Þeir vinna skipulega gegn lýðræðinu
18.2.2011 | 01:14
Það er undarlegt að búa í samfélagi þar sem ráðandi stéttir; s.s. stjórnmálamenn og fjármagnseigendur, leggjast af öllum sínum þunga gegn lýðræðinu. Það er dapurlegt að horfa upp á subbulegar aðferðir þeirra. Það er virkilega sorglegt að sjá hve margir skíta sjálfa sig út á því að gegna erindum þessara stétta í þeim tilgangi að hindra það beinlínis að þjóðin geti haft afgerandi áhrif á tilveru sína og framtíð.
Það er ekki bara stjórnlagaþingið sem hefur orðið fórnarlamb þess konar skæruhernaðar heldur hvers konar viðleitni fjölmargra einstaklinga sem leggja sumir hverjir nótt við dag við að sporna gegn því einræði sem stjórnvöld hafa snúist til á undanförnum árum. Ein þeirra leiða er að ná til fólks með undirskriftarlistum. Með því móti er gjarnan sett fram krafa og/eða áskorun sem stríðir gegn hugmyndum stjórnvalda. Áskoruninni er þá gjarnan beint til stjórnmálamanna og/eða forsetans.
Þetta á t.d. við um áskorunina sem hópurinn Samstaða þjóðar gegn Icesave setti fram nú á dögunum undir slóðinni kjósum.is Það er greinilegt að þeir eru margir sem styðja þessa áskorun enda varla við öðru að búast miðað við það að nýleg skoðanakönnun MMR sýndi að 62% aðspurðra vildu að íslenska þjóðin fengi að segja álit sitt á nýjasta Icesave-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu. (Sjá frétt á mbl.is hér)
Tillaga um að bera Icesavesamninginn undir atkvæði þjóðarinnar var felld á Alþingi með 33 atkvæðum gegn 30. (sjá hér) Þrátt fyrir þennan litla mun er ljóst að það eru valdamiklir einstaklingar og ráðandi öfl sem óttast ekkert meira en það að lagafrumvarið um Icesave-samninginn verði fellt ef það ratar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Frá því að áskorunin um þjóðaratkvæði kom fram á kjosum.is hefur meiri hluti þingheims verið í spretthlaupi undan lýðræðinu. Þessir hafa algerlega hundsað þann hluta áskorunarinnar sem er beint til þeirra og beitt ýmis konar vopnum til að draga úr gildi þess að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um lagafrumvarpið.
Áróðursrefir og alltof margir fjölmiðlar hafa lagst á sveif með þeim og reynt að draga úr trúverðugleika undirskriftarsöfnunarinnar. Það er vissulega sorglegt að horfa upp á það að fulltrúar valdsins, sem ættu ávallt að hafa hag þjóðarinnar í fyrirrúmi, skuli leggja allt sitt hugvit í það að grafa undan tækifærum almennings til að hafna samningi sem mun hafa verulegar og afgerandi afleiðingar á lífskjör hans í framtíðinni.
Merkilegast hefur verið að fylgjast með tveimur bloggurum sem hafa áunnið sér þann vafasama sess að stýra skoðunum lesenda sinna. Hér á ég við þá Teit Atlason og Jónas Kristjánsson sem hafa gert sig seka um allt annað en það að umgangast þann sess af virðingu við þá meginreglu að hafa það sem sannara reynist. Upphrópanirnar og sleggjudómarnir, sem þeir viðhafa án þess að vísa til heimilda eða geta þess hvað gerir þá að sérfræðingum í þeim málefnum sem þeir gerast æðstu dómarar í, bera hvorki vott um virðingu fyrir sannleikanum né fólki almennt.
Í reynd hafa þeir lesendur sína að ginningarfíflum og þess vegna virkilega umhugsunarvert hvers vegna fólk yfirleitt hefur fyrir því að fylgjast með þeirri sorpblaðamennsku sem þeir viðhafa á bloggum sínum. Þeim er sennilega báðum fullkunnugt um vald sitt sem þeir beita af svívirðilega lítilli virðingu fyrir lesendum sínum. Óneitanlega veltir maður markmiðum þeirra fyrir sér þar sem það liggur í augum uppi að þeir kunna hvorki að koma fram af yfirvegun eða heiðarleika. Þetta mátti m.a. sjá í Kastljósinu í gærkvöldi þar sem Teitur opinberaðist í þeim eina tilgangi sínum að eyðileggja fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave III næði fram að ganga. (sjá hér)
Ef Teitur hefði útskýrt það fyrir mér hvað gerði hann að sérfræðingi í undirskriftarsöfnunum af þessu tagi. Ef hann hefði sleppt öllum upphrópununum og sleggjudómum. Ef hann hefði einhvern tímann hlustað á Frosta í öðrum tilgangi en snúa út úr einstaka orðalagi sem andmælandi hans viðhafði. Ef hann hefði verið málefnalegur í gagnrýni sinni. Ef hann hefði útskýrt tilgang sinn þá gæti hann gert þá kröfu að á hann sé hlustað en í augnablikinu verður hann að horfast í augu við það að hann er búinn að skjóta sjálfan sig út af borðinu sem álitsgjafi sem mark er takandi á.
Allt hugsandi fólk ætti að vera búið að sjá í gegnum það að Teitur og Jónas eru ekkert annað en áróðursvélar. Þetta hafa skynsamir og málefnalegir menn sýnt fram á á yfirvegaðan og málefnalegan hátt. Sjá þessa færslu Marinós G. Njálssonar og þessa frá Viggó H. Viggóssyni. Marinó segir á sínu bloggi varðandi það sem Teitur hefur einkum gagnrýnt.
Sumir eru bara ekki stærri persónur en svo, að þeir hafa þörfina til að skemma fyrir öðrum. Þeir verða að eiga það við sína siðgæðisvitund. Ekkert ferli stoppar einstakling í þeim eindregna ásetningi sínum að koma fram illum vilja. Hlutverk öryggisráðstafana í þessu tilfelli er ekki að koma í veg fyrir bullskráningar heldur að uppgötva þær áður en listinn er sendur forseta Íslands.
Viggó bendir á það augljósa þegar hann segir: Þeir sem halda því fram að aðrar undirskriftasafnanir hafi verið "betri" þurfa að sýna fram á það, ekki dugir að slengja því fram án stuðnings. en mig langar til að bæta því við að þó hægt væri að sýna fram á það að aðrar undirskriftarsafnanir hafi verið betri þá teljast það engan vegin gild rök varðandi það að þeir sem standa að baki kjosum.is hafi viðhaft eitthvert svindl.
Teitur hefur hins vegar verið staðinn að slíku sjálfur. Honum virðist nefnilega vera svo umhugað um öryggi skoðanakannanna að hann gleymir að til að koma upp um falsarana þá gengur ekki að nota fölsuð gögn sjálfur (sjá hér) nema tilgangurinn sé áróður sem getur leitt til múgæsingar...
![]() |
Sjálfstæðismenn í Kópavogi skora á forsetann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.2.2011 kl. 02:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)