Grasrótin er ógn við úrelta hugmyndafræði!
2.5.2011 | 15:24
Margir þeirra sem risu upp og sameinuðust í háværum mótmælum haustið 2008 eru enn að. Sumir hafa helst úr lestinni en aðrir hafa bæst við. Þessi hópur hefur gjarnan verið kenndur við grasrót en þar hefur farið fram öflugt og hugmyndaríkt starf sem miðar að gæfuríkum lausnum. Þetta starf hafa fjölmiðlar valdsins kosið að leiða hjá sér og stuðla þannig að því að viðhalda kyrrstöðunni.
Það er ekki þar með sagt að fjölmiðlar fjalli ekkert um þennan hóp. Öðru nær því allt frá hruni hafa þeir apað upp vafasamar staðhæfingar fulltrúa valdsins um tilgang og eða tengsl einstaklinganna í þessum hópi við einhvern úr óvinaliðinu eða dregið fram einhverjar gróusögur um viðkomandi.
Hvoru tveggja er gert í þeim tilgangi að draga úr trúverðugleika baráttuaflanna og skapa sundrungu. Það hentar nefnilega valdinu að viðhaldið tortryggninni og draga þannig úr ógninni sem valdinu stafar af þeim öfluga hópi sem hefur starfað í grasrót nýrrar og byltingarkenndrar hugmyndafræði frá haustinu 2008.
Það sem grasrótin þarf að gera er að hætta að láta fjölmiðlastýra sér af álitsgjöfum valdsins. Ef grasrótin hættir að láta hræra í sér með óvönduðum fréttaflutningi um aðgerðir hennar og einbeitir sér að því markmiði að bylta við sjúku hugarfari og spilltu fjármála- og stjórnmálakerfi þá mun henni farnast vel og ná árangri.
Grasrótin er nefnilega til og ótrúlega öflugt afl sem þar býr þrátt fyrir að hópurinn sem hún er mynduð af telji ekki nema rétt rúmlega 300.000 manna þjóð. Það er líka með ólíkindum hverju hún hefur áorkað! Nægir þar að nefna tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um Icesave.
Ef þeir sem halda grasrótinni uppi skilja að þöggunin og afbökunin sem hún býr undir snýst um það að hún er hættuleg valdinu sem ætlar sér að halda hlutunum nákvæmlega eins og þeir eru. Ef þessir skilja aflið sem í grasrótinni býr og ógnina sem styrkur þeirra og kraftur eru fyrir fámenna eigna- og valdastétt þá gengi þessum e.t.v. betur að skilja að hvert og eitt okkar skiptir máli. Við þurfum heldur ekki alltaf að vinna í saman í stórum hópum ef markmið okkar er það sama.
Þ.e. að bylta núverandi hugarfari, sem grundvallast á mismunun, og bylta fjármála- og stjórnmálakerfinu sem hefur verið byggt upp til að verja þessa mismunun. Við viljum réttlæti og lýðræði, heiðarleika og sanngirni sem ætti að vera auðvelt að byggja upp í svo fámennu samfélagi og okkar.
Hættum að láta áróðurinn um okkur hafa áhrif á það hvernig við metum okkur sjálf og skiljum að þessi áróður er grundvallaður á óttanum við kraftinn sem í okkur býr!