Egómiðuð geðþóttapólitík
9.5.2013 | 03:36
Þeir sem fylgdust með þessum bloggvettvangi í aðdraganda nýafstaðinna alþingiskosninga komust að raun um að á þeim tíma var megináherslan lögð á að draga fram atvik og vangaveltur sem sneru að þeim framboðum sem komu fram á nýliðnu ári í kringum Grasrótarmiðstöðina. Einhverjir hafa eflaust velt ástæðu þessarar áherslu fyrir sér.
Ein ástæðanna er sú að vorið 2009 taldi ég það skynsamlegt að verða við því að taka sæti á framboðslista Borgarahreyfingarinnar í Norðausturkjördæmi. Á þeim tíma féll ég fyrir þeim rökum að þeir sem hefðu tekið opinbera afstöðu í viðspyrnuátt í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 bæri skylda til að fylgja viðspyrnu sinni eftir með því að bjóða upp á valmöguleika í alþingiskosningunum sem voru boðaðar í kjölfar þess að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sagði af sér.
Ég er enn á því að það vanti valkost fyrir íslenska kjósendur. Valkost sem er óháður flokkseigendafélögum og öðrum egómiðuðum smáhópum og þar af leiðandi óbundinn af því að setja sérhagsmuni ofar almannahagsmunum. Borgarahreyfingin lofaði góðu á sínum tíma hvað þetta varðaði og það gerðu þingmennirnir þrír, sem tóku upp stefnuskrá hennar sem Hreyfingin, líka framan af.
Breiðfylking andlita og nafna
Straumhvörf urðu síðan árið 2011 sem staðfestist enn frekar í þeim margklofningi sem kom fram í kjölfar stofnunar Dögunar. Í stuttu máli er Dögun byggð á grunni einhvers konar tilraunar, þeirra sem trúðu á að Borgarahreyfingin væri upphaf og endir alls sem kynni að leiða til framfara á stjórnmálasviðinu, til að sameina öll þekktustu andlitin og nöfnin úr viðspyrnunni frá haustinu 2008.
Væntanlega eru allir lesendur nokkuð vel upplýstir um það hverjir komu að þeirri breiðfylkingu sem síðar varð Dögun og hvar þessar umræður fóru fram. Hins vegar er ekki jafnauðvelt að gera sér grein fyrir því hvaða einstaklingar og sjónarmið vógu þyngst í þeirri atburðarrás sem leiddi þessa hópa saman til viðræðna, flokksstofnunarinnar í kjölfarið og sundrungarinnar í framhaldinu.
Í þessu samhengi er þó forvitnilegt að horfa til klofnings Hreyfingarinnar frá Borgarahreyfingunni haustið 2009, náins samgangs Hreyfingarþingmannanna við ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sem opinberaðist smátt og smátt árið 2011, áhersluatriði ýmissa fulltrúa stjórnlagaráðs varðandi nýja stjórnarskrá, áherslu einstakra fulltrúa Hagsmunasamtaka heimilanna á að samtökin væru upphaf og endir væntinga skuldugra heimila um leiðréttingar á sínum kjörum og svo þess hvernig stefnumál Frjálslynda flokksins fóru saman með áherslum ofantalinna hópa.
Það er ljóst að sagan í kringum Borgarahreyfinguna, síðar Dögun, og flokksbrotin sem urðu til út úr breiðfylkingarhópnum sem stofnaði Dögun verður seint sögð að fullu og veldur e.t.v. mestu að það er útlit fyrir að þeir sem eru nátengdastir söguviðburðunum séu af einhverjum ástæðum ekki tilbúnir til að horfast afdráttarlaust í augu við það hvað liggur hinni eiginlegu atburðarrás til grundvallar ásamt því að fjölmiðlar láta sem allt sé þar með kyrrum kjörum.
Atvikastýring keyrð áfram af geðþótta
Hér í framhaldinu verða dregnir fram mjög afmarkaðir punktar sem lúta allir að óvönduðum staðhæfingum og skaðlegum áhrifum þeirra. Þeir sem verður vitnað til eru allt saman einstaklingar sem hafa viljað láta taka sig alvarlega í pólitískri umræðu.
Einn verður brátt fyrrverandi þingmaður Hreyfingarinnar, tveir eru fyrrverandi frambjóðendur Dögunar, einn er þáttastjórnandi Silfursins og einn er fyrrverandi ritstjóri fjölmiðils sem hefur lengst af verið hvað umdeildastur og þá einkum fyrir það sem hingað til hefur verið kennt við gula pressu. Tveir þeir síðarnefndu hafa verið í töluverðu uppáhaldi hjá mörgum þeirra sem hafa viljað láta kenna sig við byltingu og mótmælaframboð ef mið er tekið af því hvernig slíkir hafa látið með það sem frá þeim tveimur hefur komið á nýliðnu kjörtímabili.
Þetta sætir ekki síst furðu þar sem báðir virðast oft og tíðum helst vera háðir egómiðaðri geðþóttapólitík. Egill Helgason á þó sannarlega til vitsmunamiðari hliðar sem væri óskandi að hann legði meiri rækt við.
Þessir fjórir eiga það allir sameiginlegt að halda úti bloggsíðum þar sem þeir hafa gjarnan sett fram lítt rökstuddar fullyrðingar varðandi pólitískar hræringar. Áhrif þeirra varðandi túlkun og skoðanamyndun verður væntanlega seint fullmetin nema að undangenginni vandaðri rannsókn. Hér í framhaldinu verður þess freistað að vekja athygli á afmörkuðum þáttum sem hljóta að vekja upp spurningar varðandi áreiðanleika viðkomandi og þá um leið hvað þeim gengur til.
Í þessum tilgangi verða skoðaðar fullyrðingar beggja frambjóðenda Dögunar um að Lilja Mósesdóttir og/eða SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar beri ábyrgð á slöku brautargengi stjórnmálaflokksins sem þeir voru í forsvari fyrir. Þá verður fullyrðing Egils Helgasonar um að vísasta leiðin til áhrifaleysis í pólitík sé að vera ekki inni á þingi fyrir Vinstri græna skoðuð ásamt sérstæðum játningum hins fullyrðingaglaða Jónasar um það sem hafði farið framhjá honum varðandi offjölgun Dögunar. Af einhverjum ástæðum treysti hann sér samt til að mæla með Dögunarþrennunni í aðdraganda alþingiskosninga.
Þetta verður skoðað í tveimur framhaldsbloggum sem bera titlana: Þegar pólitískt innsæi þrýtur og Pólitískir verðurvitar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.5.2013 kl. 16:32 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.