Það er engin ástæða til að gefast upp!
20.1.2011 | 19:30
Tunnurnar voru skildar eftir niður á Austurvelli eftir mótmælin sl. mánudag. Við enduðum fyrir framan nefndarsvið Alþingis þar sem við komum hinum dimma takti kröfunnar um réttláta skynsemi inn til fulltrúa fjárlaganefndar sem funduðu um Icesave III. Lögregluliðið í kringum okkur var eiginlega fjölmennara en við sem slógum taktinn.
Ég minni á að mótmælin sem Tunnurnar hafa staðið fyrir hingað til hafa alltaf farið friðsamlega fram og því lítið reynt á lögregluna. Þess vegna er spurning hvort ekki megi túlka þetta fjölmenna lögreglulið á þann veg að nærvera þeirra hafi verið fyrir það að það standi með kröfum okkar um að skuldum Landsbankamanna verði ekki velt yfir á almenning í landinu.
Það að tunnurnar voru skildar eftir þýðir ekki að kröfur Tunnanna um almenna leiðréttingu, siðbót, uppgjör og uppstokkun innan embættismanna- og stjórnkerfi séu þagnaðar. Öðru nær! Við sem höfum haft okkur mest í frammi erum að upphugsa nýjar leiðir. Nokkur okkar erum þegar farin að vinna að nýjum áætlunum. A.m.k. ein þeirra hefur að einhverju leyti verið unnin samhliða mótmælunum sl. október en skipulagning og utanumhald í kringum tunnurnar tóku slíkan tíma að það var lítið afgangs til að fylgja þeim eftir.
Ég ýjaði að einu verkefninu sem við höfum verið að vinna að í bréfi sem við sendum á alþingismenn sl. mánudag. (Sjá hér) Til gamans má geta þess að við fengum lítil viðbrögð frá þingmönnum að þessu sinni en þó fékk ég eitt bréf sem ég hef svolítið gaman af. Það er hér:
Sæl Rakel.
Það er alltaf sami rostinn í þér.
Kk, xxx
Af viðbúnaðinum sem mætti Tunnunum sl. mánudag; bæði að hálfu lögreglu og sjálfskipaðra verjenda núverandi stjórnvalda, er ljóst að töluverður ótti hefur gripið um sig meðal þeirra sem vilja halda í það gamla kerfi sem ver forréttindi valda- og eignastéttarinnar í landinu. Það er deginum ljósara að þeir sem þurfa aldrei að taka afleiðingum gjörða sinna heldur láta þær bitna á almenningi vilja engu breyta enda þjónar núverandi kerfi þessum einstaklingum.
Það má hins vegar velta því fyrir sér hvers vegna svo stór hluti almennings lætur það yfir sig ganga að fámennur forréttindahópur skerði lífskjör heils samfélags til að viðhalda forréttindum fámennrar valda- og eignaklíku í þessu litla landi. Svörin liggja á engan hátt ljós fyrir mér nema ef vera skyldi að stór hluti þjóðarinnar sé sofandi gagnvart þessum staðreyndum enn þá.
Maður spyr sig auðvitað hvernig getur þjóðin sofið þegar staðreyndirnar blasa við hvarvetna? Mögulega liggur svarið í því að mikill meiri hluti sé undir svo sterkum áhrifum af því sem er kallað áfallastreituröskun, vegna þess sem hefur verið að koma í ljós frá bankahruninu 2008, að þeir sem þetta á við um hafi ekki orku til að spyrna á móti. Svo eru það auðvitað einhverjir sem vilja engu breyta því þeim stendur á sama þó núverandi kerfi sé óréttlátt á meðan ranglætið ógnar ekki þeim þægindaramma sem það hefur byggt utan um sína eigin tilveru.
Þeir sem geta ekki sætt sig við slíka tilveru heldur vaka yfir réttindum sínum og annarra hafa gjarnan verið kallaðir hugsjónafólk. Þeir sem starfa með Hagsmunasamtökum heimilanna eru þannig fólk. Þeir sem standa á bak við Tunnurnar eru af sama meiði. Mig langar til að benda ykkur á að í Bítinu á Bylgjunni, sl. mánudagsmorgun, var viðtal við fulltrúa úr báðum þessum hópum sem svöruðu því hvers vegna það var mótmælt á mánudaginn og/eða hverju var mótmælt.
Fyrir þá sem eru ekki með svörin við þessum spurningum á hreinu enda ég þessa færslu á krækju í þetta viðtal.
Í Bítið - Rakel Sigurgeirsdóttir og Ólafur Garðarsson um
fyrirhuguð mótmæli í dag
Að lokum þá er rétt að minna á það að hugsjónafólk finnur alltaf leið til að halda málstað réttlætisins á lofti Það er eins og fífillinn sem brýtur sér leið í gegnum malbikið, jafnvel þó það sé malbikað yfir hann aftur og aftur. Hér verður þess vegna mótmælt þar til óréttlætið verður endanlega tunnað!
![]() |
Tap hjá Samfylkingunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lýðræði eða opinbert lögregluríki?
20.1.2011 | 01:24
Stuðningshópur 9-menninganna boðar til hávaðamótmæla kl. 11:00 í dag fyrir framan Héraðsdóm. Við ætlum að mótmæla þeirri aðför sem þar er höfð í frammi gegn níu einstaklingum. Í grófum dráttum þá er því haldið fram að þessir níu hafi gert tilraun til valdaráns þ. 8. desember árið 2008. Ákæran, málatilbúnaðurinn og skrípaleikurinn innan og utan dómsalarins eru svo yfirgengileg að það sætir furðu að ekki sé löngu búið að vísa málinu frá!
Undanfarna daga hafa farið fram vitnaleiðslur í málinu en þeim verður framhaldið í dag. Það má fylgjast með þeim hér og hér. Það er svo margt við þetta mál sem vekur bæði furðu og vandlætingu að of langt mál væri að telja það allt. Það er líka ljóst af framburði vitna ákæruvaldsins að forsendurnar eru byggðar á afar veikum grunni. Aftur á móti fer ásetningurinn um misbeitingu valdsins varla fram hjá neinum sem kynnir sér málin til hlítar. Það má m.a. gera hér.
Þegar gripið er niður í framburð vitna ákæruvaldsins er áberandi hve algeng eftirfarandi orðasambönd eru í framburði þeirra: að halda, vita ekki alveg, túlka, að meta svo, sönnunargagn sýnir annað en samt". Minnisleysi er líka afar áberandi, einkum meðal lögreglumannanna sem hafa verið yfirheyrðir. Þeir þykjast heldur ekki vita hver gaf þeim skipunina um að koma að innganginum á alþingishúsinu, sem liggja að þingpöllum, umræddan dag og alls ekki hver fyrirskipaði handtöku þeirra í það sama skipti. Sumir ljúga m.a.s. blákalt eins og þingverðirnir sjálfir reyndar líka.
Ég minni á að ef við sýnum 9-menningunum ekki stuðning og spyrnum við fótum með því að mæta á morgun getur það haft afar alvarlegar afleiðingar fyrir lýðræðið. Við bjóðum í raun heim grímulausu lögregluríki þar sem lögreglan yrði væntanlega skipuð einstaklingum af sama kalíberi og þeim sem höfðu afskipti af 9-menningunum 8. desember árið 2008.
Miðað við framburð þeirra mætti ætla að slíkir skilji heilann eftir heima þegar þeir mæta til vinnu og sýna þar af leiðandi hvaða yfirvaldi sem er blinda og gagnrýnislausa hlýðni. Ekkert okkar vill kalla slíkt yfir sig og ég þori að fullyrða að fæstir innan lögreglunnar myndu vilja það heldur. Kannski ekki einu sinni þeir sem vilja ekki kannast við blinda hundstryggð sína fyrir tveimur árum. Sýnum lýðræðisvitund okkar í verki og mætum hér.
![]() |
Boða til mótmæla við Héraðsdóm |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)