Ekki alveg óttalausar:-/
17.7.2008 | 00:16
Ég kynntist Ósk fyrir einhverjum áratugum síðan og í dag erum við frekar sérstakar vinkonur. Þegar við erum saman gerum við oftast það sem venjulegir vinir gera saman eins og fara t.d. í ferðalög saman. Hér er mynd sem var tekin af okkur í Flókalundi sl. sumar.
En stundum högum við okkur ekki alveg eins og aðrir. Það er kannski vegna þess að við erum álíka bilaðar báðar Það hefur t.d. sannað sig að við erum báðar alveg ótrúlega huglausar eða m.ö.o. þá er ekki mikið mál að hræða okkur þannig að við verðum alveg glórulausar af hræðslu.
Ég vissi ekki að ég væri svona mikil skræfa og er reyndar ekki alveg tilbúin til að viðurkenna að ég sé það, þrátt fyrir allt. En með Ósk er ég allt annað en óttalaus. Sennilega er það bara hún sem kallar gunguna fram í mér
Ósk útskrifaðist sem ljósmóðir vorið 2005. Ég var ekki í útskriftarveislunni hennar en vildi endilega halda upp á það með henni á einhvern eftirminnilegan hátt. Við skipulögðum smáferðalag austur fyrir fjall (miðað við Reykjavík með nokkrum athyglisverðum viðkomustöðum sem við völdum saman. Viðkomustaðirnir voru að sjálfsögðu valdir með tilliti til þess að þessi dagur yrði sem ánægjulegastur fyrir Ósk...
Einn af þeim viðkomustöðum sem Ósk langaði afskaplega mikið að skoða var Draugasetrið á Stokkseyri. Ég samþykkti hann gjörsamlega grunlaus út í hvað við vorum að fara Þessi ferð varð ein sú eftirminnilegasta sem ég hef farið í. Ég tel mig reyndar mjög heppna að hafa fengið tækifæri til að minnast einhvers eftir að við fórum inn í þetta draugabæli!
Þetta byrjaði allt með svona yfirdrifinni þolinmæði af minni hálfu yfir áhuga Óskar á þessum stað. Ég ætlaði mér sko aldeilis að vera töffarinn í þessu dúói sem hræðist ekki neitt Ég reiknaði engan vegin með því að þessi yfirgengilega skelfing sem náði strax tökum á Ósk myndi hreyfa við mér...
Ég byrjaði á því að lenda í einhverjum átökum við tæknina. Það var hreinlega eins og einhver draugur hefði hlaupið í vasaleiðsögumanninn sem ég fékk úthlutað í afgreiðslunni. Ég var þess vegna uppteknari af því að koma honum í lag en horfa í kringum mig. Ósk fór á undan en var alveg að fara yfir um af ótta við það að hún mætti draugum
Þegar ég elti hana inn í annað - eða þriðja rýmið, baukandi við að koma vasaleiðsögumanninum til að virka rétt, þá rekur Ósk upp svona skerandi vein... Ég leit upp staðráðin í því að horfa óttalaus á það sem hafði hrætt hana og reyna svo að lækna hana af þessar hræðslugirni... en þegar ég kom auga á það sem hafði hrætt hana gargaði ég eins og glórulaus hálfviti
Það fór ekki á milli mála að viðbrögð af þessu tagi virka einkar vel á draugana þarna. Við lentum í þvílíkri ásókn enda görguðum við og góluðum, grenjuðum og báðumst vægðar. Auðvitað flissuðum við líka yfir því hvað við værum vitlausar en DRAUGARNIR VORU ÓTRÚLEGA RAUNVERULEGIR!!
Það er alltof langt mál að rekja allar hremmingarnar sem við lentum í á þessum rökkvaða, villugjarna stað. En í lok þessa ógnvænlega ferðalags beið okkar enn einn ásóknin þannig að við stukkum undan henni gólandi og í faðmlögum fram í afgreiðsluna. Við þóttumst eiga fótum okkar fjörið að launa en mættum engum skilningi í þeim augnaráðum sem við mættum þangað komnar enda vissi þetta fólk ekkert um það hvað við vorum búnar að ganga í gegnum
Ég trúi ekki öðru en að draugunum hafi þótt við ákaflega skemmtileg fórnarlömb en ég veit ekki hvað gæti orðið til þess að ég skemmti þeim aftur með nærveru minni Hins vegar mæli ég með því að allir aðrir skoði þessa sýningu
Sennilega ættum við Ósk alls ekki að fara saman á svona skelfilegar sýningar en... þegar ég var í heimsókn hjá henni núna í byrjun júlí. Ákváðum við að skreppa enn einu sinni yfir Hellisheiðina og kíkja við á Selfossi. Svo var Ósk voðalega áhugasöm gagnvart álfa- og tröllasetrinu sem er nýbúið að opna á Stokkseyri.
Það hljómar kannski ótrúlega en ég var alveg búin að gleyma meðferðinni sem við fengum á Draugasetrinu Álfar eru heldur ekkert skelfilegir og hvað getur svo sem verið skelfilegt við tröll... Við fórum sem sagt en fengum eitthvert veður af því í afgreiðslunni að einhver lítilsháttar skelfing gæti beðið okkar í lokin.
Þetta byrjaði líka allt voðalega vel hjá okkur nema Ósk var eitthvað kvíðin yfir framhaldinu og... tja, það er kannski best að ég segi ekkert of mikið vegna þeirra sem eiga eftir að fara og skoða þetta en ég hef sannast sagna aldrei verið styttri tíma inni á neinni sýningu Ástæðan er ekki sú að sýningin hafi ekki verið áhugaverð en tröllin eru skelfilegri en ég hafði ímyndað mér
Eftir þessa ferð er ég hreinleg ekki viss um hvort mér þykja draugar eða tröll ógnvænlegri fyrirbæri. Ég velti því reyndar líka fyrir mér hvort við Ósk ættum ekki að láta það vera að fara saman á svona sýningar en eins og ég sagði í byrjun þá erum við svolítið sérstakar Það er þess vegna alveg spurning hvort við lærum það sem liggur í augum uppi af þessum uppákomum
Flokkur: Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 00:19 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.