býr saman á stórri eyju þarf ekki síst að byggja upp samfélag sem gerir ráð fyrir öllum. Fámennið og vegalengdirnar gera það að verkum að við ráðum ekki við það að hér búi tvær þjóðir; 3.000 á móti 270.000 eða fámenn valda- og eignaelíta á móti þjónum hennar. Við þessi 270.000 verðum þess vegna að bregðast við því hvað hin 3.000 hafa í hyggju varðandi lífskjör okkar.
Við þurfum að vinna saman og breyta samfélaginu þannig að framtíð okkar verði önnur en þrældómur við að halda uppi innlendri og alþjóðlegri eigna- og valdastétt . Við þurfum að horfast í augu við það að þessi virða líf okkar og framtíð aðeins út frá því hve mikið við getum lagt að mörkum til viðhalds lífsstíls þeirra.
Við sem höfum ekkert að verja nema lífið þurfum að bregðast við því hvernig fyrir okkur er komið vegna fámenns eigna- og valdahóps sem á lífsvenjur sínar undir því að við tökum kerfinu, sem það hefur byggt upp þeim til varnar, með stillingu og afskiptaleysi.
Við eigum val um það hvort við viljum lifa öðrum eða okkur sjálfum. Við eigum val um það hvort við viljum gefa vinnuframlag okkar til viðhalds því kerfi sem þessi hópur hefur byggt upp til að þjóna votum draumum sínum um óhóf eigna og valda.

Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.4.2012 kl. 01:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)