Þegar pólitískt innsæi þrýtur

Þetta er framhald af bloggpistli gærdagsins, Egómiðuð geðþóttapólitík, sem lauk á því að ég gaf til kynna hvert yrði efni framhaldsins sem verður í tveimur hlutum. Í þessum hluta verða skoðaðar fullyrðingar tveggja frambjóðenda Dögunar um að Lilja Mósesdóttir og/eða SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar beri ábyrgð á slöku brautargengi stjórnmálaflokksins sem þeir voru í forsvari fyrir í nýliðnum alþingiskosningum.

Afbökun Þórs

Á þessum bloggvettvangi hefur áður (sjá hér) verið vikið að þeirri afbökun sem Þór Saari setti fram í bloggpistli sínum daginn fyrir kosningar eða þann 26. apríl sl. Þar er ýmsu haldið fram sem væri þess vert að skoða betur en í því samhengi sem hér er til umfjöllunar vekur þetta mesta athygli:

Hvað nýju framboðin varðar þá er um marga ágæta valkosti að ræða og engin afsökun til staðar um að þar sé ekki að finna hæft fólk. Mannvalið á listum sumra þessara nýju framboða er með eindæmum gott og ber af miðað við þreyttan klíkuhóp Fjórflokksins. Sjálfur er ég á lista hjá Dögun sem var tilraun til að sameina í eina breiðfylkingu fólk sem gæti komið raunverulegu málefnaframboði inn á þing til höfuðs Fjórflokknum.

Því miður náðu egóin tökum á sumum upprunalegu félögum okkar og til urðu Lýðræðisvaktin, Píratar, Samstaða (sem svo hvarf), Hægri grænir og fleiri. Flokkar með ágætis fólk innan borðs en byggðir upp í kringum einstaklinga og fá eða jafnvel bara eitt mál og sem slíkir munu þeir ekki ná mikilli vigt á Alþingi. (sjá hér (feitletrunin er blogghöfundar)

Þór Saari 18. mars 2013Hér lætur Þór að því liggja að SAMSTAÐA sé ekki aðeins flokksbrot úr Dögun heldur segir að flokkurinn sé horfinn án þess að færa fyrir hvorugu nokkur rök. Hægri grænir eru heldur ekki flokksbrot úr Dögun eins og mætti skiljast á framsetningunni enda stofnaður tveimur árum áður en stjórnmálaflokkur Dögunar varð til.

Hvað ræður þessari framsetningu bráðum fyrrverandi þingmanns er ekki gott að segja en hún er þó í stíl við þau vinnubrögð sem Árni Páll Árnason gerði þessa eftirminnilegu athugasemd við varðandi framgöngu Hreyfingarþingmannanna á lokadögum nýliðins þings (sjá ummæli Árna Páls í samhengi hér).

Álit Árna Páls á framgöngu þingmanna Hreyfingarinnar

Eins og lesendur eru e.t.v. meðvitaðir um þá varð útséð um að af nokkru samstarfi gæti orðið á milli Hreyfingarinnar annars vegar og Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur hins vegar við þingsetninguna haustið 2011. Þetta hefur reyndar verið rakið áður í samhengi við þessa vafasömu staðhæfingu Þórs:

Hér er ástæða til að minna á að haustið 2011 tók Þór Saari nefndarsæti af Atla Gíslasyni í Íslandsdeild vestnorræna ráðsins (sjá hér og hér) meðvitaður um það hversu mikils virði sætið var Atla. Enginn Hreyfingarþingmannanna hafði heldur neitt við það að athuga að á sama tíma var Þuríður Bachman sett í sæti Lilju Mósesdóttur í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins (sjá hér og hér). Þetta var gert þremur dögum áður en Lilja átti að fara til Strassborgar og flytja ræðu sem fulltrúi flokkahópsins hennar um skýrslu OECD um efnahagsmál (sjá hér). (þennan tekst má lesa í samhengi hér)

Það ætti því að vera fullljóst að pólitískt höfðu þingmenn Hreyfingarinnar útilokað Lilju Mósesdóttur fyrirfram frá tilrauninni sem hófst í Grasrótarmiðstöðinni síðla haustið 2011 „til að sameina í eina breiðfylkingu fólk sem gæti komið raunverulegu málefnaframboði inn á þing til höfuðs Fjórflokknum“ (sjá hér).

Það skal svo áréttað SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar var stofnaður 15. janúar 2012, tæpum fjórum mánuðum eftir að Hreyfingarþingmennirnir höfðu opinberað þjónkun sína við ríkisstjórnina. Dögun var ekki stofnuð fyrr en tveimur mánuðum eftir að SAMSTAÐA var stofnuð eða 18. mars það sama ár.

Þegar málefnagrundvöllinn vantar

Þegar kemur að samstarfi í pólitík hljóta allir að gera sér góða grein fyrir því að ef vel á að takast þarft slíkt samstarf að byggja á grundvelli málefna eða m.ö.o. því að málsaðilar séu sammála um stjórnmálastefnuna í grundvallaratriðum. Miðað við það að Borgarahreyfingin bauð fram efnahagsstefnu á sínum tíma sem var grundvölluð á hugmyndum Lilju Mósesdóttur og í ljósi þess að í nýliðnum alþingiskosningum höfðu tveir oddvitar Dögunar lært lausnarmiðaðar hugmyndir Lilju Mósesdóttur til efnahagsumbóta utanbókar er ekki óeðlilegt að það komi einhverjum spánskt fyrir sjónir að fulltrúar Dögunar og SAMSTÖÐU hafi ekki lagt meira á sig til að af einhvers konar samstarfi gæti orðið.

Það blasir þó væntanlega við hverjum þeim sem eitthvað þekkir til í pólitík að með framkomu Þórs haustið 2011 gaf hann mjög skýr skilaboð um bæði hæfni sína og vilja sinn til pólitísks samstarfs. Hér má líka minna á að mánuði eftir að Atli Gíslson og Lilja Mósesdóttir gegnu út úr ríkisstjórninni með því að segja skilið við þingflokk VG vorið 2011 sendu þingmenn Hreyfingarinnar frá sér þessa yfirlýsingu:

Þingmenn Hreyfingarinnar eru ekki fráhverfir samvinnu eða samstarfi við núverandi ríkisstjórn, jafnvel stjórnarþátttöku um tiltekin mál. (sjá hér á vef Hreyfingarinnar og hér á vef DV)

Hér má minna á að Atli og Lilja héldu blaðamannafund þann 21. mars 2011 þar sem þau opinberuðu þá ákvörðun sína að segja skilið við þingflokk VG (sjá hér). Viljayfirlýsing Hreyfingarinnar til samstarfs við ríkisstjórnina var gerð opinber þ. 27. apríl 2011. 

Ferill Atla og Lilju með ríkisstjórninni 22. apríl 2011

Það verður varla skýrara að það voru Hreyfingarþingmennirnir sjálfir sem kipptu öllum stoðum undan því að Lilja Mósesdóttir gæti átt samleið með breiðfylkingunni sem átti stefnumót í Grasrótarmiðstöðinni með það að markmiði að koma saman „raunverulegu málefnaframboði til höfuðs Fjórflokknum“ (sjá hér).

Áður en fyrsti fundur höfuðpauranna, sem fundu sig sem „félaga“ undir þessum málefnahatti, var boðaður höfðu Hreyfingarþingmennirnir tekið þátt í refsiaðgerðum Samfylkingar og Vinstri grænna gegn Atla Gíslasyni og Lilju Mósesdóttur fyrir það að yfirgefa ríkisstjórnina. Eins og glöggir lesendur átta sig væntanlega á þá hafa báðir flokkar almennt verið taldir til þess sama fjórflokks og fulltrúar Dögunar hafa haldið fram að flokkur þeirra sé teflt gegn til höfuðsetningar.

Það skal svo áréttað að vorinu áður höfðu Hreyfingarþingmennirnir gefið út opinbera yfirlýsingu um það að þeir væru tilbúnir til samstarfs við ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna.  Áður en kom til stofnunar SAMSTÖÐU í janúar 2012 og svo Dögunar í mars það sama ár höfðu þessir sömu þingmenn Hreyfingarinnar nýtt meginpart jólafrísins síns með ríkisstjórnarparinu, Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni, á samningafundum um stuðning við þann hluta fjórflokksins sem myndaði síðustu ríkisstjórn (sjá hér).

Viðhaldsafbökun

Gunnar Skúli Ármannsson kemur inn í Dögun í gegnum Frjálslynda flokkinn sem hefur væntanlega ákveðið að ganga í breiðfylkingu með Borgarahreyfingunni og Hreyfingunni í þeirri von að ná þannig aftur fimmtaflokksfylginu sem Borgarahreyfingin tók frá Frjálslyndum vorið 2009.

Til að uppfylla þennan draum er líklegt að stjórn flokksins hafi endanlega tekist að jarða sinn gamla flokk sem hafði átt mjög í vök að verjast ekki síst vegna þungrar áróðursöldu um meintan rasisma flokksmeðlima. Vinstri grænir héldu slíkum áróðri mjög á lofti í þingkosningunum vorið 2007 og svo ýmsir frambjóðendur og stuðningsmenn Borgarahreyfingarinnar i þingkosningunum vorið 2009.

