Almannahagur að styðja Lilju

Þeir sem styðja Lilju Mósesdóttur voru það mikil vonbrigði að hæfisnefnd efnahags- og fjármálaráðherra skyldi ekki meta hana a.m.k. jafnhæfa og þá þrjá sem að hennar mati eru hæfastir. Þetta eru þeir: Friðrik Már Baldursson, Már Guðmundsson og Ragnar Árnason.

Það er reyndar mat flestra stuðningsmanna hennar að hún sé langhæfust fyrir það „að á meðan hún var á þingi barðist hún fyrir hagsmunum almennings í Icesave-málinu og gegn kreppudýpkandi efnahagsáætlun AGS [...] ásamt því að setja fram „skapandi lausnir“ á snjóhengjuvandanum.“ (sjá hér). Þeir þrír sem hæfisnefndin mat hæfari henni hafa hins vegar sýnt það með verkum sínum að þeir meta hag fjármagnseigenda og banka ofar almannahag. 

Nokkur þeirra atriða sem rökstyðja þetta voru dregin fram í öðru bloggi á þessum vettvangi. Færslan fékk heitið: „Val á nýjum seðlabankastjóra ætti að vera auðvelt. Meginniðurstaðan þar er sú að hagfræðingarnir þrír sem hæfisnefndin mat hæfasta til seðlabankastjóraembættisins gegna hagsmunum fjármagnseigenda umfram almannahagsmuni. Aðalatriði þess sem ekki hefur verið talið í fjölmiðlum, sem hafa fjallað um nýútkomið mat hæfisnefndarinnar, er dregið saman á þessari mynd:

Kostir og gallar sex umsækjenda

Hér er rétt að minna á að eitt af meginbaráttuefnum þeirrar byltingar sem spratt upp úr bankahruninu 2008 var uppgjör við hrunið, aukinn jöfnuður og tryggari lífskjör, þar sem aðgangur að menntun fyrir alla og ódýrri heilbrigðisþjónustu, yrði áfram tryggður. Fyrir þessu barðist Lilja allan þann tíma sem hún sat inni á þingi.

Svo trú var hún áherslum sínum í velferðar- og efnahagsmálum að vorið 2011 sagði hún sig frá þingflokki Vinstri grænna og þar með úr beinum tengslum við þáverandi ríkisstjórn. Reyndar voru þau tvö sem yfirgáfu þingflokk VG á sama tíma. Skömmu síðar fór sá þriðji, hann sagði sig úr flokknum og gekk í annan stjórnarandstöðuflokk, fjórða þingmanninum var vikið úr ráðherraembætti á lokadögum ársins 2011 en sá fimmti lét sig hverfa út af þingi í upphafi ársins 2013. 

Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir héldu blaðamannafund í tilefni þess að þau treystu sér ekki til að vinna lengur með þingflokki Vinstri grænna í ríkisstjórn sem að þeirra mati fór gegn boðaðri stefnu í efnahags-, velferðar- og öðrum lífskjaramálum. Um efnahagsstefnuna segir þetta í yfirlýsingu þeirra, Atla og Lilju, sem er gefin út 21. mars 2011:

Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar byggir á áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í ríkisfjármálum fyrir árin 2009-2013 sem gerð var í tíð fyrri ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gegn eindreginni andstöðu þingflokks VG. Forysta núverandi ríkisstjórnar fylgir gagnrýnislaust þessari stefnu sem miðar að því að verja fjármagnskerfið og fjármagnseigendur á kostnað almennings og velferðarkerfisins. Undir handleiðslu AGS hefur alltof stórt bankakerfi verið endurreist og haldið hefur verið fast í áætlun AGS í ríkisfjármálum í stað þess að standa vörð um velferðarþjónustuna. (sjá hér (leturbreytingar eru höfundar))

Miðað við þær stefnuáherslur, sem stjórnarflokkar síðustu ríkisstjórnar lögðu fyrir kjósendur í aðdraganda alþingiskosninganna vorið 2009, væri ekki óeðlilegt að ætla að þeir hefðu fagnað þeim trúnaði sem Atli og Lilja vildu sýna fylgismönnum vinstri flokkanna. Sú varð hins vegar ekki raunin.

Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason á blaðamannafundi 21. mars 2011

Haustið eftir úrsögnina úr þingflokki Vinstri grænna var þeim refsað með útilokun úr nefndum. Í framhaldinu snerust margir kjósenda Vinstri grænna á þá sveif að meiru skipti að halda Vinstri grænum á lífi en halda trúnaðinn við kosningaloforðin og stefnuna. Stuðningsmenn Samfylkingarinnar kunnu þeim, Atla og Lilju, ekkert nema kaldar kveðjur fyrir uppátækið sem dró vissulega enn frekar úr ört þverrandi stuðningi við ríkisstjórn þessara tveggja flokka.

Þegar Lilja Mósesdóttir kom fram haustið 2008, þar sem hún talaði á þremur opnum fundum þeirra sem risu upp til byltingar við þá hagstjórn og aðra þá stjórnsýsluhætti sem leiddu til hrunsins, þá var henni fagnað fyrir nýjar hugmyndir, hagfræðiþekkingu og færni til að setja fram flókið samspil ýmissa efnahagsþátta á aðgengilegan og skiljanlegan hátt.

Hún var hvött til framboðs til Alþingi þar sem meðbræður hennar og -systur þyrftu á henni að halda til aðgerða gagnvart afleiðingum hrunsins. Hún hafði alls ekki hugsað sér neitt slíkt þegar hún reis upp til að benda á leiðir sem myndu reynast heillavænlegri viðbrögð, samtímanum og framtíðinni, gagnvart hruninu en þær sem Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin boðuðu í kjölfar þess. Hún kom fram sem fræðimaður og þó hún talaði á tungumáli þeirra sem stóðu utan fræðanna til að þeir skildu þá var það ekki til að vinna kjörfylgi til framdráttar inn á þing.

Eins og margir þeirra, sem hafa boðið sig fram til þings, lét hún þó sannfærast um að Alþingi væri vettvangur þar sem mætti bjóða til samvinnu um skynsamlegar leiðir til lausnar þeim vanda sem samfélagið stóð frammi fyrir á þessum tíma og stendur reyndar enn. Á Alþingi fer hins vegar fram pólitískt þrátefli tveggja afla; þeirra sem hafa lengst af haft völdin í landinu og hinna sem dreymir um að ná völdunum af þeim.

Í slíkum flokkspólitískum hildarleik, þar sem mestu máli skiptir að fórna öllu fyrir tímabundinn ávinning síns flokks, reyndist ekki rými fyrir sérfræðimenntaðan kreppuhagfræðing sem tók trúnaðinn við réttlætishugsjónir sínar og heiðarleikann gagnvart kjósendum og samstarfsfólki sínu fram yfir allt annað. Hugmyndir hennar hlutu ekki hljómgrunn meðal þeirrar “norrænu velferðarstjórnar“, sem stofnað hafði verið til, en hún tók þær saman í þingsályktunartillögu sem hún lagði fram á Alþingi 11. febrúar 2013. Tillagan var aldrei tekin til frekari meðferðar (sjá hér).

Nú hafa hins vegar ýmsir sem vilja telja sig gildandi í efnahagsumræðu bæði á bloggum og í athugasemdakerfum samfélagsmiðlanna tekið að tala fyrir ýmsum hugmynda hennar eins og skiptigengileiðinni (nýkrónu). Ástæðan er e.t.v. sú að það er nefnilega ekkert bjart framundan þó umræðan um slæma fjárhagsstöðu ýmissa sveitarfélaga, skuldug heimili og raðirnar fyrir framan Fjölskylduhjálpina hafi dáið út. Sumir halda því m.a.s. fram að framundan sé annað hrun verði sömu forgangsröðun viðhaldið í efnahagsstjórn landins.

Lilja Mósesdóttir í Klinkinu 11. júní 2012

Lilja Mósesdóttir er ein þeirra sem hefur haldið því fram frá upphafi að sú leið sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti stjórnvöldum hér, haustið 2008, muni leiða til enn frekari hörmunga. Sú handstýrða flotgengisstefna sem hefur viðgengis hér frá því í mars 2001 ásamt þeirri forgangsröðun að hlífa fjármálastofnunum og fjármagnseigendum á kostnað alls annars hefur stuðlað að gífurlegri verðmætatilfærslu í samfélaginu. 

Nýkrónuhugmynd Lilju Mósesdóttur tekur á þessari mismunum sem eykst smátt og smátt fyrir það að það var aldrei gert upp við þau hagstjórnartæki eða áhersluatriði sem leiddu til síðasta efnahagshruns heldur keyrt áfram út frá sömu formúlunni og áður. Í stað þess að þeir sem kröfðust þess, haustið 2008 og fram á áríð 2009, að hér yrði breytt um kúrs hafi fylgt þessum kröfum eftir og stutt þá, sem hafa komið með lausnir á brýnustu úrlausnarefnunum, hafa þeir horfið til fyrri iðju og gerst áhorfendur að því pólitíska þrátefli sem hefur tíðkast hér á landi frá því fyrstu stjórnmálaflokkarnir komu fram.

Sumir hafa líka gerst þátttakendur og aðrir hafa fest sig í sessi sem leikstjórnarlýsendur frá sínum kanti leikvallarins hvor hópur. Þannig hefur umsókn, fagþekking og annað sem Lilja hefur fram að færa til seðlabankastjórastöðunnar fallið á milli tveggja flokkspólitískra arma, sem hafa kosið að gera skipun seðlabankastjórastöðunnar að framlengdum leikþætti þeirrar pólitísku spillingar, sem einkenndu gjarnan embættisskipun þeirra seðlabankastjóra sem stýrðu bankanum í aðdraganda bankahrunsins 2008.

Nú stóð hins vegar til að vanda til verka. Sérstök hæfisnefnd var skipuð og komst að þeirri niðurstöðu á aðeins rúmum tveimur sólarhringum að: Friðrik Már Baldursson, Már Guðmundsson og Ragnar Árnason væru mjög vel hæfir í stöðu seðlabankastjóra. Lilja Mósesdóttir, Yngvi Örn Kristinsson og Þorsteinn Þorgeirsson voru metin vel hæf og Ásgeir Brynjar Torfason hæfur.

Hæfisnefndin gerði ekki greinarmun á umsækjendum út frá stjórnunarhæfileikum eða hæfni þeirra í mannlegum samskiptum.

Samkvæmt útreikningi Kjarnans eru þeir Friðrik Már Baldursson, Már Guðmundsson og Ragnar Árnason hnífjafnir í kapphlaupinu um seðlabankastjórastöðuna, ef hæfi þeirra er miðað út frá stigagjöf. Þeir hlutu allir tólf stig, Lilja Mósesdóttir og Þorsteinn Þorgeirsson fengu ellefu stig, Yngvi Örn Kristinsson tíu og Ásgeir Brynjar Torfason rak lestina með níu stig. (sjá hér)

Eins og vikið var hér á undan vekur það væntanlega athygli hversu fljót hæfisnefndin var að komast að þessari niðurstöðu en ekki liðu nema rétt liðlega tveir sólarhringar frá því viðtalsferlinu við alla umsækjendur lauk og þar til það var komið í fjölmiðla hver þeirra sjö sem mættu til viðtals þóttu hæfastir til að gegna stöðu seðlabankastjóra. Miðað við það að nefndin hafði viku frá því að rætt hafði verið við alla umsækjendur þangað til niðurstaðan yrði kynnt Bjarna Benediktssyni, efnahags- og fjármálaráðherra mat sitt (sjá hér) hlýtur maður að spyrja sig hvað hafi orðið til þess að þessu ferli var flýtt svo mjög?

Flotgengisstefnan eða skiptigengisleið

Eins og bent var á hér í upphafi þá hefur Lilja það fram yfir þá sem eru metir ofar henni að hæfileikum að hún hefur lagt fram heildarlausnir á skuldavanda þjóðarinnar. Það má líka benda á að hún varaði m.a. við hættunni af Icesave-skuldbindingunum þegar bæði Már og Friðrik Már hvöttu til að skuldunum væri varpað yfir á herðar almennra skattgreiðenda. Hún benti líka á að efnahagsáætlun AGS yki á efnahagsvandann (sjá hér). 

Hún hefur það einnig fram yfir þá þrjá, sem eru settir ofar henni í mati hæfisnefndarinnar og Kjarnans, að hún aðhyllist ekki forgangsröðun fjármálaaflanna, ofuráhersluna á stærðfræðilega nálgun á viðfangsefnum hagfræðinnar né mátt einkavæðingarinnar eins og þeir Friðrik Már og Ragnar Árnason. Síðast en ekki síst hefur hún engin flokkspólitísk tengsl við núverandi stjórnarflokka og ljóst að klippt hafði verið á öll slík tengsl við núverandi stjórnarandstöðuflokka nokkru fyrir lok síðasta kjörtímabils. 

Lilja Mósesdóttir er því besti kostur allra aðila til að mynda almenna samstöðu um að verði næsti seðlabankastjóri. Jafnréttissinnaðir einstaklingar sem berjast fyrir jafnri stöðu kynjanna hafa líka fengið verðugan einstakling til að sameinast um að verði fyrsti kvenkyns seðlabankastjórinn. Þegar innlegg stuðningsmanna Lilju Mósesdóttur, á stuðnings-/áskorunarsíðunni um að hún verði skipaður næsti seðlabankastjóri, er skoðaður er ljóst að þetta eru allt atriði sem koma fram þar.

Stuðningsyfirlýsingar og hvatningarorð þeirra sem hafa lækað síðuna hafa mörg hver verið klippt út og sett fram á myndum sem er að finna í tveimur myndaalbúmum; Við styðjum Lilju og Eftir mat. Af lestri þeirra er eitt sérstaklega athyglisvert. Það er að fæstir, ef nokkrir, eru einstaklingar sem hafa látið fara mikið fyrir sér hingað til. Það er því freistandi að halda því fram að þeir sem styðja Lilju séu hinn þögli meirihluti “venjulegs fólks“ sem á fátt að verja nema eigið líf.

Við styðjum Lilju

Það er óskandi að þessum hópi takist a.m.k. að koma því á framfæri við stjórnvöld að ástæðan fyrir því að hann styður Lilju Mósesdóttur til embættis seðlabankastjóra er að hann hafnar núverandi áherslum í stjórn efnahagsmála á Íslandi. Hann hafnar einkavæðingu náttúruauðlindanna sem rænir það möguleikum hans til frumkvæðis og atvinnutækifæra. Hann hafnar því að bera gjaldþrota banka og fjármálafyrirtæki uppi fyrir það að þeir kunna ekki að fara vel með það sem þeim er trúað fyrir.

Þegar margar orðsendingar þeirra sem hafa lækað við síðuna eru lesnar þá finnur maður einlægni, von og mannlega hlýju sem maður veltir fyrir sér hvort er horfin þeim sem taka þátt í hildarleik pólitískra afla um menn en ekki aðferðir. Þeir sem hafa gengist inn á það að það skipti einhverju máli hver þeirra þriggja: Friðrik Már, Ragnar eða Már Guðmundsson verði skipaður til embættis seðlabankastjóra, hafa misst af því að í reynd eru þeir eingöngu mismunandi andlit sömu hagfræðihugmynda þar sem það þykir eðlilegt og sjálfsagt að skuldum einkaaðila sé velt yfir á almenning.

Við styðjum Lilju

Vilji fólk taka afstöðu til mismundi aðferða og áherslna í forgangsröðun við stjórn efnahagsmála þá hefur það val. Það hefur val um að standa með breyttri hugmyndafræði við efnahagsstjórn landsins þar sem hagur heimila og atvinnulífs eru ekki undirseld forréttindum fjármagnseigenda á þann hátt að hvoru tveggja sveltur þar sem hvorugt fæst þrifist fyrir afleiðingar ofþenslu og hruns á víxl.

Fólk hefur nefnilega val um að styðja Lilju Mósesdóttur sem næsta seðlabankastjóra og koma því þannig áleiðis að það styður lausnarmiðaðar hugmyndir hennar og leiðir sem miða að því að forða okkur og framtíðarkynslóðum landsins frá öðru fjármálahruni. Fyrsta skrefið í þeim stuðningi gæti verið sá að heimsækja læksíðuna sem hefur verið stofnuð í þessum tilgangi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband