Pólitískir verðurvitar

Þetta er þriðji og síðasti hluti framhaldsbloggsins sem byrjaði á Egómiðuð geðþóttapólitík og var framhaldið með Þegar pólitískt innsæi þrýtur sem var birt hér síðastliðinni sunnudag. Í þessum lokahluta verður fullyrðing Egils Helgasonar um það að stjórnmálamenn séu áhrifalausir nema þeir eigi sæti á þingi skoðuð ásamt sérstæðum opinberunum hins fullyrðingaglaða Jónasar m.a. um það sem hafði farið framhjá honum varðandi offjölgun Dögunar. 

Á þeim tíma sem sú sem þetta skrifar starfaði með Hreyfingunni furðaði það hana alltaf jafnmikið að sjá það í hve miklu uppáhaldi bæði Egill Helgason og Jónas Kristjánsson voru meðal bæði þingmanna Hreyfingarinnar og annarra mestráðandi þar innanborðs. Auðvitað hefur það borið við að báðir hafa sagt eitthvað spaklegt um pólitík en ef betur er að gáð eru þeir langt frá því að vera þeir einu sem segja einstaka sinnum eitthvað gáfulegt um það efni án þess að hafa uppskorið viðlíka dreifingu og þessir tveir.

Það sem er verra, er að báðir virðast vera óþarflega háðir geðþóttamiðuðum dægursveiflum auk þess að vera bæði hlutdrægir og hallir til sleggjudóma. Hvorugur hefur heldur sýnt því mikinn áhuga að rökstyðja dóma sína sem er sínu alvarlegra í tilviki Egils Helgasonar miðað við stöðu hans sem þáttastjórnanda í einum vinsælasta stjórnmálaumræðuþætti landsins.

Sporgengill eða villuljós

Egill Helgason er meðal þeirra fjölmiðlamanna sem hafa af einhverjum ástæðum verið mjög hlutdrægir gagnvart SAMSTÖÐU flokki lýðræðis og velferðar. Hlutdrægni hans hefur m.a. komið fram í því að fulltrúum flokksins hefur almennt ekki staðið til boða að taka þátt í umræðuþættinum sem hann stýrir í sjónvarpi allra landsmanna. Þannig var einum fulltrúa, og stundum fleirum, allra nýju flokkanna, sem komu fram fyrir síðustu jól, boðið í Silfrið til kynningar á framboðum sínum og málaefnaáherslum  nema SAMSTÖÐU.

Egill Helgason í settinu

Þó athugasemdir hafi verið gerðar við þetta af hálfu SAMSTÖÐU hefur Egill Helgason enga tilburði sýnt til að bæta ráð sitt. Auk útilokunar SAMSTÖÐU frá Silfrinu hefur Egill birt lítilsvirðandi skrif um núverandi formann hans; Lilju Mósesdóttur (sjá hér). Þannig hefur hann ekki aðeins lagt sitt af mörkum í því að grafa undan starfsferli hennar sem stjórnmálamanns heldur tekið þátt í því að viðhalda orðrómi um persónu hennar sem er ekki útilokað að geti haft skaðleg áhrif á starfsferil Lilju utan pólitíkunnar.

Þrátt fyrir að alþingiskosningar án þátttöku Lilju Mósesdóttur séu nú um garð gengnar skiptir Egill Helgason ekki um kúrs í geðþóttamiðaðri dægursveiflupólitík sinna:

Stór hópur yfirgaf flokkinn [VG] á síðasta kjörtímabili, þingmennirnir Lilja Mósesdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Atli Gíslason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Jón Bjarnason.

Ásmundur gekk í Framsókn, Guðfríður Lilja hætti, hin reyndu fyrir sér í pólitík á öðrum vettvangi og mistókst hrapallega. Áhrif þeirra eru engin –  (sjá hér)

Það er ekki nóg með að Egill Helgason geri sig sekan um þá vafasömu fullyrðingu að áhrif viðkomandi einstaklinga í pólitík eigi upphaf sitt og endi í þingveru viðkomandi heldur stappar hann þessari staðhæfingu fram með gildishlöðnu orðavali eins og „reyndu fyrir sér í pólitík“, „mistókst hrapalega“ og svo loks „áhrif þeirra eru engin“.

Sjálfur virðist hann svo leggja sig fram við það að tryggja það að áhrif Lilju Mósesdóttur verði að engu með því að boða hana hvorki í panel né einkaviðtal þó sérsvið hennar og/eða útfærslur á lausnum hennar við efnahagsvanda Íslands séu til umræðu. Þetta kom vel fram í upphafspanel síðasta Silfurs. (sjá hér) Ég geri ráð fyrir að þeir hafi verið fleiri en ég sem söknuðu þess að sérfræðingur síðasta þings í efnahagsáföllum skyldi ekki vera boðaður til að fjalla um Skýrslu Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og tillögur svokallaðs samráðsvettvang um aðgerðir til að efla hagvöxt á Íslandi.

Það vakti ekki síður athygli í Silfri síðastliðins sunnudags hvernig Gunnar Tómasson var skyndilega orðinn einn helsti talsmaður skiptigengisleiðarinnar í munni Egils Helgasonar. Það var reyndar ekki hægt að skilja framsetningu hans öðru vísi en svo að enginn nema Gunnar Tómasson hafi komið nálægt því að benda á hana frá því að Vestur-Þjóðverjar nýttu þessa leið til að rétta úr efnahagskútnum.

Því miður eru þessi dæmi ekki einsdæmi um það sem mætti e.t.v. kalla meinfýsna hlutdrægni Egils Helgasonar og af þeim ástæðum hefur mér þótt það undarlegt hve þeir sem vilja kenna sig við byltingu og ný stjórnmál og/eða vinnubrögð hafa verið uppteknir af því að halda skoðunum hans og skrifum á lofti. Enn meiri furðu hefur það þó vakið hve örblogg Jónasar Kristjánssonar hefur notið mikilla vinsælda meðal þeirra sem vilja rekja pólitískan uppruna sinn til umróta Austurvallar í kjölfar bankahrunsins.

Meinvillandi álitshnekkjari

Það hlýtur að vera öllum þeim sem gera kröfur um vönduð vinnubrögð og faglega framsetningu hulin ráðgáta hvers vegna „séð og heyrt“-vædd dægurmálaumræða Jónasar Kristjánssonar hafi það vægi sem hún í raun hefur hvað varðar það hvað ber hæst á umræðuvettvangi þeirra sem hafa hann að veðurvita í pólitík. Jónas byggir nefnilega almennt öll sín örskots-blogg á því sem honum finnst eða hann heldur. Það er spurning hvort það er akkúrat fyrir þetta samkenni sem hópurinn, sem bauð fram þrí- eða fjórklofið fyrir nýliðnar kosningar, hefur haldið bloggum hans svo á lofti.

Það væri synd að segja að Jónas hafi ekki launað aðdáendahópnum, sem tilheyrði Borgarahreyfingunni upphaflega en dreifði sér síðan í margklofning Dögunar, fyrir það hve mjög hann hefur haldið örbloggi hans á lofti. Í aðdraganda nýliðinna alþingiskosninga reyndist hann afar liðtæk málpípa þeirrar sundrungar- og sundurlyndispólitíkur sem þar var/er undirliggjandi og hvatti kjósendur til að velja einhvern þeirra flokka sem urðu til út úr tilrauninni „til að sameina í eina breiðfylkingu fólk sem gæti komið raunverulegu málefnaframboði inn á þing til höfuðs Fjórflokknum.“ (sjá hér).

Jónas Kristjánsson opinberar fáfræði sínaÞað má reyndar vera að aðdáendahópur hans innan Dögunarþrennurnar segi örbloggsskrifum hans upp nú í kjölfar þess að hann beindi spjótum sínum að þessum margklofna stjórnmálaflokki í einu þeirra örblogga sem hann birti 30. apríl sl:

Smám saman heyrast hálfar og heilar fréttir af sundrun Dögunar. Einn segir Andreu Ólafsdóttur hafa hafnað framboði Þorvalda Gylfasonar og viljað stýra öllu. Andrea segir Lýð Árnason hafa klofið Lýðræðisvaktina út úr flokknum. Flokkur heimilanna sé líka klofningur, bæði framboð byggð á eins manns egó. Friðrik Þór Guðmundsson segir Pírata líka vera klofning úr Dögun.

Allt er þetta mjög forvitnilegt. Hvernig verður flokkur til, hvernig sogast menn að starfinu og af hverju klofnar flokkurinn vikulega kruss og þvers. Er ekki að tala um að finna sökudólg, heldur bara heyra um sérstæð samskipti fólks. (sjá hér)

Það hlýtur að vekja upp spurningar af hverju Jónas Kristjánsson nýtur svo mikils lestur í bloggheimum þegar hann ástundar ekki betri vinnubrögð en þau sem hann opinberar hér. Fyrst hvetur hann kjósendur ítrekað til að velja einhvern flokk Dögunarþrennunnar en svo rétt eftir kosningar opinberar hann það að hann hafði í raun bara bitið það í sig að þetta væri álitlegri kostur en „bófarnir og bjánarnir í fjórflokknum“.

Prédikarinn

Jónas opinberar það með öðrum orðum að hann gerir engar kröfur til sjálfs sín sem örbloggara heldur nýtir afburðastöðu sína sem eins mest lesna bloggarans skv. Blogggáttinni (sjá r) til að hjala og slúðra um grafalvarlega hluti eins og það hvaða stjórnmálaflokkum er treystandi og hverjum ekki. Hins vegar sleppir hann alveg að færa gild rök fyrir því hvers vena hann treystir sumum alfarið en öðrum alls ekki.

Nokkrum dögum eftir að hann birti traustsyfirlýsingu sína á Dögunarþrennunni, en þó ekki fyrr en eftir kosningar, opinberar hann það að hann hefur fylgst svo illa með því pólitíska umróti sem átti sér stað í aðdraganda nýliðinna kosninga að hann vissi ekki einu sinni hvað lá stofnun þeirra sem hann gæðavottar til grundvallar.

Hann lætur það hins vegar undir höfuð leggjast að biðja lesendur sína afsökunar á því fáviskulega ábyrgðarleysi sem varð til þess að hann hvatti þá til að  flykkja sér um þrjá sundurlyndisættaða stjórnmálaflokka í þeim tilgangi að hreinsa Alþingi 100% af  „bófum og bjánum í fjórflokksins“. (sbr. örbloggspistil Jónasar á myndinni hér aðofan). 

Viðhaldið er undir lesendum komið

Það fer varla fram hjá þeim sem vilja byggja á staðreyndum hvernig Jónas Kristjánsson opinberar það með ýmsum hætti hve óáreiðanlegur hann er í örbloggspistli sínum frá 24. mars sl. Það er ekki nóg með að hann kalli alla þingmenn fjórflokksins: „bófa og bjána“ og hvetji kjósendur til að kjósa þrjá flokka, sem hann viðurkennir rétt rúmum mánuði síðar að hann þekki lítið sem ekkert til, heldur minnist hann á SAMSTÖÐU eins og sá stjórnmálaflokkur hafi enn verið valkostur þegar hann skrifaði umræddan texta og notar tækifærið til að opinbera smásálarlega óvild sína gagnvart þeirri sem hann nefnir gjarnan Lilju Mós. 

Eins og öllum, sem fylgjast með í pólitík, má vera fullkunnugt um þá dró Lilja Mósesdóttir fyrirhugað framboð sitt til baka 22. desember á síðasta ári með opinberri yfirlýsingu (sjá hér). Landsfundur SAMSTÖÐU sem var haldinn 9. febrúar á þessu ári tók síðan þá ákvörðun að draga fyrirhugað framboð til nýafstaðinna alþingiskosninga til baka (sjá hér). Jónas Kristjánsson heldur því sem sagt blákalt fram að  Lilja Móseddóttir verði meðal valkosta sem fulltrúi SAMSTÖÐU í kosningunum þremur mánuðum eftir að Lilja dró fyrirhugað framboð sitt til baka og rúmum einum  og hálfum mánuði eftir að öllum þeim sem fylgjast þokkalega vel með mátti vera það ljóst að ekkert yrði af framboðinu.

Jónas Kristjánsson hefur margsinnis opinberað óútskýrða óvild sína í garð Lilju Mósesdóttur (sjá hér) og SAMSTÖÐU (sjá hér). Þar hefur hann ekki aðeins opinberað þá eineltislegu skaðvaldapólitík sem virðist vera í uppáhaldi hjá honum heldur fáfræði sem vekur upp enn frekari spurningar um það hvers vegna nokkrum dettur í hug að hafa hann að pólitískum veðurvita.

Það er ekki útlit fyrir að „Bófinn og bjáninn“ sem ástundar svo ófagleg vinnubrögð sem raun ber vitni hafi í hyggju að bæta ráð sitt. Það er heldur ekkert útlit fyrir að lesendum hans þyki það nokkurt tiltökumál þó ekkert sé að marka skrif Jónasar því enn trónir hann á toppnum meðal mest lesnu bloggarana (sjá hér).

Það væri sannarlega óskandi að þeir sem hér hafa verið til umfjöllunar horfðust í augu við þá ábyrgð sem því er samfara að vera í þeirri aðstöðu að festa sig í sessi sem „marktækur“ álitsgjafi um bæði innanflokksmálefni svo og pólitík almennt.

Pólitískir veðurvitar

Á meðan Egill Helgason er enn þáttastjórnandi eins fárra stjórnmálaumræðuþátta í sjónvarpi er hann í góðri aðstöðu til að breyta ímynd sinni með því að vanda bæði val sitt á viðmælendum og leggja af þá persónulegu og eineltismiðuðu pólitík sem honum hættir til að ástunda á bloggvettvangi sínum. Jónas Kristjánsson ætti, miðað við það sem Egill heldur fram um þau: Atla Gíslason, Jón Bjarnason og Lilju Mósesdóttur, að vera áhrifalaus í pólitískri umræðu þar sem hann er ekki lengur í stöðu ritstjóra eða blaðamanns. En er hann það?

Hvað Jónas Kristjánsson varðar er ljóst að það eru fyrst og fremst lesendur hans sem halda sundrungarfullum örbloggum hans á lofti. Það er á þeirra ábyrgð að hann kemst upp með það að halda áfram að skemmta skrattanum með því að leggja því helst lið að brjóta það niður sem til framfara horfir en upphefja þá sem ástunda sömu sundrungarpólitíkina og hann sjálfur. Ef hann heldur áfram að efast um Dögunarþrennuna má þó vera að tími hans í bloggheimum muni loks líða undir lok!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband