Ríkisstjórnin framkvæmir vilja Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
10.10.2010 | 15:17
Það er greinilegt að tunnurnar valda titringi þó alvöru viðbrögð láti á sér standa. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar koma fram í fjölmiðlum og reyna að telja okkur þegnunum trú um það að þau hafi vilja til að bregðast við skuldavanda heimilanna en þeir sem hafa sett sig almennilega inn í málið eru fullir efasemda. Við erum búin að átta okkur á því að ríkisstjórnin framkvæmir aðeins vilja Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Hann stýrir í raun landinu. Fjárlagafrumvarpið er eftir uppskrift AGS enda skiptir hann sér að öllu sem viðkemur fjármálakerfinu. Þetta er staðreynd sem fimm þingmenn hafa haldið fram í mín eyru. Tveir þeirra eru stjórnarþingmenn. Niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu sem var fyrst boðaður í upphafi árs 2009 en á að koma til fullra framkvæmda nú er samkvæmt alþekktri formúlu AGS. Henni hefur verið beitt miskunnarlaust í öllum þeim löndum þar sem sjóðurinn hefur komið við sögu.Í fjárlögunum er líka boðaður umtalsverður niðurskurður í menntakerfinu þó hann hafi ekki farið jafnhátt. Sú forgangsröðun að skuldir fjármagnseiganda eru afskrifaðar hjá bönkunum á meðan fjármálastofnanirnar sækja fram af fullri hörku gagnvart skuldum almennings er líka eftir forskrift AGS. Loforð fulltrúa ríkisstjórnarinnar mega sín því lítils eða engis því það þarf að bera öll slík undir landstjóra AGS hér á landi. Það eina sem hann mun gera er að gefa einhvern gálgafrest.
Ríkisstjórnin gæti hins vegar tekið þá ákvörðun að segja upp samningi sínum við sjóðinn enda er aðstoð AGS ekkert annað en bjarnargreiði. Af lánunum sem ríkisstjóður hefur nú þegar þegið af sjóðnum þarf hann að greiða 20% af tekjum ríkissjóðs í vexti. Talnaglöggir menn hafa sagt mér að það þýði u.þ.b. sömu upphæð og þarf til að reka hér bæði þá heilbrigðis- og menntunarþjónustu á sama hátt og hefur viðgengist hér hingað til. Það má því segja að niðurskurðurinn á þessum sviðum sé eingöngu tilkominn vegna samnings ríkisins við Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Þeir sem standa á bak við svefnpopa- og tunnumótmælin gefa lítið fyrir loforð. Þeir vilja sjá aðgerðir og nýja forgangsröðun. Þess vegna hafa þeir boðað til nýrrar mótmælahrinu í þessari viku. Aðfararnótt þriðjudagsins 12. október n.k. sofa hetjulegustu mótmælendurinir úti við Stjórnarráðið (Sjá hér) en daginn eftir verður ríkisstjórnin tunnuð þar sem hún heldur ríkisstjórnarfund kl. 10:00 í Stjórnarráðinu. (Sjá hér)
Aðstandendur mótmælana hafa hvatt vinnuveitendur að gefa starfsfólki sínu frí fyrir hádegi þennan dag svo þeir geti tekið þátt í mótmælaaðgerðinni við Stjórnarráðið.
![]() |
Fjölmenn mótmæli á Austurlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |