Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Sá sólguli er alls ekki að deyja út

Fíflafáninn kominn á 17. júní prikÉg sagði sögu fánans sem hefur verið kenndur við Byltingu fíflanna hér. Þar sagði ég frá uppruna fán- ans sem liggur í leikverki Kristjáns Ingimarssonar sem er líka höfundur fánans. Verkið, Bylting fíflanna, var sett upp á Akureyrarvöku hér fyrir norðan sumarið 2007.

Þar var sett á svið bylting sem hriðfíflinn leiddu. Tilgangur hennar var að velta firrtum og gráðugum stjórnvöldum úr sessi og skapa farveg fyrir nýja hugsun og hugmyndafræði. Hugmyndafræði sem setur mennskuna sem slær í takt við náttúruna í fyrsta sæti.

Tilefni þess að ég vildi vekja athygli á þessum fána með því að segja sögu hans var það að við Ásta Hafberg höfðum rætt um það að það vantaði samstöðutákn fyrir þá sem kæmust ekki á mótmæli. Áður en Ásta hringdi í mig hafði ég líka velt því fyrir mér að mótmælendur vantaði eitthvað sem þeir gætu sammælst um. Merki sem skapaði heild og samstöðu. 

Framhaldið var það að við höfðum samband við Fánasmiðjuna á Þórshöfn en framkvæmdastjóri hennar, Karen Rut Konráðsdóttir, tók mjög vel í hugmyndir okkar. Án hennar hefði hún heldur aldrei orðið að veruleika. Hún lagði á sig þó nokkra vinnu við að ganga frá myndinni af fíflunum þannig að þeir nytu sín á mismunandi stærðum af fánum og líka við að finna réttan bakgrunnslit. Undir lok september var fáninn svo tilbúinn til prentunar.

Við Ásta stofnuðum hóp sem við kenndum við viðspyrnu inni á Facebook til að vekja athygli á þessum nýja fána og ég sagði frá honum hér á blogginu mínu. Eggin og Svipan voru einu fjölmiðlarnir sem sýndu framtakinu einhvern áhuga og birtu sögu fánans. Kynningarnar inni á Fésinu og þær sem ég setti inn á bloggið mitt fengu viðbrögð. Eins og gengur voru þær misjafnar en þegar á heildina er litið voru þær ákaflega bjartar eins og reyndar fáninn sjálfur.

Ég ætla að birta nokkrar þeirra hér:

  • Fagurt eins og fífill í túni á góðum vordegi. (Lind Völundardóttir)
  • Vekur svo sannarlega upp sterka tilfinningu fyrir að láta ekki bugast þó það sé hreinlega búið að malbika yfir okkur!  [...] þessi fáni á eftir að setja lit á erfiðan vetur ... (Katrín Snæhólm)
  • Frábær hugmynd, dreifum þessu eins og blómið gerir sjálft, með myndun biðukollu. Vindur og andi saman til starfa. (Helga Kristjánsdóttir)
  • Ég heillaðist af lestrinum um sögu fánans. Hugsjónin er svo falleg og svo mikilvæg fyrir andlegt jafnvægi þess mikla fjölda fólks sem upplifir sig utan sjóndeildarhrings stjórnmálamanna og annarra ráðamanna. Það væri yndislegt ef hið mikla afl, sem býr í hugum allra þeirra sem upplifa sig sniðgengna, gæti fundið sameiginlega framrás undir slíku merki. Slíkt orkuflóð yrði ekki sniðgengið, takist að láta það fljóta fram af kærleika og mannvirðingu. (Guðbjörn Jónsson)

Miðað við þessar undirtektir leyfðum við Ásta okkur að vera bjartsýnar. Ég fékk reyndar líka nokkur bréf frá einstaklingum sem sögðust vera búnir að panta sér fána og við vorum einhver sem hengdum okkar upp. Minn hefur t.d. hangið úti á svölunum hjá mér síðan ég fékk hann. Hann hefur líka verið áberandi á a.m.k. tveimur bílum frá því sl. haust og svo hefur hann sést nokkrum sinnum á Austurvelli og jafnvel á Bessastöðum.
Rautt neyðarkall á AusturvelliÞessa mynd tók Jóhann Ágúst Hansen fyrir Svipuna daginn sem atkvæðagreiðsl- an um nýju lögin um ríkisábyrgðina varðandi Icesave fór fram.
Á Bessastöðum á gamlársdagÞessi mynd birtist á vef mbl.is í tengslum við mótmælastöðuna fyrir framan Bessastaði sl. gamlársdag.

Margir þeirra sem þegar hafa kynnst fánanum hafa kvartað yfir því að þeim finnist fáninn óþarflega stór. Þeir hafa sagt að þeir eigi ekki fánastangir eða svalir til að koma honum fyrir á. Þeir hafa hins vegar bent á að þeir myndu gjarnan vilja taka fánann með sér niður á Austurvöll eða koma honum fyrir í vasa úti í glugga og gera hann þannig sýnilegan.

Fyrir þessi orð létum við Dalli verða af því að hafa samband við Fánasmiðjuna og panta nokkra fíflafána á 17. júní priki. Við mættum svo með þá niður á Austurvöll um síðustu helgi til að kanna jarðveginn. Jarðvegurinn var svo sannarlega frjór því þó þar væru ekki margir mættir þá ruku fánarnir út og sólgulir fíflar á appelsínu- gulum bakgrunni blómstruðu í höndum fundargesta.
Fíflafáninn blómstrar á AusturvelliÞessa mynd tók Andres Zoran Ivanovic niður á Austurvelli sl. laugardag. Hann á líka fyrstu myndina sem fylgir þessari færslu.

Eðlilega spyrja margir fyrir hvað stendur þessi fáni? Við því er ekkert eitt einfalt svar. Í raun er best að fáninn fái að tala fyrir sig sjálfur. En til að gefa einhverja vísbendingu um merkinguna sem við Ásta tengdum við hann ákváðum við að kalla hann fána samstöðu og vonar. Einhverjir hafa kallað hann fána fólksins. En sennilega verður það fíflafáninn sem verður ofan á eða það nafn sem festist á hann strax í upphafi. Þ.e. sumarið 2007, þegar hirðfíflin í leiksýningu Kristjáns Ingimarssonar drógu hann að húni eftir að hafa velt spilltum stjórnvöldum úr sessi.

Ég ætla að reyna að útskýra boðskap fánans svolítið betur út frá orðum Kristjáns sjálfs. Fyrir það fyrsta var það engin tilviljun að höfundur hans valdi honum mynd íslenska túnfífilsins. Höfundurinn segir m.a. þetta um valið: Þetta er það blóm sem allir Íslendingar hafa tengingu við... að mínu mati fallegasta blómið í íslenskri náttúru. [...] Kemur alltaf aftur, sama hvort hann er reittur upp eða malbikað yfir hann. Áreynslulaust kemur hann aftur, brýst upp úr malbikinu. Ekki til að mótmæla neinu. Honum er nokkuð sama um malbikið. Hann kemur bara til að segja: „Ég er á lífi. Ég er hér“ og verð það áfram hvort sem þér líkar það betur eða verr.

Það var ekki aðeins lífsviljinn og seiglan sem þetta blóm stendur fyrir sem réði úrslitum varðandi það að einmitt fífillinn varð að tákni byltingarinnar sem Kristján setti á svið. Það var ekki síður bjartsýnislegur, sólgulur litur fífilsins og svo tvíræðnin í heiti hans. Hirðfífl og fífill beygjast nefnilega eins í þgf. et. og þgf. og ef. ft. Orðin renna þannig saman og þess vegna verður hreinlega bara túlkun hvers og eins að ráða úr um það hvort það er verið að tala um fífl eða fífla. Sumir hafa hafnað fánanum einmitt fyrir þessa tvíræðni en aðrir kunna að meta húmorinn sem Kristjáni var svo umhugað um að tengja fánanum m.a. með þessum orðaleik.

Mig langar til að draga það fram hér líka að Kristján var mjög sáttur við þá hugmynd okkar Ástu að gera þennan fána að sameiningartákni þeirra sem vildu andmæla firrtri græðginni og þeirri stöðu sem hún hefur komið þjóðinni í. Hann hreifst af því að við vildum gera þetta að tákni fyrir samstöðu þeirra sem vilja raunverulegar breytingar sem grundvallast á breyttu hugarfari. Hugarfari sem setur ekki græðgismiðaða einkahagsmuni stundarinnar sem er að líða í fyrsta sæti.
Kristján Ingimarsson
Um það leyti sem ný uppskera fíflafánans lét á sér kræla hér heima var  Kristján Ingimarsson á leikferðalagi um Danmörku með verkið sitt Creature. Boðskapurinn sem fáninn stendur fyrir er vissulega alþjóðlegur eins og verk hans, Creature, reyndar líka. Kannski átti það sinn þátt í því að á sama tíma og fáninn fór að dreifa sér hér á landi sl. haust þá bætti höfundurinn og leikarinn honum inn í lokaatriði umræddrar sýningar.

Myndin hér til hliðar sýnir Kristján Ingimarson í lokaatriði Creature í Nyköping frá 6. október sl. (Ef þið eruð að velta því fyrir ykkur hvað er um að vera á myndinni þá má upplýsa það hér að í lokaatriðinu lyfa áhorfendur leikaranum upp á hurð sem þeir bera svo um salinn.)

Í tilefni að því hversu dreifing fánans tókst vel um síðustu helgi má ég til að enda á orðum Kristjáns sem hann lét hafa eftir sér þegar ég hafði samband við hann sl. haust: Fyrir rúmum tveimur árum sáði ég fræi sem virðist ekki geta hætt að spíra. Nú viðrist þriðja uppskeran vera að koma fram. Hann virðist getað sáð sér sjálfur þessi fáni. Ef fífillinn getur orðið tákn þess að við stöndum saman sem hópur þá er rétta takmarkinu náð.

Tilefni þess að Kristján talar um þriðju uppskeruna er það að þessi fáni var tákn mótmælanna hér á Akureyri á meðan á þeim stóð. Grasrótin sem stóð fyrir þeim og annarri viðspyrnu sem varð til í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 nefndi sig líka eftir leiksýningunni sem fáninn var skapaður fyrir; Byltingu fílfanna.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband