Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014
Almannahagur að styðja Lilju
20.7.2014 | 10:55
Þeir sem styðja Lilju Mósesdóttur voru það mikil vonbrigði að hæfisnefnd efnahags- og fjármálaráðherra skyldi ekki meta hana a.m.k. jafnhæfa og þá þrjá sem að hennar mati eru hæfastir. Þetta eru þeir: Friðrik Már Baldursson, Már Guðmundsson og Ragnar Árnason.
Það er reyndar mat flestra stuðningsmanna hennar að hún sé langhæfust fyrir það að á meðan hún var á þingi barðist hún fyrir hagsmunum almennings í Icesave-málinu og gegn kreppudýpkandi efnahagsáætlun AGS [...] ásamt því að setja fram skapandi lausnir á snjóhengjuvandanum. (sjá hér). Þeir þrír sem hæfisnefndin mat hæfari henni hafa hins vegar sýnt það með verkum sínum að þeir meta hag fjármagnseigenda og banka ofar almannahag.
Nokkur þeirra atriða sem rökstyðja þetta voru dregin fram í öðru bloggi á þessum vettvangi. Færslan fékk heitið: Val á nýjum seðlabankastjóra ætti að vera auðvelt. Meginniðurstaðan þar er sú að hagfræðingarnir þrír sem hæfisnefndin mat hæfasta til seðlabankastjóraembættisins gegna hagsmunum fjármagnseigenda umfram almannahagsmuni. Aðalatriði þess sem ekki hefur verið talið í fjölmiðlum, sem hafa fjallað um nýútkomið mat hæfisnefndarinnar, er dregið saman á þessari mynd:
Hér er rétt að minna á að eitt af meginbaráttuefnum þeirrar byltingar sem spratt upp úr bankahruninu 2008 var uppgjör við hrunið, aukinn jöfnuður og tryggari lífskjör, þar sem aðgangur að menntun fyrir alla og ódýrri heilbrigðisþjónustu, yrði áfram tryggður. Fyrir þessu barðist Lilja allan þann tíma sem hún sat inni á þingi.
Svo trú var hún áherslum sínum í velferðar- og efnahagsmálum að vorið 2011 sagði hún sig frá þingflokki Vinstri grænna og þar með úr beinum tengslum við þáverandi ríkisstjórn. Reyndar voru þau tvö sem yfirgáfu þingflokk VG á sama tíma. Skömmu síðar fór sá þriðji, hann sagði sig úr flokknum og gekk í annan stjórnarandstöðuflokk, fjórða þingmanninum var vikið úr ráðherraembætti á lokadögum ársins 2011 en sá fimmti lét sig hverfa út af þingi í upphafi ársins 2013.
Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir héldu blaðamannafund í tilefni þess að þau treystu sér ekki til að vinna lengur með þingflokki Vinstri grænna í ríkisstjórn sem að þeirra mati fór gegn boðaðri stefnu í efnahags-, velferðar- og öðrum lífskjaramálum. Um efnahagsstefnuna segir þetta í yfirlýsingu þeirra, Atla og Lilju, sem er gefin út 21. mars 2011:
Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar byggir á áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í ríkisfjármálum fyrir árin 2009-2013 sem gerð var í tíð fyrri ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gegn eindreginni andstöðu þingflokks VG. Forysta núverandi ríkisstjórnar fylgir gagnrýnislaust þessari stefnu sem miðar að því að verja fjármagnskerfið og fjármagnseigendur á kostnað almennings og velferðarkerfisins. Undir handleiðslu AGS hefur alltof stórt bankakerfi verið endurreist og haldið hefur verið fast í áætlun AGS í ríkisfjármálum í stað þess að standa vörð um velferðarþjónustuna. (sjá hér (leturbreytingar eru höfundar))
Miðað við þær stefnuáherslur, sem stjórnarflokkar síðustu ríkisstjórnar lögðu fyrir kjósendur í aðdraganda alþingiskosninganna vorið 2009, væri ekki óeðlilegt að ætla að þeir hefðu fagnað þeim trúnaði sem Atli og Lilja vildu sýna fylgismönnum vinstri flokkanna. Sú varð hins vegar ekki raunin.
Haustið eftir úrsögnina úr þingflokki Vinstri grænna var þeim refsað með útilokun úr nefndum. Í framhaldinu snerust margir kjósenda Vinstri grænna á þá sveif að meiru skipti að halda Vinstri grænum á lífi en halda trúnaðinn við kosningaloforðin og stefnuna. Stuðningsmenn Samfylkingarinnar kunnu þeim, Atla og Lilju, ekkert nema kaldar kveðjur fyrir uppátækið sem dró vissulega enn frekar úr ört þverrandi stuðningi við ríkisstjórn þessara tveggja flokka.
Þegar Lilja Mósesdóttir kom fram haustið 2008, þar sem hún talaði á þremur opnum fundum þeirra sem risu upp til byltingar við þá hagstjórn og aðra þá stjórnsýsluhætti sem leiddu til hrunsins, þá var henni fagnað fyrir nýjar hugmyndir, hagfræðiþekkingu og færni til að setja fram flókið samspil ýmissa efnahagsþátta á aðgengilegan og skiljanlegan hátt.
Hún var hvött til framboðs til Alþingi þar sem meðbræður hennar og -systur þyrftu á henni að halda til aðgerða gagnvart afleiðingum hrunsins. Hún hafði alls ekki hugsað sér neitt slíkt þegar hún reis upp til að benda á leiðir sem myndu reynast heillavænlegri viðbrögð, samtímanum og framtíðinni, gagnvart hruninu en þær sem Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin boðuðu í kjölfar þess. Hún kom fram sem fræðimaður og þó hún talaði á tungumáli þeirra sem stóðu utan fræðanna til að þeir skildu þá var það ekki til að vinna kjörfylgi til framdráttar inn á þing.
Eins og margir þeirra, sem hafa boðið sig fram til þings, lét hún þó sannfærast um að Alþingi væri vettvangur þar sem mætti bjóða til samvinnu um skynsamlegar leiðir til lausnar þeim vanda sem samfélagið stóð frammi fyrir á þessum tíma og stendur reyndar enn. Á Alþingi fer hins vegar fram pólitískt þrátefli tveggja afla; þeirra sem hafa lengst af haft völdin í landinu og hinna sem dreymir um að ná völdunum af þeim.
Í slíkum flokkspólitískum hildarleik, þar sem mestu máli skiptir að fórna öllu fyrir tímabundinn ávinning síns flokks, reyndist ekki rými fyrir sérfræðimenntaðan kreppuhagfræðing sem tók trúnaðinn við réttlætishugsjónir sínar og heiðarleikann gagnvart kjósendum og samstarfsfólki sínu fram yfir allt annað. Hugmyndir hennar hlutu ekki hljómgrunn meðal þeirrar norrænu velferðarstjórnar, sem stofnað hafði verið til, en hún tók þær saman í þingsályktunartillögu sem hún lagði fram á Alþingi 11. febrúar 2013. Tillagan var aldrei tekin til frekari meðferðar (sjá hér).
Nú hafa hins vegar ýmsir sem vilja telja sig gildandi í efnahagsumræðu bæði á bloggum og í athugasemdakerfum samfélagsmiðlanna tekið að tala fyrir ýmsum hugmynda hennar eins og skiptigengileiðinni (nýkrónu). Ástæðan er e.t.v. sú að það er nefnilega ekkert bjart framundan þó umræðan um slæma fjárhagsstöðu ýmissa sveitarfélaga, skuldug heimili og raðirnar fyrir framan Fjölskylduhjálpina hafi dáið út. Sumir halda því m.a.s. fram að framundan sé annað hrun verði sömu forgangsröðun viðhaldið í efnahagsstjórn landins.
Lilja Mósesdóttir er ein þeirra sem hefur haldið því fram frá upphafi að sú leið sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti stjórnvöldum hér, haustið 2008, muni leiða til enn frekari hörmunga. Sú handstýrða flotgengisstefna sem hefur viðgengis hér frá því í mars 2001 ásamt þeirri forgangsröðun að hlífa fjármálastofnunum og fjármagnseigendum á kostnað alls annars hefur stuðlað að gífurlegri verðmætatilfærslu í samfélaginu.
Nýkrónuhugmynd Lilju Mósesdóttur tekur á þessari mismunum sem eykst smátt og smátt fyrir það að það var aldrei gert upp við þau hagstjórnartæki eða áhersluatriði sem leiddu til síðasta efnahagshruns heldur keyrt áfram út frá sömu formúlunni og áður. Í stað þess að þeir sem kröfðust þess, haustið 2008 og fram á áríð 2009, að hér yrði breytt um kúrs hafi fylgt þessum kröfum eftir og stutt þá, sem hafa komið með lausnir á brýnustu úrlausnarefnunum, hafa þeir horfið til fyrri iðju og gerst áhorfendur að því pólitíska þrátefli sem hefur tíðkast hér á landi frá því fyrstu stjórnmálaflokkarnir komu fram.
Sumir hafa líka gerst þátttakendur og aðrir hafa fest sig í sessi sem leikstjórnarlýsendur frá sínum kanti leikvallarins hvor hópur. Þannig hefur umsókn, fagþekking og annað sem Lilja hefur fram að færa til seðlabankastjórastöðunnar fallið á milli tveggja flokkspólitískra arma, sem hafa kosið að gera skipun seðlabankastjórastöðunnar að framlengdum leikþætti þeirrar pólitísku spillingar, sem einkenndu gjarnan embættisskipun þeirra seðlabankastjóra sem stýrðu bankanum í aðdraganda bankahrunsins 2008.
Nú stóð hins vegar til að vanda til verka. Sérstök hæfisnefnd var skipuð og komst að þeirri niðurstöðu á aðeins rúmum tveimur sólarhringum að: Friðrik Már Baldursson, Már Guðmundsson og Ragnar Árnason væru mjög vel hæfir í stöðu seðlabankastjóra. Lilja Mósesdóttir, Yngvi Örn Kristinsson og Þorsteinn Þorgeirsson voru metin vel hæf og Ásgeir Brynjar Torfason hæfur.
Hæfisnefndin gerði ekki greinarmun á umsækjendum út frá stjórnunarhæfileikum eða hæfni þeirra í mannlegum samskiptum.
Samkvæmt útreikningi Kjarnans eru þeir Friðrik Már Baldursson, Már Guðmundsson og Ragnar Árnason hnífjafnir í kapphlaupinu um seðlabankastjórastöðuna, ef hæfi þeirra er miðað út frá stigagjöf. Þeir hlutu allir tólf stig, Lilja Mósesdóttir og Þorsteinn Þorgeirsson fengu ellefu stig, Yngvi Örn Kristinsson tíu og Ásgeir Brynjar Torfason rak lestina með níu stig. (sjá hér)
Eins og vikið var hér á undan vekur það væntanlega athygli hversu fljót hæfisnefndin var að komast að þessari niðurstöðu en ekki liðu nema rétt liðlega tveir sólarhringar frá því viðtalsferlinu við alla umsækjendur lauk og þar til það var komið í fjölmiðla hver þeirra sjö sem mættu til viðtals þóttu hæfastir til að gegna stöðu seðlabankastjóra. Miðað við það að nefndin hafði viku frá því að rætt hafði verið við alla umsækjendur þangað til niðurstaðan yrði kynnt Bjarna Benediktssyni, efnahags- og fjármálaráðherra mat sitt (sjá hér) hlýtur maður að spyrja sig hvað hafi orðið til þess að þessu ferli var flýtt svo mjög?
Eins og bent var á hér í upphafi þá hefur Lilja það fram yfir þá sem eru metir ofar henni að hæfileikum að hún hefur lagt fram heildarlausnir á skuldavanda þjóðarinnar. Það má líka benda á að hún varaði m.a. við hættunni af Icesave-skuldbindingunum þegar bæði Már og Friðrik Már hvöttu til að skuldunum væri varpað yfir á herðar almennra skattgreiðenda. Hún benti líka á að efnahagsáætlun AGS yki á efnahagsvandann (sjá hér).
Hún hefur það einnig fram yfir þá þrjá, sem eru settir ofar henni í mati hæfisnefndarinnar og Kjarnans, að hún aðhyllist ekki forgangsröðun fjármálaaflanna, ofuráhersluna á stærðfræðilega nálgun á viðfangsefnum hagfræðinnar né mátt einkavæðingarinnar eins og þeir Friðrik Már og Ragnar Árnason. Síðast en ekki síst hefur hún engin flokkspólitísk tengsl við núverandi stjórnarflokka og ljóst að klippt hafði verið á öll slík tengsl við núverandi stjórnarandstöðuflokka nokkru fyrir lok síðasta kjörtímabils.
Lilja Mósesdóttir er því besti kostur allra aðila til að mynda almenna samstöðu um að verði næsti seðlabankastjóri. Jafnréttissinnaðir einstaklingar sem berjast fyrir jafnri stöðu kynjanna hafa líka fengið verðugan einstakling til að sameinast um að verði fyrsti kvenkyns seðlabankastjórinn. Þegar innlegg stuðningsmanna Lilju Mósesdóttur, á stuðnings-/áskorunarsíðunni um að hún verði skipaður næsti seðlabankastjóri, er skoðaður er ljóst að þetta eru allt atriði sem koma fram þar.
Stuðningsyfirlýsingar og hvatningarorð þeirra sem hafa lækað síðuna hafa mörg hver verið klippt út og sett fram á myndum sem er að finna í tveimur myndaalbúmum; Við styðjum Lilju og Eftir mat. Af lestri þeirra er eitt sérstaklega athyglisvert. Það er að fæstir, ef nokkrir, eru einstaklingar sem hafa látið fara mikið fyrir sér hingað til. Það er því freistandi að halda því fram að þeir sem styðja Lilju séu hinn þögli meirihluti venjulegs fólks sem á fátt að verja nema eigið líf.
Það er óskandi að þessum hópi takist a.m.k. að koma því á framfæri við stjórnvöld að ástæðan fyrir því að hann styður Lilju Mósesdóttur til embættis seðlabankastjóra er að hann hafnar núverandi áherslum í stjórn efnahagsmála á Íslandi. Hann hafnar einkavæðingu náttúruauðlindanna sem rænir það möguleikum hans til frumkvæðis og atvinnutækifæra. Hann hafnar því að bera gjaldþrota banka og fjármálafyrirtæki uppi fyrir það að þeir kunna ekki að fara vel með það sem þeim er trúað fyrir.
Þegar margar orðsendingar þeirra sem hafa lækað við síðuna eru lesnar þá finnur maður einlægni, von og mannlega hlýju sem maður veltir fyrir sér hvort er horfin þeim sem taka þátt í hildarleik pólitískra afla um menn en ekki aðferðir. Þeir sem hafa gengist inn á það að það skipti einhverju máli hver þeirra þriggja: Friðrik Már, Ragnar eða Már Guðmundsson verði skipaður til embættis seðlabankastjóra, hafa misst af því að í reynd eru þeir eingöngu mismunandi andlit sömu hagfræðihugmynda þar sem það þykir eðlilegt og sjálfsagt að skuldum einkaaðila sé velt yfir á almenning.
Vilji fólk taka afstöðu til mismundi aðferða og áherslna í forgangsröðun við stjórn efnahagsmála þá hefur það val. Það hefur val um að standa með breyttri hugmyndafræði við efnahagsstjórn landsins þar sem hagur heimila og atvinnulífs eru ekki undirseld forréttindum fjármagnseigenda á þann hátt að hvoru tveggja sveltur þar sem hvorugt fæst þrifist fyrir afleiðingar ofþenslu og hruns á víxl.
Fólk hefur nefnilega val um að styðja Lilju Mósesdóttur sem næsta seðlabankastjóra og koma því þannig áleiðis að það styður lausnarmiðaðar hugmyndir hennar og leiðir sem miða að því að forða okkur og framtíðarkynslóðum landsins frá öðru fjármálahruni. Fyrsta skrefið í þeim stuðningi gæti verið sá að heimsækja læksíðuna sem hefur verið stofnuð í þessum tilgangi.
Tilefnið var framkominn stuðningur við Lilju
17.7.2014 | 10:59
Viðtalsgrein af síðu Samstöðu
Eins og hefur komið fram áður á þessum vettvangi hefur stuðnings- og/eða áskorendasíða við skipun Lilju Mósesdóttur til embættis seðlabankastjóra verið sett fram á Fésbókinni. Stuðningssíðan var sett í loftið á mánudagskvöldið fyrir rétt rúmri viku síðan. Þeir sem standa að síðunni eru fimm manna hópur kvenna og karla sem eiga það öll sameiginlegt að hafa fylgst með málflutningi Lilju frá því að hún kom fyrst fram haustið 2008.
Tilefni þess að síðan var sett í loftið segja þau eiginlega sprottið af þeim stuðningi sem kom fram í innleggjum við fréttir með nöfnum umsækjenda þriðjudaginn 1. júlí síðastliðinn og svo það að í framhaldinu var hvergi fjallað um það að Lilja væri á meðal umsækjenda. Við ákváðum því að rjúfa þagnarmúrinn og búa til síðu til þess að þeir sem styðja hana og efnahagshugmyndir hennar gætu komið því á framfæri með lækum og innleggjum.
Konurnar í hópnum vildu líka taka það fram að þeim hefði ekki síður sviðið það að þrátt fyrir að Kvenréttindafélag Íslands hafi hvatt konur sérstaklega til að sækja um starfið, með ábendingu um að eingöngu karlar hefðu stýrt Seðlabankanum frá stofnun hans, þá hefði ríkt algjör þögn um jafnframbærilegan kvenumsækjanda og Lilju Mósesdóttur. Þær treystu sér þó ekki til að kveða úr um það hvort ástæðan væri eingöngu sú að Lilja er kona eða einhver önnur.
Það er ekki aðalatriðið í mínum huga að kona verði næsti seðlabankastjóri heldur það að hæfasti umsækjandinn hljóti stöðuna sagði einn karlmannanna í hópnum og bætti við: Síðan hvenær hefur það ekki vakið athygli þegar fyrrverandi þingmaður sækir um embætti eins og seðlabankastjórastöðuna? Þegar það er haft í huga að Lilja er eini umsækjandinn sem hefur lagt fram raunverulegar tillögur um það hvernig á að leysa skuldavandann, sem við erum í, þá er það í raun stórfurðulegt hvað umsókn hennar hefur vakið litla athygli í fjölmiðlum. Hinir tóku undir þetta.
Það kemur e.t.v. ekki á óvart að allir í hópnum sem er að baki síðunni gengu í Samstöðu á sínum tíma enda bundu þau vonir við að hennar hugmyndir og stefna í velferðar- og efnahagsmálum næðu eyrum og stuðningi kjósenda þannig að Lilja kæmist áfram inn á þing. Af því varð ekki en eins og aðstandendur síðunnar hafa vakið athygli á þá er ekki síðra tækifæri nú til að njóta hugmynda Lilju um lausnir á efnahagsvanda þjóðarinnar.
Það hafa allir tækifæri til, óháð flokkspólitískum línum, að skora á stjórnvöld að skipa Lilju Mósesdóttur yfir Seðlabankann. Aðstandendur síðunnar benda á að hún hafi marga ótvíræða kosti fram yfir aðra umsækjendur eins og tekið er fram í kynningunni á síðunni sem var líka sett með fyrsta innleggi hennar en þar segir m.a:
Aðrir umsækjendur með hagfræðimenntun hafa sýnt það með störfum sínum að þeir eru hluti af því kerfi sem hrundi haustið 2008 og var svo endurreist á nánast sama grunni með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Lilja hefur frá hruni verið óhrædd við að setja fram óhefðbundnar efnahagslausnir sem tryggja hagsmuni almennings og er því að okkar mati hæfasti umsækjandinn. (sjá meira hér)
Það sést líka á orðsendingum marga þeirra sem hafa lækað við síðuna og vakið athygli á henni með deilingum að þeir eru á sama máli. Þeirra á meðal eru Ísleifur Gíslason og Edith Alvarsdóttir sem bæði hafi skilið eftir stuðningsyfirlýsingar og hvatningarorð í innleggjum á síðuna sjálfa og með deilingum á henni og innleggjum hennar.
Þess má líka geta að Ísleifur hefur verið mjög duglegur við að vekja athygli á síðunni á öðrum síðum og hópum sem hafa orðið til um breytta peningastefnu og bætta efnahagstjórnun á undanförnum árum. Þeir eru líka fleiri sem hafa fylgt því fordæmi. Edith Alvarsdóttir skrifar þetta innlegg með deilingu á tengli sem deilt hafði verið af stuðningssíðunni:
Hilmar Elíasson hefur líka verið ötull við að koma rökum fyrir stuðningi sínum við Lilju Mósesdóttur á framfæri inni á síðunni sem var einmitt stofnuð til að koma vilja þeirra sem vilja Lilju sem næsta seðlabankastjóra á framfæri. Hér er eitt innleggja hans:
María Lóa Friðjónsdóttir setti þessi ummæli fram á síðunni í fyrrakvöld þar sem hún færir rök fyrir því af hverju hún styður það að Lilja Mósesdóttir verði næsti yfirmaður Seðlabankans:
Þegar hópurinn er inntur eftir því hvaða árangri hann væntir að ná með þessu framtaki kemur í ljós að meðlimirnir eru misbjartsýnir. Þau eru þó öll sammála um, að með þeim árangri sem þegar hefur náðst hafi tekist að draga það fram að stuðningur við efnahagshugmyndir Lilju er fyrir hendi meðal þokkalega breiðst hóps fólks á öllum aldri, óháð stétt og kyni.
Þau segjast ekki treysta sér til að segja til með búsetu að svo komnu en vilja taka það fram að þó lækin séu komin yfir þúsund á ótrúlega skömmum tíma þá dugi sú tala ekki til að gera eitthvað frekar með áskorun síðunnar. Flest eru hins vegar bjartsýn á að fleiri muni treysta sér til að læka síðuna á næstu dögum en vildu engu svara um það hvaða tala yrði til þess að þau gengju lengra með áskorun hennar.
Einn úr hópnum minnti á að í kjölfar hrunsins hafi mótmælendur safnast saman fyrir framan Seðlabankann vegna meintrar vanhæfni Davíðs Oddssonar til að stýra bankanum. Ég veit ekki hvað þeir voru margir sem mótmæltu þá en þeir fengu vilja sínum framgengt. Það er þess vegna langt frá því fráleitt að fólk standi saman nú til að koma því á framfæri að við viljum fá fullkomlega hæfa manneskju í þetta starf, bætti hann við. Aðstandendur síðunnar bentu á að þetta sjónarmið hefði komið fram víðar þar sem umræður hafa sprottið um áskorun síðunnar.
Guðni Björnsson setti eftirfarandi áskorun inn á síðu Hagsmunasamtaka heimilanna þar sem hann skorar á samtökin að styðja Lilju. Áskorun hans leiðir til umræðna þar sem hann minnir á að með samtakamættinum hafi tekist að koma hrunverja út og hvers vegna ekki alvöru konu inn?
Að lokum má geta þess að aðstandendur síðunnar munu halda henni í loftinu þar til það verður gert opinbert hver umsækjendanna verður skipaður til embættisins. Ekki hefur verið tekin nein sérstök ákvörðun um það hvað verður gert við síðuna eftir það. Kannski verður hún bara höfð áfram í loftinu sem minnisvarði um þann stuðning sem Lilja Mósesdóttir naut til embættisins.
Þegar aðstandendur síðunnar eru spurðir um það hvort það standi til að þeir gefi sig fram sem andlitin á bak við síðuna þá benda þau á að þegar litið sé á síðuna þá sé ljóst að þeir eru margir sem styðja Lilju og jafnvel miklu fleiri sem hafa gert það opinberlega en nokkurt þeirra gerði ráð fyrir. Það er þess vegna ekki ólíklegt að margir þeirra séu reiðubúnir til að standa við sinn stuðning hvar og hvenær sem er.
Það er þessi stuðningur sem skiptir máli. Við sem stöndum á bak við síðuna erum ekkert aðalatriði í því sambandi heldur sú breiða samstaða, sem síðan ber vitni um að er til staðar við efnahagsúrlausnir Lilju, meðal almennings. Einhver þeirra töldu þó ekkert útilokað að þau myndu gefa sig fram sem fulltrúar aðstandendahópsins ef það reynist nauðsynlegt að hann eignaðist opinberan talsmann.
rakel@xc.is
Konur styðja konu sem næsta seðlabankastjóra
9.7.2014 | 07:36
Það eru til ýmis konar klisjur utan í það að konur séu konum verstar en allar gefa þær þá mynd af konum að þær reynist kynsystrum sínum almennt verr en karlar öðrum körlum. Það gefur væntanlega auga leið að klisjan byggir á tilbúinni goðsögn sem á ekki við nein rök að styðjast fyrir utan það að bæði karlar og konur eiga það til að standa í vegi fyrir fyrir því að að þeir sem þau öfunda komist áfram.
Að sjálfsögðu er slíkt afar sorglegt en mér er til efs að það að Vigdís Finnbogadóttir varð forseti á sínum tíma og að Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra hafi stafað af því að konur kusu þær síður en karlar eða að þær hafi verið lausar við það að einhver hafi öfundað þær. Vigdís varð fyrsta konan á jarðarkringlunni sem varð forseti í lýðræðislegum kosningum (sjá hér). Þetta var árið 1980 en hún gegndi embættinu í 16 ár eða fram til ársins 1996.
Árið áður en Vigdís lét af embætti sem forseti Íslands varð Margrét Frímannsdóttir fyrsta íslenska konan til að gegna flokksforystu í stjórnmálaflokki sem var settur saman af báðum kynjum. Hún var formaður Alþýðubandalagsins í þrjú ár (1995-1998) og síðar Samfylkingarinnar í eitt (1999-2000).
Í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 leiddu svo flokksbundnir samfylkingarmenn Jóhönnu Sigurðardóttur til öndvegis í flokknum. Í kjölfarið sýndi stór hluti kjósenda það að hann treysti forystu hennar best í alþingiskosningunum vorið 2009. Með því varð hún fyrsta íslenska konan sem varð forsætisráðherra.
Það væri sjálfsagt vert að telja hér upp fleiri tímamót í kvennasögu Íslands en hér verða aðeins taldar upp þrjár konur sem hafa brotið sagnfræðilega múra og rutt sögulega vegi á síðustu árum. Þetta eru þær: Rannveig Rist sem var fyrsta konan til að verða forstjóri yfir iðnfyrirtæki af sömu stærðargráðu og Íslenska álfélagið hf. Guðfinna Bjarnadóttir sem varð fyrst kvenna til að gegna stöðu rektors á Íslandi og Agnes Sigurðardóttir sem er fyrsta konan til að verða biskup yfir Íslandi.
Í samhengi við framangreinda upptalningu er kannski ekki óeðlilegt að spyrja sig hvort það er ekki kominn tími á að skipa konu yfir Seðlabanka Íslands?
Eins og væntanlega langflestum er kunnugt þá rennur skipunartími núverandi seðlabankastjóra út 20. ágúst n.k. og var staðan auglýst laus til umsóknar nú í vor. Umsóknarfresturinn rann út 27. júní sl. og voru nöfn umsækjanda opinberuð í síðustu viku. Tíu sóttu um stöðuna en miðað við kynningu fjölmiðla og aðra opinbera umræðu þykja einkum fjórir til fimm þeirra líklegir til að hljóta stöðuna. Meðal þeirra er aðeins ein kona.
Í auglýsingu um starfið voru konur jafnt sem karlar hvött til að sækja um embætti seðlabankastjóra og tók Kvenréttindafélag Íslands undir þá hvatningu en það eru eingöngu karlar sem hafa stýrt Seðlabankanum frá stofnun hans (sjá hér). Þrjár konur sóttu um stöðuna og er Lilja Mósesdóttir ein þeirra. Hún er líka ein þeirra fjögurra sem flestir fjölmiðlar vöktu sérstaka athygli á að hefði sótt um embættið og sennilega sú sem flestir hafa lýst einlægum stuðningi við að hljóti það.
Sérstök stuðningssíða við ráðningu hennar í starfið hefur nú verið opnuð á Fésbókinni. Samkvæmt upplýsingum sem koma fram neðst á síðunni var hún stofnuð sl. mánudag. Inn á síðunni er líka að finna ýmiss konar efni til kynningar á efnahagshugmyndum Lilju og verkum hennar frá því að hún kom fyrst fram opinberlega haustið 2008. Auk þess er þar að finna hvatningu og stuðningsyfirlýsingar frá þeim sem vilja sjá hana sem næsta seðlabankastjóra. Í kynningu á síðunni segir þetta um tilefni hennar:
Þeir sem læka þessa síðu eru á þeirri skoðun að Lilja Mósesdóttir sé hæfasti umsækjandinn um stöðu seðlabankastjóra sem verður skipað í 20. ágúst n.k. Við sem lækum viljum því skora á hæfnisnefndina að mæla með Lilju og á stjórnvöld til að ráða hana í embættið. (Sjá hér)
Eins og áður sagði þá er ljóst að þeir eru þó nokkrir sem styðja ráðningu Lilju Mósesdóttur til embættis seðlabankastjóra. Það kemur líka fram í ýmsum innleggjum og skilaboðum sem nú þegar hafa verið sett inn á umrædda stuðningssíðu. Það sem vekur þó athygli í því sambandi er það hversu margar konur lýsa yfir eindregnum stuðningi við það að Lilja verði fyrir valinu sem næsti seðlabankastjóri. Myndin hér að neðan er dæmi um þetta en hún er tekin úr þræði við þetta innlegg á síðunni sem heitir einfaldlega: Lilju Mósesdóttur sem næsta seðlabankastjóra.
Í síðustu færslu á þessum bloggvettvangi var farið yfir fréttaflutning helstu miðla daginn, sem nöfn umsækjenda um embætti seðlabankastjóra voru kynnt, auk þess sem vakin var athygli á nokkrum kommentum þeirra sem nýttu sér opin athugasemdakerfi við fréttirnar til að lýsa yfir stuðningi við ráðningu Lilju. Í framhaldinu var sett fram örkynning á þeim umsækjendum sem þóttu líklegastir miðað við það að nöfn þeirra voru dregin sérstaklega fram í inngangi umræddra frétta.
Þessir eru: Friðrik Már Baldursson, Már Guðmundsson, Ragnar Árnason, Yngvi Örn Kristinsson og Lilja Mósesdóttir. Nú hefur Egill Helgason bætt nokkru við það sem upp á vantaði í sambandi við kynningu Friðriks Más. Þar minnir hann á skýrslu, sem Friðrik Már skrifaði ásamt Richard Portes um íslenska fjármálamarkaðinn í lok ársins 2007, þar sem þeir settu fram þá niðurstöðu að íslensku bankarnir væru vanmetnir á alþjóðamörkuðum og að þeir væru almennt sterkir og vel í stakk búnir til að standa af sér áföll. (sjá hér)
Í þessu samhengi má vekja athygli á því að samvinnu þessara tveggja er alls ekki lokið en fyrr á þessu ári kynntu þeir aðra ritgerð á málstofu sem Seðlabankinn stóð fyrir. Ritgerðin fjallaði um það sama og sú fyrri en þó með þeirri viðbót sem hrun íslenska fjármálakerfisins hafði leitt í ljós (sjá hér). Niðurstaða síðustu færslu stendur því óbreytt. Það sem hefur bæst við síðan gerir það reyndar illgerlegra að líta framhjá því að Lilja Mósesdóttir er langhæfasti umsækjandinn.
Þar af leiðandi er það eðlilegast að hún verði sá umsækjandi sem verður skipaður til embættisins 20. ágúst n.k. Það er þó ekki úr vegi að ítreka það að með skipun Lilju í stöðu seðlabankastjóra gefst núverandi ríkisstjórn ekki aðeins stórkostlegt tækifæri til að leggja áherslu á það að þeim sé full alvara í því að leysa helstu efnahagsvandamál samfélagsins heldur nytu þeir sómans af því að skipa hæfasta einstaklinginn til embættisins ásamt því að fylgja þeirri jafnréttisásýnd landsins eftir (sjá hér) sem var minnt á í upphafi þessarar færslu.
Í þessu sambandi má undirstrika að konur jafnt sem karlar voru hvött til að sækja um starfið, Kvenréttindafélag Íslands hefur minnt á það að eingöngu karlar hafa gegnt stöðu bankastjóra Seðlabankans frá stofnun hans og hæfasti umsækjandinn nú er kona. Þess vegna er þetta rétta tækifærið til að brjóta enn einn múrinn og ryðja nýjan veg í því að embætti og stöður samfélagins séu ekki einokuð af öðru hvoru kyninu. Það er kominn tími á að kona gegni embætti seðlabankastjóra og ætti ekki að vera spurning um að bæta úr þegar hún er einmitt hæfasti umsækjandinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Val á nýjum seðlabankastjóra ætti að vera auðvelt
6.7.2014 | 17:06
Umsóknarfrestur um stöðu seðlabankastjóra rann út þann 27. júní sl. og voru nöfn umsækjanda birt síðasta þriðjudag. Það vakti athygli að á meðal umsækjanda er Lilja Mósesdóttir sem einhverjir hafa eflaust leyft sér að álykta að væri hætt öllum afskiptum af íslensku efnahagslífi. Með umsókn sinni hefur hún sýnt fram á það að það er öðru nær og greinilegt að það eru þó nokkrir sem fagna umsókn hennar um leið og þeir vona að hún hljóti stöðuna.
Það verður reyndar að viðurkennast að lítið hefur farið fyrir umfjöllun fjölmiðla um umsækjendur eða kynningu á bakgrunni þeirra. Listinn yfir þá tíu sem sóttu um embættið var birtur sl. þriðjudag og tvö til fjögur nöfn tekin út úr honum þar sem almennt er vísað í núverandi eða fyrrverandi stöðu umræddra umsækjenda. Á ruv.is eru nöfn eftirtaldra dregin fram með þessum hætti: Már Guðmundsson, núverandi seðlabankastjóri, Lilja Mósesdóttir, fyrrverandi þingmaður, og Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við HR, eru meðal umsækjanda. (sjá hér)
Viðskiptablaðið vekur athygli á því að meðal umsækjendanna tíu eru þrjár konur en dregur síðan nöfn þessara fjögurra fram sérstaklega: Meðal umsækjenda eru Ragnar Árnason og Friðrik Már Baldursson hagfræðiprófessorar, sem og Lilja Mósesdóttir fyrrverandi Alþingismaður. Þá er Már Guðmundsson, núverandi seðlabankastjóri, í hópnum. (sjá hér) Þar er auk þess vakin athygli á að skipunartími Más Guðmundssonar rennur út 20. ágúst n.k.
Í fréttum ruv.is og vb.is vekur það athygli að ekkert er minnst á hagfræðimenntun Lilju en það er tekið fram að Friðrik Már Baldursson og Ragnar Árnason eru hagfræðiprófessorar. Í frétt mbl.is um þetta efni segir hins vegar: Meðal umsækjenda eru Lilja Mósesdóttir hagfræðingur og fyrrverandi þingmaður og Ragnar Árnason prófessor við hagfræðideild HÍ. (sjá hér)
Í fréttinni er ekkert getið um starfstitla karlanna en þvælt með starfstitla kvennanna til orðsins alþingiskona sem hlýtur að teljast til nýyrða ef orðanotkunin er ekki bara hreint og klárt klúður. Miðað við athugasemdirnar sem eru gerðar við þessa frétt er ekki útlit fyrir að þeir sem lesi visir.is hafi kynnt sér hugmyndir Lilju.
Við frétt Eyjunnar hefur skapast forvitnilegur þráður sem endurspeglar ekki aðeins afstöðu þeirra og viðhorf, sem leggja til innlegg við fréttina, heldur bera mörg innleggjanna vitni um það að þeir eru þó nokkrir sem vilja sjá Lilju Mósesdóttur í embætti seðlabankastjóra. Hér verða dregin fram tvö dæmi en það þriðja og efnismesta stendur undir lok þessara skrifa.
Í ljósi sögunnar, bæði fyrir og eftir hrunið haustið 2008, þá ætti öllum að vera ljóst að kominn er tími til að í stöðu bankastjóra Seðlabanka Íslands verði ráðinn heiðarlegur og hæfur einstaklingur sem gangi einungis erinda íslenskra almannahagsmuna, til sátta og til heiðarlegs uppgjörs eftir hrunið.
Í hópi umsækjenda má finna þann heiðarlega og hæfa einstakling og það er auðvitað Lilja Mósesdóttir. [...] Hún er rétta manneskjan í starfið og henni er fullkomlega treystandi til að ganga einungis erinda íslenskra almannahagsmuna. (sjá hér)
Það er fullt tilefni til að bæta við það sem þegar er komið af örkynningu á þeim fimm sem fréttamiðlarnir drógu helst fram í fréttaskrifum sínum í tilefni þess að nöfn umsækjenda um stöðu seðlabankastjóra voru birt. Fyrst má benda á að væntanlega muna einhverjir eftir Friðriki Má Baldurssyni fyrir það að hann er fyrsti kostaði prófessorinn við íslenskan háskóla þar sem heiti kostunaraðilans er tengt við prófessorsstöðu í fjármálum, fjármálahagfræði eða hagfræði. Þó slíkt hafi verið nýmæli hér á landi árið 2007 þá er það mjög algengt hjá háskólum í Bandaríkjunum og víðar samkvæmt þessari frétt hér.
Árið 2009 færði Friðrik Már sig hins vegar yfir til Háskólans í Reykjavík þar sem hann tók við stöðu forseta viðskiptadeildar frá 1. ágúst það sama ár (sjá hér). Í dag gegnir hann stöðu prófessors í hagfræði við sama skóla. Margir muna eflaust eftir honum frá því í Icesave-umræðunni þar sem hann varaði við ákveðnum efnahagsþrengingum ef ekki yrði gengið frá þessum samningum. (sjá hér) Hann hefur líka verið virkur í annarri efnahagsumræðu sem snerta almannahagsmuni þar sem hann hefur m.a. talað fyrir einkavæðingu raforkufyrirtækja (sjá hér).
Hann hefur líka varað við afleiðingum skuldaniðurfellingar núverandi ríkisstjórnar (sjá hér). Á ársfundi Samtaka atvinnulífsins, sem haldinn var í apríl síðastliðnum eins og frægt er orðið, gaf hann svo e.t.v. tóninn varðandi það hvert hann stefndi þar sem hann sagði: að gjaldmiðillinn yrði alltaf ákveðin hindrun. Það væri þó hægt að ná betri árangri með krónuna með bættri hagstjórn og aga. (sjá hér) Það vekur svo athygli að Friðrik á sæti í nefnd sem Bjarni Benediktsson hefur nýverið skipað en hún hefur það hlutverk að endurskoða lög um Seðlabanka Íslands (sjá hér).
Myndin hér að ofan sýnir þá sem eiga sæti í sérfræðinganefndinni sem Bjarni Benediktsson skipaði í maí síðastliðnum til þess hlutverks að taka lög um Seðlabankann til heildarendurskoðunar. Það hlýtur að vekja furðu að annar kollega Friðriks Más í þessari nefnd, Ólöf Nordal, á líka sæti í þeirri hæfnisnefnd sem á að meta það hvort ferill hans og annarra, sem sækjast eftir seðlabankastjórastöðunni, standist settar kröfur (sjá hér).
Á það skal minnt að Ólöf Nordal er ekki aðeins formaður þessarar nefndar heldur er hún líka formaður bankaráðs Seðlabankans. Eins og áður hefur komið fram þá situr annar umsækjandi um embætti seðlabankastjóra, Ragnar Árnason, með henni í bankaráðinu (sjá hér). Þetta hlýtur að vekja upp þá spurningu hvort Ólöf Nordal geti talist hæf í þá hæfnisnefnd sem er ætlað að meta umsækjendur; væntanlega á jafnréttisgrundvelli.
Ég geri ráð fyrir því að flestir þekki það vel til ferils Más Guðmundssonar að það sé óþarft að kynna hann ýtarlega. Hins vegar má minna á að áður en hann tók við embætti seðlabankastjóra, um mitt ár 2009 (sjá hér), hafði hann verið yfirmaður hjá Bank for International Settlements (BIS) og The European Money and Finance Forum (sjá hér).
Reyndar er ekki annað að sjá en að Már hafi haldið einhverjum þessara embætta til ársloka 2011 þrátt fyrir að hafa tekið við seðlabankastjórastöðunni tæpum þremur árum áður (sjá hér). Í því sambandi má minna á það að það var í byrjun árs 2012 sem hann fór í mál við Seðlabankann til að freista þess að fá ógildingu á því að laun hans skyldu lækkuð (sjá hér).
Að mati Más og a.m.k. Láru V. Júlíusdóttur, fyrrverandi formanns bankaráðs Seðlabankans, var það eðlilegt að bankinn borgaði málskostnaðinn (sjá hér). Ragnar Árnason sem sat með Láru í ráðinu, og er einn umsækjendanna nú um seðlabankastjórastöðuna nú, hefur haldið því fram að bankaráðið hafi aldrei fengið þær upplýsingar svo hann viti að formaðurinn ætlaði að láta bankann greiða málskostnað Más (sjá hér)
Þó það megi e.t.v. draga þá ályktun af ofangreindu að það sé í sjálfu sér einboðið að Lilja Mósesdóttir verði sú sem taki við af núverandi seðlabankastjóra má ekki gleyma því að Friðrik Már Baldursson virðist vera hátt skrifaður innan þess hóps sem er freistandi að kalla einu nafni fjármálavaldið en nafngiftin er í beinu samhengi við ítök eignastéttarinnar í öllu því sem lýtur að ásýnd samfélagsins.
Hugmyndir Ragnars Árnasonar virðast vera í þágu sama hóps en hann hefur það fram yfir Friðrik Má að hann tók þokkalega almenningsholla afstöðu í Icesave þó hann hafi ekki dirfst að beita sér gegn Icesave-samningunum með beinskeyttum hætti. Lilja Mósesdóttir var hins vegar í hópi þeirra þingmanna sem lögðust gegn því að Steingrímur J. Sigfússon undirritaði samninginn í sumarbyrjun 2009 (sjá hér).
Lilja tilheyrði þeim hópi sem Jóhanna Sigurðardóttir kallaði villikettina í VG. Miðað við mynd Halldórs hér að neðan er ekki útilokað að ætla að hann hafi grunað Lilju um þýðingarmikið hlutverk í þeim hópi.
Lilja Mósesdóttir er með doktorspróf í hagfræði frá Bretlandi og hefur starfað sem hagfræðingur og háskólakennari bæði hér á landi og erlendis. Áður en hún vakti athygli á jafnræðislegri viðbrögðum við efnahagshruninu en þeim, sem hefur verið fylgt hér á landi frá hruninu haustið 2008, þá hafði hún starfað sem lektor við Háskólann á Akureyri, dósent við Háskólann í Reykjavík, sem sérfræðingur við Háskólann í Luleaa í Svíþjóð, hagfræðingur hjá Háskólanum í Reykjavík og prófessor við Háskólann á Bifröst.
Meðal annarra starfa sem Lilja hefur gengt og hafa aukið henni reynslu og þekkingu er starf hagfræðings hjá ASÍ, ráðgjafa hjá Iðntæknistofnun, sérfræðings félagsmálaráðherra grænlensku heimastjórnarinnar og alþingismanns á Alþingi Íslendinga (sjá hér). Núverandi starf Lilju er samanburðarannsóknir á lífskjörum og velferðarstefnu í Noregi og á alþjóðavettvangi við eina stærstu félagsvísindastofnun Noregs.
Af því yfirliti sem hefur verið sett fram hér og því sem almenningi ætti að vera fullkunnugt um af þingstörfum Lilju Mósesdóttur verður ekki betur séð en hún sé langhæfasti umsækjandinn. Sigurður Hrafnkelsson dregur það helsta sem mælir með henni í embætti seðlabankastjóra, umfram aðra umsækjendur, fram á býsna einfaldan og skýran hátt í athugasemd við frétt Eyjunnar frá síðastliðnum þriðjudegi. Hann segir:
Lilja Mósesdóttir er eini umsækjandinn sem sagði strax árið 2008-9 að skuldastaða landsins stefndi í að verða algerlega ósjálfbær.
Það var hlegið þá, ekki síst í hennar eigin flokki, en þó vitum við öll í dag að þetta reyndist rétt hjá henni, skuldastaðan er algerlega ósjálfbær eins og hún sagði fyrir 5-6 árum síðan.
Lilja er líka eini umsækjandinn sem hefur lagt fram raunverulegar tillögur um hvernig eigi að taka á þessari skuldastöðu, gjaldmiðlinum og höftunum. [sjá hér] Hennar tillögur hafa hvergi verið hraktar með neinum rökstuðningi.
Hafi núverandi stjórnvöld einhvern alvöru áhuga á að ráðast í það að leysa þessi hafta-, gjaldmiðils- og skuldamál, þá er Lilja langbesti kosturinn í stöðu Seðlabankastjóra. ( sjá hér (leturbreytingar eru höfundar))
Bankar geta ekki án ríkisins verið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Með Lilju
1.7.2014 | 13:27
Í tilefni þess að það hefur verið gert opinbert að Lilja Mósesdóttir er á meðal umsækjanda um stöðu seðlabanakstjóra langar mig til að fagna umsókn hennar. Ástæðurnar eru margar en þó einkum sú að engum treysti ég betur til að fara með þetta mikilvæga embætti á þessum tímum sem íslenskt efnahagslíf sætir síendurteknum árásum.
Lilja hefur sýnt það ítrekað að hún býr ekki aðeins yfir víðtækri þekkingu á flóknum efnahagsmálum heldur hefur hún hvað eftir annað lagt fram tillögur um það hvernig megi bregðast við þeim vanda sem íslenska hagkerfið stendur frammi fyrir þannig að hagur almennings og innlendra atvinnufyrirtækja verði borgið. Tillögur sínar hefur hún kynnt með skýrum dæmum um það hvers vegna þær eru nauðsynlegar, hvernig þær skuli framkvæmdar og hvaða afleiðingar þær muni hafa á alla helstu þætti hagkerfisins.
Af því að Lilja er óvenju heiðarleg þá hefur það alltaf legið ljóst fyrir að tillögur hennar gera ráð fyrir að þeir sem skapa raunveruleg verðmæti með vinnuframlagi sínu fái meira í sinn hlut. Auk þess hefur hún lagt ríka áherslu á að velferðarkerfið verði varið þannig að kjör þeirra verst settu verði varin ásamt því sem mennta- og heilbrigðiskerfinu verði hlíft.
Hins vegar þurfa þeir sem veðjuðu á móti krónunni fyrir hrun að gefa umtalsvert eftir af kröfum sínum. Þeir sem hafa nýtt sér ójafnvægið í efnahagsstjórn undangegnina ára og tekið til sín stærra hlutfall af verðmætasköpuninni í landinu en þeim bar verða líka að gefa eftir til að jafnvægi náist í hagkerfinu hérlendis.
Lilja byrjaði að vinna að hugmyndum sínum um lausn á skulda- og efnahagsvanda þjóðarinnar þegar haustið 2008. Hún kom þrisvar fram á vegum Opinna borgarafunda og Radda fólksins í kjölfar efnahagshrunsins þar sem hún varaði við leiðum þáverandi ríkisstjórnar en lagði fram hugmyndir að öðrum sem hún taldi heillavænlegri til uppbyggingar íslensku efnahagslífi.
Í máli sínu lét hún koma fram að þær leiðir sem þáverandi ríkisstjórn hyggðist fara hefðu verið reyndar annars staðar þar sem þær hefðu ekki skilað tilætluðum árangri. Málflutningur hennar hlaut ekki aðeins góðar undirtektir á fundunum sem um ræðir heldur skiluðu henni fremst á framboðslista Vinstri grænna í suðvesturkjördæmi og inn á þing vorið 2009.
Lilja vakti aftur athygli þegar hún varaði við afleiðingum þess að Svavarssamningurinn svokallaði yrði samþykktur. Frá og með því að hún varaði þannig við fyrsta þætti Icesave fór að gæta vissrar togstreitu á milli fylgjenda síðustu ríkisstjórnar og þeirrar stefnu sem hafði laðað Lilju til fylgis við Vinstri græna fyrir alþingiskosningarnar 2009. Mörgum virtist það nefnilega skipta meiru að starfsheiður Svavars Gestssonar, fyrrverandi þingmanns og ráðherra, stæði óflekkaður en að þjóðinni yrði forðað frá þeirri óréttlátu skuldabyrði sem Lilja benti á að lægi í Icesave-samningnum.
Þegar fram í sótti urðu viðbörgðin við tillögum Lilju svo og því sem hún hafði við efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar að athuga mun fjandsamlegri. Endirinn varð sá að hún og Atli Gíslason sögðu sig úr þingflokki Vinstri grænna. Eins og einhverja rekur eflaust minni til höfðu allnokkrir hvatt Lilju til að segja sig úr flokknum og stofna sinn eigin flokk en þeir voru svo færri sem voru tilbúnir til að styðja hana til þess þegar hún lét verða af því að kalla eftir stuðningi til slíks í nóvember 2011.
Ég var ein þeirra sem fylgdist alltaf með verkum Lilju Mósesdóttur. Ég studdi hana og dáðist að henni úr fjarlægð. Það sem mér fannst sérstaklega aðdáunarvert í hennar fari og vinnubrögðum var sú virðing sem hún sýndi þeim, sem kunnu að hlýða á hana, með því að setja hugmyndir sínar og skoðanir alltaf fram á eins skýran og einfaldan hátt og flókin efnahagsmál heils hagkerfis bjóða upp á.
Í kringum þau tímamót sem stofnun Samstöðu voru gerð opinber var mér boðið að taka þátt í uppbyggingu flokksins. Ég þekktist það boð eftir nokkra umhugsun. Mestu réðu efnahagsstefna flokksins sem að sjálfsögðu var komin frá Lilju. Ég ætla ekki að rekja sögu Samstöðu nákvæmlega hér en þeir sem fylgdust með því sem var að gerast í pólitíkinni á þeim tíma muna sjálfsagt þann stranga mótbyr sem flokkurinn hafði í fangið frá vorinu 2012.
Þar sem ég var ein þeirra sem stóðu framarlega í því að freista þess að vekja athygli á málstað og stefnu Samstöðu á sama tíma og við vörðumst stöðugri áreitni þeirra, sem vildu helst jarðsyngja flokkinn, þá kynntist ég þolgæði og framgöngu Lilju nokkuð náið. Allan þann tíma, frá því að það sem ég tel eðlilegast að kalla beinar árásir hófust og þar til landsfundur Samstöðu tók þá ákvörðun að draga framboðið til baka, undraðist ég af hveru mikilli hófstillingu Lilja tók öllu því sem að höndum bar.
Reyndar dáðist ég af því hvað hún tók því öllu af mikilli skynsemi og eiginlega vandaðri fagmennsku. Hún lét aldrei slá sig út af laginu en velti hverju því sem kom upp á fyrir sér af vandlegri gaumgæfni og yfirvegun. Leitaði ráða hjá þeim sem hún treysti og tók ákvarðanir í samráði við aðra sem unnu að sömu einurð og hún að því að Samstaða yrði fyrst og fremst trúverðugt stjórnmálaafl sem yrði þess megnugt að fylgja efnahags- og velferðarstefnu flokksins eftir.
Þegar það var fullreynt að af því gæti ekki orðið tilkynnti hún að hún treysti sér ekki til að fara fram í alþingiskosningunum sem þá voru framundan. Það var svo lagt fyrir félaga flokksins hvert framhaldið ætti að verða á landsfundi sem hafði verið boðaður einhverjum mánuðum áður.
Frá því skömmu eftir síðustu alþingiskosningar hefur Lilja unnið að þjóðhagfræðirannsóknum í Noregi við góðan orðstí samstarfsfélaga sinna. Þar er menntun hennar, sérþekking og starfsferill talin mikilvæg viðbót við starfsemi stofnuninar sem sóttist einmitt eftir starfskröftum hennar fyrir þær sakir.
Reyndar hefur orðspor hennar greinilega spurst út víðar en til Noregs. Eftir að hún hvarf út af þingi síðastliðið vor hefur verið sóst eftir henni til að fjalla um stöðu efnahagsmála á Íslandi eftir hrun á fundum og ráðstefnum víða um Evrópu. Meðal annars á vettvangi háskóla og stjórnmála í álfunni.
Þó það megi segja að fyrrum flokkssystkini Lilju og ýmsir fylgjendur síðustu ríkisstjórnar hafi hrakið Lilju burt af þingi þá er ljóst af ýmsum athugasemdum, sem fylgjendur hennar á Fésbókinni hafa látið falla síðan, að þeir eru ýmsir sem sjá sárt á bak henni af vettvangi efnahagsumræðu á Íslandi. Það er því ljóst að þeir verða þó nokkrir sem fagna því með mér að sjá það nú að Lilja er tilbúin til að snúa til baka og taka ekki aðeins virkan þátt í umræðunni um slík mál heldur standa í eldlínunni við mótun hennar til varanlegrar frambúðar.
Miðað við menntun, starfsreynslu og sérfræðiþekkingu Lilju Mósesdóttur get ég ekki ímyndað mér annað en það verði ómögulegt fyrir þá, sem hafa með ráðninguna í seðlabankastjórastöðuna að gera, að horfa framhjá umsókn hennar. Ég el þá björtu von í brjósti að það sé útilokað og hún hljóti þar af leiðandi stöðuna. Ég er sannfærð um að það muni ekki aðeins birta til í efnahagsmálum landsins, ef hún yrði ráðinn næsti seðlabankastjóri Íslands, heldur hugum margra landsmanna líka!
10 sóttu um stöðu seðlabankastjóra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)