Ræða flutt á útifundi Orkunnar okkar

Við vorum fjögur sem fluttum erindi á útifundi Orkunnar okkar sem haldinn var í góða veðrinu á Austurvelli laugardaginn 1. júní.

2019-06-02_0013

Hér að ofan eru framsögumennirnir allir saman á einni mynd en hér að neðan er ræðan sem ég flutti.

><>  ><>   ><>   ><>

Meðvituðu áheyrendur

Ég fagna því að þið skulið gefa ykkur tíma frá nýhöfnu sumri til að koma hingað á Austurvöll til að standa með sjálfstæðri framtíð lands og þjóðar, ósnortinni náttúru landsins og áskorun Orkunnar okkar til þingmanna um að hafna orkupökkum sem ógna framantöldu.

Ástæðurnar fyrir því að ég er á móti orkupakkanum sem bíður afgreiðslu á Alþingir eru þær að:

  • Ég vil ekki hærri rafmagnsreikning
  • Ég vil að orkukerfið verði áfram í sameign þjóðarinnar
  • Ég vil að íslenska þjóðin ráði sinni orku sjálf
  • Ég vil að vel sé farið með orkuauðlindir landsins

Þó öðru sé haldið fram þá vitum við sem hér stöndum að innleiðing 3. orkupakkans mun fyrr eða síðar leiða til hærra raforkuverðs. Við vitum það af reynslunni af innleiðingu fyrri orkupakka og svo skiljum við alveg hvað felst í orðunum „neytendavernd“. Við skiljum það vegna þess að við höfum reynsluna frá öðrum þjónustuþáttum sem hafa verið einkavæddir undir sambærilegum formerkjum.

Við vitum að með meiri yfirbyggingu, fleiri milliliðum og kostnaðarsömum framkvæmdum í orkugeiranum, eins og til dæmis með lagningu sæstrengs, verður til meiri kostnaður. Við vitum að þessum kostnaði verður velt yfir á okkur neytendur.

Stjórnmálamennirnir sem þvinguðu orkupakka 2 í gegn þóttust koma af fjöllum þegar raforkuverðið hækkaði í kjölfar innleiðingarinnar en þeir tóku enga ábyrgð (sjá frétt á visir.is frá 2005), heldur skýldu sér á bak við nýinnleiddar reglugerðir Evrópusambandsins.

Það er orðin viðtekin venja að sjórnvöld og opinberar stofnanir skáki í skjóli reglugerða sambandsins sem hafa verið innleiddar án okkar vitundar. Þannig hefur Alþingi orðið að stimpilstofnun fyrir ESB-reglugerðir sem engin ástæða þykir að kynna fyrir kjósendum hvað þá að okkur sé gefinn kostur á að hafa skoðanir á þeim.

Þannig hefði líka farið með orkupakka 3 hefði ekki verið fyrir samtökin Orkan okkar og svo þingflokkana sem hafa tekið afstöðu gegn orkupakkanum. Þar munar mestu um þingmenn Miðflokksins sem hafa nýtt nótt sem dag til að setja sig inn í afleiðingarnar af innleiðingunni.

Margir hafa notið góðs af og þó nokkrir hafa haft á orði að umræða þingmannanna hafi verið svo upplýsandi að það hafi bætt upp kynningarleysi málsins fram að því - sem hefð er orðin fyrir að kalla málþóf.

Það dapurlega er að í stað þess að fjölmiðlar hafi gert sér mat úr því sem umræðan hefur dregið fram í dagsljósið síðustu þrjár vikur hafa þeir, sem hafa stundum verið nefndir fjórða valdið, nær eingöngu rætt við forseta Alþingis og aðra fylgjendur pakkans sem hafa gjarnan nýtt tækifærið til að hæða og gera lítið úr andófinu og þeim sem eru á móti innleiðingu orkupakkans.

Við höfum verið kölluð „einangrunarsinnar", „sviðsljóssfíklar“ og „hetjur lyklaborðsins“. Það hefur farið minna fyrir haldbærum rökum sem mæla með innleiðingu pakkans enda ljóst að uppnefni, af því tagi sem ég hafði eftir hér á undan, eru upphrópanir rökþrota málsvara.

Flest bendir til þess að glíman sem við háum sé fyrst og fremst við það vald sem ég vil nefna peningavaldið og mætti þess vegna kalla fimmta valdið. Við vitum það að það voru þessi sömu öfl sem ollu efnahagshruninu. Forsendunrnar voru einkavæðing bankanna og ákvæði í EES-samningnum um frjálst flæði fjármagns.

Í kjölfarið kölluðu mörg okkar, sem risum upp þá, eftir uppgjöri. Meðal annars innan stjórnmálaflokkanna vegna þess að við þóttumst sjá og skynja að peningavaldið réði meiru um gjörðir stjórnmálaflokkanna en góðu hófi gegndi og ylli þar með umtalsverðum lýðræðishalla.

Nú erum við hér aftur, rúmum tíu árum eftir hrun, og horfum upp á að sú gjá sem við upplifðum að hefði skapast á milli þings og þjóðar í aðdraganda og eftirmálum hrunsins er í meginatriðum orðin að hyldýpi.

Í stað þess að stjórnmálamennirnir lærðu af hruninu og byggðu brýr yfir til kjósenda er ekki að sjá annað en þeir hafi byggt skjaldborgir í kringum sjálfa sig og peningavaldið sem stjórnast af svo botnlausri gróðahyggju að nú eru fulltrúar þess tilbúnir til að fórna sjálfstæði íslensku þjóðarinnar fyrir markaðsvæðingu orkunnar.

Orkuútrásin væri eflaust hafin ef það væri ekki fyrir viðspyrnu okkar og eina stjórnmálaflokksins inni á þingi sem setti vilja meirihluta þjóðarinnar á oddinn og gaf sig á vald upplýsandi umræðum um orkupakkana undir harðræði forseta Alþingis.

Þeir þingflokkar sem vilja samþykkja orkupakkann hafa ekkert haft fyrir því að kynna þessar breyttu áherslur sínar í orkumálum, hvorki fyrir kjósendum né almennum flokksmönnum, heldur fela þeim að setja saman yfirlýsingar um stefnur eins og í orkumálunum.

Tveir ríkisstjórnarflokkanna þverbrjóta nú slíkar samþykktir. Sá þriðji gengur ekki aðeins gegn kosningaloforðum og stefnuskrá heldur einnig heiti stjórnmálaflokksins. Allir þrír skáka í því skálkaskjóli að Alþingi sé ekkert annað en stimpilstofnun Evrópusambandsins.

Ég spyr á móti: Er Ísland þá ekki lengur lýðræðisríki?

Ég minni á að: Íslenska þjóðin hefur sýnt það áður að henni er vel treystandi til að taka réttar ákvarðanir í erfiðum málum. Það valdaframsal sem orkupakkarnir fela í sér þjónar hvorki landi okkar né þjóð og þess vegna segjum við óhikað, NEI. Lágmarkskrafan er sú að málinu verði frestað til næsta hausts!

Það er mín skoðun, og ég veit að ég deili henni með fleirum, að orkupakkamálið sé vel til þess fallið að þjóðin sé spurð í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mig langar svo til að bæta því við að ég skil hvorki forsjárhyggju Evrópusambandsins né þá sem finnst það nútímalegt og framsækið að fórna bæði sjálfstæði þjóðarinnar og íslenska lýðræðinu fyrir miðaldarlegt lénsskipulag Evrópusambandsins í orkumálum.

Ég sé ekki vænleika framtíðarinnar í amtmönnum, lénsherrum né landsreglurum sem þjóna peningavaldinu en ógna lífskjörum og velferð almennings. Ég sé hins vegar framtíð í því að við skipum okkur sérstöðu og ráðum okkar orku sjálf. Til þess þurfum við að koma í veg fyrir útrás peningavaldsins með orkuauðlindirnar.

Það er algerlega óvíst hvað „ frestun málsins um óákveðinn tíma“ er langur tími en við skulum nýta hann vel. Fræðumst og fræðum. Spyrjum og svörum. En umfram allt verum gagnrýnin og látum ekki fjórða eða fimmta valdið brjóta okkur niður.

Síðast en ekki síst skulum við halda áfram að trúa á landið okkar og okkur sjálf og gera ósjálfstæðum stjórnmálaflokkum það skiljanlegt að þeirra tími er liðinn ef fulltrúar þeirra hlusta ekki á vilja meirihluta þjóðarinnar og forða okkur frá lénsveldismiðaðri stjórn peningavaldsins í hérlendum orkumálum.

Höldum áfram að standa þétt saman í viðspyrnunni gegn orkupökkum.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband