Að sá til ógæfunnar
1.2.2013 | 07:08
Það hefur verið mjög sérstakt að horfa upp á hatur ýmissa fjölmiðlamanna á Lilju Mósesdóttur.
Ég er ein þeirra sem hef margsinnis undrast það hvernig hún hefur staðið á móti og haldið ótrauð áfram við að vinna að markmiði sínu og loforðinu sem hún gaf kjósendum sínum vorið 2009. Þá lofaði hún almenningi að nýta sérfræðikunnáttu sína til að vinna að almannahag, leiðrétta misréttið og jafna kjörin og síðast en ekki síst að leggja til lausnir sem tryggðu efnahagslegt sjálfstæði Íslands.
Út frá mínum bæjardyrum séð hefur hatri eins og því sem lekur úr penna Jóhanns Hauksson í skrifum hans hér að neðan verið markvisst beitt til að hindra það að þingmaðurinn, Lilja Mósesdóttir, nái fram þessu markmiði sínu. Hatrið hefur komið fram í rógburði og vefengingum sem hafa því miður verið skammarlega áberandi í fjölmiðlum allt þetta kjörtímabil.
Hvers vegna spyrja eflaust margir? Svarið liggur í því að horfa til þess hverjir tapa á því að misréttið yrði leiðrétt, jöfnuðurinn aukinn, farin yrði skiptigengisleiðin ásamt því að öðrum lausnarmiðuðum leiðum, sem Lilja hefur mælt fyrir til að vinna á afleiðingum efnahagshrunsins, yrði framfylgt. Það má líka horfa til þess hvernig þessir tengjast eignahaldi á íslenskum fjölmiðlum.
Þegar horft er til þeirrar afstöðu sem endurspeglast í orðum Jóhanns um viðvaranir Lilju Mósesdóttur varðandi Icesave-samninginn sem var til meðferðar á Alþingi undir lok ársins 2009 er ekki úr vegi að rifja upp hvernig hann brást við þeim ákvörðunum forsetans að verða við áskorunum um að leggja Icesave-samning tvö og þrjú undir dóm þjóðarinnar.
Í fyrra skiptið skrifaði hann bloggpistil þar sem afstaða hans endurspeglast best í þessum orðum: Kannski hefði Ólafur Ragnar átt að vera í fríi í dag. (sjá hér). Í seinna skiptið var hann mættur á Bessastaði þar sem óhætt er að segja að hann hafi gert sig að fífli með framgöngu sinni.
Af einhverjum ástæðum hefur þessi framganga Jóhanns Hauksonar, sem frekast minnir á rógsherferð eða illan ásetning, ekki hindrað það að hann var ráðinn blaðafulltrúi ríkisstjórnarinnar í upphafi árs 2012 (sjá hér) Þetta hlýtur að heita stórfurðuleg ráðstöfun ekki síst í ljósi þess hvernig Jóhann hefur beitt sér gegn því forystufólki í stjórnmálum sem mests trausts hefur notið hjá þjóðinni (sjá niðurstöður könnunar MMR frá því í febrúar 2013)
40% vilja afsögn ráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.2.2013 kl. 05:56 | Facebook
Athugasemdir
Kvenfyrirlitning er landlæg her því miður.
Menn reka upp mikil hróp ef Íslensk kona ætlar að giftast Múslima og tala um kúgun þeirra á konum. Her er meira gert að rakka niður þær konur sem geta eitthvað og þeir hræðast ef þær fá einhver völd. Peningastefna her er til þess fallin lika að konur eru kúgaður hópur fátæktar.
Erla Magna Alexandersdóttir, 1.2.2013 kl. 15:25
Ég játa það fúslega að ég er veikur fyrir hinum "lausnarmiðuðu" tillögum Lilju Mósesdóttur og velti líka fyrir mér af hverju henni hefur orðið svona illa ágengt með hugmyndir sínar. Hugmyndir sem ég held að sumar hverjar séu það sem koma skal ef þessi þjóð ætlar einhvern tíman að koma sér upp úr hrunhjólfarinu, t.d. varðandi lausn snjóhengjunnar sem er alvarlegasti vandi þjóðfélagsins í dag ásamt skuldastöðu heimila og smáfyrirtækja.
Auðvitað er nærtæk skýring sú að Lilja sjálf rekist illa og sé erfið í samstarfi, svo má vel vera, en mun fólk sem hugsar út fyrir boxið ekki alltaf rekast illa af þeim sem eru bundnir af rörsýninni?
Önnur skýring er sú að hún sé ekki nægilega merkt annari hvorri skotgröfinni, þeirri til vinstri eða hinni til hægri. Vinstri menn sérstaklega kratarnir sjá í henni ógnvald hinnar úthugsuðu og prógrammeruðu tilveru, tilveru sem skal vera rétt jafnvel þó hún sé röng, t.d. ósjálfbært lífeyrissjóðskerfi sem bersýnilega er ekki að þjóna tilgangi sínum og svo má líka nefna vísitölubindinguna fæddri af Framsókn en uppfóstraðri af burokratíunni með miklum góðvilja kapítalsins sem kýs að ruglast á pappírsverðmætum og raunverðmætum auk þess sem það slær nú ekki hendinni á móti smá auka gróða þegar hann gefst.
Auðvitað er svo sérkapítuli þessi vinstri ríkisstjórn hvar VG er knúið fram af höfnunarbiturð og Hruns-Þórðargleði formannsins sem heldur vill sjá sök hrunvaldana framkallast þá loks hann kemst til valda, en hugsa í lausnum (sbr. Icesave) og svo hitt þessi ESB árátta Samfylkingar og evruórar sem þó bara væri vegna þess, gerir henni ókleyft að líta til annara átta, síst af öllu þeirra sem Lilja hefur bent til.
Enn má nefna til skotgrafahernaðinn sem birtist m.a. í pistli Jóhanns Haukssonar hér að ofan, þar sem hatrið og heiftin út í Sjálfstæðisflokkinn er slík að hver sú hugmynd sem fólk talar fyrir þar á bæ, skal vera röng. Ef maður vill t.d. ekki undirgangast Icesave, ganga í ESB eða taka upp evru þá sé maður sammála hrunvaldinum Davíð Oddssyni og því ómarktækur annað hvort vegna þess að maður sé hluti af lúalegri áróðursmaskínu eða hitt að maður sé kjáni að trúa henni. Engu skiftir hvaðan hugmyndirnar koma upprunalega, það má bara ekki lenda í því að verða sammála.
Hægri menn eru svo aftur á varðbergi gagnvart þeirri ógn sem stafar af t.d. skiftimyntarleiðinni og því að tappa skuli lofti af bóluhagkerfinu og þar með gerfigróða þeirra sjálfra. Þó held ég að skörpustu hnífarnir í þeirra skúffum átti sig á gildi þess að koma hjólum þjóðfélagsins aftur af stað frekar enn að hengja sig í stöðnuðum ímyndargróða.
Er það ekki annars gátlegt að eftir Icesave sigurinn þar sem þjóðinn neitaði að taka á sig skuldir óreiðumanna skuli það þó vera að gerast bakdyrameginn þar sem Seðlabankinn gamblar með fjöregg þjóðarinnar í formi gjaldeyrisvarasjóðsláns, láns sem tekið er í nafni þjóðarinnar og notað til að blása lífi í ónýtar krónur sem fyrir löngu hefði átt að vera búið að skifta út. Þar hefðu menn betur hlutstað á tillögur og viðvaranir Lilju Mósesdóttur.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 1.2.2013 kl. 16:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.