Gunnar Skúli ÁrmannssonÞrátt fyrir yfirlýsingar um eindregna samstöðu flokkanna sem komu saman til myndunar breiðfylkingarinnar sem síðar varð Dögun (sjá hér) þá var Gunnar Skúli einn af fáum fyrrverandi félagsmönnum Frjálslynda flokksins sem nutu þeirrar náðar kjördæmaráðs Dögunar að fá sæti á framboðslista flokksins.

Enginn fulltrúi Frjálslyndra fékk oddvitasæti en eiginkona Gunnars Skúla og mágur voru meðal þeirra fjögurra flokksmeðlima sem komu úr Frjálslynda flokknum sem hlutu sæti í fimm efstu sætum framboðslista Dögunar (sjá hér). Þrátt fyrir þá meðferð sem samherjar Gunnars Skúla úr Frjálslyndum hlutu frá þeim sem höfðu með röðun á lista Dögunar að gera hefur hann séð ástæðu til að styðja við þá afbökun Þórs Saari sem gerð hefur verið grein fyrir hér að ofan.

Þetta er ekki síst merkilegt í ljósi þess að Gunnari Skúla var fullkunnug um framkomu Hreyfingarþingmannanna gagnvart Atla og Lilju haustið 2011. Þá fannst honum hún ámælisverð. Nú tekur hann undir með  Þór varðandi það að Lilja Mósesdóttur sé meðal þeirra sem eiga sök á því að grafa undan vaxtarmöguleikum Dögunar. Hann lætur sér þó ekki nægja að halda þessu fram fyrir nýliðnar alþingiskosningarnar (sjá hér) heldur tekur afbaksturinn upp aftur að þeim loknum:

Stofnaður var samráðshópur sem gekk undir vinnuheitinu Breiðfylkingin. Reynt var að bjóða öllum sem unnið höfðu í grasrótinni. Eftir nokkra mánaða vinnu fæddist Dögun í mars 2012. Því miður vildi Lilja Mósesdóttir ekki vera með og stofnaði Samstöðu. Sá flokkur bauð síðan aldrei til þings. [...]

Alveg fram í rauðan dauðann reyndi Dögun að sameina öll þessi atkvæði en allt kom fyrir ekki, menn vildu endilega bjóða fram klofið. (sjá hér)

Af málflutningi Gunnars Skúla verður ekki önnur ályktun dregin en stjórnmálaflokkur SAMSTÖÐU hafi verið stofnaður á eftir Dögun. Auk þess má skilja það sem svo að öll þau framboð sem komu fram í kjölfar stofnunar SAMSTÖÐU, þ. 15. janúar í fyrra, hafi fyrst og fremst verið stefnt til höfuðs Dögunar.

M.ö.o. þá kýs Gunnar Skúli að setja mál sitt þannig fram að eðlilegast er að álykta að Dögun hafi verið fyrst nýju stjórnmálaflokkanna til að koma fram og þess vegna hefði verið eðlilegast að hin framboðin hefðu sameinast undir hatti Dögunar. Þannig hefði það líka verið tryggt að þau atkvæði sem önnur ný framboð fengu í nýafstöðnum alþingiskosningum hefðu ratað til Dögunar og orðið að gagni.

Merki nýju flokanna sem buðu fram í alþingiskosningunum 2013

Ekki veit ég hvort Gunnar Skúli og Þór séu sannfærðir um það sjálfir að þeir mæli af mikilli pólitískri visku í umræddum bloggpistlum en væntanlega sjá það flestir, sem hafa á annað borð gefið sig út fyrir það að setja höfuðið inn í raunheim pólitíkunnar, að ef t.d. fimmflokkurinn sameinaðist í einn er útilokað að öllum hefði líkað ráðahagurinn svo stórkostlega að samanlagt fylgi sameinaðra flokka hefði verið 83,1% (sjá hér).

Þetta er sú prósentutala sem fæst út ef fylgi Bjartrar Framtíðar, Framsóknarflokks, Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna í nýliðnum alþingiskosningum er lagt saman. Fylgistölur nýju framboðanna, að Bjartri framtíð undanskilinni, var samtals 17%. (sjá hér)

Svo má böl bæta...

Það væri óskandi að þeir tveir sem hér hefur verið vitnað til horfðust í augu við þá ábyrgð sem þeir bera sjálfir á því hvernig pólitískt landslag hefur skipast draumum þeirra og framboði í óhag. Geri þeir það þá átta frambjóðendur Dögunar sig á því að þeir skaða engan meir en sjálfan sig með því að halda því fram að aðrir stjórnmálaflokkar, félagsmenn þeirra og/eða frambjóðendur beri meiri ábyrgð á áhugaleysi kjósenda gagnvart Dögun en þeir sjálfir. 

Sú skýring sem liggur beinast við varðandi áhugaleysi kjósenda er vissulega sá skortur á trausti sem Hreyfingarþingmennirnir höfðu skapað sér með störfum sínum inni á þingi. Ekki síst stuðningur þeirra við ríkisstjórnina og það að fórna hagsmunum heimilanna fyrir óstýriláta stjórnarskráráráttu. Af einhverjum ástæðum ákváðu kjósendur þó að treysta Birgittu Jónsdóttur og flokknum sem hún stofnaði.

Þrátt fyrir ýmis skakkaföll varðandi frambjóðendur á lista Pírata ákváðu samt 5,1% kjósenda að treysta flokk hennar og fyrirgefa Birgittu það sem kollegum hennar innan þingflokks Hreyfingarinnar var refsað fyrir með því að sniðganga framboð Dögunar.

Það má líka vera að það hafi ekki farið fram hjá öllum kjósendum hvernig Dögun komst yfir það ríkisframlag sem hafði verið stílað á kennitölu Borgarahreyfingarinnar frá síðustu alþingiskosningum (sjá hér) þó fjölmiðlar hafi sýnt gjörningnum lítinn sem engan áhuga. Þeir sem voru upplýstir um þetta atriði hafa að öllum líkindum þótt það ótrúverðugt að framboð sem grundvallaði áberandi þátttöku sína í kosningabaráttunni á kennitölufifferí væri líklegt til að reynast betur en þeir flokkar sem Dögun hélt svo mjög á lofti að þyrfti að hreinsa út af Alþingi m.a. vegna þess að framboð fjórflokksins hafi einkennst af  þreyttum klíkuhópi (sbr. orð Þórs Saari hér ofar).

Stjörnuframbjóðendur Dögunar

Það segir sig væntanlega sjálft að þeir oddvitar Dögunar sem voru í stjörnuhlutverkum í nýafstaðinni kosningabaráttu hafi  ekki þótt trúverðugir til stórra afreka með efnahagsstefnu sérfræðings í efnahagsmálum meðal oddamála (sjá hér.) Það er líka mögulegt að kjósendur hafi kynnt sér það að þessir frambjóðendur höfðu hvorki menntun né afrekaskrá á bak við sig sem studdi það að þeir hefðu til að bera þekkingu eða reynslu til að hrinda henni í framkvæmd. Það má líka vera að einhverjir hafi þekkt til uppruna efnahagsstefnunnar og líkað það illa hvernig oddvitar Dögunar sneiddu hjá því að nefna upprunann og brugðust sumir ókvæða við væri þeim bent á þetta atriði (sjá hér).

Þess má svo að lokum geta að fylgi Dögunar hefur aldrei mælst hærra en á bilinu 0,7-5,4% (sjá hér) frá því flokkurinn var stofnaður í mars í fyrra. Það er auðvitað hlutdrægt mat að það sé með ólíkindum að flokkurinn hafi fengið 3,1% fylgi út úr nýliðnum kosningum en væntanlega líta frambjóðendur og félagsmenn Dögunar svo á að hér vanti ekki nema herslumuninn.

Í ljósi þess að næstu fjögur árin mun flokkurinn fá úthlutað ríkisframlagi er ekki ólíklegt að þeir stefni að því að halda áfram og bjóða fram aftur. Það kemur e.t.v. í ljós þegar í næstu sveitarstjórnakosningum hvort flokksmenn hafi lært eitthvað af reynslu nýafstaðinna kosninga og bæti þau innanflokksmein sem orkuðu fráhrindandi á kjósendur þannig að þeir treystu þeim ekki til þess verkefnis að verða þingmenn þjóðarinnar á nýhöfnu kjörtímabili.

*******************************************************

Í þriðja og síðasta hluta þessa framhaldsbloggs, sem nefnist Pólitískir veðurvitar, verður fullyrðing Egils Helgasonar um að vísasta leiðin til áhrifaleysis í pólitík sé að vera ekki inni á þingi fyrir Vinstri græna skoðuð ásamt sérstæðum játningum hins fullyrðingaglaða Jónasar Kristjánssonar um það sem hafði farið framhjá honum varðandi offjölgun Dögunar. Af einhverjum ástæðum treysti hann sér samt til að mæla með Dögunarþrennunni í aðdraganda alþingiskosninganna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Hansson

Lilja Mósesdóttir er að mínu mati merkasti og eftirminnilegasti þingmaður síðasta þings. Að hunsa hennar kunnáttu og innsæi eru með mestu afglöpum síðustu stjórnar. (Og er af nógu að taka) Sumar kenningar hennar til dæmis ráð gagnvart Snjóhengjunni eiga eflaust eftir að koma að gagni.

Snorri Hansson, 13.5.2013 kl. 03:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband