Þegar ásýndin verður aðalatriðið

Sá sem hefur meira og minna lifað og hrærst í kringum þann grasrótarvettvang sem varð til hér í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 getur ekki komist hjá því að taka eftir þeim straumhvörfum sem hafa orðið á þeim vettvangi á þeim tæplegu fimm árum sem hafa liðið síðan. Til að forðast allan misskilning er e.t.v. rétt að ég taki það fram að í upphafi þessa tímabils þá var ég á Akureyri og eins og ég hef tekið fram áður þá virðist mér viðspyrnan þar hafa verið knúin áfram af öðrum forsendum en hér á höfuðborgarsvæðinu.

Ásýndin eða innviðirnir

Í þessu sambandi má e.t.v. rifja það upp að hópurinn sem stóð að viðspyrnunni á Akureyri stóð að óformlegri stofnun grasrótarafls í október 2008. Hópurinn hlaut heitið: Bylting fíflanna og kynnti sig sem  „grasrótarafl sem leitar skapandi og framsýnna hugmynda og lausna um nýjan veruleika og betri framtíð.“ (sjá t.d. hér) Heitið á hópnum var fengið að láni frá sviðslistamanninum Kristjáni Ingimarssyni sem hafði sett upp samnefnda götuleiksýningu á Akureyrarvöku sumrinu áður.

Tákn Byltingar fíflannaEinkennismerki hópsins var túnfífillinn þannig að heiti hópsins vísaði ekki aðeins í fíflið sem lætur blekkjast eða hirðfíflið sem var gjarnan í hlutverki þess sem upplýsti konunginn um vilja og/eða skoðanir almennings heldur líka í lífskraft túnfífilsins. Það má fræðast frekar um söguna á bak við táknmynd hópsins og hugsjónirnar sem mynd fíflanna stendur fyrir hér.

Til að kynnast frekar hugmyndafræðinni sem grund-vallaði akureysku viðspyrnuna á árunum 2008 til 2010 er vert að lesa þetta viðtal við George Hollanders frá því í janúar 2009. Sigurbjörg Árnadóttir var líka mjög virk í þessum hópi en margir muna eftir henni fyrir það að hún varaði sérstaklega við þeirri leið sem hefur verið farin hér á landi og er kennd við „finnsku leiðina“. Hér er viðtal við hana frá því í nóvember 2008 þar sem hún lýsir afleiðingum kreppunnar í Finnlandi.

Þá afstöðu að hrunið ætti sér fremur efnahagslegar skýringar en stjórnmálalegar má e.t.v. rekja til þess að rætur mínar liggja til akureysku viðspyrnunnar. Í Búsáhaldabyltingunni var hins vegar lögð áhersla á að lausn þess samfélagsvanda, sem bankahrunið leiddi í ljós, lægi í því að skipta um mannskap í yfirstjórn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitinu og skipti á þeim sem áttu sæti á Alþingi.

Ný andlit vorsins 2009 

Sú hugmyndafræði að skýringar efnahagshrunsins séu stjórnmálalegar leiða eðlilega til þeirrar niðurstöðu að leiðin til betra samfélags felist í því að skipta um andlit í helstu valdastöðum. Eins og allir vita þá sagði ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks af sér undir lok janúar 2009 (sjá hér) en það er árangur sem þeir sem tóku þátt í Búsábyltingunni hefur verið þakkaður/kenndur. Í kjölfarið tók Samfylkingin upp bráðabrigðasamstarf við Vinstri græna. Í alþingiskosningunum um vorið fengu þessir svo umboð kjósenda til að halda því samstarfi áfram.

Í aðdraganda kosninganna kom ekki aðeins fram nýtt framboð, sem var alfarið skipað nýjum andlitum, heldur varð líka nokkur endurnýjun á framboðslistum þáverandi þingflokka einkum þó hjá Framsóknarflokki og Samfylkingu. Af þeim 63 sem komust inn á þing voru 27 nýir þingmenn. Auk þeirrar endurnýjunar sem átti sér stað á Alþingi vorið 2009 var skipt um forystu bæði Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.

26 nnýir þingmenn á Alþingi konsingavorið 2009

Miðað við það sem blasir við nú fjórum árum síðar er ekkert sem bendir til þess að öll þessi endurnýjun hafi haft þau áhrif að stuðla að breytingum til batnaðar hvorki á þeim aðstæðum sem ullu hruninu né aðstæðunum sem það skapaði. Þrátt fyrir þetta virðist sá skilningur vera ofan á að enn frekari endurnýjun á þingi sé helsta vonarmeðalið til að ráða bót á því sem miður hefur farið í samfélaginu á undanförnum misserum.

Annað verður a.m.k. ekki ráðið af öllum þeim nýju framboðum sem bjóða fram til Alþingis nú og því að þeir eru fáir sem virðast setja spurningarmerki við þetta offramboð sem blasir við í undanfara þeirra alþingiskosninga sem munu fara fram eftir rétt rúma viku. Svokallaðir stjórnmálaskýrendur virðast líka flestir láta sem ekkert sé eðlilegra en í samfélagi þar sem 236.944 eru á kjörskrá skuli þeir vera 1.512 sem hafa tekið sæti á 72 framboðslistum 15 stjórnmálaflokka fyrir komandi alþingiskosningar.

Offramboð vorsins 2013 á nýjum andlitum

Eftir að landsfundur SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar, sem var haldinn þ. 9. febrúar sl., dró fyrirhugað framboð sitt til baka þá hafa fjögur framboð staðfest þátttöku sína í framboði til Alþingis. Frá því að SAMSTAÐA var stofnuð þ. 15. janúar 2012 hafa komið fram alls ellefu stjórnmálaflokkar. Sjö þeirra hafa skilað inn nauðsynlegum gögnum til að bjóða fram á landsvísu. Stjórnmálaflokkarnir sem bjóða fram í öllum sex kjördæmum landsins eru því ellefu samtals.

11 flokkar í framboði í öllum kjördæmum í alþingiskosningunum 2013

Þetta eru talið í stafrófsröð: Björt framtíð, Dögun, Framsóknarflokkurinn, Flokkur heimilanna, Hægri grænir, Lýðræðisflokkurinn, Píratapartýið, Regnboginn, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri Grænir. Auk þessara býður Landsbyggðarflokkurinn fram í Norðvesturkjördæmi, Alþýðufylkingin og Húmanistaflokkurinn býður fram í báðum Reykjavíkurkjördæmunum og Sturla Jónsson; K-lista í Reykjavík suður.

Það eru því alls hvorki meira né minna en fimmtán flokkar sem bjóða fram lista í komandi alþingiskosningum; ellefu flokkar í öllum kjördæmum landsins, tveir í báðum Reykjavíkurkjördæmunum og tveir aðeins í einu kjördæmi. Eins og áður sagði þá þýðir þetta að það eru alls 1.512 einstaklingar sem eiga sæti á framboðslistum stjórnmálaflokkanna í komandi alþingiskosningum.

Umhugsunarpunktar

Það er margt athyglisvert og þess vert að skoða varðandi uppruna, framgöngu og málflutning allra þessara framboða. Það er ekki síður markvert að skoða það hverjir standa á bak við þessi framboð, hvernig þeim var komið á fót og hverjir fjármagna þau. Þar sem það verður yfirgripsmikil vinna að skoða þetta allt saman er líkleg að margt af því sem vert er að skoða í þessu sambandi, nú fyrir 27. apríl n.k., verði að bíða seinni tíma.

Hér verður til að byrja með drepið á þremur atriðum sem eru þess verð að velta rækilega fyrir sér. Í fyrsta lagi þá blasir það við þeim sem hafa lifað og hrærst í kringum grasrótarvettvang höfuðborgarsvæðisins síðastliðinn tvö ár að langstærstur hluti þeirra einstaklinga, sem nú hafa tekið sæti á listum nýrra framboða, hafa verið ósýnilegir allt kjörtímabilið og hvorki gefið sig fram til einstakra viðspyrnuverkefna né þess að leggja fram lausnarmiðaðar hugmyndir um það hvaða leið skuli farin að því að byggja upp betra samfélag.

Í öðru lagi hljóta allir sem settu sig inn í málefni SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar að velta því fyrir sér hvar allur sá fjöldi, sem nú er tilbúinn til að stökkva til og hella sér í vinnu fyrir nýstofnaða örflokka, hélt sig rækilega til hlés á meðan stjórnarmeðlimir og virkir félagsmenn SAMSTÖÐU kölluðu til samstöðunnar til stuðnings þeim lífskjaraumbótum og efnahagsaðgerðum sem Lilja Mósesdóttir lagði til á kjörtímabilinu sem nú er að líða undir lok.

Í þriðja lagi hljóta allir sem hafa staðið í hvers konar félagsstarfsemi að velta fyrir sér hvaðan öllum þessum nýju framboðum kemur fjármagnið til að halda úti mönnuðum kosningaskrifstofum, setja upp ásjálegar og notendavænar vefsíður, halda fundi og aðrar uppákomur vítt og breitt um landið ásamt því að auglýsa sig með vönduðum ljósmyndum af frambjóðendum og öðru kynningarefni sem er ekki heldur ókeypis.

Umbúðir í stað innihalds

Í framhaldinu verður einkum fjallað um fjögur framboð en það eru framboð: Dögunar, Píratapartýisins, Lýðræðisvaktarinnar og Flokks heimilanna. Reyndar verður eitthvað vikið að framboðum: Bjartar framtíðar, Hægri grænna, Húmanistaflokksins, Alþýðufylkingarinnar og Sturlu Jónssonar K-lista og þá aðallega þess fyrst nefnda.

Fram að kosningum má því búast við vangaveltum á þessu bloggi sem byggjast á einhverri þekkingu á uppruna, framgöngu og málflutningi fyrsttöldu flokkanna fjögurra. Við heimildaöflun hefur aðallega verið stuðst við heimasíður þessara flokka svo og fésbókarsíður:

Flokksmerki

Stofndagur

Vefsíður

 Merki Hægri grænna

17. júní 2010

Heimasíða

Fésbókarsíða (auk þess 4 hópar)

Myndir af frambjóðendum

 Eitt af þremur merkjum Bjartar framtíðar

5. febrúar 2012

Heimasíða

Fésbókarsíða

Myndir af frambjóðendum

Seinna merki Dögunar

18. mars 2012

Heimasíða

Fésbókarsíða

Myndir af frambjóðendum

Merki Píratapartýisins

24. nóvember 2012

Heimasíða

Fésbókarsíða

Myndir af frambjóðendum

Annað af tveimur merkjum Lýðræðisvaktarinnar

17. febrúar 2013

Heimasíða

Fésbókarsíða

Myndir af frambjóðendum

Merki Flokks heimilanna

19. mars 2013

Heimasíða

Fésbókarsíða (sem einstaklingur)

Engar myndir af frambjóðendum


Það skal tekið fram að bæði hjá Hægri grænum og  Píratapartýinu leiða krækjurnar undir „myndum af frambjóðendum“ inn á síður með kjördæmaskiptum listum yfir frambjóðendur. Annaðhvort eru myndir af fimm efstu frambjóðendnunum þar eða það þarf að fylgja krækjum með nafni hvers frambjóðanda til að finna myndir af þeim.


mbl.is Sjálfstæðisflokkur sækir á
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Og þá er bara að bíða spenntur eftir framhaldinu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.4.2013 kl. 08:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband