Efnahagsstefna til framtíðar

Okkur eru gefnir misjafnir hæfileikar og eins og gengur eru þeir mismetnir og það jafnvel af okkur sjálfum. Ég vildi að sjálfsögðu vera klárari í tölum og hugtökum sem þeim tengjast en það þýðir lítið að eyða tímanum í að láta sig dreyma um það sem manni var ekki gefið. Ég get komið að gagni í þeirri baráttu sem ég hef helgað frítíma minn á undanförnum árum með því að miðla því sem aðrir, sem hafa til þess þekkingu, hafa um efnahagsstærðir, -horfur og -stefnur að segja.

Núna í vor stóð stjórn SAMSTÖÐU-Reykjavík að framhaldsfundaröð þar sem efnahagsmálin voru einmitt til umræðu. Fundirnir voru alls fjórir og framsögumennirnir jafnmargir. Þeir voru: Frosti Sigurjónsson, rekstrarhagfræðingur, Jón Helgi Egilsson, hagfræðingur, dr. Sigurður Hannesson, stærðfræðingur og Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur og þingmaður.

Fyrsti fundurinn var haldinn mánudagskvöldið 30. apríl og þeir næstu annað hvert mánudagskvöld þannig að sá síðasti fór fram að kvöldi 11. júní. Gestir á fundunum voru á bilinu 30-50 manns. Flestir á síðasta fundinum.

Gestir á fundi um fjármálastefnuna og framtíðina
Lilja Mósesdóttir var aðalræðumaður síðasta fundarins og gerði þar ýtarlega grein fyrir megindráttunum í þeirri hugmynd sem hún hefur haldið á lofti varðandi skynsamlega efnahagsstefnu til að forða því hruni sem núverandi stefna mun óhjákvæmilega leiða til.

Frosti Sigurjónsson, Jón Helgi Egilsson og Sigurður Hannesson fluttu útdrætti úr framsögum sínum frá fyrri fundum og voru þeir ásamt fyrirlestri Lilju Mósesdóttur teknir upp og eru nú aðgengilegir á You Tube. Hér er ætlunin að gera nokkra grein fyrir innihaldi þess sem þessi sögu á fundinum ásamt því sem myndböndin með fyrirlestrum þeirra fylgja með í lok hverrar samantektar. Glærurnar sem Lilja Mósesdóttir studdist við í fyrirlestri sínum má nálgast með því að fylgja krækju sem er hér neðst.

Seðlabankinn ætti að hafa einkaleyfi til að prenta peninga

Frosti SigurjónssonFrosti flutti 9 mínútna erindi þar sem hann sagði að það sé einkum tvennt sem þarf að huga að varðandi peningastefnuna. Í fyrsta lagi þarf að endurskoða hver hefur valdið til að búa til nýjar krónur og í öðru lagi þarf að leggja niður skuldakrónuna. Hann mælir með að að Seðlabankinn verði eini aðilinn sem hafi leyfi til að prenta peninga.

Þessi lausn er byggð á hugmyndum Irving Fisher sem ráðlagði Roosevelt, Bandaríkjaforseta,  að peninga- magninu yrði stýrt út frá stöðugleika og þjóðar- hagsmunum óháð bönkunum. Að lokum dró Frosti saman ávinningin að stöðugra verðlagi:

  1. Bankakerfið minnkar.
  2. Ríkisskuldir dragast saman.
  3. Innistæðutryggingin verður óþörf.
  4. Kostnaður bankana dregst saman.

Afleiðingin er betra bankakerfi. (sjá nánar hér)



Drögum lærdóm af peningastjórnun undangenginna ára

Jón Helgi EgilssonJón Helgi Egilsson flutti einkar fróðlegan fyrirlestur þar sem hann dró saman reynsluna af peninga- stjórnuninni á Íslandi á undangegnum árum og hvað hægt er að læra af henni. Hann benti á að í grundvallaratriðum hefði sú stefna sem hefur verið stuðst við hér á landi stjórnast af draumnum um stöðugt gengi sem hann rakti aftur til myntbandalags Norðurlandanna frá aldamótum 19. og 20. aldar. Draumurinn um stöðugt gengi verður hins vegar að styðjast við undirliggjandi efnahag annars getur farið illa eins og Jón Helgi dró fram.

Í lok útdráttarins dró Jón Helgi saman fjórar stiklur sem vert er að byggja á til að læra af reynslu undangenginnar peningastjórnunar:

  1. Gengi ætti að vera birtingarmynd efnahagslífsins og þess vegna hættulegt, fyrir það hve afdrifaríkt það getur verið, að fikta í því.
  2. Óraunhæfir draumar um stöðugt gengi óháð efnahag er ástæða hafta 1920, 1931 og 2008.
  3. Vaxtamunaviðskipti voru lán sem fjármögnuðu falskan kaupmátt í aðdraganda hrunsins.
  4. Lánin komu á gjalddaga og úr varð hrun krónunnar og gjaldeyrishöft.

Þá benti Jón Helgi á að draumurinn um stöðugt gengi væri ekki séríslenskt vandamál þar sem draumurinn um stöðuga evru er fjármagnaður með lánum og um leið kaupmátturinn. Í beinu framhaldi minnti hann á það að lán komast á gjalddaga. Skortur á trúverðugleika býr til verðbólgu. Það er þess vegna ekki nóg að aflétta gjaldeyrishöftunum. Það sem tekur við verður að vera trúverðugt því öðru vísi verður niðurstaðan aðeins framhald þess sem á undan er gengið. (sjá nánar hér)



Leiðir út úr gjaldeyrishöftunum

Sigurður HannessonSigurður Hannesson flutti tæplega 10 mínútna erindi þar sem hann fjallaði um gjaldeyrishöftin. Í upphafi benti hann á að kostnaður við höftin væri mikill og skaðsemi þeirra því töluverð. Því til áréttingar taldi hann upp dæmi um glötuð tækifæri eins og hvatann sem höftin skapa til að skilja eftir gjaldeyri erlendis. Hann benti á að afleiðingar gjaldeyrishaftanna eru hægfara hrörnun hagkerfisins sem sjást ekki dag frá degi en á lengra tímabili verða þær vel sýnilegar í umhverfinu.

Undir lok máls síns sagði Sigurður að það væri hægt greiða niður skuldir ríkisins en það er ekki mögulegt að gera það að öllu leyti nema skerða lífsgæðin allverulega. Það er þess vegna skynsamlegra að draga úr skuldunum með afskriftum. Til þess að borga niður skuldirnar eru nokkrar leiðir færar.

  1. Útgöngugjald eða skattur á útstreymi aflandskróna.
  2. Fjárfestingarleið í gegnum uppboðsmarkað.
  3. Upptaka nýkrónu á mismunandi gengi til að afskrifa froðueignir og skuldir.

Svo er það endurfjármögnun sem gengur út á það að þeir sem vilja fara út úr hagkerfinu fara út en aðrir sem vilja binda sig til langs tíma koma inn í staðinn. Til að hægt sé að afnema gjaldeyrishöftin þarf að:

  1. afskrifa skuldir.
  2. endurfjármagna.
  3. framleiða meira.

Það er pólitískt mál hvernig þetta verður gert. Það verður að taka inn í reikninginn hvaða afleiðingar samfélagið er tilbúið að búa við. Það er þess vegna ekki til ein „rétt leið“ en hún þarf að vera trúverðug. Í því sambandi benti Sigurður á að miðað við núverandi stefnu þurfi að huga að því hvað tekur við eftir að krónunni hefur verið fleygt og undirstrikaði að peningastefnan þurfi að vera trúverðug til að allt fari ekki í sama farið aftur. (sjá nánar hér)



Skuldavandinn er samfélagsógn

Lilja MósesdóttirÍ framsögu sinn vakti Lilja Mósesdóttir athygli á því að lausn á skuldavanda heimila og fyrirtækja með skuldaleiðréttingu er oddamál SAMSTÖÐU enda ósjálfbærar skuldir ekki síður eyðileggjandi afl en stríð. Hún benti á hvernig þessi eyðilegging er farin að koma fram í sumum löndum Evrópu og bætti við að eyðileggjandi afl skuldanna birtist m.a. í því hvernig velferðarkerfið er holað að innan. Fólk fær ekki lágmarksþjónustu og lágmarks- mannréttindi eru að engu höfð. Fólk fær ekki vinnu eins og á Grikklandi og Spáni þar sem atvinnuleysi meðal ungs fólks er allt upp í 50%

Hún fór ýtarlega í ýmis hagfræðileg hugtök eins „snjóhengju“, „aflandskrónur“ og „skuldir þjóðarbúsins“ auk þess að fjalla um nýjustu tölur sem standa að baki þeim svo og tölur yfir skuldir heimila og fyrirtækja í samanburði við nokkur önnur Evrópulönd. Þá sneri hún sér að því að útskýra áhrif of mikils peningamagns í hagkerfin. Þar sagði hún m.a. að:

Í hagkerfum þar sem er mikil peningaprentun er ójöfnuður. Það eru alltaf einhverjir sem eiga þessa miklu peninga og svo er stór hópur sem borgar þeim fyrir að fá þá lánaða. Mikið peningamagn veldur líka eignaverðsbólu en ekki hagvexti. Reynslan er að eignaverð fer hækkandi en peningarnir eru ekki notaðir til að fjárfesta í tækjum og tólum í raunhagkerfinu. Lítil fjárfesting í raunhagkerfinu hefur þær afleiðingar að hagvöxtur er lítill þannig að skuldsetning fyrirtækja og heimila verður ósjálfbær.

Fyrirlestur sinn studdi Lilja Mósesdóttir með glærum sem má nálgast í gegnum krækju sem fylgir hér neðst.

Gjaldeyrishöftin

Þá sneri Lilja að gjaldeyrishöftunum sem hún sagði að væru til komin fyrir það að of lítið hefur verið afskrifað af skuldum heimila og fyrirtækja. Lilja skýrir þetta með því að vísa til efnahagsreikninga banka. Á skuldahlið efnahagsreikninga banka eru innistæður aflandskrónueigenda og almennings sem voru tryggðar að fullu. Jafnvægi verður að vera á á efnahagsreikningi banka til að þeir séu metnir rekstrarhæfir. Bankar vilja þar af leiðandi ekki afskrifa lán til fyrirtækja og heimila sem eru á eignahlið efnahagsreiknings þeirra. Afskrifa þarf a.m.k. verðmæti aflandskróna til að bankar fáist til að afskrifa tapaðar skuldir fyrirtækja og heimila að því marki sem til þarf.

Lilja benti á að gjaldeyrishöftin hafi þær afleiðingar að hér er allt í biðstöðu. Það er þeirra vegna sem afskriftir eru í lágmarki og fjárfestingar eru fyrst og fremst í fasteignum. Á meðan vex snjóhengjan og vaxtakostnaðurinn af henni fer sívaxandi. Á sama tíma vex skuldavandi heimila og fyrirtækja og verðtryggingin magnar upp vandann.

Það er ekki verið að koma fram með neina nýja peningastefnu því það er í raun og veru engin þörf fyrir einhvern trúverðugleika við gjaldeyrishöft. Það þarf m.ö.o. ekki að sannfæra neinn um að efnahagsstefnan hér á landi sé góð þegar það er búið að loka alla úti með höftunum. Það sama er að segja um fjármál ríkissjóðs.

Í þessu samhengi vakti Lilja athygli á því að við byggjum við sömu efnahagsstefnu og hefur verið hér við lýði frá lýðveldisstofnun sem gengur út á það að skera niður í samdrætti og þenja allt út í þenslu sem magnar svo upp hagsveiflurnar. Á Alþingi er verið að vinna að því að endurreisa alveg sama bankakerfi og hrundi hér fyrir rétt tæpum fjórum árum. Lilja áréttaði það að ástæðan væri ekki síst gjaldeyrishöftin sem gerðu það að verkum að það er engin knýjandi þörf á neinum grundvallarbreytingum.

Það verður að leiðrétta ójafnvægið

Það þarf að leiðrétta tvenns konar ójafnvægi sem er í hagkerfinu. Í fyrsta lagi þarf að leiðrétta misræmið sem er á milli greiðslugetu fyrirtækja og heimila gagnvart verðmæti skulda þeirra. Í öðru lagi þarf að leiðrétta misræmið sem er á milli greiðslugetu þjóðarbúsins og nafnvirðis eigna erlendra aðila í innlendum króna. Þetta tvennt hangir saman.

Fjármálastefnan og framtíðin IV

Hægt er að taka aðeins á fyrra vandamálinum, þ.e. að leiðrétta skuldir fyrirtækja og heimila með leið Steves Keens sem Lilja kallar peningamillifærsluleiðina. Sú leið leysir ekki snjóhengjuvandann en Lilja hefur lagt til að tekin verði upp Nýkróna á mismunandi skiptigengi til að skrifa niður verðmæti eigna sem ekki er greiðslugeta fyrir.

Lilja útskýrði leið Sveves Keens í máli og mynd:

Peningamillifærsluleiðin

Í lok útskýringar sinnar á peningamillifærsluleiðinni benti Lilja á að kostir hennar séu m.a. þeir að engin verðbólga verður af völdum þessara 200 milljarða millifærslu þar sem peningarnir fara hring og enda aftur hjá Seðlabankanum. M.ö.o. peningamagnið hefur ekkert aukist í hagkerfinu.

Lausn skuldavandans og afnám gjaldeyrishafta

Lilja lagði áherslu á að það er ekki nóg að framkvæma almenna skuldaleiðréttingu. Það þarf líka að koma á nýju fasteignalánakerfi þar sem fastir vextir eru í boði til að dreifa áhættunni af verðbólguskoti á milli lántakenda og lánveitenda. Það verður líka áfram þörf fyrir sértæk úrræði en þeim þarf að breyta þannig að þau séu sniðin að þeim sem þurfa á þeim að halda. Það sem hefur einkennt sértæk úrræði hingað til er að þau nýtast fyrst og fremst þeim sem hafa þekkingu til að nýta sér mjög flóknar reglur.

Eins og hafði komið fram hjá öðrum framsögumönnum fundaraðarinnar er ekki hægt að afnema gjaldeyrishöftin nema það sé búið að hanna trúverðuga efnahagsstefnu sem felst þá í nýrri peningastefnu sem leiðir ekki til vaxtamunaviðskipta heldur tekur tillit til raunhagkerfisins. Ríkisfjármálastefnan ætti að miðast við það að draga úr hagsveiflum. Síðan þarf að minnka bankakerfið.

Dr. Sigurður Hannesson fór sérstaklega í nokkrar leiðir til afnáms hafta í fyrirlestri sínum og gerði svo grein fyrir þeim í útdrætti næstur á undan Lilju. Lilja vísaði í fyrirlestur hans en fór sérstaklega í þrjár leiðir. Fyrsta hugmyndin byggir á grein Ólafs Margeirsson þar sem hann stingur upp á afnámi í þrepum.

Afnám hafta

Önnur leið er ríkisskuldabréf í erlendri mynt og viðurkenndi Lilja að það væri sú leið sem hún væri hræddust við. Ástæðuna sagði hún þá að þetta væri sú leið sem mun breyta einkaskuldum í skuld skattgreiðenda. Þ.e. að snjóhengjunni verði velt yfir á herðar íslenskra skattgreiðenda. Þeir sem mæla með þessari leið segja hana ásættanlega fyrir það að hún felur það í sér að snjóhengjueigendunum verður gert að taka á sig afföll með því að borga 40% meira fyrir evruna.

Lilja benti á að þetta þýddi mjög háa skattlagningu á þessa eign sem gæti kallað yfir ríkissjóð dómsmál vegna eignaréttarákvæða stjórnarskrárinnar. Af þessum ástæðum hafa sumir bent á nauðsyn þess að skipta um gjaldmiðil en með því yrði eingaréttur snjóhengjueigenda ekki lengur vandamál. Í þessu sambandi minnti Lilja á það að þegar Þjóðverjar skiptu úr Reichmark yfir í Deutschmark, eftir seinni heimsstyrjöldina, þá hafi þeir afskrifað eignir fólks allt að 93% en í kjölfar þeirrar aðgerðar varð mikill efnahagslegur uppgangur í Þýskalandi.

Skiptigengisleiðin

Þá sagði Lilja frá sinni hugmynd til lausnar á núverandi efnahagsstöðu. Leiðina hefur hún kallað skiptigengisleiðina en hún gengur út á miklu minni afskriftir heldur en þær sem voru viðhafðar í Þýskalandi á sínum tíma. Samkvæmt hugmynd Lilju yrði andvirði skulda og eigna skipt úr krónum yfir í Nýkrónur á mismunandi gengi eins og fram kemur á eftirfarandi mynd:

Skiptigengisleidin

Lilja benti á að Þjóðverjar hefðu þrisvar sinnum farið skiptigengisleiðina án vandkvæða og yfirleitt hefði það leitt til mikils hagvaxtar. Með skiptigengisleiðinni er losað út þetta mikla peningamagn sem leiðir til þess að eingöngu er fjárfest í málverkum og fasteignum en ekki í sjálfri framleiðslunni eða öðru sem skapar hagvöxt.

Að lokum dró Lilja saman kosti nýrrar krónu:

  1. Afnám gjaldeyrishafta.
  2. Jafnvægi milli greiðslugetu þjóðarbúsins og nafnvirði innlendra krónueigna (þ.e. aflandskrónanna).
  3. Leiðrétting á eignatilfærslu frá skattgreiðendum til fjármagnseigenda.
  4. Eykur trúverðugleika (nýr gjaldmiðill = betri hagstjórn)
  5. Illa fengið fé dregið fram í dagsljósið.
  6. Fé sem ekki hefur verið greiddur skattur af kortlagt.

Lilja lauk máli sínu á að undirstrika að í fyrirlestri sínum hefði hún bent á leiðir til að koma í veg fyrir að börnin okkar verði gerð að skuldaþrælum. Til þess er mjög brýnt að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að snjóhengjan verði gerð að skuld skattgreiðenda. Fari svo þýðir það ekkert annað en að börnin okkar muni búa við lakari lífskjör og velferðarkerfi en við höfum gert. (sjá nánar hér)


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband