Pólitískt núningstæki
24.1.2013 | 01:28
Það var sennilega strax í apríl eða maí á síðasta ári sem Capacent tók SAMSTÖÐU flokk lýðræðis og velferðar út af flestum ef ekki öllum viðhorfskönnunarlistum sínum. Fjölmiðlar sem voru aldrei neitt sérstaklega upprifnir yfir þessum nýja flokki nýttu afleiðingar þessa sem skjól fyrir afskipta-leysinu. Flokkur með fylgi undir 5% var ekki líklegur til að skipta neinu í næstu kosningum að þeirra mati.
Reyndar hafa fjölmiðlamenn nýtt alls kyns afsakanir til að koma sér undan því að fjalla um stefnu eða oddamál SAMSTÖÐU. Aftur á móti hafa sumir fjölmiðlar og einhverjir starfsmenn þeirra verið einkar iðnir við að þefa uppi og blása út tilefni sem hefur gefið þeim efnivið til neikvæðrar umfjöllunar og þá einkum um Lilju Mósesdóttur, alþingismann og einn stofnfélaga SAMSTÖÐU.
Það er full ástæða til að vekja ærlega athygli á þessari hlutdrægu fréttamennsku og fordæma framkomu Capacent gagnvart nýju og frambærilegu framboði en einhvers staðar verður að láta staðar numið. Því verður látið nægja að vísa í opið bréf sem sent var í nafni flokksins þar sem fundið var að framgöngu bæði fjölmiðla og Capacent gagnvart SAMSTÖÐU.
Núningur
En það er fleira sem SAMSTAÐA hefur staðið frammi fyrir lunga þess tíma sem er liðinn frá því að flokkurinn var stofnaður og jafnvel frá því að Lilja Mósesdóttir lét í það skína að hún hygði á stofnun sérstaks stjórnmálaflokks í nóvember 2011. Það undarlegasta er nokkuð stöðugur núningur frá ýmsum fulltrúum annarra nýrra framboða.
Ólafur Sigurðsson, sem er varamaður í framkvæmdaráði Dögunar, er einn þeirra sem hefur átt erfitt með að halda aftur af sér varðandi núninginn sem hefur verið stundaður í gegnum Netið. Í kjölfar þess að fjölmiðlar birtu yfirlýsingu sjömenninganna sem gengu úr stjórn SAMSTÖÐU eftir félagsfundinn síðastliðið þriðjudagskvöld var birt fréttatilkynning af fundinum sem var sett saman og send á alla félagsmenn undir klukkan fjögur miðvikudaginn 16. janúar.
Varamaður framkvæmdaráðs Dögunar stóðst ekki mátið, smellti fréttatilkynningunni á vegginn hjá mér og bætti við þessari athugasemd: Rakel, getur þú kannað það fyrir okkur hvort við getum fengið nafnið og merkið þar sem þið eruð hætt Mér var svo brugðið yfir þessari yfirgengilegu ósvífni að ég eyddi innleggi hans út um leið og ég varð vör við það. Eftir ofurlita umhugsun ákvað ég þó að kanna hvað kynni að búa að baki og tók upp eftirfarandi samræður við Ólaf inni á einkaskilaboðunum inni á Fésbókinni:
Leitað eftir skýringum
Ófyrirleitnin í málaumleitan Ólafs auk óviðeigandi framsetningarinnar gerði það að verkum að það tók mig nokkurn tíma að finna út úr því hvernig ég ætti að bregðast við þessu. Um hádegi, föstudaginn 18. janúar, sneri ég mér loks til Þórðar Bjarnar Sigurðssonar sem er einn aðalmanna í framkvæmdaráði Dögunar og bað hann um póstföng þeirra sem sætu þar með honum.
Eftir að hafa tvítekið beiðni mína hafði ég upp á póstföngunum sjálf með aðstoð google.is og sendi eftirfarandi erindi á þá sjö sem voru skráðir aðalmenn í framkvæmdaráði síðastliðið föstudagskvöld. Þessir voru: Gísli Tryggvason, Helga Þórðardóttir, Lýður Árnason, Þórður B. Sigurðsson, Þórdís B. Sigurþórsdóttir, Sigrún Ólafsdóttir og Rannveig Höskuldsdóttir (sjá breytingar hér)
Góðan daginn!
Ég hafði samband við Þórð Björn bréfleiðis upp úr hádeginu í dag og óskaði eftir því að fá tölvupóstföng aðalmanna í framkvæmdaráði Dögunar þar sem ég ætti við það erindi. Þar sem hann hefur ekki orðið við þeirri beiðni þrátt fyrir ítrekun þar um þá fór ég aðrar leiðir við að hafa upp á tölvupóstföngunum. Mér tókst reyndar ekki að hafa upp á póstfangi Sigrúnar Ólafsdóttur því ætla að leyfa mér að biðja Þórð Björn um að koma þessu bréfi áfram til hennar þar sem hann hefur þegar boðið mér að senda erindi mitt á hann eingöngu þannig að hann geti komið því á framfæri við framkvæmdaráðið.
ERINDI MITT er það að óska svara fyrir hönd SAMSTÖÐUfélaga um það:
- A. Hvort umleitan og/eða tilboð það sem kemur fram í skrifum Ólafs Sigurðarsonar hér að neðan er sett fram að hans frumkvæði, hluta framkvæmdaráðs Dögunar eða í umboði allra í framkvæmdaráði?
- B. Ég óska líka frekari skýringa á tilefninu og því sem Ólafur gefur í skyn í samræðuþræðinum, sem hér fer á eftir, hvort sem það er sprottið frá honum einum, hluta framkvæmdaráðs eða er sett fram í umboði allra í framkvæmdaráði.
- C. Mig langar líka að gefa bæði Ólafi og öðrum, sem gegna trúnaðarstörfum fyrir Dögun, það heillaráð að þeir sýni sjálfum sér og öðrum,sem eru í pólitík á sömu forsendum og þeir sjálfir, þá virðingu í framtíðinni að setja sig í samband við hlutaðeigandi aðila með viðeigandi hætti eigi þeir viðlíka erindi við þá. Bendi í því sambandi á að á heimasíðu SAMSTÖÐU er krækja sem heitir: Hafa samband
Viðbrögðin
Hálftíma eftir að ég hafði sent ofangreint erindi á framkvæmdaráð Dögunar barst mér þetta svar frá Þórði Birni. Það má taka það fram að ég sá engin merki um aðra viðtakendur:
From: Þórður Björn Sigurðsson [mailto:thordur.bjorn@simnet.is]
Sent: 18. janúar 2013 20:34
To: 'Rakel Sigurgeirsdóttir'
Subject: RE: Erindi til framkvæmdaráðs DögunarSæl Rakel,
Ég hafði sambandi við framkvæmdaráðið málsins vegna fyrr í dag. Ákvað að gefa þeim færi á að andmæla áður en ég myndi senda þér privat tölvupóstföng þeirra. Kannski kærir fólk sig ekki um það.
Ég fór svo frá tölvunni og var að koma að henni aftur núna.
Hef framsent erindið á framkvæmdaráðið.
Mbk.
ÞBS
Seinni part síðasta laugardags barst mér svo þetta bréf frá Friðriki Þór Guðmundssyni:
From: lillokristin@simnet.is [mailto:lillokristin@simnet.is]
Sent: 19. janúar 2013 17:09
To: rakel@xc.is
Subject: Erindi til framkvæmdaráðs Dögunar - svarKomdu sæl Rakel.
Framkvæmdaráð Dögunar hefur óskað eftir því að ég sinni þessu erindi frá þér/Samstöðu.
A-C) Einkaskilaboð á facebook frá einstaklingi þar til facebook-vinar getur alls ekki talist formlegt og samþykkt erindi frá framkvæmdaráði Dögunar, þótt aðili að þessu einka-spjalli sé jafnframt varamaður í framkvæmdaráðinu. Framkvæmdaráðið telur einsýnt að hér hefur Ólafur Sigurðsson, sem oftar, verið að gera að gamni sínu, en Ólafur er spaugsamur mjög. Framkvæmdaráðinu þykir allt yfirbragð þessara einkasamskipta bera það klárlega með sér að "erindi" Ólafs sé ekki formlegt. Ábendingin í C-lið er að því leyti fyllilega óþörf að innan framkvæmdaráðs er ágæt vitneskja um hvernig skuli bera sig að við formleg samskipti milli lögaðila.
Framkvæmdaráð óskar Samstöðu velfarnaðar.
kv.
f.h. framkvæmdaráðsins,
Friðrik Þór Guðmundsson
ritstjóri/tengiliður
Niðurlag
Þar sem ég gat ekki séð að Friðrik Þór, frekar en Þórður Björn, sendi svar sitt á aðra en mig tók ég bréf beggja og afritaði í nýtt bréf á framkvæmdaráð Dögunar þar sem ég ítrekaði upphaflegt erindi en bætti við:Það er rétt að taka það fram að viðbrögð Friðriks Þórs og Þórðar kalla á enn frekari spurningar til framkvæmdaráðsins sem ég set fram áður en kemur að afritun þeirra inn í þetta bréf:
A. Fyrsta spurning snýr að því hvort viðbrögð Þórðar Bjarnar er í samræmi við starfshætti og vilja framkvæmdaráðs Dögunar?
B. Önnur varðar það hvort svar Friðriks Þórs er í samræmi við niðurstöðu sem er komin út úr samráði og/eða fundi með öllum aðalmönnum í framkvæmdaráði?
Ef svar Friðriks Þórs er svar sem hefur fengist með samráði við alla aðalmenn framkvæmdaráðs Dögunar lýsi ég furðu minni yfir þeirri afstöðu að það sem kemur fram í málflutningi Ólafs Sigurðssonar skuli svo léttvægt fundið ekki síst með tilliti til þess að hann er varamaður í framkvæmdaráði - að það þyki sjálfsagt að ég uni því sem hverju öðru merkingarlausu spaugi. Ég ætla líka að taka það fram að ef erindi mitt verður ekki tekið fyrir af hálfu framkvæmdaráðs Dögunar og því svarað með viðunandi hætti þá get ég ekki annað en litið svo á að framkvæmdaráð Dögunar beri afar takmarkaða virðingu fyrir sjálfu sér og öðrum. Svar Friðriks Þór fyrir hönd framkvæmdaráðsins og skýring Þórðar Bjarnar á því hvernig hann brást við erindi mínu bera það klárlega með sér.
Framkvæmdaráð Dögunar fundaði á mánudagskvöldið (21. janúar) en enginn fulltrúi framkvæmdaráðs Dögunar hefur séð ástæðu til að bregðast við fyrirspurnum mínum enn. Kannski ber að túlka það svo að þeim finnist gelgjulegur núningur Ólafs Sigurðssonar, varamanns í framkvæmdaráði Dögunar, ekkert tiltökumál.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.1.2013 kl. 10:39 | Facebook
Athugasemdir
Er þetta ekki lyginni líkast???
Jóhanna (IP-tala skráð) 24.1.2013 kl. 12:32
Jú, lyginni líkast Jóhanna, hún bæði skrifaði og svaraði bréfunum sínum! (djók). En ég skil ef Rakel vil ekki vinna með Dögun en ætlaði ekki að gera neinum mikil leiðindi, hvað get ég sagt, fyrirfefðu platið, en hver veit, kannski tekst þetta næst samt (sameiningar, það er enn tími), held við séum ekkert óvinir eða neitt svoleiðis. Sorrý, Óli.
Ólafur Sigurðsson (IP-tala skráð) 24.1.2013 kl. 23:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.