Í kjörklefanum

Eins og lesendur eru eflaust meðvitaðir um standa kjósendur frammi fyrir óvenju miklu vali í alþingiskosningunum sem fram fara í dag. 11 stjórnmálaflokkar bjóða fram í öllum kjördæmum, 12 í Norðvestur, 13 í Reykjavík norður og 14 í Reykjavik suður. Þetta eru 15 stjórnmálaflokkar alls.

Stimplar í Kópavogi

Mörgum þykir þetta offramboð vera skýrasti vitnisburðurinn um þá stjórnmálakreppu sem blasir við hér á landi sem bein afleiðing efnahagshrunsins og þess ráðaleysis sem pólitíkin hefur orðið ber af frammi fyrir því hvernig skuli tekið á fjármálaheiminum sem nærir rót vandans.

Viðbrögðin við offramboðinu hingað til minna helst á einhvers konar sjokkviðbrögð og má e.t.v. heita eðlilegt því það er væntanlega það síðasta sem nokkrum datt í hug að dáðleysi „velferðarstjórnarinnar“ sem tók við í kjölfar bankahrunsins myndi leiða til þeirra algeru upplausnar á þeim væng stjórnmálanna, sem hingað til hefur verið kenndur við vinstri, að hvorki fleiri né færri en 11 ný framboð myndu bjóða fram nú.

Á meðan ríkisstjórnarflokkarnir tveir ásamt velflestum offramboðanna hafa komið fram eins og þeir séu að bjóða fram annaðhvort í einskismannslandi eða í litla, sæta menntaskólanum sínum þar sem atkvæði klíkusystkinanna mun tryggja þeim völd vaxa Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn sem meirihluti hópsins hefur tekið sig saman um að gera að sínum höfuðandstæðingum.

Kjörseðill í Reykjavík suður

Það er auðvitað býsna þægilegt að stinga höfðinu bara ofan í sandinn og láta sem 13 framboð sé eðlilegri útkoma en einn til þrír félagshyggju- og umhverfisverndarflokkar sem teflt er gegn fjármagnssinnuðum stóriðju- og virkjanaflokkum. Meðal nýju framboðanna eru reyndar tveir flokkar sem skera sig úr hinum 11. Þetta eru Landsbyggðarflokkurinn og Regnboginn.

Landsbyggðarflokkurinn setur landsbyggðina á oddinn. Þeir sem þekkja til á landsbyggðinni eru væntanlega sammála því að það var kominn tími á að málefni hennar fengju sterka rödd. Því miður býður flokkurinn eingöngu fram í Norðvesturkjördæmi.

Regnboginn er álitlegur kostur fyrir þá sem vantar valkost sem setur umhverfis-, jafnréttis- og lífskjaramál þeirra verst settu í forgang. Hann er raunar líka eini valkostur þeirra sem vilja tryggja það að á næsta þingi verði einstaklingar sem láti ekki beygja sig í ESB-málinu.

Björtustu vonirnar í alþingiskosningunum 2013

Nóttin framundan mun leiða það í ljós hvort þessir flokkar muni koma mönnum inn á þing. Það má hins vegar draga það fram hér að ef þeir megindrættir sem skoðanakannanir undanfarandi daga hafa bent til að verði niðurstaða kosninganna að þá er tilefni til að benda formönnum bæði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks á að færa foringjum og/eða talsmönnum Samfylkingar og Vinstri grænna ásamt offramboðunum 11 sérstakar þakkir fyrir að hafa beint kjósendum til þeirra með eiginhagsmunamiðari stjórnmálablindu sinni. Sjálfsagt er að þakka öllum stærri fjölmiðlum á Íslandi líka fyrir þá niðurrifs- og sundrungarpólitík sem þeir hafa alið á með sínu framlagi.

Það er hins vegar óskandi að almenningur minnist þess hverju samstaða almennings skilaði á síðasta kjörtímabili. Það er ekki síður óskandi að allir hafi það í huga að ef niðurstaða kosninganna nú lítur út fyrir að vera svört að þá verðu pólitíkin varla mikið svartari en á síðasta kjörtímabili. Það eru þó væntanlega einhverjir sem hafa áttað sig að það verður verulegt skarð fyrir skildi þar sem Lilja Mósesdóttir verður ekki meðal þeirra sem verða á næsta þingi.

Lilja Mósesdóttir

Kjósendur munu þar af leiðandi ekki eiga neinn sérfræðing í efnahagsáföllum á komandi þingi. Þess vegna er hæpið að þar verði nokkur sem upplýsi almenning um afleiðingar þeirra fjármálagjörninga sem komandi þingheimur hefur til umfjöllunar og/eða meðferðar. Af þessum ástæðum verður almenningur að standa sig miklu betur á verðinum gagnvart því sem fram fer inni á þingi.

Það er afar líklegt að ásókn erlendra kaupahéðna eins og Ross Beaty og Huang Nubo muni harðni til muna á næsta kjörtímabili og ekki ólíklegt að bæði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur verði veikir á svellinu gagnvart því að fá skjótfengna peninga í ríkiskassann til að keyra upp atvinnulífið. Það er líka afar líklegt að áróður Evrópusinnanna í Já-Ísland muni harðna verulega strax eftir kosningarnar auk þess sem það er líklegra en ekki að afstaða landsfunda Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks verði lítið heilagri en kosningaloforð Vinstri grænna gagnvart sínum kjósendum fyrir fjórum árum.

Það eina sem íslenskur almenningur hefur að treysta á við þær aðstæður, sem er hætt við að muni blasa við undir morgun, er hann sjálfur. Það ríður því á miklu að allur almenningur verði fljótur að ná sér af doðanum sem sá pólitíski ærslaleikur sem hér hefur viðgengist hefur valdið. Þetta er orðinn langur tími eða heilt ár og keyrði svo um þverbak síðustu þrjá til fjóra mánuðina.

Indíánaspeki

Ég leyfi mér að vona að uppskeran af þessum öfgakennda og lamandi ærslaleik verði sá jákvæði lærdómur að horfast í augu við það að það var samstaða almennings sem dugði best á síðasta kjörtímabili. Það er mikilvægt að þetta komist til skila þar sem það er útlit fyrir að hún verði áfram eina trygga haldreipi almennings á því næsta líka.

Lífið hefur alltaf verið hópverkefni en það hefur sjaldan verið jafn mikilvægt að almenningur standi saman í að verja framgang þess eins og nú. Þeir sem eru sammála því að til að tryggja grunnforsendur lífsins þurfi að verja landið og menninguna sem umgjörð um lífið of framtíðina munu að öllum líkindum leiða saman hesta sína fyrr en varir.

Örvæntum því ekki heldur höldum haus og vonum að þessi sem héldu að pólitík væri X-faktor keppni til að komast að í beinni á alþingisrásinni læknist af þeirri glópsku í timburmönnunum sem hljóta að leggjast yfir marga þeirra sem hafa farið offari í sundrungarpólitíkinni á undanförnum vikum.


mbl.is Nokkuð minni kjörsókn í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband