Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008
Handverkshátíðin á Hrafnagili
12.8.2008 | 17:30

Mér fannst líka áberandi hvað margir básanna voru fallegir en ekki síður hvað það sem var þarna til sýnis og sölu var vandað og eigulegt. Verkin hennar Tinnu sómdu sér vel innan um verk hinna þannig að það er ekki að ástæðulausu sem ég er stolt af henni.
Það er svona ár síðan að Tinna byrjaði að mála fyrir alvöru. Í byrjun gaf hún vinum og vandamönnum flestar myndanna sem tækifærisgjafir. Í upphafi þessa árs setti hún myndir af sumum verkanna sinna inn á síðuna etsy.com Hún fékk strax mjög jákvæðar undirtektir þar og núna eru 205 sem hafa sett hana og/eða einhver verka hennar í uppáhaldið sitt.
Framkvæmdastjóri garðræktarstöðvarinnar Takao Nursery rakst á myndirnar hennar þar og hafði samband við hana og bað hana að mála mynd fyrir listann þeirra. Listinn þeirra heitir Art Imitates Nature og kemur út einu sinni á ári. Þar eru ungir listamenn víðs vegar að úr heiminum fengnir til að mála eftir blómum sem þau selja. Þú getur skoðað listann hér en myndin sem Tinna málaði fyrir listann er í opnu 5 (eða síðu 9-10)
Um páskana datt henni svo í hug að flytja inn peysur og mála á þær. Hún fékk tvær vinkonur sínar í lið með sér til að hrinda hugmyndinni í framkvæmd. Þær stofnuðu síðu á MySpace þar sem þessi föt ásamt fleiru er til sölu. Peysurnar sem hún málaði á seldust nær strax upp en það eru nokkrar eftir enn.

Það voru margir sem komu í básinn hennar Tinnu og létu jákvæð orð falla um það sem hún er að gera. Flestir þeirra tóku nafnspjaldið hennar en það fóru rúmlega 400 slík. Það verður gaman að sjá hvort að það skilar sér í einhverju meiru
Margir þeirra sem komu í básinn hennar Tinnu höfðu orð á því hvað það sem hún er að gera er mikið öðru vísi og kannski er það þess vegna sem hún seldi ekki meira en raun bar vitni. Það er eins og margir þurfi ákveðinn tíma til að meðtaka það sem er nýtt og eða framandi.
Tinna er sjálf búin að blogga um sýninguna þar sem hún segist vera ánægð eftir þessa helgi en þreytt

Ég hef kynnst því áður að það getur verið erfitt fyrir fólk með góðar hugmyndir að koma þeim á framfæri. Ég kannast líka við það að þeir sem eru að skapa eitthvað spennandi þykir það frekar vandræðalegt og jafnvel leiðinlegt að koma sjálfum sér á framfæri. Þetta er tilefni þess að ég skrifa þessar línur og velti því fyrir mér um leið hvort og hvernig megi skapa vettvang fyrir ungt hæfileikafólk eins og Tinnu til að koma þeim sjálfum og því sem það er að skapa á framfæri.
Handverkshátíðin á Hrafnagili er svo sannarlega frábær vettvangur en þarf ekki eitthvað meira?
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)